Laugardagur 08.03.2014 - 21:30 - Lokað fyrir ummæli

Réttu fram lófann

Á menntaskólaárunum var fastur punktur í tilveru minni að bíða eftir strætó. Eftir skóla beið ég ýmist inni í MR eða í „brekkusjoppunni“, nema veður byði upp á útiveru.

Eitthvað vorið var ég einu sinni sem oftar stödd í brekkusjoppunni að bíða, ein að venju, þegar óárennilegur ungur maður eigraði upp að mér og sagðist þurfa að tala við mig. Ég hafði aldrei séð hann áður, hefði án efa munað eftir því ef svo hefði verið. Hann var hvíthærður og með nánast glærblá augu, klæddur í snjóþvegnar gallabuxur og jakka úr sama efni. Húðliturinn var bleikur, af þeirri tegund sem stundum einkennir róna og útigangsmenn. Augun voru rauðsprengd og syndandi og maðurinn augljóslega mjög vímaður.

En hann átti semsagt við mig erindi og baðst afsökunar á því að hann yrði bara að segja mér svolítið, þótt ég vildi augljóslega ekkert við hann tala. „Ég er bara svo hrikalega skyggn og þarf að tala við þig.“

Það fyrsta sem hann sagði var: „þú átt ekki að krossa þig svona“.  Mér fannst hann frekar dónalegur og afskiptasamur og hef eflaust beðið hann að láta mig í friði, en hann hélt áfram og lét dæluna ganga. Með „að krossa þig“ átti hann ekki við neitt trúarlegt, heldur það að krossleggja handleggina. Miðað við allt sem hann sagði, við mig – og um mig – bláókunnugur maðurinn, hef ég frekar hallast að því að hann hafi virkilega verið skyggn. Ég man alltaf eftir skærbláu og rauðsprengdu augnaráðinu, en þessi maður varð ekki aftur á vegi mínum.

Réttu fram lófann

Skilaboðin voru nokkurn veginn svona, (fyrir utan orð um ýmislegt úr mínu lífi sem er of persónulegt fyrir þetta blogg): ekki krossleggja hendurnar fyrir framan þig, réttu heldur fram lófana og biddu um það sem þú vilt. Ef þú leggur niður þessa varnarstöðu og lokar þig ekki af bakvið krosslagðar hendur – ef þú réttir fram hendurnar – muntu fá allt sem þú biður um.

Mér hefur oftsinnis verið hugsað til þessa skrýtna manns og orða hans. Hvort sem hann var skyggn eða ekki, var það alveg satt sem hann sagði. Að halla sér afturábak og vera í varnarstöðu skilar engu, en að rétta fram hendurnar og teygja sig eftir því sem maður vill er lykill að árangri. Það tók mig talsverðan tíma að tileinka mér þetta til fulls, sérstaklega þetta með að biðja um aðstoð, en þó er óhætt að segja að þetta samtal hafi fylgt mér og mótað.

8. mars

Í dag var ég stödd á svipuðum slóðum í miðbænum. Fyrst í Iðnó á frábærum baráttufundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Síðan á Austurvelli á fjölmennum samstöðufundi. Ég stóð fyrir framan bekkina við styttuna af Jóni Sigurðssyni og þegar dagskránni var nærri lokið sá ég hvar rytjulegur maður braut sér leið gegnum þvöguna til að komast í sætið sitt á einum þeirra. Hann var greinilega fastagestur og virtist ekki fylgjast neitt með mannfjöldanum. Þegar hann var sestur tók hann upp sígarettu, braut af henni filterinn og kveikti í. Hann var með ljóst sítt hár og bleikur á hörund og þegar hann leit upp mættu mér allt í einu þessi himinbláu augu.

Hvort þetta er sami maðurinn veit ég ekki, en mikið fannst mér vel við hæfi að rifja samtalið í brekkusjoppunni upp einmitt í dag. Í Iðnó fjölluðu ræður kvenna úr öllum áttum allar um það sama: það þarf að bera sig eftir björginni, stíga fram og sækjast eftir því sem maður vill. Þori ég, vil ég, get ég?

Ekki átti það síður við á samstöðufundi fyrir rétti þjóðar til kosninga um eigin framtíð að hugleiða muninn á lokaðri varnarstöðu hinna krosslögðu handa í samanburði við útréttar samvinnu- og sáttahendur.

Skilaboð mannsins með bláu augun eru sígild. Hafi hann þökk fyrir.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur