Miðvikudagur 03.08.2016 - 21:15 - FB ummæli ()

Lóðaverðaleyndin

Eins og kunnugt er hefur Reykjavíkurborg haft mjög fáar fjölbýlishúsalóðir og lóðir undir íbúðarhúsnæði vestan Elliðaáa til sölu undanfarin ár. http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/02/27/thetting-byggdar-og-unga-folkid/
Óhætt er að fullyrða að verðmætustu lóðirnar sem borgin á miðsvæðis, sem til stendur að byggja íbúðarhúsnæði fljótlega á, eru lóðirnar við Vesturbugt þar sem reisa á svokölluð „Reykjavíkurhús“. Borgin keypti þær af Faxaflóahöfnum og hafa „fróðir“ aðilar sem ég hef spurt skotið á að verðmæti þeirra sé ekki undir 1,5 – 2 milljörðum.
Lóðir ganga kaupum og sölum milli aðila og hefur fasteignaverð hækkað verulega síðustu árin. Nýlega seldu t.d. Valsmenn hf. tvær af lóðunum við Hlíðarenda og Reykjavík Development ehf. seldi hluta sinn í Hafn­ar­torgi. Kaupverðið er trúnaðarmál. Eðli málsins samkvæmt þarf borgarstjórn að vera meðvituð um lóðaverð í borginni til að unnt sé að gæta hagsmuna borgarinnar á sem bestan hátt. Því hefur minnihluti borgarstjórnar lagt áherslu á að fengið verði verðmat tveggja óháðra fasteignasala á lóðum sem borgin á sem til stendur að selja eða ráðstafa. Hafa tvær slíkar tillögur verið lagðar fram af minnihlutanum undanfarið, önnur tillagan var felld af meirihlutanum en hin bíður afgreiðslu.
Á fundi borgarráðs 19. maí sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:
„Lagt er til að fengnir verði tveir óháðir fasteignasalar til að verðmeta lóðirnar tvær, ásamt byggingarrétti skv. gildandi deiliskipulagi, í Vesturbugt þar sem til stendur að byggja svokölluð Reykjavíkurhús á.“
Tillagan var tekin til afgreiðslu á fundi borgarráðs 23. júní sl. og var felld af meirihlutanum. Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram svohljóðandi bókun:
„Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks hafa bent á að meirihlutinn ætli að nota dýrustu byggingarlóðir borgarinnar undir svokölluð Reykjavíkurhús án þess að kannað sé hvort það skili borginni meiru að selja lóðirnar svo borgin fengi tekjur til að fjármagna kaup á fleiri íbúðum. Um 700 umsækjendur eru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum og því mikilvægara að fleiri fái þak yfir höfuðið en að færri fái húsnæði á dýrri lóð. Því er algjörlega óskiljanlegt og óábyrgt að meirihlutinn vilji ekki vita hvert verðmæti lóðanna er sem nota á undir fyrsta verkefnið um svokölluð Reykjavíkurhús á dýrasta staðnum í borginni.“
Á fundi borgarráðs 21. júlí sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur fram svohljóðandi tillögu, sem var frestað: 
„Í ljósi ítrekaðra upplýsinga um sölu lóða sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað og hafa verið framseldar áður en byggingaframkvæmdir eru hafnar, og nú síðast nýrra upplýsinga um sölu tveggja lóða við Hlíðarenda og að kaupverðið sé trúnaðarmál, er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa að hafa sem gleggstar upplýsingar á hverjum tíma um verðmæti þeirra lóða sem borgin á og til stendur að selja eða ráðstafa. Óskað er eftir því að lagður verði fram listi yfir a) allar lóðir í eigu borgarinnar innan borgarmarkanna b) allra byggingarhæfra lóða innan borgarmarkanna. Þá verði að fengið verðmat tveggja óvilhallra fasteignasala á verðmæti allra lóða sem eru vestan Elliðaáa, sem liggja skal frammi eigi síðar en 1. október 2016. Slík vinna er mikilvæg fyrir komandi fjárhagsáætlanagerð og rekstur borgarinnar sem hefur verið í milljarða halla ár hvert.“

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur