Mánudagur 14.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Nálægðarregla (106. gr.)

Í 106. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs birtist ágæt lausn – um nálægðarreglu – sem ég vil síður kalla málamiðlun því að málamiðlanir eru ekki alltaf þeim kostum búnar sem lausnir eru, þ.e. að ná að nokkru eða miklu leyti fleiri (jafnvel ólíkum) markmiðum sem að var stefnt með annars konar tillögum en í niðurstöðunni fólst.

Í 106. gr. segir.

Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.

Í gildandi stjórnarskrá segir ekkert um þetta.

Ákvæðið kveður á um svonefnda nálægðarreglu – sem í raun felur almennt í sér meginreglu um að málum skuli sinnt á því ákvörðunarstigi sem best er til þess fallið að ná utan um þá hagsmuni sem um ræðir; í því felst – þrátt fyrir heiti reglunnar – ekki alltaf að máli skuli ráðið til lykta á sem lægstu ákvörðunarstigi eða sem næst borgurunum; t.d. má segja að best sé að bregðast við sumum umhverfisvandamálum eða hryðjuverkum þvert á ríki en ekki innan hvers ríkis eða innan sveitar.

„þjónustu eigi að veita í eins miklu návígi við íbúa og kostur er“

Í þessu tilviki er reglan þó sett sem eiginleg nálægðarregla í bókstaflegum skilningi – eins og vikið er að í skýringum:

Stjórnlagaráð leggur til að stjórnarskrárbundin verði svokölluð nálægðarregla sem felur í sér að þjónustu eigi að veita í eins miklu návígi við íbúa og kostur er. Í ráðinu kom fram að æskilegt væri að skilgreina verkefni hins opinbera á þann hátt að sveitarfélög færu með þau mál sem varða íbúa þeirra beint og varða nærumhverfi þeirra. Hér er m.ö.o. átt við opinbera þjónustu svo sem segir í ákvæðinu en hafa má ákvæðið til hliðsjónar við ákvörðun um hvar ákvörðunarvaldi um opinber málefni skuli fyrirkomið. Stjórnarskrárákvæðið er að hluta til byggt á sambærilegri reglu innan Evrópusambandsins (e. principle of sudsidiarity). Hugsunin um sjálfstjórn sveitarfélaga byggist á þeirri lýðræðishugsun að fólkið í landinu hafi rétt til þess að hafa bein áhrif á nærumhverfi sitt.

Ýmis sjónarmið komu fram í umræðum, m.a. að meðferð valds eigi að vera sem næst þeim vettvangi sem málið varðar. Við ákvörðun um skiptingu verkefna og tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga þyrfti að gæta að jöfnun tekna á milli sveitarfélaga innbyrðis, að verkefnum sé sinnt af sveitarfélögum eða samtökum þeirra, svo sem byggðasamlagi, nema þau eigi betur heima hjá ríkinu.

Rætt var um að ganga enn lengra en ákvæðið sjálft kveður á um þannig að þjónustu bæri að sinna í héraði nema sýnt væri fram að betra sé að sinna henni miðlægt; um það segir í skýringum (áhersla GT):

Rætt var um að snúa reglunni við þannig að verkefnum skyldi sinnt af sveitarfélögum nema þau ættu betur heima hjá ríkinu. Þar sem Ísland er lítið ríki og ekki sambandsríki naut sú nálgun ekki nægilegs stuðnings en engu að síður verður að telja að sönnunarbyrði um hvort verkefni eigi betur heima hjá sveitarfélögum eða miðstjórn ríkisvalds sé ekki einvörðungu lögð á sveitarfélög í ljósi markmiðsreglunnar og nýmælis um samráðsskyldu. Þó að löggjaf­anum sé falin útfærsla reglunnar og endanlegt ákvörðunarvald um hvaða verkefnum skuli sinnt í héraði hefur löggjafinn ekki sjálfdæmi um það í ljósi þessa og langrar hefðar um að samráð sé haft við fulltrúa sveitarfélaga við flutning verkefna milli ríkis og sveitarfélaga.

Foreldrafélög, neytendasamtök, samvinnufélög og sjálfs­eignarstofnanir geta fengið aukið hlutverk í almannaþjónustu

Að gefnu tilefni skal áréttað að heimild til þess að fela umsýslu opinberra verkefna tilteknum samtökum, „sem ekki hafa arðsemismarkmið, a.m.k. ekki sem megintilgang“ felur ekki í sér einkavæðingar- eða frjálshyggjumarmið heldur þvert á móti dreifstýringar- og notendamarkmið eins og nánar er lýst í skýringum (áhersla GT):

Með orðalaginu „eða samtaka í umboði þeirra“ í ákvæði um nálægðarreglu er ekki aðeins átt við fyrirliggjandi samtök sveitarfélaga sjálfra, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga og lands­hlutasamtök þeirra, eða allsherjarréttarlegan samstarfsgrundvöll þeirra, byggðasamlög, sbr. sveitarstjórnarlög nr. 45/1998. Með þessu orðavali er einnig gefið til kynna að sveitarfélög geti framselt til einkaréttarlegra aðila umsýslu með þjónustu sem þeim ber að veita lögum samkvæmt. Sem dæmi um slíka aðila má nefna samtök sem ekki hafa arðsemismarkmið, a.m.k. ekki sem megintilgang, svo sem foreldrafélög, neytendasamtök, samvinnufélög, sjálfs­eignarstofnanir og önnur slík samtök en nefna má að sjálfseignarstofnanir hafa lengi verið mikilvirkar í sambandi við rekstur eða umsjón öldrunarþjónustu – en yfirleitt á kostnað hins opinbera. Í slíkri heimild til framsals á umsýslu þjónustu felst ekki að sveitarfélög geti skotið sér undan lögbundnum skyldum sínum, enda er þjónustunni þá sinnt „í umboði“ sveitar­ félaga svo sem ákvæðið áskilur.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur