Föstudagur 01.12.2017 - 07:45 - Rita ummæli

Ráðherrar verði gæslumenn sérhagsmuna

Mér líst vel á að Guðmundur Ingi Guðbrandarson, framkvæmdastjóri Landverndar, verði næsti umhverfisráðherra landsins. Til að gæta jafnræðis þurfa þá aðrir gæslumenn sérhagsmuna að fá ráðherrastól, en þannig yrði Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að verða sjávarútvegsráðherra og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna að fá landbúnaðarráðuneytið.

Dómsmálaráðuneytið ætti að falla í hlut Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns félags fanga – Afstöðu. Samgönguráðuneytið ætti Björn Teitsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, að hljóta. Utanríkisráðuneytið er í góðum höndum hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem er jú aðallega upptekinn við að gæta hagsmuna Breta við BREXIT en minna við hagsmunavörslu þeirra sem borga launin hans.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gæti Gylfi Ægisson yfirtekið með glans og fengið að búa í Ráðherrabústaðnum á meðan hann finnur sér nýtt húsnæði, sem hann gæti sótt um hjá nýjum félagsmálaráðherra, sem væri auðvitað rakið að ráða Ellen Calmon í, sem er fyrrverandi formanns Öryrkjabandalags Íslands, er missti nýlega vinnuna og myndi vafalaust þiggja þessa líka prýðisvinnu.

Einar Sveinsson fjárfestir ætti að sjálfsögðu að taka við fjármálaráðuneytinu, enda með allar réttu tengingarnar á meðan að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þyrfti nauðsynlega að komast í hendur á framsýnu fólki eins og Aðalsteini Þorsteinsyni, forstjóra Byggðarstofnunar, en sú stofnun hefur komið fram með ótal misheppnaðar hugmyndir um atvinnustarfsemi undanfarna áratugi.

Ég er hins vegar alveg í vandræðum hver ætti að taka yfir hlutverk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í þessari annars glæsilegu ríkisstjórn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur