Fimmtudagur 17.12.2015 - 18:55 - FB ummæli ()

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með deiliskipulaginu var flugbraut 06/24 eða svokölluð neyðarbraut, tekin út af skipulagi. Þær röksemdir sem notaðar voru við athugasemdir sem bárust við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda, sem var samþykkt í lok síðasta árs, voru á þá leið að þær ættu ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautin væri ekki lengur á deiliskipulagi!

Framsókn og flugvallarvinir hafa ávallt haldið því fram og bókað frá árinu 2014 að við teljum að umræddu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sé áfátt og eigi þeir ágallar að leiða til ógildingar þess.

Á fundi borgarstjórnar 2. desember 2014 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda og greiddum við atkvæði gegn því og bókuðum:

„Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem bárust um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda er vísað til þeirra athugasemda um að flugbraut 06-24 eigi ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautina sé ekki lengur að finna á skipulagi þar sem í gildi sé deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem tók gildi 6. júní 2014 sem ekki gerir ráð fyrir flugbrautinni. Við teljum að umræddu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og tók gildi 6. júní 2014 sé verulega áfátt, bæði varðandi málsmeðferð og efni, og eigi þeir ágallar að leiða til ógildingar deiliskipulagsins en umrætt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eftir samþykkt deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar í borgarstjórn þann 1. apríl 2014 voru ýmis gögn og breytingar gerðar sem aldrei voru lagðar fram, ræddar eða samþykktar í sveitarstjórn. Áhættumat vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06-24 liggur ekki fyrir né afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs og sjúkraflugs. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki tekið til afgreiðslu tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014, áður en tillaga sú sem hér er til afgreiðslu er afgreidd.“

Hér má finna grein sem ég skrifaði á Eyjuna 7. febrúar sl. sem ber yfirskriftina „Verður deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi“. Svarið við þeirri spurningu fékkst í dag: Já.

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/02/07/verdur-deiliskipulag-reykjavikurflugvallar-fellt-ur-gildi/#.VnL1BrxpSVg.facebook

 

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur