Þriðjudagur 15.01.2013 - 06:59 - FB ummæli ()

Opinber yfirlýsing

Að gefnu tilefni vil ég, Gísli Tryggvason, lögfræðingur að mennt með meiru, taka fram að hvað sem aðrir segja – opinberlega, í einrúmi eða í heita pottinum – að ég hef hvergi látið að því liggja eða á annan hátt gefið í skyn að ekki megi breyta kommu, staf, orði eða ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Þetta segi ég þrátt fyrir þátttöku mína í stjórnlagaráði og baráttu allt frá 28. nóvember 2008 fyrir stjórnlagaþingi og nýrri stjórnarskrá. Aðalmálið er að verkið er vel undirbúið, löngu tímabært, vel unnið að eigin mati og mun betra en gildandi stjórnarskrá eins og ég hef áður vikið að – með samanburði – í 115 Eyjupistlum.

Aldrei of seint…

Ég vil, sem sagt, gjarnan – eins og væntanlega flestir – heyra gagnrýni á frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þá tek ég þátt í rökræðum um hvað megi betur fara í þessu mannanna verki – eins og ég hef verið óþreytandi við á þessum vettvangi, svo og á öðrum opinberum vettvangi, svo sem ráðstefnum, fundum – opnum og lokuðum.

Það sem meira er; Alþingi vill gjarnan fá umsagnir og hefur – eins og stjórnlagaráð fyrir hálfu öðru ári – boðið upp á það lengi og nú undanfarið hjá u.þ.b. öllum nefndum þingsins.

Ég hef oftar en einu sinni – t.d. á fundi með þingnefnd og á ráðstefnu í liðnum mánuði – tekið fram í vitna viðurvist að tiltekin atriði megi betur fara og tekið undir breytingarhugmyndir og þakkað fyrir tillögur til bóta; þær hafa að vísu verið furðu fáar miðað við orðagjálfrið um að „sumt“ sé ágætt í frumvarpinu en „margt“ megi betur fara og „ýmsu“ sé ofaukið!

… bara svolítið misheppnað…

Jafnvel þótt íhaldið – í Kvosinni, á Melunum og annars staðar – hafi að miklu leyti afskrifað sjálft sig til áhrifa á væntanlegar stjórnlagaumbætur með tómlæti sínu, seinagangi og ábyrgðarleysi geta bæði afturhaldsmenn, íhaldsfólk og umbótasinnar auðvitað ennþá komið með málefnalegar, rökstuddar tillögur til að bæta nýju stjórnarskrána. Nú getur Alþingi nefnilega helgað sig málinu að miklu leyti næstu 2-3 mánuði fram að kosningum til þess að fullkomna það verk sem unnið hefur verið að í fjögur ár í umboði þings og þjóðar og beðið eftir í 70 ár til þess að leysa af 140 ára gamla stjórnarskrá frá dönskum erfðakonungi.

Skiptir þá ekki – öllu – máli þótt bráðum sé liðið 1 1/2 ár (18 mánuðir) frá því að stjórnlagaráð skilaði af sér og sömuleiðis einn og hálfur þingvetur, rúmlega. Því segi ég:

Drífa sig!

Það eru síðustu forvöð.

… og æ erfiðara að breyta – því lestin er, loks, að fara

Hitt er annað að sjálfur hef ég eins og aðrir – úr stjórnlagaráði eða á Alþingi – takmarkað umboð til þess að semja frá þjóðinni þá tillögu stjórnlagaráðs að stjórnarskrá sem kjósendur samþykktu með miklum meirihluta fyrir tæpum þremur mánuðum. Allar verulegar efnisbreytingar þurfa að styðjast við sömu heimild og röksemdir og tillögur stjórnlagaráðs – því að ég segi, í anda Abrahams Lincolns:

Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn; þjóðin lét semja nýju stjórnarskrána – fyrir sína fulltrúa og í sína þágu og hún hefur samþykkt hana.

Kjarni málsins er að íhaldsfólk í flokkum og fræðasamfélagi tók málið ekki alvarlega – hélt að það væri ekki á dagskrá – fyrr en þjóðin var búin að samþykkja það!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur