Sunnudagur 30.01.2011 - 10:31 - 7 ummæli

Afdalirnir og gleymda fólkið

Ég er búinn að búa á mörgum stöðum um ævina. Aðeins nokkurra daga gamall flutti ég af fæðingardeildinni við Eiríksgötu í Melgerði í Kópavogi og þaðan á Kópavogsbrautina. Þegar ég var 10 ára gamall flutti ég á Álftanesið og þaðan um tvítugt í Þingholtin í Reykjavík. Við tók 12 ára útlegð, þar sem ég bjó í austur- og vesturhluta Berlínar, Basel, Zürich, Kiel, Bayreuth, Trier og Hamborg. Heimkominn flutti ég í Reykjanesbæ, aftur í nokkur ár Reykjavík og síðan enn á ný í Reykjanesbæ. Síðasta sumar fluttist ég aftur „heim“ í Kópavoginn og þá ekki í Vesturbæinn, heldur í Kórahverfið.

Strax og ég flutti hingað upp á heiðar var mér ljóst að ég var ekki í almannaleið. Verra þótti mér þó að akstursleiðin í þetta stóra hverfi, þar sem þúsundir búa, minnti meir á „torfærurallí“ en nokkuð annað. Aðalakbrautin upp í Kórahverfið eru illa upplýstir troðningar og til viðbótar eru þar vegaframkvæmdir í gangi, sem eru illa merktar og upplýstar. Að auki er frágangur allur af hálfu bæjarins víða mjög stutt kominn í hverfinu og almenningssamgöngur í algjörum lamasessi. Út um stofugluggann fær ég í sárabætur fað horfa á eina glórulausustu fjárfestingu sem gerð hefur verið: fótboltahöllina og -akademíuna. En „fótboltastrákarnir okkar“ arfleifðu Kópavogsbæ að höllinni ásamt skuldum upp á nokkra milljarða króna. Allur frágangur í kringum það mannvirki er til mestu skammar. Húsið er þó vel nýtt og mikið um að vera þar og er það vel.

Rétt fyrir ofan fótboltahöllina eru enn fleiri minnisvarðar um mikilmennskubrjálæði íslenskra fjárfesta, þar sem blasa við nokkrar hálfbyggðar blokkir með tilheyrandi krönum og byggingarusli. Ég hef sem fyrr segir búið víða og get fullyrt, að ég hef aldrei komið í hverfi, þar sem íbúum er boðið upp á annað eins ófremdarástand og þetta svo árum skiptir. Ég veit að íbúar í mörgum öðrum bæjarfélögum geta tekið undir þessi orð mín. Ég hef hringt bæði í lögregluna, bæjarskrifstofurnar og Strætó og bent á þetta ástand og þá hættu sem getur skapast í umferðinni, stórhættulegum hálfbyggðum húsum o.s.frv. Ég fékk á mig viðskotaillan lögreglumann, sem engan áhuga hafði á málinu, á bæjarskrifstofunni tók við símtalinu áhugalaus bæjarstarfsmaður, sem benti mér á að einfaldast væri líklega bara að flytja eitthvað annað, hjá Strætó yppa menn bara öxlum.

Sem betur fer leigi ég nú bara hérna – af því að mér tekst ekki að selja húsið mitt í Reykjanesbæ – og því eru hæg heimatökin að kaupa sér íbúð annarsstaðar, þegar/ef hreyfing kemst einhvertíma á fasteignamarkaðinn. Það er synd og skömm að bæjaryfirvöld skuli ekki gera gangskör í að koma á almennilegum samgöngum hér upp í óbyggðir og að koma almenningssamgöngum í lag. Hér eru hundruð glæsilegra íbúða, sem erfitt verður að losna við þegar fasteignamarkaðurinn glæðist ef ekkert verður að gert í þessum málum. En kannski hefur bæjarstjórnin ekki áhuga á góðum útsvarsgreiðendum og vill bara hafa hálftómar og hálfbyggðar blokkir svo langt sem augað eygir? Ég er allavega farinn eins fljótt og hægt er í hverfi, þar sem almenningssamgöngur og vegir eru í lagi og moldar- og malarbörðin og hálfbyggðar blokkir blasa ekki við hvert sem litið er!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • aagnarsson

  Guðbjörn, við löbbuðum bara frá öllu, fyrirtækin fengu enga peninga,
  eða kaupendur, það stoppaði allt! Hvar hefur þú verið,
  hver á að borga það sem þú vilt ?

 • Kalli Sveinss

  Æ,Æ , Guðbjörn góður !
  Er þér ekki kunnugt hverjir stjórna Kópavogi í dag ??
  Það eru jú fulltrúar alþýðunnar – fólksins í bænum !
  Þessir sömu fulltrúar ( Samfylkingin) í höfuðborginni, hafa ákveðið að skera ALLA tónlistarkennslu niður við trog – en – á sama tíma eru þeir að „punga út“ tugum MILLJARÐA í tónlistarhús við Reykjavíkurhöfn !!
  Sagði ekki snjall rithöfundur á sínum tíma.: “ Something is rotten in the state of Denmark ( Iceland)!!

 • Velkominn í hópinn Guðbjörn.
  Hér í fyrrum bæjarfélagi þínu Álftanesi hafa samgöngur svo að segja legið niðri um tveggja ára skeið. Hér gengur vagn á klst. fresti frá 7 – 9 á morgnana. Síðan liggja samgöngur niðri fram til kl. 3 síðdegis. Þá gegnur vagn á klst. fresti fram til kl. hálf 7. Eftir það verður hver að bjarga sér þ.e. engar samgöngur á kvöldin og aldrei um helgar.
  Ég heyri engar óánægjuraddir um þessi mál í blöðum eða á bloggi enda megum við bara éta það sem úti frýs að margra áliti.

 • Hvernig datt þér eiginlega í hug að flytja í þetta sennilega ljótasta hverfi Höfuðborgarsvæðisins? (ath. Vallarhverfið í H.fj. er mögulega ljótara) , var leigan svona ódýr? Öll hverfin sem þú telur upp sem þú hefur búið í áður eru mun fallegri og mannvænni.
  p.s. Það er eins og hverfi Kópavogs fylgi þeirri reglu að frá Kársnesinu og alla leið upp í Kóra þá verði allt smám saman ljótara og leiðinlegra, því eldra, því fallegra og öfugt, því yngra því órótgrónara og ljótara.

  p.s. Hvernig væri bara frekar að sleppa að leigja þarna og flytja aftur í húsið þitt í Reykjanesbæ og keyra bara í bæinn þar sem ég geri ráð fyrir að þú vinnur 😉

 • Steinarr Kr.

  Sammála þér Guðbjörn.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  aagnarsson:

  Já, við skulum bara öll leggja árar í bát!

  Nei, ég er gjörsamlega ósammála þér!!!

  Við erum með þúsundir atvinnulausra og þegar fer að vora ættu bæjaryfirvöld að að taka sig til og reyna að ráða fólk og tæki í vinnu við að ganga þannig frá málum hér að a.m.k. sé búið að tyrfa og sá börðin þannig að moldrokið hætti. Það eru þrjú ár frá hruninu í haust og það hljóta einhversstaðar að vera til peningar í þessar framkvæmdir.

  Ef eitthvað færi af stað í atvinnumálum í þessu guðsvolaða landi fyllast 20-30 blokkir á 1-2 árum af fjölskyldum. Hér þarf bara að spýta í lófana of koma hlutunum af stað. Það vantar framtíðarsýn og almennilega ríkisstjórn, en ekki þetta hrædda fólk sem leiðir okkur núna.

  Ari:

  Það væri alls ekki ljótt hérna í Kórahverfinu, ef bæjarfélagið reyndi að ganga frá því, sem fólk hér er að stórum hluta er búið að greiða fyrir á einn eða annan hátt, t.d. með gatnagerðargjöldum og útsvari sínu í nokkur ár!

  Leigan er ekki ódýr, en ég vildi nýlega íbúð með bílageymslu og stór herbergi slíka íbúð var ekki að fá nálægt miðbænum.

  Annars mun ég krefjast afsláttar á útsvarinu!

 • aagnarsson

  Guðbjörn, lesa betur, ég var að lýsa því hvernig þetta var, ekki að
  segja þér að gefast upp.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur