Föstudagur 08.12.2017 - 19:48 - 5 ummæli

Auðmýking Litla-Bretlands

Auðmýking Litla-Bretlands er mikil – ef ekki algjör – ef marka má fréttir dagsins. Þetta er virkilega í fyrsta skipti sem ég er algjörlega sammála Nigel Farage, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokks Litla-Bretlands. Auðmýkingin á eftir að aukast eftir að hið raunverulega BREXIT virkilega hefst, en fyrstu áhrifin má sjá á flótta fjármálafyrirtækja úr City of London og flótta alþjóðlegra fyrirtækja frá Bretlandi.

Reyndar hefur lítið farið fyrir því að Íslendingum og íslenskum Sjálfstæðismönnum sé kynnt að Íslenski Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú yfirgefið Samband íhaldsmanna í Evrópu – samtök sem þau voru í um áratuga skeið með norrænu íhaldsflokkunum, hinum breska og Kristilegum demókrötum um alla Evrópu. Þetta eru mjög virt samtök hægri manna um gjörvalla Vestur-Evrópu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú skipt yfir í tiltölulega nýstofnuð öfgasamtök hægri-manna, sem Farage er einmitt hluti af. Skiptin byggjast – eftir því sem mér er sagt – á persónulegri vináttu ákveðinna forystumanna Sjálfstæðiflokksins og BREXIT sinna. Í raun eru íslenskir sjálfstæðismenn komnir á ysta hægri væng stjórnamála innan Evrópu – svona á pari við Fremskrittspartiet í Noregi, Det Liberale Folkepartiet í Danmörku eða Sverigedemokraterna í Svíþjóð.

Aðrir stjórnmálaflokkar, sem eru í þessum öfgasamtökum, eru m.a. öfgasinnaðir þjóðernisflokkar í Póllandi, Ungverjalandi og öðrum löndum Austur- og Vestur-Evrópu. Skrítið að RÚV og 365 hafi eiginlega aldrei skýrt frá þessu. Sennilega hafa þessir fjölmiððar ekki þorað því, vegna stjórnmála og fjárhagslegra tengsla. Þeim sem þora segja sannleikann hér á landi er yfirleitt refsað. Það er því gott að vera kominn á þann aldur að geta sagt sannleikann umbúðalaust.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • ESB mun aldrei eiga sér viðreisnar von efnhagslega séð enda best lýst sem Vestrænni útgáfa gömlu Ráðstjórnarríkjanna. Efnahagskerfi byggðu á miðstýrðri dreifingu fjármagns í gegnum gríðarlega voldugt embættismannakerfi.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Kalli, þessi útlegging þín á eðli og starfsháttum EU / ESB er ævintýri líkust ! Þá átt eflaust glæsta framtíð fram undan ef þú snýrð þér alfarið að skáldskap

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Guðbjörn, hafðu nú það sem sannara reynist. Sjálfstæðisflokkurinn er vissulega aðili að ACRE en hvorki Nigel Farage er hluti af þeim samtökum né flokkur hans UKIP. Það sem meira er þá er enginn af þeim flokkum sem þú nefnir aðili að téðum samtökum.

    Þú ert hugsanlega að rugla ACRE við samtökin Alliance for Direct Democracy in Europe sem bæði UKIP og Svíþjóðardemókratarnir svonefndir eru aðilar að. Ég vona það allavega að sú sé raunin en að þú sért ekki viljandi að veifa röngu tré í pólitískum tilgangi.

    Hvað Samband íhaldsmanna í Evrópu sem þú nefnir svo varðar, eða European People’s Party, þá var ástæða þess að bæði brezkir íhaldsmenn og Sjálfstæðisflokkurinn sögðu skilið við þau samtök einkum sú að þau styðja það markmið að Evrópusambandið verði að sambandsríki.

    Þess utan má reyndar finna ýmsa áhugaverða meðlimi í EPP eins og flokkinn FIDESZ sem Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, fer fyrir og þykir vægast sagt mjög umdeildur.

    Höfum það sem sannara reynist eins og Ari fróði orðaði það félagi.

  • Guðbjörn, þetta kallast grjóthríð úr glerhýsi, glerhýsi heimsveldi sinna!

  • Hvaða flótta stórfyrirtækja frá Bretlandi ertu að vitna í Guðbjörn? ESB sinnaðir miðlar, á borð við t.d. RUV, töluðu mikið um að í kjölfar þess þegar Bretar ákváðu að segja sig úr ESB, þá væri þar allt í uppnámi, hlutabréfavísitölur í voða, gengi breska pundsins í uppnámi og fleira. Þetta var stormur í vatnsglasi. Það reyndist ekkert til í þessu.

    Að öðru leyti er þetta rétt hjá Guðbirni, það er ákveðin auðmýking fólgin í því að þingið fari ekki eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Það hefur sýnt sig að slíkt kemur oft í bakið á þeim sem fara gegn niðurstöðum slíkra kosninga. Icesave kosningarnar á Íslandi eru kannski gleggsta dæmið, þegar átti að fórna miklum fjármunum fyrir það eitt að búa til þægilega innivinnu í Brussel handa Össuri og co. þegar ein kamína og heitt toddý hefði dugað inn i á kontornum heima hjá honum. kjósendur voru ekki kátir. Þeir svo gott sem þurrkuðu út VG, Samfylking er enn ekki búin að ná saman sínum vopnum 10 árum síðar.

    Hélt annars að það væri enginn að tala um ESB lengur, Ekki einu sinni samfylking minntist einu orði á þetta fyrir kosningar. Það segir kannski sitt um áhugann fyrir ESB.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur