Fimmtudagur 17.11.2016 - 21:20 - FB ummæli ()

Þyrlurnar strax!

Nýlega bárust fréttir um að tvær af þrem þyrlum Landhelgisgæslunnar (LHG) væru ónothæfar og þurftu á viðgerð að halda og hefði því LHG eina þyrlu til umráða í nokkra daga til að sinna björgunar- sjúkra- og leitarflugi við Ísland. Þessar aðstæðuar hafa skapast nokkrum sinnum síðustu árin og við þannig aðstæður hefur danski flotinn sem sinnir gæslu við Færeyjar og Grænland siglt einu varðskipi sínu að Íslandsströndum svo að þyrla varðskipsins geti nýst sem varaþyrla fyrir LHG.

LHG hafði lengi vel eina björgunarþyrlu til umráða. Árið 1994 varð algjör bylting þyrlumálum LHG þegar keypt var til landsins TF-Líf, öflug og stór Super Puma þyrla (þá sjö ára gömul). TF Líf er enn í fullu fjöri þrátt fyrir að nálgast þrítugsaldurinn og hefur margborgað sig, bæði fjárhagslega  og sem  tæki til björgunar. Árið 2006 urðu tímamót í björgunar- og sjúkraþyrlusögu landsins þegar bandaríski flotinn lokaði flotastöð sinni á Keflavíkurflugvelli og við það hurfu fjórar Black Hawk björgunarþyrlur sem höfðu það hlutverk ef á þyrfti að halda  að bjarga orrustuflugmönnum og öðrum á vegum bandaríska hersins. Bandaríski flotinn sinnti einnig miklu björgunar- og sjúkraflugi við Ísland þó það hafi ekki verið aðalhlutverk sveitarinnar.

Til að mæta breyttum veruleika var gripið til þess ráðs að leigja þyrlu af sömu gerð og TF-Líf. LHG hafði þá til umráða minni þyrlu, TF-Sif en eftir að sú þyrla nauðlenti og eyðilagðist var ákveðið að leigja aðra þyrlu sömu gerðar og TF-LÍF. Í tæp níu ár hefur LHG því leigt tvær þyrlur fyrir um 550 milljónir á ári. Ef ákvörðun hefði verið tekin á sínum tíma að kaupa þessar þyrlur í stað þess að leigja væri búið að borga þær báðar upp að mestu leyti. Þetta mál  er  ekki merki ábyrgðar fjármálastjórnunar.   Við höfum í raun ekkert val. Samkvæmt þarfagreingingu sem gerð var á sínum tíma þurfum við að hafa að lágmarki fjórar þyrlur til umráða til að geta  haft a.m.k. tvær þyrlur í viðbragðsstöðu á hverjum tíma.

Nú ber svo við að verð á þyrlum sömu tegundar og LHG notar er í sögulegu lágmarki m.a. vegna erfiðleika í olíuiðnaði. Því legg ég til að í stað þess að borga hátt í 550 milljónir í leigu á þyrlum á ári, fái LHG heimild til að kaupa þrjár Super Puma þyrlur og þær verði borgarðar með 12 ára skuldabréfi með 4% vöxtum. Það yrði svipuð greiðslubyrði og núverandi leigugreiðslur á ári. Við þessa framkvæmd félli enginn aukakostnaður á ríkið og LHG hefði fjórar öflugar þyrlur til að sinna björgunar-, sjúkra- og leitarflugi við Ísland með öruggari hætti.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 17.11.2016

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur