Sunnudagur 01.01.2017 - 20:39 - FB ummæli ()

Dekkri framtíð í boði Bjartrar Framtíðar!!!!!!!!!!!

Í þinglok fyrir jól samþykkti alþingi ný lög um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna (LSR) með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar. Það vakti athygli mína að þingmenn Bjartrar Framtíðar samþykktu breytingarnar á lögum um LSR því öll stéttarfélög opinberra starfsmanna voru mótfallin frumvarpinu. Björt Framtíð lagði mikla áherslu í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar í haust á að standa með almenningi og draga úr fúski. Því miður féllu þau á prófinu í þessu máli.

Lögin munu skerða lífeyrisréttindi allra opinberra starfsmanna sem eru yngri en 60 ára þar sem sk. bakábyrgð ríkisins sem samin var um í tengslum við stofnun A-deildar LSR er afnumin. Tilgangur laganna er að jafna launamun milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Frá því að ég man eftir mér hafa betri líf­eyrisréttindi opinberra starfsmanna verið notuð til að réttlæta lakari laun hjá hinu opinbera.  Sú lausn sem var samþykkt snýst um að í framtíðinni munu laun þeirra sem missa þessi réttindi verða bætt þannig að framtíðarlífeyrir þeirra skerðist ekki. Það er ekkert fast í hendi að slík hækkun á launum sé framundan og sporin hræða. Fyrir um 30 árum sömdu lögreglumenn um að falla frá verkfallsrétti sínum gegn því að þeir myndu njóta betri kjara. Lögreglumenn eru enn að bíða eftir efndum ríkisins á þeim samningi.

Að auki er engin trygging fyrir því að ávöxtun LSR verði með besta móti til að viðhalda réttindum sjóðsfélaga. Þvert á móti má benda á að LSR tapaði yfir 100 milljörðum í bankahruninu og samt eru sömu stjórnendur enn í sjóðnum og voru fyrr bankahrun.

Í umsögnum launþegasamtaka og annaravirtra aðila við frumvarpið komu fram athugasemdir um að frumvarpið brjóti ekki bara í bága við launasamninga heldur einnig við eignarréttarákvæði stjórnar­skrárinnar, þar sem hætta er á að að áunnin réttindi glatist ef ávöxtun framtíðar eða einhverjar aðrar forsendur fyrir óbreyttum lífeyri bregðist.  Nú þegar hefur stjórn Kennarasambands Íslands ákveðið að stefna ríkinu vegna þessa.

Ljóst er að ef gera á breytingar á lífeyriskerfi sem hefur áhrif á fjárhæðir lífeyris þegar fólk hefur töku lífeyris, þarf að gera þá breytingu í sátt og samlyndi við viðeigandi stéttarfélög.

Nær allir starfsmenn hins opinbera sem eru yngri en 60 ára koma til með að búa við óvissari lífeyrisréttindi og kjör eftir þessa jólagjöf þingmanna, m.a. frá Bjartri Framtíð. Það er umhugsunarvert að flokkur sem boðar bjartari tíma með blóm í haga hefur valdið áhyggjum og óvissu hjá þúsundum launþega. Framtíð þeirra er ekki björt heldur dekkri en þyrfti að vera.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 29. desember sl.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur