Þriðjudagur 11.04.2017 - 09:55 - FB ummæli ()

Aukið lóðaframboð nauðsynlegt til að leysa húsnæðisvandann

Það hefur alltaf verið erfitt fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú er vandinn hins vegar enn meiri vegna skorts á húsnæði og þeirrar staðreyndar að skortur á húsnæði mun verða viðvarandi næstu árin. Nær aldrei hafa færri fasteignir verið til sölu og vegna skortsins hefur fasteignaverð hækkað gríðarlega. Það hefur of lítið verið byggt, áætlanir ganga ekki eftir og lóðaúthlutanir hafa verið alltof fáar. Staða ungs fólks er verulega erfið enda hefur það ekki ráð á því húsnæði sem er í boði í Reykjavík. Unga fólkið á lítið eða ekkert eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu. Vegna skorts á húsnæði í Reykjavík og hve söluverð er hátt hefur unga fólkið verið að færa sig annað. Aukið framboð íbúða er það eina sem raunverulega mun leysa vandann. Til að hægt sé að auka framboðið þarf lóðir og það þarf að byggja húsnæði sem hentar ungu fólki og sem það hefur ráð á.

Ítrekað hefur verið bent á að fjölga þurfi litlum og hagkvæmum íbúðum, úthluta þurfi fleiri lóðum, lækka þurfi lóðagjöld, en í dag er innheimt gatnagerðargjald, byggingarréttargjald og það nýjasta er svokallað innviðagjald, og það þurfi að byggja húsnæði á vegum félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þá hefur verið bent á að einfalda þurfi regluverkið og að skipulagsferlið taki alltof langan tíma.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar á lóðum sem aðallega eru í höndum annarra aðila en Reykjavíkurborgar. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er eða verður í boði á næstu misserum.

Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig í að úthluta lóðum enda á borgin fáar lausar lóðir á þeim stöðum sem til stendur að byggja á. Nú þegar vantar nokkur þúsund íbúðir í Reykjavík en á síðustu sex árum fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 og hluti þeirra er enn ekki fullgerður. Í fyrra náðist einungis að fullgera 399 íbúðir í Reykjavík og áætlað er að í ár verði um 600 íbúðir fullgerðar í Reykjavík. Þar sem fasteignafélögin stýra ferðinni í borginni er byggt húsnæði sem hentar þeirra afkomu og á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum. Það munu því líða mörg ár í viðbót þar til sú þörf sem nú þegar er til staðar verður uppfyllt. Hvað þá þörf næstu ára.

Það liggur alveg ljóst fyrir að lóðaskortsstefna Reykjavíkurborgar og einstrengisleg þéttingarstefna hefur aukið vandann verulega. Þétting byggðar er nauðsynleg en gengur ekki upp ein og sér þegar slíkur skortur er á húsnæði. Því höfum við í Framsókn og flugvallarvinum lagt áherslu á að byggt verði meira í Úlfarsárdal en þar eru lóðirnar í höndum borgarinnar. Á grundvelli tillögu okkar frá því í ágúst 2015 er nú verið að endurskoða deiliskipulagið þar en skipulagsvinna er forsenda þess að unnt sé að úthluta lóðum.

Á fundi borgarráðs 20. ágúst 2015 lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram eftirfarandi tillögu:

„Eins og kunnugt er vantar litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðinn hóp, t.d. ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu. Því þarf að finna leiðir til að fjölga slíkum íbúðum, t.d. leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum, sem yrðu í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Því er lagt til að skipulag Úlfarsársdals verði endurskoðað, þ. á m. þær lóðir þar sem nú er gert ráð fyrir einbýlishúsum eða parhúsum, með það fyrir augum að útbúa lóðir fyrir fjölbýlishús þar sem gert verður ráð fyrir litlum hagkvæmum búseturéttaríbúðum og leiguíbúðum fyrir félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Hluti af íbúðunum yrði fyrir Félagsbústaði. Skoðað verði hvernig lækka megi byggingarkostnað við hönnun, útfærslu og byggingu húsanna. T.d. mætti skoða hvort hluti húsanna ætti að vera á tveimur hæðum með nokkrum íbúðum á hvorri hæð með tröppum utanhúss til að minnka sameign innan hússins og þar með stofn-, viðhalds- og rekstrarkostnað sameignar, þ.á m. kostnað við lyftu. Til að tryggja félagslega blöndun er t.d. hægt að líta til þekkingar og reynslu Búseta við útfærslu verkefnisins en félagið á og rekur bæði búseturéttaríbúðir og leiguíbúðir og í íbúðunum býr bæði fólk sem fellur undir og ekki undir eigna- og tekjumörk.“

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur