Sunnudagur 15.01.2017 - 12:59 - FB ummæli ()

Fólk býr ekki í áætlunum borgarstjóra

Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar sem er frá árinu 2011 hefst á þessum orðum: „Stefna Reykjavíkurborgar er að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki.“ Síðan eru liðin rúm 5 ár og ástandið aldrei verið verra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið duglegur að þylja upp hvað fasteignafélögin eru að gera eða hvað þau ætla að fara gera á lóðum sem eru búnar að vera í höndum þessara félaga í mörg ár. Hann er líka duglegur að yfirfæra getuleysi þessa meirihluta í húsnæðismálum yfir á ríkið. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur við að úthluta lóðum eða framfylgja stefnum og áætlunum sem hann hefur sett. Borgarstjóri virðist nefnilega halda að fólk geti búið í áætlunum eða stefnum og það sé ekki hlutverk borgarinnar að úthluta lóðum.

Þeir sem til þekkja vita hins vegar að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á stóran þátt í því að skapa húsnæðisvandann í borginni með ákvörðunum og athafnaleysi þessa og síðasta meirihluta. Bæði með því að úthluta fáum fjölbýlishúsalóðum, draga það að úthluta lóðum til stúdenta en í viðtali á visir.is í ágúst 2011 vegna langra biðlista eftir stúdentaíbúðum segir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta að ástandið þyrfti ekki að vera svona slæmt ef Félagsstofnun stúdenta fengi lóðir til að byggja á, og með því að fjölga ekki félagslegum leiguíbúðum árin eftir hrun þegar framboð á húsnæði sem hentaði vel til leigu „flæddi“ út á markaðinn og aðrir sáu kauptækifærin. Borgin ákvað hins vegar að draga úr fjölgun félagslegra leiguíbúða á síðasta kjörtímabili sem m.a. má rekja til vanþekkingar á framboði leiguhúsnæðis og leiguverðs en fljótlega eftir að borgin setti sér húsnæðisstefnuna á árinu 2011 hækkaði leiguverð og framboð minnkaði en eftir sat borgin nánast aðgerðarlaus með húsnæðisstefnuna sem hefst á framangreindum upphafsorðum.

Á árinu sem var að líða hefur borgarstjóri aðeins tekið við sér í því að úthluta lóðum m.a. til stúdenta og gert samkomulag við ASÍ um lóðir á grundvelli samkomulagsins sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við aðila vinnumarkaðarins. Það tekur hins vegar tíma að byggja og óhætt að fullyrða að ef þessi og síðasti meirihluti borgarstjórnar hefði ekki sofnað á verðinum væri ástandið töluvert annað.

Áætlanir um að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári á þessu kjörtímabili hafa ekki gengið eftir, engri fjölbýlishúsalóð með fleiri en 5 íbúðum var úthlutað á árinu 2015 og nú síðast bókaði minnihlutinn í borgarstjórn vegna RÚV lóðarinnar: „Ljóst er að það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum. Fyrst stóð til að borgin ætti 40 íbúðir sem dreifðar væru um svæðið en svo að þær væru allar í sama húsinu og nú að það eigi að selja byggingarréttinn en borgin hafi kauprétt á 15 íbúðum.“

Sú stefna borgarinnar að fækka félagslegum almennum leiguíbúðum á síðasta kjörtímabili hefur aukið vandann verulega, en það var fyrst í október 2015 sem Félagsbústaðir áttu jafn margar almennar félagslegar leiguíbúðir eins og félagið átti á árunum 2009 og 2010. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf. Til samanburðar má geta þess að í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf. Ástandið hefur því versnað verulega milli ára.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 14. janúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur