Fimmtudagur 26.01.2017 - 11:33 - FB ummæli ()

Talnaleikur borgarstjóra

Meirihlutanum í borgarstjórn gengur illa undir forystu Dags B. Eggertssonar að láta áætlanir í húsnæðismálum ganga upp þó svo borgarstjóri sé duglegur að leika að sér að tölum. Á einu ári hefur umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum fjölgað um 23,5%. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf. Í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf. Þá voru í árslok 2016 samtals 161 umsækjandi á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum og 172 umsækjendur á biðlista eftir þjónustuíbúðum aldraðra.

Leikur að tölum  
Þar sem ljóst var að áætlanir meirihlutans í borgarstjórn um að fjölga eignum hjá Félagsbústöðum um 100 á ári myndu ekki takast enn eitt árið var brugðið á það ráð af hálfu meirihlutans í borgarstjórn að færa 91 eign úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða í árslok 2016. Eingöngu er um bókhaldstilfærslu að ræða enda eru íbúar á vegum velferðarsviðs borgarinnar búsettir í eignunum. Raunveruleg fölgun á eignum Félagsbústað árið 2016 voru 33 eignir sem keyptar voru á almennum markaði eða byggðar af Félagsbústöðum, þ.e. 27 almennar félagslegar leiguíbúðir og sex sértæk búsetuúrræði.

Með því að færa 91 eign á milli A og B getur meirihlutinn sagt að fjölgun á eignum Félagsbústaða hafi verið 124 eignir á árinu 2016 en ekki 33 eignir enda lítur það töluvert betur út á pappír og allir verða búnir að gleyma því fyrir næstu kosningar þegar borgarstjóri fer að telja allar íbúðirnar sem hann er búinn að byggja.

Af þessari 91 eign sem færð var milli A og B í bókhaldi borgarinnar voru 19 eignir færðar undir sértæk búsetuúrræði og 72 undir þjónustuíbúðir aldraðra.

Fjölgun eigna milli ára

Eignum Félagsbústaða er skipt í þrennt, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir aldraðra.

Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð. Á árinu 2012 fjölgaði þeim um fjórar, á árinu 2013 um 10, á árinu 2014 um 17 og árinu 2015 um 84 en rúmlega helmingur þeirra var keyptur af Íbúðalánasjóði á gamlársdag 2015.

Á árunum 2012 og 2013 varð engin fjölgun á sértækum búsetuúrræðum en á árinu 2014 fjölgaði þeim um þrjú. Engin fjölgun varð á árinu 2015. Á árinu 2016 fjölgaði þeim um 25, þ.e. annars vegar keyptu Félagsbústaðir eina eign á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga og hins vegar bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.

Á árinu 2012 fjölgaði þjónustuíbúðum aldraðra um tvær. Engin fjölgun varð á árunum 2013-2015. Á árinu  2016 fjölgaði þeim um 72 vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Þegar teknar eru saman tölurnar yfir þessa þrjá flokka, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir aldraðra, þá fjölgar þeim samtals um 6 á árinu 2012, 10 á árinu 2013, 20 á árinu 2014, 84 á árinu 2015 og 124 á árinu 2016. Raunveruleg fjölgun á árinu 2016 var hins vegar 33 eignir eins og rakið er hér að framan.

Það er staðreynd að meirihlutanum í borgarstjórn gengur illa að standa við áætlanir og kosningaloforð Samfylkingarinnar um 2500-3000 leiguíbúðir enda ekki skrýtið þegar efndir  meirihlutans byggjast á tilfærslum eigna innan borgarinnar en ekki með raunverulegri fjölgun þeirra sem hefði áhrif á biðlista til lækkunar. Svona talnaleikfimi er auðvitað bara gerð í þeim tilgangi einum að slá ryki í augu borgarbúa. Biðlistar borgarinnar tala sínu máli en tæplega fjórðungs aukning varð á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum milli ára sem staðfestir að meirihlutanum gengur ekkert í að takast á við vandann í borginni þrátt fyrir áætlanirnar sínar og yfirlýsingar, enda býr fólk hvorki í áætlunum né talnabrellum borgarstjóra.

Töflur yfir fjölda eigna og skýringar

  1. Félagslegar almennar leiguíbúðir

Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Almennar félagslegar leiguíbúðir fjöldi 1844 1842 1786 1790 1800 1817 1901 1928
Breytingar milli ára fjöldi -2 -56 4 10 17 84 27
  1. Sértæk búsetuúrræði

Á árinu 2016 keyptu Félagsbústaðir eina íbúð á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga. Auk þessara sex eigna þá bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Sértæk búsetuúrræði fjöldi 0 0 115 115 115 118 118 143
Breytingar milli ára fjöldi 0 115 0 0 3 0 25
  1. Þjónustuíbúðir aldraðra

Á árinu 2016 bættust 72 eignir við þjónustuíbúður aldraðra vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Í lok tímabils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Þjónustuíbúðir aldraðra fjöldi 310 312 305 307 307 307 307 379
Breytingar milli ára fjöldi 2 -7 2 0 0 0 72
  1. Fjölgun milli ára

Af þessum 124 eignum sem bættust við eignasafn Félagsbústaða á árinu 2016 eru samtals 33 keyptar eða byggðar af Félagsbústöðum en 91 eign var færð úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða.

Í lok tímbils ár 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Almennar félagslegar leiguíbúðir fjöldi -2 -56 4 10 17 84 27
Sértæk búsetuúrræði fjöldi 0 115 0 0 3 0 25
Þjónustuíbúðir aldraðra fjöldi 2 -7 2 0 0 0 72
samtals 0 52 6 10 20 84 124

Á árinu 2016 keyptu Félagsbústaðir 27 almennar félagslegar leiguíbúðir, sértækum búsetuúrræðum fjölgaði um 25, þar af 19 vegna eignatilfærslunnar úr eignasjóði Reykjavíkurborgar og þjónustuíbúðum aldraðra fjölgaði um 72 vegna eignatilfærslunnar úr eignasjóði Reykjavíkurborgar.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur