Föstudagur 26.01.2018 - 12:33 - Lokað fyrir ummæli

Deilihúsnæði

Það er skortur á húsnæði, það vantar minni íbúðir og húsnæðisverð er of hátt. Kannanir sýna að fólk á leigumarkaði vill kaupa en á ekki fyrir útborgun og nær ekki að leggja til hliðar. Nauðsynlegt er að styðja við óhagnaðardrifin leigufélög. Það þarf að auka fjölbreytni í húsnæðisvali og auka framboð húsnæðis. Vísbendingar eru um að breytt samsetning heimila muni ýta undir skort á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Deilihúsnæði gæti verið hluti af lausninni.

Á fundi borgarstjórnar 21. nóvember 2017 lagði ég fram tillögu að kannaðir yrði möguleikar og grundvöllur á því að úthluta lóðum í Reykjavík fyrir deilihúsnæði. Tillagan var samþykkt og vísað til frekari vinnslu í starfshóp um ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Tillaga:

„Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna stýrihóp sem kannar möguleika og grundvöll á því að úthluta lóðum í Reykjavík sem ætluð eru fyrir deilihúsnæði.“

Greinargerð:

„Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna stýrihóp sem kannar möguleika og grundvöll á því að skipuleggja og úhluta lóðum í Reykjavík sem ætluð eru fyrir deilihúsnæði (house-sharing) til að auka fjölbreytni í húsnæðisvali og auka framboð. Kannað verði m.a. hvernig eignaform gæti verið mögulegt á slíku húsnæði t.d. hvort slíkt húsnæði gæti verið í eigu almennra leigufélaga, leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða  eða að eignarhald slíks húsnæðis væri í sameign þeirra sem þar búa. Hvort breyta þurfi lögum til að gera slíkt húsnæði mögulegt á Íslandi svo sem þeim reglum sem gilda um stofnframlög. Hvaða hópar kæmu til greina við búsetu í slíku húsnæði svo sem hvort eingöngu yrði miðað við ungt fólk eða fólk á öllum aldri, hvort um félagslegt eða almennt húsnæði væri að ræða o.s.frv. Til hliðsjónar er hægt að horfa til Old Oak byggingarinnar í London sem opnaði vorið 2016 sem vakið hefur athygli víða en þar er á ferðinni lík­lega eitt stærsta deilihús­næði (hou­se-share) sem vitað er um. Þar býðst hundruðum ungra Lund­úna­búa sem hafa orðið und­ir í hús­næðiskrepp­unni að leigja her­bergi og fá aðgang að tölu­verðri þjón­ustu. Þá er jafnframt hægt að líta til þekkingar Félagsstofnunar stúdenta við byggingu húsnæðis þar sem sameiginleg aðstaða er fyrir hendi fyrir þá sem leigja herbergi.“

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur