Föstudagur 01.09.2017 - 08:28 - FB ummæli ()

Tillaga um úttekt á OR húsinu

Á fundi borgarráðs í gær lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu þar sem lagt er til að borgarráð skipi sérstaka úttektarnefnd vegna galla á húsi Orkuveitunnar en Reykjavíkurborg á tæp 94% í OrkuveitunniÞar sem ljóst er að tjónið á húsi OR að Bæjarhálsi 1 er gríðarlegt er nauðsynlegt að upplýst verði hvernig staðið var að málum eftir að leki kom upp í húsinu nokkrum árum áður en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015.  Hvort hagsmuna OR og eigenda OR hafi verið gætt í hvívetna þannig að hvorki hafi verið talin ástæða til að skoða og meta galla í húsinu fyrr né að meta hugsanlegan bótarétt eða fyrningu. Þá þurfi að kanna hvort tjónið hafi verið aukið með tómlæti og eigin sök.  Tillögunni var frestað.

Tilllaga:

Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa sérstaka úttektarnefnd sem hefur það hlutverk að yfirfara viðbrögð og aðgerðir vegna skemmda á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Skoðað verði hvernig brugðist hefur verið við skemmdum á húsi OR að Bæjarhálsi 1 sem upp hafi komið frá byggingu hússins fram til september 2015 þegar raki og mygla uppgötvaðist.  Kannað verði hvort hagsmuna OR og eigenda þess hafi verið gætt í hvívetna þannig að hvorki hafi verið ástæða til að skoða og meta galla í húsinu fyrr en leki og raki uppgötvaðist í september 2015 né að metinn yrði hugsanlegur bótaréttur eða fyrning. Sérstaklega verði skoðað hvernig brugðist var við leka sem uppgötvaðist 2004 og 2009, hvað viðgerðir hafi farið fram, hvort ástandsúttekt hafi verið gerð og orsökin fundin og hvort talið hafi verið að þær viðgerðir sem fram fóru hafi verið að fullnægjandi þannig að engar vísbendingar væru um frekari leka eða skemmdir fyrr en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015. Hvort skoðað hafi verið eða kröfur gerðar á þá aðila sem komu að byggingu hússins eða framleiddu eða seldu efni til byggingar hússins svo sem byggingaraðila, byggingarstjóra, aðalhönnuð, burðarþolshönnuð, tryggingarfélög, eftirlitsaðila, framleiðanda eða seljenda. Hvort  lagaleg staða og hugsanlegur bótaréttur hafi verið kannaður vegna galla á húsinu fram til ársins 2015 m.a. með tilliti til tómlætis eða fyrningar. Er sérstaklega óskað eftir að rætt verði við þá aðila sem unnu hjá OR fram til ársloka 2011 og sáu um fasteignir OR og viðhald þeirra.

Greinargerð:

Reykjavíkurborg á 93,539% í Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sem ljóst er að tjónið á húsi OR að Bæjarhálsi 1 er gríðarlegt er nauðsynlegt að upplýst verði hvernig staðið var að málum eftir að leki kom upp í húsinu nokkrum árum áður en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015.  Hvort hagsmuna OR og eigenda þess hafi verið gætt í hvívetna þannig að hvorki var ástæða til að skoða og meta galla í húsinu fyrr né að meta hugsanlegan bótarétt eða fyrningu. Þá þurfi að kanna hvort tjónið hafi verið aukið með tómlæti og eigin sök.  Telji Reykjavíkurborg hins vegar að það sé ekki á valdsviði hennar að hlutast til um slík úttekt heldur sé það eingöngu á valdsviði stjórnar OR er lagt til að borgarráð skori á stjórn OR að láta slíka úttekt fara fram.

Föstudaginn 25. ágúst sl. hélt Orkuveitan blaðamannafund þar sem kynnt var að vesturhús  höfuðstöðva OR að Bæjarhálsi 1 væri illa farið af rakaskemmdum. Byggingarár hússins er 2002. Hafi starfsmenn OR orðið varir við raka og myglu í september 2015 og hafi tilraunaviðgerð hafist um mitt ár 2016. Nemi áfallinn kostnaður vegna skemmdanna 460 milljónum króna. Í júní 2017 hafi legið fyrir mat á árangri tilraunanna og valkostir um framhaldið verið kannaðir. Sex leiðir hafa verið skoðaðar og sé áætlaður kostnaður vegna þeirra á bilinu 1.500-3.020 mkr. OR hafi farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur matsmaður verði fenginn til að meta ástæður skemmdanna og tjónið af þeim sem verði að því að meta lagalega stöðu OR og hugsanlegan bótarétt. Ráðgjafar OR í verkefninu eru Efla Verkfræðistofa og VAHANEN Group frá Finnlandi. Einn af burðarþolshönnuðum hússsins starfar hjá Eflu.

Í viðtali á visir.is 26. ágúst sl.er haft eftir Þorvaldi Gissurarsyni forstjóra ÞG verk sem setti upp klæðningu hússins að sér þyki einkennilegt að í öllu ferlinu hafi OR aldrei haft samband við ÞG Verk.

Í fréttum RÚV 26. ágúst sl. kemur fram að Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar telur að rekja megi ástand hússins til skorts á viðhaldi vegna sparnaðaraðgerða Orkuveitunnar eftir hrun. „Skorts á viðhaldi og að bregðast ekki við,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu. „Ég skoðaði þetta nú aðeins eftir að þú hringdir í mig og mér er sagt að menn hafi vitað að húsið lak 2009 og  þá hafi strax verið farið í það að þétta það að einhverju leyti, en ekki verið til fé til þess að halda því verki áfram.“

Í fréttum RÚV 27. ágúst sl, er vísað til ummæla Guðmundar Þóroddssonar að það hafi legið fyrir síðan 2009 að húsið læki. Í fréttinni er tekið fram að í skriflegu svari OR við fyrirspurn fréttastofu vegna ummæla hans sé ítrekað að fyrst hafi tekið að bera á raka og myglu í húsnæðinu haustið 2015.

Í fréttum RÚV 28. ágúst sl. upplýsir upplýsingafulltrúi OR að fyrst hafi verið vart við leka árið 2004, þakið hafi lekið 2009 og aftur 2014 og skemmdir vegna myglu hafi fundust árið 2015.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur