Mánudagur 13.10.2014 - 18:41 - FB ummæli ()

Uppsögn húsaleigusamninga

Húsaleigusamningar eiga að vera skriflegir og geta þeir annað hvort verið tímabundnir eða ótímabundnir. Teljast leigusamningar ótímabundnir nema um annað sé ótvírætt samið. Ef aðilar vanrækja að gera skriflegan leigusamning teljast þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði húsaleigulaga um réttarsamband þeirra. Því hafa leigjendur sem gert hafa munnlega leigusamninga sama rétt og leigjendur sem gert hafa skriflega ótímabundna leigusamninga þegar kemur að uppsögn. Hins vegar eiga aðilar ekki rétt á húsaleigubótum skv. lögum um húsaleigubætur nema gerður hafi verið skriflegur leigusamningur.

Uppsögn á húsaleigusamningum er mismunandi eftir því hvort um ótímabundna eða tímabundna leigusamninga er að ræða.

Uppsögn á ótímabundnum leigusamningum

Bæði leigjandi og leigusali geta sagt upp ótímabundnum leigusamningum. Ræðst lengd uppsagnarfrests á ótímabundnum leigusamningum annars vegar af því um hvers konar húsnæði er að ræða og hins vegar af þeim leigutíma sem liðinn er þegar uppsögn er send. Þegar um er að ræða leigu á einstökum herbergjum, geymsluskúrum og þess háttar húsnæði er uppsagnarfresturinn einn mánuður af beggja hálfu. Hefur kærunefnd húsaleigumála (nú kærunefnd húsamála) túlkað þetta svo að eins mánaðar uppsagnarfrestur gildi um einstök herbergi þó svo þar sé stundaður atvinnurekstur sbr. t.d. álit kærunefndar húsaleigumála nr. 4/2000 og 7/2001. Uppsagnarfrestur á íbúðum fyrstu fimm ár leigutímans er sex mánuðir bæði af hálfu leigjanda og leigusala. Hafi leigjandi hins vegar haft íbúð á leigu lengur en fimm ár er uppsagnarfrestur af hálfu leigusala eitt ár. Þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða, og aðilar hafa ekki samið á annan veg, er uppsagnarfrestur af beggja hálfu sex mánuðir fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm ár og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.

Uppsögn á tímabundnum leigusamningum

Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Er meginreglan sú að tímabundnum leigusamningi verður ekki slitið með uppsögn á umsömdum leigutíma. Undantekning frá þeirri meginreglu er sú að aðilum tímabundins leigusamnings er þó heimilt að semja um að segja megi slíkum samningi upp á grundvelli sérstakra forsendna, atvika eða aðstæðna sem þá skulu tilgreind í leigusamningi. Ef slíkt er gert skal uppsögn vera skrifleg og rökstudd og skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera a.m.k. þrír mánuðir. Dæmi um slíkt tilvik er t.d. ef sett er ákvæði í leigusamning að íbúð sé á sölu og ef hún selst á leigutímanum sé heimilt að segja leigusamningnum upp með 3ja mánaða uppsagnarfresti.

Húsnæði hagnýtt áfram eftir lok leigutíma

Ef tveir mánuðir líða frá því að leigutíma lauk samkvæmt uppsögn eða ákvæðum tímabundins leigusamnings, en leigjandi heldur áfram að hagnýta hið leigða húsnæði getur leigusali þá krafist þess að leigusamningur framlengist ótímabundið. Sömu kröfu getur leigjandi einnig gert enda hafi leigusali ekki skorað á hann að rýma húsnæðið eftir að leigutíma er lokið. Kærunefnd húsaleigumála hefur túlkað þetta svo, sbr. t.d. álit nr. 2/1999, að setji hvorugur aðila fram slíka kröfu á því tveggja mánaða tímabili sem um ræðir þá framlengist sjálfkrafa leigusamningur aðila ótímabundið, enda haldi leigjandi áfram að hagnýta sér hið leigða húsnæði, greiða húsaleigu og leigusali veitir henni móttöku án þess að skora á leigjanda að afhenda hið leigða húsnæði.

Ef segja á upp leigusamningi þarf viðkomandi að gæta þess að segja samningnum upp skriflega og með sannanlegum hætti t.d. með ábyrgðarbréfi eða símskeyti. Sé það gert telst uppsagnarfrestur hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur