Sunnudagur 11.6.2017 - 13:04 - FB ummæli ()

Áætlanir um félagslegar íbúðir standast ekki

Meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð, gengur illa að láta áætlanir í húsnæðismálum ganga upp. Meðan biðlistar lengjast og húsnæðisvandinn eykst þylur borgarstjóri upp hverja áætlunina á fætur annarri og færir eignir á milli A og B, þ.e. úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða, í þeirri von að borgarbúar átti sig ekki á brellunni. Loforðið um að fjölga íbúðum um 100 á ári hjá Félagsbústöðum hefur ekki gengið eftir. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hefur íbúðunum aðeins fjölgað um þrjár þrátt fyrir áætlanir og verulega fjölgun á biðlistum.

41% aukning á biðlista

Umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um 41% á tæpu einu og hálfu ári. Í árslok 2015 voru þeir samtals 723 og í árslok 2016 voru þeir samtals 893 og hafði því fjölgað um 23,5% á einu ári. Nú eru samtals 1.022 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg.

Talnabrellur borgarstjóra

Íbúðir á vegum Félagsbústaða skiptast í þrennt, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, sértæk búsetuúrræði og þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

Þar sem ljóst var að áætlanir meirihlutans í borgarstjórn um að fjölga eignum hjá Félagsbústöðum um 100 á ári myndu ekki ganga upp enn eitt árið var brugðið á það ráð í árslok 2016 að færa samtals 88 eignir úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða. Voru 16 eignir færðar undir sértæk búsetuúrræði* og 72 eignir undir þjónustuíbúðir aldraðra** (sjá mynd).

Með því að færa 88 eignir á milli A og B í bókhaldi borgarinnar lítur út fyrir að fjölgun á eignum Félagsbústaða hafi verið 119 á árinu 2016 en ekki 31 sem er hin raunverulega fjölgun enda íbúar á vegum Reykjavíkurborgar í öllum eignunum sem færðar voru. Von meirihlutans er væntanlega sú að fyrir næstu borgarstjórnarkosningar verði allir búnir að gleyma þessari talnabrellu þegar borgarstjóri fer að þylja upp allar íbúðirnar sem hann er búinn að byggja.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 10. júní 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 6.6.2017 - 10:53 - FB ummæli ()

41% fjölgun á biðlista

Umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um 41% á tæpu einu og hálfu ári og eru nú 1022. Aðeins 3 slíkar íbúðir hafa verið keyptar á þessu ári.

Í árslok 2015 voru samtals 723 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum íbúðum í Reykjavík. Í árslok 2016 voru þeir 893. Hafði þeim fjölgað um 23,5% á einu ári. Núna eru 1022 umsækjendur á biðlista og hefur þeim því fjölgað um 41% á tæpu einu og hálfu ári.

Á þessu ári hafa Félagsbústaðir aðeins keypt þrjá íbúðir þar af tvær af Búseta. Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 25, á árinu 2015 um 84 og á árinu 2014 um 17.

Ljóst er að meirihlutanum í Reykjavík gengur illa að láta áætlanir í húsnæðismálum ganga upp. Meðan biðlistar lengjast og húsnæðisvandinn eykst þylur borgarstjóri upp hverja húsnæðisáætlunina á fætur annarri. Loforðið um að fjölga íbúðum um 100 á ári hjá Félagsbústöðum hafa ekki gengið eftir og ljóst að fjölga þyrfti þeim mun meira en áætlanirnar gerðu ráð fyrir.

Flokkar: Húsnæðismál

Mánudagur 15.5.2017 - 11:05 - FB ummæli ()

Alþingi þarf að fara vakna

Vinnubrögðin í svokölluðu neyðarbrautarmáli hafa verið fyrir neðan allar hellur. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að ekki liggur fyrir leyfi Samgöngustofu um lokun neyðarbrautarinnar þar sem áhættumat vegna lokunar hennar hefur ekki verið gert. Samt hefur brautinni verið lokað.

Við í Framsókn og flugvallarvinum höfum ítrekað fjallað um það í borgarstjórn, bókað og skrifað greinar að í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar neyðarbrautarinnar kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og að það þurfi að gera sérstakt áhættumat ef það á að loka brautinni.

Þá liggur nú fyrir niðurstaða Alþjóða flugmálastofnunarinnar að forsendur útreiknings á nothæfisstuðli voru rangar í skýrslu EFLU en Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) sendi bréf þess efnis til samgönguráðherra um miðjan mars sl. og afrit á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Athugasemdir ÖFÍA

Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða 9. september 2015 sendi ÖFÍA athugasemdir til innanríkisráðuneytis, Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur. Taldi ÖFÍA skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt væri að áhættumatsskýrsla Isavia væri byggð á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir ÖFÍA athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi. Gerir ÖFÍA alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvefengjanlegum hætti.

ÖFÍA leitaði álits Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO)

Í fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna í febrúar sl. er grein eftir Ingvar Tryggvason, flugstjóra og formann ÖFÍA. Þar kemur fram að eftir ítarlega athugun hafi ÖFÍA komist að þeirri niðurstöðu að útreiknaður nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar skv. ICAO-staðli án brautar 06/24 í skýrslu Eflu væri rangur. Alvarlegasta villan væri sú að bremsuskilyrði á flugbrautum væru ekki tekin með í reikninginn. Bendir hann á að þar sem engin viðbrögð hafi borist við bréfinu frá 9. september 2015 hafi verið ákveðið að fá álit Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Svar hafi borist ÖFÍA þar sem túlkun ÖFÍA á grein 3.1.3 í Annex 14 hafi verið staðfest, þ.e. að taka skuli bremsuskilyrði og önnur veðurfarsleg atriði með í reikninginn þegar nothæfisstuðull sé reiknaður. Þá hafi ICAO tekið undir túlkun ÖFÍA á SARPS-hugmyndafræðinni, að leitast ætti við að ná nothæfisstuðli flugvallar eins háum og unnt væri, nema landfræðilegar takmarkanir væru til staðar. Þá segir hann: „Það blasir því við að skýrsluhöfundar hafa mistúlkað grein 3.1.3 í Annex 14 og lokun brautarinnar var að endingu réttlætt með gallaðri verkfræðiskýrslu.“

 

Flokkar: Flugvöllur

Þriðjudagur 11.4.2017 - 09:55 - FB ummæli ()

Aukið lóðaframboð nauðsynlegt til að leysa húsnæðisvandann

Það hefur alltaf verið erfitt fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú er vandinn hins vegar enn meiri vegna skorts á húsnæði og þeirrar staðreyndar að skortur á húsnæði mun verða viðvarandi næstu árin. Nær aldrei hafa færri fasteignir verið til sölu og vegna skortsins hefur fasteignaverð hækkað gríðarlega. Það hefur of lítið verið byggt, áætlanir ganga ekki eftir og lóðaúthlutanir hafa verið alltof fáar. Staða ungs fólks er verulega erfið enda hefur það ekki ráð á því húsnæði sem er í boði í Reykjavík. Unga fólkið á lítið eða ekkert eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu. Vegna skorts á húsnæði í Reykjavík og hve söluverð er hátt hefur unga fólkið verið að færa sig annað. Aukið framboð íbúða er það eina sem raunverulega mun leysa vandann. Til að hægt sé að auka framboðið þarf lóðir og það þarf að byggja húsnæði sem hentar ungu fólki og sem það hefur ráð á.

Ítrekað hefur verið bent á að fjölga þurfi litlum og hagkvæmum íbúðum, úthluta þurfi fleiri lóðum, lækka þurfi lóðagjöld, en í dag er innheimt gatnagerðargjald, byggingarréttargjald og það nýjasta er svokallað innviðagjald, og það þurfi að byggja húsnæði á vegum félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þá hefur verið bent á að einfalda þurfi regluverkið og að skipulagsferlið taki alltof langan tíma.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar á lóðum sem aðallega eru í höndum annarra aðila en Reykjavíkurborgar. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er eða verður í boði á næstu misserum.

Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig í að úthluta lóðum enda á borgin fáar lausar lóðir á þeim stöðum sem til stendur að byggja á. Nú þegar vantar nokkur þúsund íbúðir í Reykjavík en á síðustu sex árum fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 og hluti þeirra er enn ekki fullgerður. Í fyrra náðist einungis að fullgera 399 íbúðir í Reykjavík og áætlað er að í ár verði um 600 íbúðir fullgerðar í Reykjavík. Þar sem fasteignafélögin stýra ferðinni í borginni er byggt húsnæði sem hentar þeirra afkomu og á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum. Það munu því líða mörg ár í viðbót þar til sú þörf sem nú þegar er til staðar verður uppfyllt. Hvað þá þörf næstu ára.

Það liggur alveg ljóst fyrir að lóðaskortsstefna Reykjavíkurborgar og einstrengisleg þéttingarstefna hefur aukið vandann verulega. Þétting byggðar er nauðsynleg en gengur ekki upp ein og sér þegar slíkur skortur er á húsnæði. Því höfum við í Framsókn og flugvallarvinum lagt áherslu á að byggt verði meira í Úlfarsárdal en þar eru lóðirnar í höndum borgarinnar. Á grundvelli tillögu okkar frá því í ágúst 2015 er nú verið að endurskoða deiliskipulagið þar en skipulagsvinna er forsenda þess að unnt sé að úthluta lóðum.

Á fundi borgarráðs 20. ágúst 2015 lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram eftirfarandi tillögu:

„Eins og kunnugt er vantar litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðinn hóp, t.d. ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu. Því þarf að finna leiðir til að fjölga slíkum íbúðum, t.d. leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum, sem yrðu í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Því er lagt til að skipulag Úlfarsársdals verði endurskoðað, þ. á m. þær lóðir þar sem nú er gert ráð fyrir einbýlishúsum eða parhúsum, með það fyrir augum að útbúa lóðir fyrir fjölbýlishús þar sem gert verður ráð fyrir litlum hagkvæmum búseturéttaríbúðum og leiguíbúðum fyrir félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Hluti af íbúðunum yrði fyrir Félagsbústaði. Skoðað verði hvernig lækka megi byggingarkostnað við hönnun, útfærslu og byggingu húsanna. T.d. mætti skoða hvort hluti húsanna ætti að vera á tveimur hæðum með nokkrum íbúðum á hvorri hæð með tröppum utanhúss til að minnka sameign innan hússins og þar með stofn-, viðhalds- og rekstrarkostnað sameignar, þ.á m. kostnað við lyftu. Til að tryggja félagslega blöndun er t.d. hægt að líta til þekkingar og reynslu Búseta við útfærslu verkefnisins en félagið á og rekur bæði búseturéttaríbúðir og leiguíbúðir og í íbúðunum býr bæði fólk sem fellur undir og ekki undir eigna- og tekjumörk.“

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 21.3.2017 - 11:26 - FB ummæli ()

Stofnframlög Reykjavíkurborgar vegna íbúðanna sem Bjarg mun byggja

Á grundvelli samkomulags síðustu ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins um byggingu íbúða á grundvelli nýrra laga um almennar íbúðir sem kveða á um stofnframlög var samþykkt á síðasta borgarráðsfundi að úthluta lóðum og byggingarrétti fyrir samtals 236 íbúðir til Íbúðafélagsins Bjargs hses., sem rekið er án hagnaðarmarkmiða, en stofnendur þess eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.

Um er að ræða lóðir við Móaveg 2–4, en þar er gert ráð fyrir 120 íbúðum, við Urðarbrunn 33–35 og 130–134, en þar er gert ráð fyrir 53 íbúðum og við Hallgerðargötu á Kirkjusandi, en þar er gert ráð fyrir 63 íbúðum. Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar eftir 2 ár.

Samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir er meginreglan sú að stofnframlag ríkisins skal nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar og stofnframlag sveitarfélags skal nema 12% af stofnvirði almennrar íbúðar. Samkvæmt lögunum getur stofnframlag sveitarfélaga falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til sveitarfélagsins vegna íbúðanna.

Í úthlutunarbréfunum kemur eftirfarandi fram varðandi greiðslurnar sem Bjargi ber að greiða og hvaða upphæð það er sem fellur niður á grundvelli laganna vegna 12% stofnframlags Reykjavíkurborgar.

Móavegur 2-4

Lóðir og byggingarréttur við Móaveg 2-4 fyrir fjölbýlishús fyrir 120 íbúðir og verslunar- og þjónustuhúsnæði á 1. hæð, 500 fermetrar eða samtals 10.880 fermetrar ofanjarðar og 7.950 fermetrar neðanjarðar að stærð (A) rými og 2.550 fermetrar í B-rými. Heildarfermetrar heimilaðra bygginga á lóðinni er (brúttó) er 18.830.- fermetrar

Gatnagerðargjald, miðað við 10.880 fermetra hús ofanjarðar og 7.950 fermetrar húsi neðanjarðar (bílakjallari) með 120 íbúðir og verslunar- og þjónustuhúsnæði er kr. 128.381.480.-  Gert er ráð fyrir að allur kjallarinn verði nýttur sem bílakjallari við álagningu gatnagerðargjalds. Komi í ljós við innlagningu aðaluppdrátta að rými í kjallara er ekki nýtt sem bílakjallari þá miðast álagning gatnagerðargjald við það og leiðréttist sem nemur gatnagerðargjaldi á nýtanlega fermetra í annað en bílakjallara.

Greitt er kr. 489.600.000.- sem miðast við byggingarmagn ofanjarðar fyrir byggingarréttinn. Samtals er greitt fyrir byggingarréttinn að meðtöldu gatnagerðargjaldi kr. 617.981.480.- Greiðsla fyrir byggingarréttinn gengur til uppgjörs á 12% stofnframlagi Reykjavíkurborgar á framlagi til byggingu íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016.

Lóðarhafi skuldbindur sig til þess að framselja á kostnaðarverði íbúða auk sameignar og hlutdeildar í bílakjallara 20% íbúða til Félagsbústaða hf.

Gjalddagi gatnagerðargjalda og 20% byggingarréttar vegna leiguíbúða ASÍ er 90 dagar frá samþykki borgarráðs fyrir framlagi byggingarréttar skv. lögum 52/2016.

Verði samþykkt byggingarleyfi fyrir stærra hús á lóðinni en sem nemur þeirri viðmiðunarstærð sem tilgreind er fyrir lóðina, skal greitt viðbótargatnagerðargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá gatnagerðargjalda hverju sinni. Viðbótargatnagerðargjaldið skal greitt áður en byggingaleyfi er gefið út. Ef byggingarréttur á lóðinni eykst eða samþykkt er breytt húsagerð áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til þess að endurskoða söluverð byggingarréttar á lóðinni og/eða innheimta greiðslu fyrir aukinn byggingarrétt.Verði samþykkt nýtt deiliskipulag sem heimilar minna byggingarmagn endurgreiðist mismunur á samþykktu byggingarmagni hlutfallslega miðað við ofangreint verð byggingarréttar og fjárhæð gatnagerðargjalda. Tengigjald fráveitu er áætlað kr. 391.586.- fyrir lóðina miðað við byggingavísitölu mars mánaðar og annast Veitur innheimtu gjaldsins.

Urðarbrunnur 33-35 og 130-134

Lóðir og byggingarréttur við Urðarbrunn 130-134, fjölbýlishús fyrir 30 íbúðir, 4120 fermetra að stærð auk 1308 fermetra bílakjallara og Urðarbrunn 33-35, fjölbýlishús fyrir 23 íbúðir og 3.307 fermetra að stærð auk 1025 bílakjallara. Heildarfermetrar heimilaðra bygginga fyrir íbúðir á báðum lóðunum eru 7427 (brúttó).

Gatnagerðargjald, miðað við 3.307 fermetra hús með 23 íbúðir er kr. 36.363.772 og fyrir 4.120 fermetra hús og 30 íbúðir er kr. 45.303.520.- Samtals eru greidd gatnagerðargjöld fyrir bílakjallara kr. 2.565.367. Samtals eru greidd gatnagerðargjöld kr. 84.232.659.

Greitt er kr. 334.215.000.- fyrir byggingarréttinn. Samtals er greitt fyrir byggingarréttinn að meðtöldu gatnagerðargjaldi kr.418.447.659.- Greiðsla fyrir byggingarréttinn gengur til uppgjörs á 12% stofnframlagi Reykjavíkurborgar á framlagi til byggingar íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016. Verði breytt nýting á kjallara eða hann stærri en útreikningar reikna hér með reiknast viðbótargatnagerðargjald sem af þeirri breytingu leiðir.

Lóðarhafi skuldbindur sig til þess að framselja á kostnaðarverði íbúða auk sameignar og hlutdeildar í bílakjallara 20% íbúða til Félagsbústaða.

Gjalddagi gatnagerðargjalda og 20% byggingarréttar vegna leiguíbúða ASÍ er 90 dagar frá samþykki borgarráðs fyrir framlagi byggingarréttar skv. lögum 52/2016.

Verði samþykkt byggingarleyfi fyrir stærra hús á lóðinni en sem nemur þeirri viðmiðunarstærð sem tilgreind er fyrir lóðina, skal greitt viðbótargatnagerðargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá gatnagerðargjalda hverju sinni. Viðbótargatnagerðargjaldið skal greitt áður en byggingaleyfi er gefið út. Ef byggingarréttur á lóðinni eykst eða samþykkt er breytt húsagerð áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til þess að endurskoða söluverð byggingarréttar á lóðinni og/eða innheimta greiðslu fyrir aukinn byggingarrétt. Verði samþykkt minna byggingarmagn með breyttu deilskipulagi endurgreiðist mismunur á á samþykktu deiliskipulagi hlutfallslega miðað við ofangreint verð byggingarréttar og fjárhæð gatnagerðargjalda. Tengigjald fráveitu er áætlað kr. 391.586.- fyrir hvora lóð miðað við byggingavísitölu mars mánaðar og annast Veitur innheimtu gjaldsins.

Hallgerðargata

Lóðir og byggingarréttur á lóðum G og H við Hallgerðargötu (á Kirkjusandslóð) fjölbýlishús fyrir 63 íbúðir og sem heimilar 6.300 fermetra ofanjarðar og 5.500 fermetra kjallara/bílageymslur.

Gatnagerðargjald, er miðað við 5.300 fermetra hús á G lóð með 28 íbúðir er kr. 33.537.800.- þar af 2.500 fermetra bílakjallara kr. 2.749.000.- og fyrir 6.500 fermetra hús á H lóð með 35 íbúðum kr. 41.784.800.- þar af 3.000 fermetra bílakjallara kr. 3.298.800.- eða samtals í gatnagerðargjöld kr. 75.322.600.-

Greitt er fyrir byggingarrétt á báðum lóðunum kr. 283.500.000.- Samtals er greitt fyrir byggingarréttinn að meðtöldu gatnagerðargjaldi kr. 358.822.600.- Greiðsla fyrir byggingarréttinn gengur til uppgjörs á 12% stofnframlagi Reykjavíkurborgar á framlagi til byggingar íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016.

Lóðarhafi skuldbindur sig til þess að framselja á kostnaðarverði íbúða auk sameignar og hlutdeildar í bílakjallara 20% íbúða til Félagsbústaða.

Gjalddagi gatnagerðargjalda og byggingarréttar er 90 dagar frá samþykki borgarráðs fyrir framlagi byggingarréttar skv. lögum 52/2016.

Verði samþykkt byggingarleyfi fyrir stærra hús á lóðinni en sem nemur þeirri viðmiðunarstærð sem tilgreind er fyrir lóðina, skal greitt viðbótargatnagerðargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá gatnagerðargjalda hverju sinni. Viðbótargatnagerðargjaldið skal greitt áður en byggingaleyfi er gefið út. Hlutfall bílgeymslna í útreikningi á gatnagerðargjaldi er 100%. Sé hluti kjallarans ekki tekið undir bílgeymslu leiðir það til hækkunar gatnagerðargjalds þegar það verður lagt á. Ef byggingarréttur á lóðinni eykst eða samþykkt er breytt húsagerð áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til þess að endurskoða söluverð byggingarréttar á lóðinni og/eða innheimta greiðslu fyrir aukinn byggingarrétt. Tengigjald fráveitu er áætlað kr. 391.586.- fyrir hvora lóð miðað við byggingavísitölu mars mánaðar og annast Veitur innheimtu gjaldsins.

Flokkar: Húsnæðismál

Laugardagur 18.3.2017 - 10:16 - FB ummæli ()

Nokkrar tölulegar staðreyndir um íbúðafjölgun, lóðamál og biðlista

Nokkrar staðreyndir:

  1. Borgin úthlutaði einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á fyrsta 31 mánuðinum sem Dagur hefur verið borgarstjóri þ.e. frá júní 2014 til ársloka 2016, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli. Auk þessara fimm lóða er þessi úthlutun á mörkunum að falla þar undir, þ.e. á Mýrargötu 27-31 og Seljavegi 1A og 1B var úthlutað fyrir samtals 8 íbúðir, þ.e. 4 sérbýli og eitt fjölbýli með 4 íbúðum, samtengt.
  2. Á 6 ára tímabili eða frá árslokum 2010 til ársloka 2016 voru einungis byggðar 1644 íbúðir í Reykjavík, hluti þeirra er þó ekki fullgerður, en samkvæmt upplýsingum úr landskrá Þjóðskrár Íslands skiptast þær þannig: 6 íbúðir 2011, 96 íbúðir 2012, 251 íbúð 2013, 394 íbúðir 2014, 262 íbúðir 2015 og 635 íbúðir 2016.
  3. Í Kópavogi var á sama tímabili, þ.e. frá árslokum 2010 til ársloka 2016 byggðar 1292 íbúðir samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá.
  4. Á árinu 2016 náðist þó einungis að fullgera 399 íbúðir í Reykjavík svo enn er eitthvað af framangreindum íbúðum enn ekki fullgerðar en eru a.m.k. komnar á fokheldisstig.
  5. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa er áætlað að á þessu ári verði um 600 íbúðir fullgerðar í Reykjavík. Eðli málsins samkvæmt er því enn verið að klára bygginguna á einhverjum þessara íbúða sem eru inni í ofangreindum tölum.
  6. Á einu ári eða frá árslokum 2015 til ársloka 2016 fjölgaði umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum um 23,5%.
  7. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf.
  8. Í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf.
  9. Þá voru í árslok 2016 samtals 161 umsækjandi á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum og 172 umsækjendur á biðlista eftir þjónustuíbúðum aldraðra.
  10. Í árslok 2016 voru færðar 91 eign úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða. Eingöngu er um bókhaldstilfærslu að ræða enda eru íbúar á vegum velferðarsviðs borgarinnar búsettir í eignunum. Raunveruleg fölgun á eignum Félagsbústað árið 2016 voru 33 eignir sem keyptar voru á almennum markaði eða byggðar af Félagsbústöðum, þ.e. 27 almennar félagslegar leiguíbúðir og sex sértæk búsetuúrræði.
  11. Af þessari 91 eign sem var færð á milli A og B, þ.e. úr eignasjóðnum yfir til Félagsbústaða, færðust 19 undir sértæk búsetuúrræði og 72 undir þjónustuíbúðir aldraðra.
  12. Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð. Á árinu 2012 fjölgaði þeim um fjórar, á árinu 2013 um 10, á árinu 2014 um 17 og árinu 2015 um 84 en rúmlega helmingur þeirra var keyptur af Íbúðalánasjóði á gamlársdag 2015.
  13. Á árunum 2012 og 2013 varð engin fjölgun á sértækum búsetuúrræðum en á árinu 2014 fjölgaði þeim um þrjú. Engin fjölgun varð á árinu 2015. Á árinu 2016 fjölgaði þeim um 25, þ.e. annars vegar keyptu Félagsbústaðir eina eign á almennum markaði og byggði íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga og hins vegar bættust við 19 eignir frá eignasjóði Reykjavíkurborgar vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan.
  14. Á árinu 2012 fjölgaði þjónustuíbúðum aldraðra um tvær. Engin fjölgun varð á árunum 2013-2015. Á árinu  2016 fjölgaði þeim um 72 vegna eignatilfærslunnar sem getið er um hér að framan frá eignasjóði Reykjavíkurborgar.
  15. Hér er svo frétt um hvað gerðist hjá öldruðum við eignatilfærsluna úr eignasjóði Reykjavíkurborgar yfir til Félagsbústaða: http://www.dv.is/frettir/2017/3/17/vid-erum-gleymd/

 

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 15.3.2017 - 16:56 - FB ummæli ()

Lóðaskortsstefna meirihluta borgarstjórnar bitnar á ungu fólki

Lóðaskortsstefna meirihluta borgarstjórnar með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Frá upphafi kjörtímabilsins í júní 2014 til síðustu áramóta eða á 31 mánuði úthlutaði borgin einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli. Staðan nú er einfaldlega sú að unga fólkið hefur ekki ráð á húsnæði í Reykjavík. Skortur er á leiguíbúðum, leiguverð hátt og möguleikar ungs fólks litlir að koma sér upp þaki yfir höfuðið í höfðuðborginni. Það vantar litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðinn hóp, t.d. ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar á lóðum sem eru aðallega í höndum fasteignafélaga. Þrátt fyrir stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar er varla hægt að segja að borgin hafi verið með til sölu lóðir á þéttingarreitum í borginni frá 2010. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði eða á að vera í boði á næstu misserum.

Borgarstjóri hefur verið duglegur að þylja upp hvað fasteignafélögin ætla að fara byggja en hann hefur ekki staðið sig í því að úthluta lóðum enda á borgin fáar lausar lóðir á þeim stöðum sem til stendur að byggja á. Nú vantar um 5000 íbúðir í Reykjavík en samkvæmt áætlunum borgarstjóra ætla fasteignafélögin að byggja þann fjölda á næstu árum. Það verður auðvitað á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum sem best. Það munu því líða mörg ár í viðbót þar til sú þörf sem nú þegar er til staðar verður uppfyllt. Hvað þá þörf næstu ára.

Við í Framsókn og flugvallarvinum höfum frá upphafi kjörtímabilsins ítrekað bent á að Úlfarsárdalurinn sé það svæði þar sem borgin getur úthlutað lóðum. Nú er verið að vinna að endurskoðun deiliskipulags Úlfarsársdals á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá því í ágúst 2015. Það verður því í loks í lok kjörtímabilsins hægt að fara úthluta fjölbýlishúsalóðum í Úlfarsárdalnum sem hefði átt að vera möguleiki strax í upphafi kjörtímabilsins ef Dagur og félagar hans í meirihlutanum hefðu virkilega haft áhuga á að leggja allt að mörkum til að leysa húsnæðisvandann.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. febrúar 2017

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 14.2.2017 - 19:18 - FB ummæli ()

Það þarf að úthluta lóðum í Úlfarsárdal

Það er staðreynd að húsnæðisvandinn er mikill í borginni og lóðaskortur en borgin úthlutaði einungis sex fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á fyrsta 31 mánuði kjörtímabilsins. Uppbygging gengur of hægt meðal annars vegna fárra lóðaúthlutana. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 íbúðir frá 2010 til ársloka 2016 en nauðsynlegt hefði verið að fjölga þeim um 700 á ári á þessu tímabili.

Framsókn og flugvallarvinir hafa ítrekað fjallað um lóðaskort í borginni og hvað nauðsynlegt er að skipuleggja meiri byggð í Úlfarsárdal og fjölga þar lóðum svo hægt sé að takast á við húsnæðisvandann. Á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina sem samþykkt var haustið 2015 er verið að endurskoða skipulag Úlfarsárdals. Úlfarsárdalurinn er það svæði sem borgin getur úthlutað lóðum því flestar þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru í höndum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir sem mikil þörf er á.  Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.

Það er mikilvægt að stækka byggðina í Úlfarsárdal til að hverfið verði sjálfbært og þeir innviðir sem borgin hefur og er að fjárfesta í komi að sem mestum notum, til að hægt sé að uppfylla skuldbindingar borgarinnar gagnvart kaupendum lóða í hverfinu, til að uppfylla skuldbindingar borgarinnar við Knattspyrnufélagið Fram, til að koma til móts við væntingar íbúanna og til að auka lóðaframboð í borginni sem er af skornum skammti. Stækka þarf hverfið enn meira en endurskoðun deiliskipulagsins gerir ráð fyrir og því eru vonbrigði að fyrirhuguð breyting nái ekki einnig til svæðisins fyrir ofan Mímisbrunn eins og við í Framsókn og flugvallarvinum höfum ítrekað bent á.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11. febrúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

Föstudagur 10.2.2017 - 23:19 - FB ummæli ()

Alþjóða flugmálastofnunin staðfestir að forsendur útreiknings á nothæfisstuðli voru rangar

Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu um áhættumatsskýrslu Isavia gerði öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) alvarlegar athugasemdir við útreikning nothæfisstuðulsins. Hér að neðan er annars vegar rakin niðurstaða Samgöngustofu frá 1. júní 2015 og hins vegar athugasemdir ÖFÍA frá 9. september 2015.

Nú liggur fyrir að forsendur á útreikningi nothæfisstuðulsins voru rangar eins og ÖFÍA hélt fram sem því miður var ekki hlustað á.

Í nýjasta Fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segir: „Eftir ítarlega athugun komst ÖFÍA að þeirri niðurstöðu, að útreiknaður nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar skv. ICAO staðli án brautar 06/24 í skýrslu Eflu væri rangur. Alvarlegasta villan er sú að bremsuskilyrðum á flugbrautum voru ekki tekin með í reikninginn.“ Þar sem engin viðbrögð hafi borist við bréfinu, dags. 9. september 2015, hafi verið ákveðið að fá álit Alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO. „Erindi var sent sem fulltrúi IFALPA bar undir ICAO Secretariat. Svar barst ÖFÍA þar sem túlkun ÖFÍA á grein 3.1.3 í Annex 14 var staðfest, þ.e. að taka skuli bremsuskilyrði og önnur veðurfarsleg atriði með í reikninginn þegar nothæfisstuðull er reiknaður. Ennfremur tók ICAO undir túlkun ÖFÍA á SARPS hugmyndafræðinni, að leitast ætti við að ná nothæfisstuðli flugvallar eins háum og unnt væri, nema landfræðilegar takmarkanir væru til staðar. Það blasir því við að skýrsluhöfundar hafa mistúlkað grein 3.1.3 í Annex 14 og lokun brautarinnar var að endingu réttlætt með gallaðri verkfræðiskýrslu.“

Sjá bls 9-10 í Fréttabréfinu:

http://www.fia.is/images/stories/frettabref/2017/1701_web.pdf

Niðurstaða Samgöngustofu 1. júní 2015

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga. Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Bendir Samgöngustofa á að gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. Tekur Samgöngustofa það sérstaklega fram að hún rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma, en meirihluti borgarstjórnar hefur ítrekað vísar til þeirrar skýrslu máli sínu til stuðnings við það að taka brautina af skipulagi. Samgöngustofa taldi hins vegar að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul, en áhættumat Isavia er unnið með hliðsjón af þeirri skýrslu, sýndi að nothæfisstuðulinn færi ekki undir 95%. Gerði öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) alvarlegar athugasemdir við það og hefur talið útreikninginn á nothæfisstuðlinum rangan í skýrslunni.

Athugasemdir öryggisnefndar Félags íslenska atvinnuflugmanna 9. september 2015
Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur.

Í bréfinu kemur fram að öryggisnefndin telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi.

Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti. Afrit af bréfi Öryggisnefndarinnar var sent Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Flokkar: Flugvöllur

Mánudagur 6.2.2017 - 16:19 - FB ummæli ()

Borgin byggir ekki 300 stúdentaíbúðir

Fyrirsagnir geta oft verið mjög villandi sem er miður því margir lesa eingöngu fyrirsagnir og telja þær réttar.  Á ruv.is birtist frétt 12. janúar síðastliðinn með fyrirsögninni. „Borgin byggir 300 stúdentaíbúðir á næstu árum“. Á myndinni sem birtist með fréttinni mátti sjá borgarstjóra úti á túni sitjandi við borð um hávetur á snæviþakinni jörð skrifa undir viljayfirlýsingu við Byggingarfélag námsmanna.

Lóðunum úthlutað á 10 ára tímabili
Í fréttinni kom hvorki fram að borgin ætlar að úthluta Byggingarfélagi námsmanna þessum lóðum fyrir 300 stúdentaíbúðir á allt að 10 ára tímabili né að Byggingarfélag námsmanna ber bæði að greiða gatnagerðargjald og byggingarréttargjald fyrir lóðirnar. Í viljayfirlýsingunni segir að verð byggingarréttar fari „eftir mati á markaðsverði, sbr. lög um stofnframlög.“

Reykjavíkurborg hefur hingað til ekki innheimt byggingarréttargjald af lóðum fyrir stúdentaíbúðir heldur einungis gatnagerðargjald. Þessi nýja gjaldtaka kemur til vegna nýrra laga sem kveða á um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga.

Snúningurinn á stofnframlaginu
Samkvæmt lögunum sem bera heitið lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016, er meginreglan sú að stofnframlag ríkisins skal nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar og stofnframlag sveitarfélags skal nema 12% af stofnvirði almennrar íbúðar. Samkvæmt lögunum getur stofnframlag sveitarfélaga falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til sveitarfélagsins vegna íbúðanna.

Fyrir gildistöku laganna var lóðum úthlutað undir stúdentaíbúðir gegn greiðslu gatnagerðargjalds. Nú ætlar borgin hins vegar einnig að leggja byggingarréttargjald á lóðir fyrir stúdenta sem verður þá framlag borgarinnar á grundvelli laganna, þ.e. lagt verður á byggingarréttargjald og það fellt niður enda nemi það 12% af stofnvirði íbúðar.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 2. febrúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur