Þriðjudagur 22.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Gildistaka (nýrrar stjórnarskrár) (114. gr.)

Í 114. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum.

Við gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara falla úr gildi stjórnarskipunarlög nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum.

Í gildandi stjórnarskrá segir í sambærilegu – en ekki sams konar – ákvæði:

Stjórnskipunarlög þessi öðlast gildi, þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt þau.

Stjórnarskráin heimilar því miður aðeins ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu nú

Tilvitnað ákvæði stjórnarskrárinnar um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu studdist við stjórnskipulega heimild sem ekki nýtur við nú; því er aðeins unnt að gera ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæði um tillögu stjórnlagaráðs.

Þar sem frumvarp allra þingflokka nema Sjálfstæðisflokksins til stjórnarskipunarlaga um ákvörðunarbært stjórnlagaþing dagaði uppi í málþófi fyrir alþingiskosningar vorið 2009, var valin sú leið að boða til ráðgefandi stjórnlagaþings með almennum lögum frá júní 2010, sem svo varð ráðgefandi stjórnlagaráð samkvæmt þingsályktun frá mars 2011, hefur stjórnlagaráð ekki aðra kosti en að leggja til að tillaga þess sé samþykkt með þeim hætti sem gildandi stjórnarskrá kveður á um, þ.e. með tveimur samþykktum Alþingis og þingkosningum á milli. Að mínu mati er gagnrýni Bjargar Thorarensen prófessors því óréttmæt að ekki sé viðunandi að stjórnarskráin taki gildi án bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu; til þess skortir stjórnlagaráð – og alla aðra, þ.m.t. Alþingi – því miður vald. Engin heimild er til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskránni nema í einstökum gildandi tilvikum.

Til þess að ráða bót á þessum óviðráðanlega annmarka var stjórnlagaráð einhuga um að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram áður en Alþingi afgreiddi frumvarpið endanlega – sem yrði lagalega ráðgefandi en pólitískt bindandi að mínum dómi; meira um það síðar.

Í skýringum segir um 114. gr.:

Í núgildandi stjórnarskrá er gildistökuákvæði í 81. gr. Rætt var um í Stjórnlagaráði hvort það ætti að vera slíkt gildistökuákvæði sem gerir aukna kröfu um bindandi þjóðaratkvæða­ greiðslu við hið hefðbundna ferli 1. mgr. 79. gr. eins og stjórnlaganefnd hafði útfært í skýrslu sinni. Stjórnlagaráð leggur áherslu á að frumvarpið fari í þjóðaratkvæði, rétt eins og gert er ráð fyrir um frekari breytingar á stjórnarskrá sbr. 113. gr. frumvarpsins. Stjórnlagaráð telur nauðsynlegt að sú atkvæðagreiðsla verði að eiga sér stað fyrir lokaafgreiðslu Alþingis. Ekki var ákveðið að setja slíkt ákvæði inn í gildistökuákvæði heldur í bréfi því sem fylgir frumvarpinu til Alþingis. Þá er því lýst yfir að við gildistöku nýrrar stjórnarskrár falli jafnframt úr gildi núgildandi stjórnarskrá með áorðnum breytingum.

Á morgun birtist síðasti daglegi stjórnlagafrumvarpspistillinn minn hér á Eyjunni og vík ég þar örstutt að framhaldinu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur