Föstudagur 18.09.2015 - 15:11 - FB ummæli ()

Brýn þörf einhleypra

Hinn 1. september sl. voru 723 umsæjendur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Þar af voru 529 metnir í brýnni þörf. Auk þess voru 643 umsækjendur á biðlista sem leigja húsnæði á almennum markaði og fá sérstakar húsaleigubætur. Alls voru því 1.366 umsækjendur skráðir á biðlista.

Af þeim 529 umsækjendum sem metnir eru í brýnni þörf fyrir húsnæði eru samtals 428 einhleypir einstaklingar, þ.e. 286 einhleypir karlar og 142 einhleypar konur. Þá eru á biðlistanum 10 einstæðir feður, 70 einstæðar mæður, 6 barnlaus hjón eða sambýlisfólk og 15 hjón eða sambýlisfólk með börn.

Sú stefna hefur verið ríkjandi að hafa sem mesta félagslega blöndun í húsum, þ.e. að ekki séu fleiri en ein félagsleg íbúð í hverjum 10 íbúða stigagangi. Undantekningu á reyndar að gera frá því í svokölluðum Reykjavíkurhúsum en þar hefur verið talað um að allt að 25% íbúða geti verið félagslegar. Ef borgin ætlar að bíða eftir því að kaupa eina og eina minni íbúð sem nú er til sölu eða verður til sölu í húsum sem munu verða byggð víðsvegar um Reykjavík næstu árin liggur ljóst fyrir að það mun taka langan tíma, mörg ár ef ekki áratugi, að kaupa litlar íbúðir fyrir þennan 428 manna hóp auk þess sem slíkar íbúðir sem keyptar yrðu á almennum markaði yrðu alltaf dýrari.

Miðað við neyðina og þess að félagsleg blöndun ætti ekki að þurfa að vera eins mikilvæg þegar um einstaklingsíbúðir er að ræða stendur valið um það að hengja sig í þessu atriði, borga meira og bíða lengi eftir að byggt verður slíkt húsnæði eða framkvæma hlutina og drífa sig í því að byggja hús með minni íbúðum fyrir einstaklinga.

Ef miðað er við að byggingarkostnaður sé 300.000 pr. fm. þá myndi kosta 12.000.000 að byggja 40 fm. íbúð. Fróðari menn hafa hins vegar sagt mér að byggingarkostnaðurinn sé enn undir því auk þess sem hægt væri að ná kostnaðinum eitthvað niður t.d. með því að víkja frá kröfum að einhverju leyti um algilda hönnun og með lægra lóðarverði. Það þyrfti að skoða. Með því að drífa í því að byggja slíkt húsnæði og stytta biðlista hratt og örugglega er hægt að spara verulegar fjárhæðir og taka á vandanum.

Ef ríkið leggur fram 20% í formi stofnframlaga þá væri hægt fyrir 500 milljónir frá ríkinu að greiða 20% af verði 200-250 slíkra íbúða í staðinn fyrir að nota sömu upphæð í 100 íbúðir eins og áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir. Á móti kæmi svo 10% framlag frá borginni og 70% yrði tekin að láni eins og borgin hefur lagt til.

Það er staðreynd að það vantar svona íbúðir. Þær eru ekki til sölu og þó þær væru til sölu yrðu þær alltaf dýrari en ef Félagsbústaðir myndu byggja þær.

Á fasteignavefum mbl.is og visir.is er hægt að telja þær íbúðir sem eru til sölu í Reykjavík undir 40 fm á fingrum annarrar handar. Samtals eru 42 íbúðir á sölu í Reykjavík sem eru 40-60 fm. Þar af eru 11 nýjar íbúðir í póstnúmeri 101 að stærð 49,9 – 58 fm og er ásett söluverð á þeim á bilinu 31,5- 35,5 milljónir. Auk þeirra eru 11 íbúðir til sölu að stærð 41- 49 fm og 20 íbúðir að stærð 50-60 fm. Í töflunni hér að neðan er hægt að sjá póstnúmer, ásett söluverð í milljónum og fermetrastærð á slíkum íbúðum auglýstar 16. september sl.

 

póstnr verð fm póstnr verð fm Póstnr verð fm póstnr verð fm
101 17,9 40,5 101 26,9 58,1 101 32,9 54,5 107 26,9 50
101 17,9 46,3 101 tilboð 42,9 101 32,9 54,2 107 28,9 59,4
101 18,7 56,5 101 32,9 54,6 104 19,7 57,7 108 22,9 59,1
101 19,5 44,6 101 31,9 53,5 105 18,5 42,5 108 24,9 55,9
101 22,9 40,1 101 31,9 53,8 105 20,9 53,6 110 17,9 45,8
101 23,8 50 101 31,5 49,9 105 22,9 56,6 111 18,9 51,6
101 24 48,4 101 35,5 58 105 22,9 55,5 111 18,9 50,9
101 24,4 50,4 101 32,5 49,9 105 25,3 49,6 111 18,9 57,3
101 24,9 52,9 101 31,9 54,5 107 21,9 44,2 111 18,5 57,3
101 25,9 54 101 33,3 55,4 107 23,5 48,5
101 26,9 48,5 101 31,5 51,2 107 24,5 52

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur