Þriðjudagur 31.12.2013 - 11:33 - Lokað fyrir ummæli

Sækjum fram, virkjum hugvitið

Í samfelldan straum tímans er okkur tamt að marka skil, staldra við, líta yfir farinn veg, horfa svo fram á við og taka stefnu til framtíðar. Við stöndum nú á slíkum tímamótum. Brýnt er að kveðja hið gamla og fagna hinu nýja með opnum hug. Eldri áherslur hafa komið okkur þangað sem við erum í dag, nú þarf nýja sýn til að grípa möguleika framtíðarinnar.

Áskorun undanfarinna ára var af völdum bankakreppunnar og þar axlaði háskólamenntað fólk sína ábyrgð, tók á sig kjaraskerðingar og lagði sitt af mörkum við endurreisn landsins. Áskorun næstu ára er að byggja upp íslenskt efnahagslíf með því að nýta sóknarfæri til verðmætasköpunar á grundvelli þekkingar og þar gegnir háskólamenntað fólk lykilhlutverki.

Stjórnvöld og atvinnurekendur tala nú mjög fyrir kjarasamningum sem skuli undirbyggja hagvöxt til framtíðar. Eina trúverðuga atvinnustefnan að slíkum markmiðum er að leggja áherslu á menntun, setja störf sem grundvallast á þekkingu í fyrsta sæti og virkja þannig auðlind sem sannarlega er sjálfbær og eykst frekar ef á hana er gengið, hugvitið. Höfum í huga að þar sem menntað fólk sest að og fær störf við hæfi munu sprotar vaxa og nýjungar fæðast en það eru forsendur fyrir hagvexti.

Til þess að slík stefna gangi upp þarf Ísland að vera ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk. Að mörgu leyti er Ísland spennandi en einum þætti er þó verulega ábótavant og það eru kjörin. Eftir kjaraskerðingu undanfarinna ára er ljóst að þau þarf að bæta svo um munar til þess að tryggja samkeppnishæfni Íslands og forsendur fyrir hagvexti til framtíðar. Þar þarf að leiðrétta þær skerðingar sem orðið hafa og síðan að tryggja eðlilega kaupmáttaraukningu.

Forsætisráðherra lét nýverið þau orð falla að árið 2014 yrði staðan á Íslandi betri en öll undangengin ár. Við hljótum að vona að svo verði og vera reiðubúin að leggja okkar af mörkum til að tímamótaósk ráðherrans rætist. Það mun þó ekki gerast nema íslensk stjórnvöld og vinnumarkaður marki sér nýja stefnu, horfi til framtíðar og virki hugvitið.

Tækifærið er núna, okkar er að grípa það.

Grein þessi birtist á visir.is þann 31.12.13. Í Fréttablaðinu birtist hins vegar grein eftir annan höfund undir sömu fyrirsögn og mynd.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 12.11.2013 - 20:15 - Lokað fyrir ummæli

Heiðurslaun listakvenna?

Ummæli þingmannsins Vilhjálms Árnasonar um laun hljóðfæraleikkvenna vekja hjá mér svipaða tilfinningu og „finndu fimm villur“ myndir í krossgátublöðum. Stenst eiginlega ekki mátið að prófa mig við þessa þraut.

1. villa: Dagvinnulaun eru afar vafasöm stærð þegar verið er að fjalla um laun lögreglumanna (eða þá kvenna eins og í þessu tilviki) í samanburði við aðrar stéttir. Margt hefur orðið til þess í gegnum tíðina að stór hluti launa þeirra fellur utan þeirrar skilgreiningar, t.d. uppbygging lífeyriskerfisins, samningar um greiðslur vegna álags og fleira. Lögreglufólk gengur vaktir utan dagvinnu og þ.a.l. er stór hluti launa er annað en „dagvinna“. Líkurnar á því að samsetning launa hljóðfæraleikara í Sinfóníunni sé mjög sambærileg við lögreglukonur, eru litlar.

2. villa: Hvað er með þennan samanburð á konum í þessum hópum? Er mjög óhagstætt að fjalla um launasamanburð milli lögreglumanna og -kvenna? Það ættu að vera mjög sambærilegir hópar sem samkvæmt öllum málefnalegum rökum ættu að hafa sömu laun að öðru óbreyttu. Af hverju er nærtækara að ræða tónlistarkonur í þessu samhengi?

3. villa: Heiður sem laun fyrir starf. Er ekki tímabært að hætta að þrugla um slíkt þegar listamenn eru annars vegar? Þetta fólk er ekki að leika sér. Nú er t.d. gífurlegur heiður að fá að vera forseti þjóðríkis. Hversu mikinn afslátt ættum við að setja á þau laun miðað við það? Hafa það ókeypis kannski? Svo er mjög eftirsóknarvert að leiða ríkisstjórn. Sem minnir mig á annað; þegar kona var í því hlutverki hérlendis, var sett bann við að aðrir ríkisstarfsmenn fengju hærri laun en hún. En það er önnur saga og efni í annan „finnið fimm villur“ leik.

4. villa: Tvíhyggjan löggæsla/heilbrigðisþjónusta vs. listir er ótrúlega þreytt. Allt þetta eru grundvallaratriði í farsælu þjóðfélagi. Það þýðir ekki að stilla þessu upp sem annað hvort eða. List er ekki dund sem menn geta fyrst leyft sér þegar löggæsla og heilsuvernd hefur náð fullkomnun. Kennsla og ástundun listgreina hefur mjög mikið með andlega og líkamlega líðan fólks að gera. Það er t.d. til heilbrigðisgrein sem heitir músíkþerapía og það ku hafa jákvæð áhrif á umgengni opinberra rýma að skreyta þau listaverkum hvort sem er fyrir eyru eða augu. Heimurinn er ekki svarthvítur, listamenn framleiða verðmæti og gera gagn.

5. villa: Laun langflestra ríkisstarfsmanna eru lág (þótt dómarar, forsetinn og ráðherrar mælist kannski þokkalega í innlendum samanburði þá fellur fljótt á silfrið ef launin eru borin saman yfir höf við sambærilega hópa). Við ættum endilega að ræða þann vanda, en spurning hvort það skilar miklu að einblína á einstaka hópa innan tiltekinna stétta, eins og konur í löggunni og sinfó.

6. villa: Menntun er ekki ókeypis. Það er mikil fjárfesting að baki því að ná sér í langskólamenntun. Fjöldi ára á námslánum og/eða afar lágum launum og að þeim loknum háar endurgreiðslur vegna námslánanna. Þó maður hafi lært eitthvað sem manni þykir gaman (sem ég vona að flestir geri) þá er ekki hægt að krefja mann um að þiggja lág laun gleðinnar, eða heiðursins vegna. Það má alveg vera launamunur á langskólagengnum og öðrum, fyrir því eru málefnalegar ástæður.

7. villa: Þingmaðurinn virðist misskilja hugtakið heiðurslaun listamanna. Það vísar ekki til afsláttar vegna ánægjunnar sem fylgir því að mega vinna í eftirsóttri hljómsveit.

Að lokum er kannski rétt að hrósa því sem gott er að þingmaðurinn bendir á: Sinfóníuhljómsveitin er mjög góð og starf lögreglukvenna er ómetanlegt.

—–

Viðbót: mér voru að berast upplýsingar um heildarlaun lögreglufólks og sinfóníufólks, sem ég verð bara að hnýta hér aftanvið (sjá 1., 2. og 6. villu):

Meðalheildarlaun kvenna innan Landssambands lögreglumanna: 511.947; konur í Sinfóníuhljómsveitinni: 433.960

Launamunurinn er á heildina litið þannig að hljóðfæraleikkonur eru með 77.987 krónum lægri laun en lögreglukonur.

Karlar í SÍ eru með 161.346 krónum lægri heildarlaun en lögreglumenn (444.640 vs 605.986).

Launamunur kynja innan SÍ (dagvinna og heildarlaun): 2,75% og 2,46%

Launamunur kynja hjá lögreglunni (dv og hl): 10,23% og 18,37%

Sinfóníuhljómsveitin gerir kröfur um a.m.k. 7 ára nám umfram lögregluna.

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Tónlist

Þriðjudagur 5.11.2013 - 13:46 - Lokað fyrir ummæli

Vits er þörf, dælt er heima hvat

Ísland er eyland, heimkynni fámennrar þjóðar. Fámennrar, en um leið fróðleiksfúsrar og metnaðargjarnrar þjóðar, góðu heilli.

Svo lengi sem elstu menn muna höfum við Íslendingar sótt okkur menntun og þekkingu út fyrir landsteinana. Það háttalag er ekki einvörðungu eðlilegt, heldur beinlínis nauðsynlegt jafn fámennu samfélagi. Okkur ber öllum að þakka þeim sem freista gæfunnar við nám og störf handan hafs og draga þannig björg í okkar sameiginlega þjóðarbú.

Nú hefur formaður fjárlaganefndar Alþingis viðrað þá (að vísu einka-) skoðun að kannski væri rétt að refsa fólki fjárhagslega sem ekki skilar sér heim til Íslands að loknu námi erlendis.
Allir eiga vitaskuld rétt á sinni skoðun, en þegar formaður fjárlaganefndar er annars vegar er alltaf ákveðin hætta á því að skoðun verði að tillögu sem síðar verði jafnvel að framkvæmd.

Haldið ykkur heima

Námslán og endurgreiðsla þeirra eru ytra samhengi skoðunar formanns fjárlaganefndar um refsiaðgerðir. Námsmenn sem taka lán hjá LÍN verði semsagt látnir gjalda sérstaklega fyrir það að sækja ekki bara menntun, heldur líka starfsreynslu, út fyrir landsteinana.

Ekki hefur að mínu viti verið útlistað hversu lengi fólk þyrfti að dvelja erlendis að námi loknu til að lenda í refsiaðgerðum. Síst vildi ég eiga sæti í þeim hópi sem falið yrði að draga rautt strik í það gráa svæði sem aðskilur lok náms og upphaf starfs, hvað þá þegar horft er til margra ólíkra landa.

Fjárfesting í menntun – hvað borgar sig?

Námslán eru bara hluti þeirrar fjárfestingar sem snýr að menntun þjóðarinnar. Það geta vart talist fagleg vinnubrögð að taka upp „latningar“-kerfi til náms, af þeirri tegund sem útlandaálag á námslánaendurgreiðslur yrði. Enda mjög varhugavert að reyna að stuðla að því að allt sé kennt í heimahögum hjá þjóð sem ekki nær hálfri milljón að fjölda. Sumt er ekki bara gott, heldur líka nauðsynlegt, að sækja yfir bæjarlækinn.

Varúð, útlönd

Vilji stjórnvöld hvetja fólk til að hverfa heim til starfa að námi loknu væri þeim nær að setja upp hvatakerfi í þeim tilgangi. Slíkt þekkist víða erlendis, í ýmsum útfærslum.

Að bregðast við varnaðarorðum um hættu á atgervisflótta frá landi sem býr við ósamkeppnishæfan vinnumarkað vegna gjaldeyrishafta og einangrandi aðstæðna með því að hóta fólki refsingum – er auðvitað fullkomlega fráleitt. Ekki síst í ljósi fjölda ályktana og ábendinga um að efling nýsköpunar og þekkingar  – með tilheyrandi tengslum við umheiminn – sé lykillinn að aukinni farsæld Íslands til framtíðar, forsenda fyrir árangursríkri framþróun.

Hvernig væri að laga frekar þjóðarbúskapinn, opna hagkerfið og efla vinnumarkað fyrir háskólamenntaða? Það væri þó eitthvað ofan á brauð.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.5.2013 - 12:45 - Lokað fyrir ummæli

Nagað bílsæti og slanga í munn

Undanfarið – sérstaklega um helgar – hafa leitað á mig spurningar um tilgang fréttatíma, og fréttamat. Hvað er fréttnæmt, hver ákveður það og hvers vegna?

Oftast gerist þetta þegar ég er ein með barni í bíl. Börn hafa oft lítið um það að segja hvert þau fara og hvers vegna, eru bara bundin í sinn stól og mega láta sér lynda það útsýni sem rennur framhjá gluggunum. Þau verða líka (oft) að gera sér að góðu það útvarpsefni sem foreldri velur. Hluti af því er gjarnan fréttalestur.

Fréttalestur: rödd sem rekur – oft í smáatriðum – frásagnir af fólki sem springur í loft upp í verslunarferð, kremst í hrundu húsi, brennur inni, er numið á brott. Oftast er það sem fyrir fólk kemur neikvætt, alltof sjaldan þykir fréttnæmt að einhver hafi fengið góða hugmynd eða bara fengið að gera eitthvað skemmtilegt. Það eru háar kröfur til góðra frétta – þær þurfa að vera mjög góðar – til að þær rati í opinberan lestur. Slæmar fréttir virðast ekki þurfa að vera merkilegar.

Eru þetta kannski grýlusögur nútímans? Það var barn í dalnum sem datt oní gat. Vingur slyngur vara þína fingur?

Ég brá við skjótt um daginn og lækkaði í útvarpinu á meðan þulurinn lýsti því hvernig maður var bundinn í stól, slanga sett upp í hann og vatni hellt um hana þar til honum lá við köfnun (Guantanamo?). Mér fannst alveg óþarfi að 5 ára guttinn væri að hlusta á þessa sögu. Hækkaði aftur fljótlega, en þá voru óvart börn að springa í loft upp, lækkaði aftur. Hækkaði svo á ný og þá var verið að nema stúlku á brott. Stráksi vildi vita af hverju ég hefði slökkt. „Æ, þetta eru bara svo ljótar sögur fyrir þig að hlusta á. –  „Já, en það er engin mynd og ekkert blóð sem ég sé svo það er allt í lagi“, sagði hann. Ég var ósammála, sagði að hann væri nú með svo frjótt ímyndunarafl að hann sæi þetta allt fyrir sér, svo það breytti í raun ekki miklu hvort myndin væri með eða ekki.Hann keypti þau rök.

Nú verða þuldar hörmungar

Kannski ættu þulirnir ekki að segjast lesa fréttir, heldur vara sérstaklega við í upphafi lestrar, t.d. með orðunum: „Útvarp Reykjavík, nú verða þuldar hörmungar.“ Þá gæti fólk bara valið að slökkva. Eða hafa sér innslög, svona eins og íþróttir eða veður. Eða láta sér nægja að segja: til átaka kom í Langtíburtistan þar sem andstæðar fylkingar stríða nú um stundir. Nánari lýsingar á voðaverkum er að finna á vef Ríkisútvarpsins.

Ég viðurkenni alveg þann tilgang frétta að upplýsa fólk um gang heimsmálanna. Það er gott að vita ýmislegt, en að sama skapi er gott að heyra jákvæðar fregnir. Passa aðeins upp á jafnvægið. Svo er kannski óþarfi að vera mjög grafískur í hörmungalýsingum. „Notað var nælonsnæri til að binda manninn“ – þarf ég að vita það? Gætum við ekki nýtt tímann sem myndi losna við að sleppa grafískum lýsingum á voðaverkum í að fjalla málefnalega um landsins gagn og nauðsynjar?

Stundum er jú gúrka, frá fáu að segja. Þá fyndist mér alveg í lagi að menn segðu bara eins og er: það er ekkert sérstakt í fréttum, haldið þið bara áfram að vera frábær og við látum ykkur vita þegar eitthvað gerist.

Þeir gætu jafnvel bara farið með gamanmál, frekar en að lesa oft á dag, eins og gerðist einhverja helgina um daginn: „Drukkinn maður var handtekinn á Selfossi í nótt. Meðal þess sem hann gerði, eftir að hann var tekinn upp í bílinn hjá Lögreglunni, var að naga áklæðið á bílsætinu svo á því sá.“

Þarf ég að vita þetta?

Flokkar: Dægurmál

Miðvikudagur 1.5.2013 - 11:55 - Lokað fyrir ummæli

1. maí – framtíðarsýn Bandalags háskólamanna

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2013

Íslenskur vinnumarkaður er auðlindadrifinn, framleiðni lág og vinnutími langur. Þannig má í stuttu máli draga saman niðurstöður greiningar McKinsey-ráðgjafahópsins, sem gaf frá sér skýrslu um hagsæld og vaxtarmöguleika Íslands síðastliðið haust. Sóknarfæri felast öðru fremur í eflingu hins alþjóðlega hluta vinnumarkaðarins, sem ekki er háður landfræðilegum auðlindum. Það kallar á hærra menntunarstig og markvissara samspil menntunar og atvinnulífs.

Framleiðnivandinn er ekki hvað síst í verslun og þjónustu, þar er hagnaður af unnum tímum hvað minnstur. Uppbygging á vinnumarkaði verður að horfa til þess að störf færist frá þessum geira frekar en að bætast þar við. Í alþjóðlegum samanburði á Ísland langt í land hvað varðar áætlanagerð og stefnumótun til langs tíma. Vertíðarhugsun á vissulega sinn sess í sögu okkar hvað varðar lífsafkomu í harðbýlu landi, en hraðar breytingar á undanförnum áratugum ættu þó að leiða okkur inn á nýjar brautir. Að vinna mikið og vinna hratt er ekki lengur eina forsendan fyrir því að komast af og alls ekki vænlegt til árangurs þegar samkeppni við nágrannalöndin er annars vegar.

Framþróun á vinnumarkaði
Það er mat Bandalags háskólamanna (BHM) að áherslubreyting þurfi að verða í stefnumótun á íslenskum vinnumarkaði. Háskólamenntuðu vinnuafli fer ört fjölgandi og því er brýnt að tillit sé tekið til þess við áætlanagerð í kjaramálum á öllum sviðum. Markviss fjölgun starfa á íslenskum vinnumarkaði má alls ekki horfa fram hjá þessum hópi, enda myndi slíkt bitna á öllum, ekki síst ófaglærðum. Það mun ekki ganga til lengdar að treysta á að vinnumarkaður háskólamenntaðra verði til af sjálfu sér, eins og hingað til hefur verið gert.

Uppbyggingu starfa fyrir háskólamenntaða, hvort sem hún er undir merkjum nýsköpunar, sprotastarfs eða skapandi greina, ber síst að skoða sem atlögu að hefðbundnum starfsgreinum. Þvert á móti er það mikill styrkur þegar saman fer rótgróin starfsemi og ný færni.

Kjör og réttindi
Sögulega séð hefur stærsti viðsemjandi aðildarfélaga BHM verið hið opinbera. Undanfarin ár hefur orðið mikil fjölgun félagsmanna á almennum vinnumarkaði, auk þess sem störf hjá hinu opinbera færast frá því að teljast ófaglærð í að krefjast fagþekkingar. Þessar breytingar kalla á nýja nálgun við samningagerð, enda verður samkomulag um laun háskólamenntaðra, hvort sem er á almennum eða opinberum vinnumarkaði, að endurspegla að söluvaran er sérfræðiþekking. Kjarasamningar sem byggja á hugmyndafræði uppmælingar eru illa næmir á verðmæti þekkingar.
Þennan tiltekna upphafsdag maímánaðar hlýtur forysta launafólks að vera meðvituð um framkomnar hugmyndir um nýja þjóðarsátt. Ef víxlverkanir launahækkana og gengisfellinga eru að bresta á verður sú samræða óhjákvæmileg.

Og þennan maídag, nú sem fyrr, svífur landlægur launamunur kynja yfir vötnum og virðist ekki ætla að hypja sig í bráð. Mun þjóðarsátt um kjör fela í sér samkomulag um stöðnun eða afturför í jafnréttismálum? Og mun ný þjóðarsátt, eins og sú fyrri og nýlegur stöðugleikasáttmáli frá 2009, verða á kostnað háskólamenntaðs millitekjufólks? Getur einhver sætt sig við það?

Forsenda fyrir bættum réttindum á vinnumarkaði er blómlegt atvinnulíf sem horfir til framtíðar. Hagsæld á vinnumarkaði byggir á sterku menntastigi og góðri nýtingu þekkingar á öllum sviðum.

Íslenskur vinnumarkaður verður að nýta vaxtarmöguleikana sem fylgja hækkuðu menntastigi og framsækinni þróun starfa sem ekki byggja á nýtingu náttúrugæða. Ef það mistekst mun umræða framtíðarinnar um velferð á vinnumarkaði einkennast af stöðnun.

Horfum því fram á veginn, mótum trúverðuga framtíðarsýn og nýjar áherslur á grunni sterkara samspils menntunar og vinnumarkaðar.

483600_10200843575562074_486605172_n

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Fimmtudagur 25.4.2013 - 11:50 - Lokað fyrir ummæli

Eflum heilsugæslu með aðkomu fleiri heilbrigðisstétta

Grein þessi birtist á visi.is þann 25. apríl 2013

Ég er ein þeirra sem óttast að íslensk heilbrigðisþjónusta missi marks í nærþjónustu og forvörnum. Öryggisnet heilsugæslunnar er of gisið, sem leiðir til aukins álags á bráðaþjónustu. Bráðaþjónusta er dýr, ef við missum strauminn þangað í of miklum mæli, er hætt við því að lítið fé verði aflögu í úrræði sem þó eru mun hagkvæmari. Hér verða að verða vatnaskil, afgerandi og fljótt.

Blínt á sömu lausnir, gengur það til lengdar?

Umræða um heilsugæslu, skilvirkni hennar og nýtingu, fer að mínu mati of oft að snúast um stöðu lækna og skort á læknum. Vandi heilsugæslunnar er víðtækari en svo og leit á lausn hans kallar á aðkomu fleiri stétta.

Ástæður fyrir komu í heilsugæslu eru mjög oft stoðkerfiseinkenni og vandi af geðrænum toga. Snemmtæk íhlutun er í báðum þessum tilfellum afgerandi hvað framhaldið varðar, hvort unnið er með fólki í að snúa við ferlinu og þannig fyrirbyggja komur í bráðaþjónustu síðar. Heilsugæslan þyrfti í auknum mæli að vera „one stop shop“, þar sem breiður hópur fagfólks mannar fyrstu heimsókn. Í tilfelli stoðkerfis- og geðrænna viðfangsefna, myndi t.d. aðkoma sjúkraþjálfara og sálfræðinga í heilsugæslunni vera styrkur.

Teymisvinna, samstarf sérfræðinga úr nokkrum stéttum með ólíkan grunn og reynslu, snýst ekki um að ein stétt taki verkefni af annarri, heldur að þær vinni saman og stytti úrvinnslutíma og fækki komum þeirra sem þjónustunnar njóta.

Forvarnir og heilsuefling spara tíma, fé og krafta

Einstaklingur sem finnur til heilsubrests er í dag alltof einsamall með sinn vanda og leið hans milli heilbrigðisstofnana og –starfsfólks er oft löng áður en lausnin finnst. Gífurlegur sparnaður í þjóðhagslegu tilliti felst í því að stytta þennan tíma. Fækka stoppistöðum, fækka tímabilum þar sem beðið er eftir lausum tíma, eyða óvissu og óvirkni.

Ef fjármagn á að vera á lausu til forvarna og heilsueflingar, þarf að stemma stigu við óþörfu álagi á bráðastiginu, sem er hlutfallslega dýrast. Inngrip áður en til skurðaðgerða kemur er dæmi um slíkt og snerpan í því ferli byggir á skilvirkri heilsugæslu.

Langtíma stefnumótun byggir á breiðri aðkomu, opinni samræðu og skýrri sýn
Það þýðir ekki að ræða þessi mál í lokuðum sellum stakra stétta eða í átökum milli stríðandi fylkinga í pólitík. Það þýðir ekki heldur að ræða það á grunni algjörs langtímastefnuleysis í heilbrigðismálum. Slíkt ástand grefur undan trausti og skapar varnarstöðu þar sem hver reynir að halda sínu. Þar er þessi umræða stödd núna og verður áfram ef ekkert breytist.

Grundvöllur langtímastefnu eins og hún blasir við mér er þessi: hér er fámenn þjóð að reka heilbrigðiskerfi í háum gæðaflokki. Það kostar. Til að við höfum efni á því þarf að hagræða, því ekki viljum við slá af gæðunum.

Leiðin til hagræðingar er ekki að ýta kostnaði milli ráðuneyta, stofnana, húsa, hverfa eða landsvæða. Hagsýnn rekstur krefst heiltækrar stefnu, skilnings og samvinnu allra hagsmunaaðila og viðurkenningar á því að fjárfesting í heilbrigði er málefni allrar þjóðarinnar. Ég er til í svona samræður, hvað með kjósendur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.4.2013 - 08:49 - Lokað fyrir ummæli

Heilbrigði og menntun – grundvöllur Bjartrar framtíðar

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum þann 24. apríl 2013

Heilsa og þekking eru risastór mál, sem þó eru alltof sjaldan sett á oddinn í stjórnmálaumræðu.

Í ljósi þessa er rétt að biðjast afsökunar á afgreiða tvö risavaxin mál í 300 orða grein, en plássið er þröngt og tíminn stuttur, svo ég læt slag standa. Bendi á bjortframtid.is og býð fram beint samtal ef nánari upplýsinga er óskað.

Heilbrigði

Björt framtíð vill jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustu og efla til muna nærþjónustu. Annars vegar í heilsugæslunni með því m.a. að fleiri heilbrigðisstéttir eigi þar fastan sess. Hins vegar með öruggri sjúkrahúsþjónustu, annarri en þeirrar sérhæfðu sem sinnt er á Landspítala, í heimahéraði.

Í öllum tegundum heilbrigðisþjónustu þarf hlutur forvarna að aukast. Því fyrr sem gripið er inn, þeim mun minna þarf að reiða sig á hátækni- og neyðarþjónustu. Í þessu samhengi er forvarnarhugtakið víðtækt, t.d. hvað varðar undirbúning fyrir valkvæðar skurðaðgerðir. Góður undirbúningur eykur líkurnar á góðum og hröðum bata og styttir sjúkrahúslegu. Efla þarf samræmingu innan heilbrigðisgeirans, „kerfin“ þurfa að tala saman þannig að sjúklingar sitji ekki uppi með vandann við að halda utan um eigin mál.

Menntun

Að koma börnum til manns er kjarnastarfsemi þjóðfélagsins. Fjölbreytni og valmöguleikar á öllum sviðum menntakerfisins með vellíðan og námsánægju að leiðarljósi, eru mikilvæg frá leikskóla og uppúr. Virðingu fyrir störfum kennara þarf að auka og launakjör að bæta, þetta fólk geymir fjöregg okkar allra.

Brottfall úr framhaldsskólum er að verða klisja, lögum það áður en þolinmæði fyrir þeirri umræðu hverfur.

Fjöldi námsára að fyrstu háskólagráðu er meiri hér en í viðmiðunarlöndum, hann þolir endurskoðun.

Þekking er lykill að framþróun í atvinnulífinu, sérstaklega m.t.t. starfa sem ekki byggja á aukinni nýtingu náttúruauðlinda.

Framtíðin er löng, höfum hana bjarta.

 

Höfundur skipar 3. sæti á lista Bjartrar framtíðar í SV-kjördæmi.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.4.2013 - 04:58 - Lokað fyrir ummæli

Jarðtengt lýðræði er björt framtíð

Björt framtíð var meðal annars stofnuð til að efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórnsýslunnar.

Mótun tillagna

Dæmi um leiðir til þessa er málefnastarf BF sem fer fram allan sólarhringinn á www.heimasidan.is. Allir sem skrá sig þangað inn geta sett fram hugmyndir, gert athugasemdir við og/eða stutt hugmyndir annarra notenda vefsins, sem eru jafnt flokksbundið „framtíðarfólk“ sem aðrir.

Annað dæmi er framkvæmdin „Betri Reykjavík“ sem systur flokkur BF, Besti flokkurinn, hefur staðið að.

Efling umræðu

Grundvöllur bein unnar áherslu á Beint lýðræði er að mati BF upplýst umræða. Stjórnvöld verða að rækta þá umræðu með gegnsæi.

Beint lýðræði

Á grundvelli haldgóðra upplýsinga og upplýstrar og heiðarlegrar umræðu vill BF sýna í verki aukna nýtingu á beinu lýðræði og þannig jarðtengja stjórn landsins Beint ofan í grasrót.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.4.2013 - 07:54 - Lokað fyrir ummæli

Hættum að rífast, framtíðin er björt

Grein þessi birtist í bæjarblaðinu Hafnarfjörður þann 19. apríl 2013.

Þegar ég kaus síðast sem Hafnfirðingur fann ég atkvæði mínu ekki samastað. Samfélagið var í uppnámi og þar sem ég var ein þeirra sem vildi sjá afgerandi breytingar í stjórnmálum, var ég ósátt við að nýjungarnar sem spruttu upp víða um land skyldu ekki ná til bæjarins míns. Á Akureyri var í boði nýr listi, í Kópavogi var komið eitthvað næst best og Jón Gnarr var með alls konar í Reykjavík. Ég upplifði mína kosti sem skilti með tveimur örvum: hægri eða vinstri? Byltingar fortíðar og kreddur úr gömlum ritgerðum.

Það er óþægilegt að skila auðu og til að þurfa ekki að gera það í næstu Alþingiskosningum kom ég að stofnun frjálslynds, græns og mannréttindasinnaðs framboðs, Bjartrar framtíðar. Hópurinn sem að því stendur vill jafnframt bæta starfshætti á Alþingi, sem á síðustu árum hefur misboðið landsmönnum með því að eyða dýrmætum tíma í að rífast við sjálft sig um sjálft sig, með því að sýna fram á að kurteis og góð vinnubrögð má stunda þar jafnt og öðrum vinnustöðum.

Reddingar eða ráðdeild?

Björt framtíð er raunsær flokkur sem finnst alltof mikil orka fara í að viðhalda kerfi sem ekki virkar. efnahagskerfi okkar byggir á dýrkeyptri sjónhverfingu, íslenska krónan er ekki þess virði að loka landinu henni til verndar.

Björt framtíð treystir fólki og vill efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Grundvöllur þess er greiður aðgangur að upplýsingum um okkar sameiginlega heimilisrekstur, íslenska ríkiskassann. Í dag er hann, rétt eins flest önnur heimili, þjakaður af vaxtabyrði vegna óstöðugrar fortíðar. Sá kostnaður er næststærsti útgjaldaliðurinn í bókhaldi landsins.

Björt framtíð er grænn flokkur og vill vinna að uppbyggingu atvinnulífs án þess að sífellt sé gengið á dýrmæta náttúru. Með því að virkja eigin útsjónarsemi geta Íslendingar aukið hagsæld landsins, framtíðin er björt ef við gerum það.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.4.2013 - 21:01 - Lokað fyrir ummæli

Skakki turninn í Pisa og íslenskt efnahagslíf

Hið fræga mannvirki, klukkuturninn í Pisa er rómað fyrir fegurð og sérstöðu, laðar að sér ferðamenn og er vinsælt myndefni.

Hann er þó fyrst og fremst minnisvarði, um byggingalist, hönnun og verkfræði – bæði sem víti til varnaðar og sem dæmi um úrræðagæði og reddingar.

Bygging turnsins tók langan tíma og skiptist í áfanga með löngum hléum. Fljótlega eftir að verkið hófst fór byggingin að halla, undirstöðurnar gáfu sig. Ef ekki hefði verið fyrir aldarlangt hlé á framkvæmdum, sem gaf jarðveginum tíma til að festa sig í sessi, hefði byggingin fallið um sjálfa sig.

En byggingin hélt semsagt áfram, með þeirri varúðarráðstöfun að hver hæð var reist skökk – til að mæta hallanum á grunninum. Svo það er ekki nóg með að turninn sé skakkur, heldur er hann boginn líka.

Þetta er gullfallegur turn, sérviskulegur og ber merki um þrautseigju andspænis mótlæti. Hann er hins vegar afar viðkvæmur, haldið í sessi með fargi til að vega á móti halla og berjast gegn þyngdaraflinu og aðgangur að honum er takmarkaður. Og þótt hann eigi sér sannarlega verðugan tilgang, er það ekki í samræmi við upphaflegar áætlanir.

Ef undirstaðan er góð þarf ekki reddingar

Mér verður hugsað til skakka turnsins í umræðum um efnahagslífið þessa dagana. Þegar það er kallað skortur á stefnu að vilja treysta grunninn, en ekki bara setja stög til að redda næstu árum.

Efnahagslíf sem þarf gjaldeyrishöft, verðtryggingu og skuldaleiðréttingar getur varla talist hvíla á traustum grunni.

Því furða ég mig á því hversu mjög er tekist á um útfærslur á togvírum, tegundum af fargi og tímalengd aðgangstakmarkana í stað þess að ræða undirstöðuna.

Eða er það tabú að velta því upp að setja krónuna á safn, taka af henni myndir og setja á póstkort?

Og byggja svo nýjan turn – á góðum undirstöðum.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur