Laugardagur 24.6.2017 - 11:19 - FB ummæli ()

Takk fyrir mig!

Nú lýkur pistlaskrifum mínum hér á Eyjunni og ég þakka öllum þeim sem lesið pistlana mína.

 

Gangi ykkur vel.

 

Gunnar Alexander Ólafsson

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.5.2017 - 14:37 - FB ummæli ()

Bætum flugöryggi-minna þras!

Þessa dagana standa yfir malbikunarframvkæmdir á flugbrautum á Keflavíkurflugvelli og mun standa fram á haust. Þessar framkvæmdir er hluti að eðlilegu viðhaldi flugbrautanna. Það sem vakti athygli mína varðandi þessar framkvæmdir að ekki standi til að malbika SV/NA sem hefur staðið til að taka í noktun vegna lokunar flugbrautar með sömu stefnu á Reykjavíkurflugvelli.
Af hverju var ekki tækifærið nýtt til að tryggja betur flugöryggi á SV horni landsins og þessi braut malbikuð? Þessari spurningu verða samgönguyfirvöld að svara. Isavia áætlaði að það myndi kosta um 240 milljónir að gera NA/SV flugbrautina á Keflavíkurflugvelli nothæfa á ný en brautin var tekin úr notkun fyrir nokkrum árum. Í þessu sambandi má nefna að þegar Reykjavíkurborg keypti landskika af ríkinu suður af NA/SV flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli borgaði borgin hátt í hálfan milljarð fyrir landið. Ríkið hefur fengið fé til að sinna þessari framkvæmd en hefur ekki látið vera af því. Mér er það óskiljanlegt af hverju ríkisvaldið lætur ekki hendur standa fram úr ermum og klára að malbika þessa flugbraut.Það skyldi þó ekki vera að aðgerðaleysi samgönguyfirvalda að ganga frá þessu máli þjóni þeim tilgangi að ríghalda lífi í ömurlegt pólitíkst þras um framtíð Reykjavíkurflugvallar? Þessi framkvæmd getur ekki beðið endalaust og nú skora ég á ráðherra samgöngumála að tileinka sér mottó Nike og láta malbika NA/SV flugbrautina… Just do it!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.3.2017 - 22:28 - FB ummæli ()

Jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Þann 1. maí nk. mun nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu taka gildi, með það að markmiði .  að að takmarka kostnað notenda við ákveðið hámarksþak á 12 mánaða tímabili og fækka greiðslukerfum í heilbrigðisþjónustunni. Þó verður ekki öll heilbrigðisþjónusta undir þaki þessa nýja greiðsluþátttökukerfis því enn verða í gildi nokkur önnur greiðsluþátttökukerfi (fyrir lyf, þjálfun o.fl.).

Nokkur atriði þarf að staldra við í þessu nýja kerfi. Í fyrsta lagi eru þökin á hámarkskostnaði of há, en þau verða á bilinu 49.200-69.700 kr. (fer eftir notkun síðustu sex mánuða). Hámarkskostnaður aldraðra, öryrkja og barna verður lægri eða 46.467 kr. á ári. Að mínu mati eru þetta alltof háar tölur sem viðhalda  ójöfnum aðgangi að heilbrigðisþjónustu.

Í öðru lagi er nýja greiðsluþátttökukerfið flókið og ógagnsætt, ólíkt því sem á við um greiðslukerfi lyfja, sem er miklu einfaldara, fyrirsjáanlegra og gagnsærra. Það getur ekki verið tilgangurinn að gera kerfið ógagnsætt og því óskiljanlegt að nýja greiðslukerfið skuli ekki vera eins uppbyggt og greiðsluþátttökukerfi fyrir lyf sem allir skilja.

Til viðbótar hinu nýja greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er sem sé annað sér greiðslukerfi fyrir lyf, þar sem hámarkskostnaður einstaklinga er 62 þúsund á ári. Langflestir þeirra sem greiða hámarkostnað fyrir heilbrigðisþjónustu í nýja kerfinu munu einnig greiða hámarkskostnað fyrir lyf. Því getur hámarkskostnaður einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja orðið á bilinu 111 til 131 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili. Það eru alltof há mörk sem viðhalda ójöfnuði í aðgengi að heilbrigðisþjónustu, því tekjulægra fólk mun eiga í erfiðleikum að greiðasvo háar upphæðir..

Í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. um heilbrigðismál að draga skuli úr greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Ljóst er að ef þessar breytingar ganga eftir, mun heilbrigðiskostnaður vissulega lækka hjá einstaka sjúklingum sem verða fyrir miklum heilbrigðiskostnaði en á móti kemur að heilbrigðiskostnaður verulegs hluta almennings mun stórhækka.

Til viðbótar má benda á að hámarksþök á heilbrigðiskostnað á Íslandi eru miklu hærri en í Svíþjóð. Þar  greiðir enginn hærra en 3.300 SEK (um 39.000 ISK) á 12 mánaða tímabili fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu eða 1/3 af því sem Íslendingur getur þurftað greiða.

Að mínu mati er lag að lækka hámarksþök einstaklinga vegna heilbrigðiskostnaðar. Ef gera á alla opinbera heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa, þ.e. hlut einstaklinga,  getur það kostað ríkissjóð um 7 milljarða króna á ári. Það er markmið sem ber að stefna að, því þannig næst jöfnuður í aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Til að setja upphæðina í samhengi er hún svipuð þeirri upphæð sem einstaklingar sem eiga fjármagn í skattaskjólum, þyrftu að greiða í skatt af þessum fjármagnseignum, en gera ekki í dag.

Þegar hámarksgreiðslur notenda í heilbrigðisþjónustu eru orðnar þetta háar er ósanngjarnt að deila kostnaðnum á sjúklinga í stað þess að stærri hluti heilbrigðiskostnaðar dreifist á alla skattgreiðendur eins og gert er á hinum Norðurlöndunum, því það innifelur í sér ójafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Það er hægt að lækka útgjöld einstaklinga vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu og jafnvel gera þann kostnað að engu. Allt snýst þetta um vilja.

 

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. mars 2017

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2017 - 22:44 - FB ummæli ()

Það sem vantar!

Ég vil óska nýrri ríkisstjórn til hamingju og alls hins besta í sínum verkum. Ég hef lesið yfir stefnuyfirlýsingu hennar. Ég tilgreini þau atriði sem ég saknaði að lesa um í stefnuyfirlýsingunni.

Í fyrsta lagi er ekkert að finna um afturköllun á launahækkunum (45%) til þingmanna sem kjararáð ákvað eftir kosningar. Hækkunin er hrein móðgun við launafólk og lífeyrisþega. Þingmenn hækkuðu um á fjórða hundrað þúsund í launum á mánuði en grunnlífeyrir örorku- og ellilífeyris er 214-228 þúsund á mánuði. Þetta ber merki um að meirihlutinnn á alþingi er ekki í tengslum við kjör almennings.
Í öðru lagi vantar allt um húsnæðismál í stefnuyfirlýsinguna. Þar er ekkert að finna um átak fyrir ungt fólk um að eignast þak yfir höfuðið né um leigumarkaðinn, en leigendum hefur fjölgað um 50% á síðustu tíu árum. Húsnæðismál var eitt stærsta málið í kosningarbaráttunni í haust og nú segir ríkisstjórnin  pass í þessu mikilvæga máli.
Í þriðja lagi fann ég ekkert í yfirlýsingunni um aðgerðir til að hækka frítekjumark ellilífeyris. Frítekjumörkin voru lækkuð úr ca. 110 þúsundum í 25 þúsund þegar Eygló Harðardóttur var félagsmálaráðherra. Þessi aðgerð er frámunalega vitlaus, því hún letur fólk á besta aldri að halda áfram að vinna, því allar aukatekjur að 25 þúsund skerða lífeyrir á móti. Þetta dregur úr virkni eldri borgara og lífshamingju þeirra og getur fest þá í ákveðinni fátækragildru. Að auki gengur þetta gegn almennri skynsemi, því á vinnumarkaði er þensla og þessi aðgerð hefur þau áhrif að framboð vinnuafl minnkar og hætta er á að verðbólga fari á skrið.
Ég hef nefnt þrú dæmi um hvaða sýn birtist í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Með því að aðhafast ekkert varðandi launahækkanir til alþingismanna er verið að hlaða meira undir þá sem betur hafa það í þjóðfélaginu. Um leið er aðgerðum sleppt til að styðja við hópa sem hafa það erfiðara í samfélaginu, eins og að draga úr óvissu á húsnæðismarkaði eða hækka frítekjurmark á lífeyri til aldraðra.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. febrúar 2017.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.1.2017 - 20:39 - FB ummæli ()

Dekkri framtíð í boði Bjartrar Framtíðar!!!!!!!!!!!

Í þinglok fyrir jól samþykkti alþingi ný lög um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna (LSR) með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar. Það vakti athygli mína að þingmenn Bjartrar Framtíðar samþykktu breytingarnar á lögum um LSR því öll stéttarfélög opinberra starfsmanna voru mótfallin frumvarpinu. Björt Framtíð lagði mikla áherslu í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar í haust á að standa með almenningi og draga úr fúski. Því miður féllu þau á prófinu í þessu máli.

Lögin munu skerða lífeyrisréttindi allra opinberra starfsmanna sem eru yngri en 60 ára þar sem sk. bakábyrgð ríkisins sem samin var um í tengslum við stofnun A-deildar LSR er afnumin. Tilgangur laganna er að jafna launamun milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Frá því að ég man eftir mér hafa betri líf­eyrisréttindi opinberra starfsmanna verið notuð til að réttlæta lakari laun hjá hinu opinbera.  Sú lausn sem var samþykkt snýst um að í framtíðinni munu laun þeirra sem missa þessi réttindi verða bætt þannig að framtíðarlífeyrir þeirra skerðist ekki. Það er ekkert fast í hendi að slík hækkun á launum sé framundan og sporin hræða. Fyrir um 30 árum sömdu lögreglumenn um að falla frá verkfallsrétti sínum gegn því að þeir myndu njóta betri kjara. Lögreglumenn eru enn að bíða eftir efndum ríkisins á þeim samningi.

Að auki er engin trygging fyrir því að ávöxtun LSR verði með besta móti til að viðhalda réttindum sjóðsfélaga. Þvert á móti má benda á að LSR tapaði yfir 100 milljörðum í bankahruninu og samt eru sömu stjórnendur enn í sjóðnum og voru fyrr bankahrun.

Í umsögnum launþegasamtaka og annaravirtra aðila við frumvarpið komu fram athugasemdir um að frumvarpið brjóti ekki bara í bága við launasamninga heldur einnig við eignarréttarákvæði stjórnar­skrárinnar, þar sem hætta er á að að áunnin réttindi glatist ef ávöxtun framtíðar eða einhverjar aðrar forsendur fyrir óbreyttum lífeyri bregðist.  Nú þegar hefur stjórn Kennarasambands Íslands ákveðið að stefna ríkinu vegna þessa.

Ljóst er að ef gera á breytingar á lífeyriskerfi sem hefur áhrif á fjárhæðir lífeyris þegar fólk hefur töku lífeyris, þarf að gera þá breytingu í sátt og samlyndi við viðeigandi stéttarfélög.

Nær allir starfsmenn hins opinbera sem eru yngri en 60 ára koma til með að búa við óvissari lífeyrisréttindi og kjör eftir þessa jólagjöf þingmanna, m.a. frá Bjartri Framtíð. Það er umhugsunarvert að flokkur sem boðar bjartari tíma með blóm í haga hefur valdið áhyggjum og óvissu hjá þúsundum launþega. Framtíð þeirra er ekki björt heldur dekkri en þyrfti að vera.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 29. desember sl.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.12.2016 - 22:24 - FB ummæli ()

Dauðafæri klúðrað!

Á vef Velferðarráðuneytisins hefur verið lögð til kynningar og umsagnar ný reglugerð um greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu. Því ber að fagna að lög hafa verið samþykkt um þak á kostnað vegna heilbrigðisþjónstu sem nýja reglugerðin byggir á. Tilgangur reglugerðarinnar er að takmarka kostnað notenda heilbrigðisþjónustu við ákveðið hámarksþak á 12 mánaða tímabili. Með nýrri reglugerð munu greiðslukerfin í heilbrigðisþjónustu verða færri, þau einfölduð og fyrirsjáanleiki og gegnsæi aukið. Aftur á móti verða áfram í gildi nokkur greiðsluþátttökukerfi, eitt kerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir þjálfun, fjórða kerfið fyrir tannlækningar og fleiri kerfi fyrir flóknari þætti heilbrigðiþjónustu (eins og tæknifrjóvganir og lýtalækningar). Það má hrósa heilbrigðisyfirvöldum fyrir að setja hámarksþak á heilbrigðiskostnað.. Það eru þó nokkur atriði sem vert er að staldra við og endurskoða í drögum að reglugerð um greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu. Í fyrsta lagi verður að gagnrýna hið nýja kerfi fyrir það hversu há mörkin á hámarkskostnaði verða. Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að hámarkskostnaður einstaklinga á 12 mánaða tímabili geti verið á bilinu 49.200-69.700 kr. og fer eftir því hve mikið notandi notar þjónustuna sex mánuðum fyrir nýtt greiðslutímabil. Gert er ráð fyrir að hámarkskostnaður aldraðra, öryrkja og barna verði 46.467 kr. á ári. Þetta er of hátt, sérstaklega m.v. lífeyrisgreiðslur og þá staðreynd að flestir aldraðir og öryrkjar eru einnig með háan lyfjakostnað, bæði hámarkslyfjakostnað (41.000 kr.) sem og annan kostnað sem greiðsluþátttaka ríksins nær ekki til (verkja, svefn- og sýklalyf). Í öðru lagi ber að gagnrýna tillögur að nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu fyrir hve flókið það kerfi er og að það mismunar fólki eftir því hve mikið það notar kerfið. Það er ólíkt því sem gerist í greiðslukerfi lyfja sem er einfaldara kerfi og mismunar ekki fólki eftir því hve mikið það kaupir af lyfjum. Þ Hið nýja greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu er óþarflega flókið og ógegnsætt ólíkt greiðsluþátttökukerfi lyfja, sem er einfalt og allir skilja.
Langflestir sem munu greiða hámarkostnað vegna umræddrar heilbrigðisþjónustu greiða einnig hámarkskostnað vegna lyfja (62 þúsund á ári) og því getur hámarkskostnaður einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu (sem ríkið greiðir fyrir) og vegna lyfja orðið á bilinu 111 til 131 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili. Með þessu kerfi er kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum.
Í Svíþjóð er hámarksþak á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu um 1.100 SEK (um 13.500 ISK) á 12 mánaða tímabili og fólk greiðir að hámarki 2.200 SEK (um 27.000 ISK) fyrir lyf á 12 mánaða tímabil. Alls greiða Svíar almennt að hámarki um 3.300 SEK (um 40.000 ISK) á 12 mánaða tímabili fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf eða um 1/3 af því sem ráðherra boðar.
Í Noregi er hægt að velja um tvö greiðslukerfi, eiginkostnaðarkerfi 1 (NOK 2.185 eða um 29.000 ISK) og eiginkostnaðarkerfi 2 (NOK 2.670 eða um 35.000 ISK). Í báðum kerfum er þak á kostnaði (mishátt) en eiginkostnaðarkerfi 2 tekur til fleiri þátta í heilbrigðisþjónustu en kerfi 1. Bæði kerfin taka til komugjalda, lækniskostnaðar, röntgen, rannsókna auk lyfja.
Að mínu mati er boðuð reglugerð um greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu skref í rétta átt. Aftur á móti eru heilbrigðisyfirvöld að klúðra dauðafæri með því að hafa boðað hámark fyrir greiðslu á 12 mánaða tímabili alltof hátt. Til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um að sjúklingar búi við svipaðar aðstæður og í nágrannalöndum okkar þarf að lækka þakið. Það er lag til að lækka hámarksþakið og ég vona að heilbrigðisyfirvöld sýni meiri metnað í málinu en þau gera. Það hefur komið fram að boðaðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu eru ófjármagnaðar og geti kostað á bilinu 1,3-1,8 mill. Ég tel að með því að bæta við 700 milljónum ættum við að geta náð því að hafa kostnaðarþak vegna heilbrigðiskostnaðs og lyfja undir 100 þúsund krónum á 12 mánaða tímabili.
Ég endurtek því orð sem ég skrifaði á sínum tíma um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu: Þegar hámarskgreiðslur eru orðnar þetta háar er ósanngjarnt að deila kostnaðnum á sjúklinga í stað þess að stærri hluti heilbrigðiskostnaðar sé dreift á alla skattgreiðendur eins og gert er á hinum Norðurlöndunum.
Því vil ég hvetja heilbrigðisráðherra að standa í lappirnar og berjast fyrir lægri hámarksþökum á greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu og að hið opinbera greiði stærri hlut gegnum skattkerfið.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 16. desember 2016.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2016 - 20:54 - FB ummæli ()

Sláum þrjár flugur í einu höggi….

Nýtt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 var lagt fram á alþingi í byrjun mánaðarins. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. að fjármála- og efnahagsráðherra er veitt heimild til að selja húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir starfsemina.
Ég fagna því að þessi heimild er komin í fjárlög því ég hef aldrei skilið það til fulls af hverju héraðsdómur var staðsettur á besta mögulega verslunarstað í Reykjavík. Húsið við Lækjargötu býður uppá gríðarlega möguleika fyrir framsækna verslunar- og þjónustustarfsemi. Ég leyfi mér að segja að hús Héraðsdóms við Lækjargötu geti hentað vel sem verslunarhúsnæðií anda Magasin du Nord í Kaupmannahöfn.

Að mínu mati vantar í frumvarp til fjárlaga heimild til fjármálaráðherra til að nota hluta eða allt andvirði söluverðs sem fæst fyrir hús Héraðsdóms við Lækjargötu til að byggja nýtt og hentugt hús yfir starfsemi héraðsdóms. Ég legg til að nýtt hús undir starfsemi Héraðsdóms Reykjavíkur verði staðsett í nýrri byggingu á lóð sem tilheyrir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu og er í eigu ríkisins. Þessi umrædda lóð er gríðarlega stór og  er nýtt í dag undir bílastæði. Á lóðinni væi hægt að byggja stóra byggingu með bílakjallara sem gæti hýst alla starfsemi héraðsdóms sem og stjórnsýslubyggingar á vegum Innanríkisráðuneytisins eins og embætti Ríkislögrelgustjóra ásamt Fangelsismálastofnun.

Það tekur ákveðinn tíma að gera þarfagreiningu um hvernig hús héraðsdómur í Reykjavík þarf. Þegar sú þarfagreining liggur fyrir er hægt að hefja vinnu við að teikna nýtt hús og í framhaldi að hefja framkvæmdir. Þetta ferli gæti tekið þrjú til fjögur ár. Á þeim tíma eværi  hægt að selja húsið og áframleigja það undir starfsemi héraðsdóms þangað til nýtt hús verður tekið í notkun.

Gengi þetta eftir yrði niðurstaðan sú að héraðsdómur Reykjavíkur fengi nýtt og hentugra hús til að starfa í. Allar löggæslustofnanir á höfuðborgarsvæðinu yrðu staðsettar á einum stað. Miðbærinn fengi öflugt verslurnarhúsnæði sem myndi þjóna hlutverki sínu með prýði.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2016 - 19:27 - FB ummæli ()

Hlaðið undir einkarekstur

 

Um daginn birtist frétt um að heilsugæslan í Mosfellsbæ myndi hætta kvöld og helgarþjónustu fyrir íbúa á þjónustusvæði þess og þjónustan muni framvegis vera sinnt af Læknavaktinni í Kópavogi. Heilsugæslan í Mosfellsbæ er rekin af Heilsugæslu Höfðuborgarsvæðisins (HH) sem er opinber stofnun. Læknavaktin (LV) er einkarekið fyrirtæki sem sinnir heilsugæsluþjónustu samkvæmt þjónustusamningi við Velferðarráðuneytið um kvöld og helgarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Áhrifi þessarar boðuðu breytingar eru þau að íbúar á þjónustusvæði heilsugæslunnar í Mosfellsbæ þurfa að fara miklu lengri leið til að fá kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu og er því í raun um skerðingu að ræða á þjónustu. Annað og verra er að með þessari breytingu er verið að draga úr opinberri heilbrigðisþjónustu til að hlaða undir einkarekstur.
Það er með öllu óskiljanlegt að kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sé sérstaklega útvistað til einkafyrirtækis sem þar að auki er illa staðsett hvað almenningsamgöngur snertir. Læknavaktin fær um 376 milljónir á ári úr ríkissjóði. Nær allir læknar sem vinna á LV eru einnig starfsmenn HH og sinna sínum störfum hjá LV sem verktakar. Það er furðuleg ákvörðun að slíta kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslunnar frá HH og fela hana einkafyriræki þegar blasir við að  HH hefur fulla burði að sinna þessari þjónustu með öflugri hætti fyrir minna fé. HH rekur alls 15 heilsugæslustöðvar, ýmist í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Allar þessar stöðvar loka klukkan 18 en þá  tekur LV við allri læknisþjónustu heilsgæslu um kvöld og helgar. Læknavaktin er staðsett í leiguhúsnæði á Smáratorgi sem er ekki hentug staðsetning hvað almenningsamgöngur snertir. Aftur á móti rekur HH stóra heilsugæslustöð við Mjóddina sem er mjög hentug staðsetning út frá almenningssamgöngum. Með því að útvista kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu er verið að flækja þjónustustig, gera notendum erfiðara fyrir og gera þjónustuna dýari. Með því að færa kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu aftur til HH er hægt að spara á bilinu 50-60 milljónir á ári vegna minni leigugreiðslna og minni kostnaðar vegna yfirstjórnar og samningsgerðar.
Almennt er ég ekki mótfallinn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Ég tel að á ýmsum sviðum heilbrigðisjþjónustu geti einkarekstur þrifist vel eins og í tannlækna-, öldrunar – og sérfræðiþjónustu. Hins vegar er of langt gengið að slíta í sundur þjónustu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins með því að útvista kvöld- og helgarþjónustu og gera heilbrigðisþjónustuna torveldari og dýrari en ella. Betra væri að staðsetja kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslunnar í opinberri heilsugæslustöð eins nálægt bráðamóttöku LSH eins og gert er á Akureyri. Í þessu sambandi má nefna að talið er að 15% þeirra sem leita til bráðamóttöku Landspítalans (14-18 þúsund manns á ári) ættu með réttu að leita til heilsugæslu með sín mál.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2016 - 21:20 - FB ummæli ()

Þyrlurnar strax!

Nýlega bárust fréttir um að tvær af þrem þyrlum Landhelgisgæslunnar (LHG) væru ónothæfar og þurftu á viðgerð að halda og hefði því LHG eina þyrlu til umráða í nokkra daga til að sinna björgunar- sjúkra- og leitarflugi við Ísland. Þessar aðstæðuar hafa skapast nokkrum sinnum síðustu árin og við þannig aðstæður hefur danski flotinn sem sinnir gæslu við Færeyjar og Grænland siglt einu varðskipi sínu að Íslandsströndum svo að þyrla varðskipsins geti nýst sem varaþyrla fyrir LHG.

LHG hafði lengi vel eina björgunarþyrlu til umráða. Árið 1994 varð algjör bylting þyrlumálum LHG þegar keypt var til landsins TF-Líf, öflug og stór Super Puma þyrla (þá sjö ára gömul). TF Líf er enn í fullu fjöri þrátt fyrir að nálgast þrítugsaldurinn og hefur margborgað sig, bæði fjárhagslega  og sem  tæki til björgunar. Árið 2006 urðu tímamót í björgunar- og sjúkraþyrlusögu landsins þegar bandaríski flotinn lokaði flotastöð sinni á Keflavíkurflugvelli og við það hurfu fjórar Black Hawk björgunarþyrlur sem höfðu það hlutverk ef á þyrfti að halda  að bjarga orrustuflugmönnum og öðrum á vegum bandaríska hersins. Bandaríski flotinn sinnti einnig miklu björgunar- og sjúkraflugi við Ísland þó það hafi ekki verið aðalhlutverk sveitarinnar.

Til að mæta breyttum veruleika var gripið til þess ráðs að leigja þyrlu af sömu gerð og TF-Líf. LHG hafði þá til umráða minni þyrlu, TF-Sif en eftir að sú þyrla nauðlenti og eyðilagðist var ákveðið að leigja aðra þyrlu sömu gerðar og TF-LÍF. Í tæp níu ár hefur LHG því leigt tvær þyrlur fyrir um 550 milljónir á ári. Ef ákvörðun hefði verið tekin á sínum tíma að kaupa þessar þyrlur í stað þess að leigja væri búið að borga þær báðar upp að mestu leyti. Þetta mál  er  ekki merki ábyrgðar fjármálastjórnunar.   Við höfum í raun ekkert val. Samkvæmt þarfagreingingu sem gerð var á sínum tíma þurfum við að hafa að lágmarki fjórar þyrlur til umráða til að geta  haft a.m.k. tvær þyrlur í viðbragðsstöðu á hverjum tíma.

Nú ber svo við að verð á þyrlum sömu tegundar og LHG notar er í sögulegu lágmarki m.a. vegna erfiðleika í olíuiðnaði. Því legg ég til að í stað þess að borga hátt í 550 milljónir í leigu á þyrlum á ári, fái LHG heimild til að kaupa þrjár Super Puma þyrlur og þær verði borgarðar með 12 ára skuldabréfi með 4% vöxtum. Það yrði svipuð greiðslubyrði og núverandi leigugreiðslur á ári. Við þessa framkvæmd félli enginn aukakostnaður á ríkið og LHG hefði fjórar öflugar þyrlur til að sinna björgunar-, sjúkra- og leitarflugi við Ísland með öruggari hætti.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 17.11.2016

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.11.2016 - 23:02 - FB ummæli ()

Mál að linni….

Í meira en áratug hef ég fylgst með þróun starfsemi Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH) og skrifaði meistararitgerð í heilbrigðisstjórnun um sameiningu spítala í Reykjavík á sínum tíma. LHS er mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins, aðalsjúkrahúss þess og aðalkennslustofnun í heilbrigðisfræðum. Í dag fer aðalstarfsemi LSH fram á tveimur stöðum, við Hringbraut og í Fossvogi (gamli Borgarspítalinn). Síðan ákvörðun var tekin árið 2002 um að framtíðarstaðsetning spítalans eigi að vera við Hringbraut hefur svæðið verið hannað og skipulag þess samþykkt, byggingar hannaðar og framkvæmdir hafnar. Það sem meira máli skiptir er að hönnun stærstu byggingarinnar, sk. meðferðakjarna sem mun rísa við Hringbraut, er í fullum gangi og frumhönnun rannsóknarhúss hefur verið auglýst.

Ég hef verið hugsi yfir staðsetningu Landspítala og á köflum efins um hvort Hringbraut sé hentugasta staðsetningin. Fyrir um ári síðan gerði ég skýrslu um Landspítalann, þar sem m.a. var lagt til að byggður væri nýr spítali á nýjum stað. Undanfarna mánuði hef ég hins vegar sannfærst um að við eigum að reisa nýjar byggingar LSH við Hringbraut.  Þetta segi ég nú vegna þess að það er lífsnauðsynlegt fyrir faglega framþróun spítalans að nýjar bygginar rísi sem fyrst. Við erum nú þegar farin að missa af hæfu heilbrigðisstarfsfólki sem hefur menntað sig erlendis sem kýs heldur að starfa þar áfram í stað þess að koma heim í úreltar byggingar og lélega vinnuaðstöðu. Byggingaframkvæmdir nýs Landapítala þola ekki meiri töf eða lengri bið og að mínu mati eigum við að spýta í lófana og flýta framkvæmdum. Samkvæmt áætlunum er gert er ráð fyrir því að meðferðakjarninn verði ekki tekinn í notkun fyrr en árið 2023.

Það er stórskaðlegt fyrir framþróun og gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu að slá af eða tefja fyrirhugaðar framkvæmdir við Landspítala við Hringbraut til að byggja spítalann á nýjum stað. Það gæti tafið verkið um 10 ár, jafnvel lengur þar sem hefja þyrfti nýtt skipulagsferli, breytingar á svæðis- og aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga og deiliskipulagsgerð. Áður en að hægt væri að fara í hönnunarvinnu þyrfti að fara í frumathugunargerð sem tæki fimm ár.  Við frumathugun tæki við greiningarvinna (18 mánuðir) og svo áætlunargerð (fimm ár). Alls óvíst er hve mikið væri hægt að nota nýta þá vinnu sem þegar hefur verið unnin varðandi uppbyggingu á Landspítala. Umræðan um nýjan spítala á nýjum stað skilar okkur engu nema frestun á málinu sem við megum ekki við, því við megum engan tíma missa.

Því tel ég að við eigum að leggjast öll á eitt og sameinast um að byggja upp nýjan og öflugan Landspítala við Hringbraut sem  verði enn öflugri miðstöð heilbrigðisþjónustu, þróunar, vísinda, þekkingar, kennslu, innleiðingu nýrra meðferða og gæðaþróunar.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 28. október sl.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur