Mánudagur 28.11.2016 - 19:27 - FB ummæli ()

Hlaðið undir einkarekstur

 

Um daginn birtist frétt um að heilsugæslan í Mosfellsbæ myndi hætta kvöld og helgarþjónustu fyrir íbúa á þjónustusvæði þess og þjónustan muni framvegis vera sinnt af Læknavaktinni í Kópavogi. Heilsugæslan í Mosfellsbæ er rekin af Heilsugæslu Höfðuborgarsvæðisins (HH) sem er opinber stofnun. Læknavaktin (LV) er einkarekið fyrirtæki sem sinnir heilsugæsluþjónustu samkvæmt þjónustusamningi við Velferðarráðuneytið um kvöld og helgarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Áhrifi þessarar boðuðu breytingar eru þau að íbúar á þjónustusvæði heilsugæslunnar í Mosfellsbæ þurfa að fara miklu lengri leið til að fá kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu og er því í raun um skerðingu að ræða á þjónustu. Annað og verra er að með þessari breytingu er verið að draga úr opinberri heilbrigðisþjónustu til að hlaða undir einkarekstur.
Það er með öllu óskiljanlegt að kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sé sérstaklega útvistað til einkafyrirtækis sem þar að auki er illa staðsett hvað almenningsamgöngur snertir. Læknavaktin fær um 376 milljónir á ári úr ríkissjóði. Nær allir læknar sem vinna á LV eru einnig starfsmenn HH og sinna sínum störfum hjá LV sem verktakar. Það er furðuleg ákvörðun að slíta kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslunnar frá HH og fela hana einkafyriræki þegar blasir við að  HH hefur fulla burði að sinna þessari þjónustu með öflugri hætti fyrir minna fé. HH rekur alls 15 heilsugæslustöðvar, ýmist í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Allar þessar stöðvar loka klukkan 18 en þá  tekur LV við allri læknisþjónustu heilsgæslu um kvöld og helgar. Læknavaktin er staðsett í leiguhúsnæði á Smáratorgi sem er ekki hentug staðsetning hvað almenningsamgöngur snertir. Aftur á móti rekur HH stóra heilsugæslustöð við Mjóddina sem er mjög hentug staðsetning út frá almenningssamgöngum. Með því að útvista kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu er verið að flækja þjónustustig, gera notendum erfiðara fyrir og gera þjónustuna dýari. Með því að færa kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslu aftur til HH er hægt að spara á bilinu 50-60 milljónir á ári vegna minni leigugreiðslna og minni kostnaðar vegna yfirstjórnar og samningsgerðar.
Almennt er ég ekki mótfallinn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Ég tel að á ýmsum sviðum heilbrigðisjþjónustu geti einkarekstur þrifist vel eins og í tannlækna-, öldrunar – og sérfræðiþjónustu. Hins vegar er of langt gengið að slíta í sundur þjónustu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins með því að útvista kvöld- og helgarþjónustu og gera heilbrigðisþjónustuna torveldari og dýrari en ella. Betra væri að staðsetja kvöld- og helgarþjónustu heilsugæslunnar í opinberri heilsugæslustöð eins nálægt bráðamóttöku LSH eins og gert er á Akureyri. Í þessu sambandi má nefna að talið er að 15% þeirra sem leita til bráðamóttöku Landspítalans (14-18 þúsund manns á ári) ættu með réttu að leita til heilsugæslu með sín mál.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur