Fimmtudagur 6.10.2016 - 20:48 - FB ummæli ()

Styrking heilsugæslunnar?

Umnæstu áramót verða teknar tvær nýjar heilsugæslustöðvar í notkun á höfuðborgarsvæðinu. Allajafnan er það fagnaðarefni að heilsugæslustöðvum fjölgi en framkvæmdin er einstaklega klúðursleg og því er spurning hvort tilefni sé til að fagna. Ástæðan er sú að ekkert nýtt fé fylgir þessari fjölgun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, heldur á að taka hluta af því fé sem rennur í dag til Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins til að fjármagna rekstur þessara nýju stöðva. Það kostar um 300 milljónir að reka eina heilsugæslustöð á ári á höfuðborgarsvæðinu og því mun það kosta um 600 milljónir að reka þessar tvær stöðvar. Þessar 600 milljónir er um 10% af útgjöldum Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og því mun stofnunin hafa um 10% minna fé til að reka þær 15 heilsugæslustöðvar sem stofnunin rekur á næsta ári. Ljóst er að tilkoma þessara nýju heilsugæslustöðva veikir rekstur þeirra fimmtán sem fyrir eru nema að viðbótarfjármagn komi til. Því má spyrja um hver sé tilgangur með þessari aðgerð? Tilkoma þessara stöðva gengur gegn þeirri viðleitni að styrkja heilsugæsluna á SV-horni landsins á þann hátt að hún geti orðið fyrsti viðkomustaður einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Í umræðunni undanfarið hefur komið fram að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (sem þjónar um 200 þúsund íbúum og þá eru erlendir ferðamenn ekki taldir með) vantar um 600 milljónir í rekstur til vera með samærilegt rekstrarfé og stofnunin hafði árið 2008. Síðan þá hefur íbúum í umdæmi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 17 þúsund. Enn undarlegra er sú staðreynd að Velferðarráðuneytið gerir ekkert í því að sameina alla heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu undir einn hatt þar sem ráðuneytið viðheldur sérstökum samningi við Læknavakt um vaktþjónustu lækna eftir lokun hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Þetta veldur óhagræði hjá notendum (fleiri þjónustuaðilar) og gerir rekstur heilsugæslu dýrari en þarf að vera (hærri leigu- og stjórnunarkostnaður). Óhægræðið kostar tugi milljóna sem hægt væri að nota í betri þjónustu við notendur. Óhægræði notenda felst m.a. í að staðsetning Læknavaktar er ekki miðlæg á höfuðborgarsvæðinu og er erfitt að komast þangað með almenningssamgöngum. Ég hvet alla ábyrga aðila til að gera heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu miðlæga, sameina þjónustur og veita meira fé til rekstrar þannig að heilsugæslan geti starfað sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu.  

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. október 2016.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2016 - 09:56 - FB ummæli ()

Öruggari leigumarkað-Eyðum óvissu og óöryggi meðal leigjenda

Nýjasta útspil ríkisstjórnar í húsnæðismálum hjálpar fáum að eignast sína fyrstu íbúð. Það hjálpar enn færri að nýta sér séreignarsparnað sem eru á leigumarkaði. Undanfarin ár hefur fjöldi þeirra sem búa í leiguhúsnæði aukist gríðarlega. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Fyrir nokkrum mánuðum lét félagsmálaráðherra gera könnun um hagi leigjenda. Í henni kom fram að um 60% leigjenda hafa búið í sama húsnæði skemur en tvö ár. Svo hátt hlutfall sýnir hve mikið óöryggi og óvissu leigjendur búa við á almennum markaði. Í könnuninni kom fram að á tímabilinu 2003-2015 jókst hlutfall leigjenda sem leigja af nauðsyn um 50%. Einnig sýndi könnunin að  leigjendur telja miklu erfiðara að fá leiguhúsnæði en árið 2003. Í stuttu máli sýndi könnunin að óöryggi og óvissa meðal leigjenda hefur aukist. Könnunin er í samræmi við þá þróun að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004.
Þeir leigjendur sem eru fyrir ofan ákveðin tekju- og eignamörk geta ekki leigt af opinberum aðilum (sveitarfélögum) og þar með tryggt sér og sínum öruggt húsnæði til langs tíma, heldur er þeim beint á almennan markað sem einkennist af háu leiguverði, stutts leigutíma og óvissu. Þessu fólki er haldið áfram, þrátt fyrir öll fögru fyrirheitin og aðgerðir í húsnæðismálum, á ótryggum leigumarkaði.

Það var óheillaskref og mjög misráðið þegar Íbúðalánasjóður seldi Leigufélagið Klett sem leigði einstaklingum og hjónum íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn átti, til langs tíma, á viðráðanlegu verði og óháð tekjum leigjenda. Klettur mætti brýnni þörf á íbúðaleigumarkaði með leigu á viðráðanlegum kjörum þar sem fjölskyldur gátu búið á sama stað til lengri tíma og verið laust við óöryggi og óvissu sem einkennir almenna leigumarkaðinn. Enda þótt Klettur hefði ekki yfir miklum fjölda íbúða að ráða var leigustarfsemin mikilvæg viðleitni af hálfu opinberra aðila til að auka öryggi leigjenda og draga úr óvissu þeirra sem einkennir markaðinn um þessar mundir.
Í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkir á marðanum núna hefði ríkisvaldið að mínu mati átt að taka þá ákvörðun að eiga Klett áfram, enn um sinn, í stað þess að selja félagið við þær aðstæður sem nú ríkja. Það er að mínu mati skylda opinberra aðila að tryggja öllu fólki, óháð tekjum, öryggt húsnæði. Ég vil berjast fyrir því að opinberir aðilar (sveitarfélög) fái stuðning til að byggja og reka húsnæði sem hefur það markmið að leigja öllum sem vilja án tekjutillits húsnæði til langs tíma á viðráðanlegu verði þannig að fjölskyldur geta búið við öryggi á leigumarkaði til langstíma.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2016 - 07:29 - FB ummæli ()

Endurreisum heilbrigðiskerfið!

 

Íslenska heilbrigðiskerfið stendur á tímamótum. Íslenska heilbrigðisþjónustan er mjög hátt skrifuð hvað gæði og árangur varðar í alþjóðlegum samanburði og innan þess starfar mjög faglegt starfsfólk. Heilbrigðisþjónustan býr við gamalt húsnæði, úrelt tæki og fjársvelti. Á næstu árum þarf að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fyrst og fremst þarf að auka hlut hins opinbera í fjármögnun á heilbrigðisþjónustu. Í dag er hlutur heilbrigðisþjónustu, bæði opinberra aðila og heimila um 8.7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þetta hlutfall er lægra en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Til að ná sama hlutfalli og gerist á hinum Norðurlöndunum þarf það að hækka í a.m.k. í 10,5% af VLF. Ef heilbrigðisútgjöld væru um 10,5% af VLF væru þau  um 35 milljörðum hærri en þau eru í dag. Það munar um minna. Það má skynja í umræðu í samfélaginu að vaxandi skilningur sé fyrir því  að auka fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar en það skiptir máli hvernig hugsanleg aukning þarf að skila sér til heilbrigðismála.
Í fyrsta lagi þarf að tryggja að kostnaðarþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu verði innan viðráðanlegra marka, þ.e. að heildarkostnaður einstaklings á ári verði ekki hindrun fyrir því að viðkomandi leiti til heilbrigðisþjónustu eða kaupi lyf. Þetta kallar á hagræðingu um leið og greitt verði fyrir ákveðna heilbrigðisþætti eins og sálfræðiþjónustu eða verkja- og sýklalyf sem í dag er fyrir utan greiðsluþátttöku ríkisins.
Í öðru lagi þarf að styrkja heilsugæsluna á SV-horni landsins á þann hátt að hún geti orðið fyrsti viðkomustaður einstaklinga í heilbrigðiskerfinu ef ekki þurfi á bráðaþjónustu að halda. Það þarf að gera fólki kleift að fá sinn „heimilislækni“ á sinni heilsugæslustöð og ef læknir vísar fólki áfram til sérfræðings verði það því að kostnaðarlausu. Aftur á móti standi fólki til boða að leita beint til sérfræðilækna en þá þurfi  að greiða hærra verð fyrir þá þjónustu. Það þarf að auka þjónustusvið heilsugæslunnar á þann hátt að í boði verði þjónusta sjúkraþjálfa, sál-, næringa- og heilsufræðinga sem sinna viðkomandi varðandi hreyfingu og mataræði.
Í þriðja lagi þarf að halda áfram með byggingaráætlanir á nýjum Landspítala við Hringbraut og setja kraft í framkvæmdir svo dýrmætur tími fari ekki til spillis við að taka nýja spítalann í notkun, öllum landsmönnum til góða. Til viðbótar framkvæmdum við nýjan spítala þarf að tryggja fé til tækjakaupa þannig að spítalinn búi jafnan við bestu tæki sem í boði eru.
Í fjórða lagi þarf að ráðast í byggingu á 80-100 hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu til að mæta gríðarlegri eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum. Vanræksla undanfarinna ára að bregðast við þessari þörf hefur haft þau áhrif að um 50 sjúklingar sem alla jafnan ættu að liggja í  hjúkrunarrýmum liggja „rúmfastir“ í dýrum rýmum á Landspítalanum. Ástandið varðandi hjúkrunarrými er einna verst á höfuðborgarsvæðinu. Þessu til viðbótar þarf að þróa nýjar leiðir, eins og samræmda þjónustu ríkis og sveitarfélaga við að veita eldri borgurum kost á að búa sem lengst í heimahúsum eins og hægt er með þróaðri félags- og hjúkrunarþjónustu.
Í fimmta lagi þarf að samræma betur sjúkraflutninga á landsvísu. Það eru margir aðilar sem sinna sjúkraflutningum á Íslandi, t.d. sér slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um sjúkraflutninga á því svæði og starfsmenn heilbrigðisstofnana á Vesturlandi sjá um sjúkraflutninga á því svæði. Í lofti sér Landhelgisgæslan um bráðaflutninga og stundum einnig almenna sjúkraflutninga en flestum sjúkraflutningum í lofti er sinnt af einkafyrirtæki sem á eina flugvél. Það er eðliegt að skoða hvort hægt er að samræma sjúkraflutninga í landinu betur í ljósi bættra samgagna og breyttra aðstæðna.

Flest ofangreindra atriða eru þess eðlis að þau kalla á meiri fjármuni til heilbrigðisþjónustu. Það er í samræmi við vilja um 85 þúsund Íslendinga sem skrifuðu undir ákall um meiri fjármuni í heilbrigðisþjónustu sem Kári Stefánsson stóð fyrir. Ef hærra hlutfall af VLF (eins og kemur fram að ofan) myndi ganga eftir, myndi sú fjárhagslega styrking fara langleiðina með að fjármagna alla ofangreinda þætti sem ég hef nefnt. 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.8.2016 - 12:09 - FB ummæli ()

Stefni á 3-4 sæti í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík!

Ég hef tilkynnt kjörstjórn Samfylkingar um þáttttöku mína í stuðningsmannavali Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna komandi alþingiskosninga haustið 2016.
Ég sækist eftir 3. – 4.  sæti í valinu.

Að mínu mati stendur Samfylkingin á tímamótum. Hún þarf nauðsynlega á því að halda að laða til liðs við sig nýja krafta, fólk sem tilbúið er til að berjast fyrir stefnumálum, áherslum og gildum norrænna jafnaðarmanna. Ástæða þess að ég vil taka þátt í vegferðinni framundan með Samfylkingunni er sú að ég hef einlægan metnað til að berjast fyrir réttlátara, sanngjarnara og betra Íslandi sem byggi á grunnstefi jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Ég hef góða reynslu og menntun til að berjast fyrir stefnu Samfylkingarinnar og áratugareynslu af grasrótarstarfi með jafnaðarmönnum. Til þess að Samfylkingin nái góðum árangri í næstu kosningum til alþingis þarf flokkurinn að fá hæfilega endurnýjun í þingmannaliði sínu og nýtt fólk.

Þau mál sem mér eru einkar hugleikin og ég vil leggja sérstaka áherslu á eru:

  • Heilbrigðismál
  • Félags- og húsnæðismál
  • Ríkisfjármál, skilvirkni og árangursríkari opinber rekstur
  • Neytendamál
  • Menntun og nýsköpun

 

Ég hef fjölbreytta menntun og starfsreynslu. Ég hef BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er bæði með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og í heilbrigðisstjórnun frá Norræna Heilsuháskólanum í Gautaborg. Árið 2009 fékk ég viðurkenningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem hagfræðingur.

Á skólaárum mínum starfaði ég m.a. á varðskipum, við byggingavinnu, fangavörslu og öryggisvörslu á alþingi. Einnig starfaði ég um árabil við markaðsmál hjá RÚV. Eftir framhaldsnám í Svíþjóð starfaði ég um sjö ára skeið sem sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu. Ég hef einnig starfað sem ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Háskólanum á Bifröst. Ég starfa nú sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun síðan nóvember 2015.
Þá hef ég auk þess  sinnt kennslu í framhaldsskólum og háskólum og haldið fjölda fyrirlestra um heilbrigðis-, öryggis- og varnarmál og um ferðamál.

Ég er kvæntur Ingibjörgu Lilju Ómarsdóttur, verkefnisstjóra hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og eigum við þrjú börn; Heklu, Hákon og Hinrik Dag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.7.2016 - 13:22 - FB ummæli ()

Batnandi tannheilsa barna….

 

Um daginn birtust fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands um batnandi tannheilsu barna á Íslandi. Til að meta tannheilsu barna þarf að reikna út meðalfjölda tannviðgerða á barn. Árið 2001 var meðalfjöldinn 1.57 og hefur farið lækkandi síðan og var árið 2015 0,65 viðgerð á meðaltali á barn. Til viðbótar þessu var árlegt hlutfall barna sem bjuggu við góða tannheilsu (ekki þarf að gera við tönn) 56.2% árið 2001 og hafði hækkað í 72,4% árið 2015.

Þessi árangur er tilkominn af því að þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur heitinn Hannesson, hafði forgöngu um að semja við sjálfstætt starfandi tannlækna um tannlæknaþjónustu við börn árið 2013. Í skemmstu máli snýst samningurinn um að börn eru skráð hjá tannlækni og fara til hans í árlega skoðun og viðgerðir ef við á og greiða eingögnu 2.500 krónur í komugjald. Í samningnum var kveðið á um að börn féllu undir samninginn við ákveðinn aldur og árið 2018 munu öll börn á aldrinum 0-18 ára falla undir samninginn. Að ná samningi við tannlækna var afrek á sínum tíma því lengi hafði verið reynt að ná samningum um tannlæknaþjónustu fyrir börn en án árangurs. Fyrir því voru margar ástæður sem snérust m.a. um óraunhæfar kröfur af hálfu ríkisins, um gæðamál og um fjármögnun þjónustunnar.
Íslendingar gátu státað af því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar að tannheilsa barna var mjög góð borið saman við t.d. Norðurlönd. Um aldamótin síðustu runnu út samingar sem gerðir  höfðu verið við tannlækna um þjónustu við börn og skólatannlækningar lögðust af. Í kjölfarið bauð ríkisvaldið niðurgreiðslur á tannlækningum barna sem voru rausnarlegar í upphafi og dekkuðu stóran hluta tannlæknakostnaðar. Tímabilið frá aldamótum þangað til að samningar náðust við tannlækninga einkenndust af þremur atriðum hvað varðar tannheilsu barna. Í fyrsta lagi sóttu færri og færri börn þjónustu tannlækna. í öðru lagi héldu niðurgreiðslur ríkisvaldsins á tannlæknaþjónustu barna hvorki í við raunverð né vísitölu. Í þriðja lagi jókst kostnaður heimila vegna tannlæknaþjónustu barna gríðarlega á þessu tímabili.

Guðbjartur Hannesson setti tannheilsu barna í forgang í ráðherratíð sinni og tókst að ná samningi við tannlækna um heildstæða tannlæknaþjónustu fyrir börn. Í nálgun að betri tannheilsu barna var ákveðið að forgangsraða fé til þessa málaflokks. Það lá alltaf fyrir að til að ná betri árangri í tannheilsu barna þyrfti að leggja til meira fé til málaflokksins og í ljósi þess er það afrek útaf fyrir sig að hafa náð að tryggja meira fé í þessa þjónustu m.v. þá gríðalega erfiðu stöðu sem ríkissjóður var í á þeim tíma.
Það er því fagnaðarefni að samningurinn hefur náð sínum markmiðum hvað varðar betri tannheilsu barna. Þó að okkur finnist það sjálfsögð þjónusta við börn að þau fái heildstæða tannlæknaþjónustu var það ekki sjálfgefið að ná saman með tannlæknum um þessa þjónustu án þess að leggja meira fé til þjónustunnar. Þessar fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands benda sterklega til þess að við erum á réttri leið hvað varðar tannheilsu barna og fá aðilar sem sjá um framkvæmd samningsins, tannlæknar og Sjúkratryggingar Íslands hrós fyrir vel unnin störf.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.6.2016 - 22:04 - FB ummæli ()

Betur má ef duga skal!

Föstudaginn 10. júní sl. var langþráðum áfanga náð í fangelsismálum þegar nýtt fangelsi var tekið í notkun. Mun það leysa af hólmi Hegningarhúsið og kvennafangelsið. Þetta nýja fangelsi er ekki eingöngu merkilegt fyrir góðan aðbúnað og hönnun heldur er það fyrsta fangelsið sem er byggt sem fangelsi síðan Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874! Þess merkilegri er svo sú staðreynd að fangelsismál hafa lengi verið í ólestri, en Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra hafði kjark og metnað að berjast fyrir byggingu nýs fangelsis á árunum 2011-2013 þegar staða ríkissjóðs var alvarleg. Ber að hrósa og þakka Ögmundi fyrir hans baráttu sem og líka þeim Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólöfu Norðdal að hafa fylgt málinu eftir af fullum þunga og klárað með sæmd. Nýja fangelsið er vel tæknilega útbúið gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með sérstakri deild fyrir kvenfanga. Í fangelsinu eru alls 56 fangaklefar. Heildarkostnaður við byggingu fangelsins er um þrír milljarðar króna.

Hið nýja fangelsi er tekið í notkun á mikilvægum tíma þar sem skortur hefur verið á fangelsisrýmum og hefur boðunarlisti aðila til afplánunar lengst á undanförnum árum. Árið 2007 voru 105 aðilar á boðunarlista, árið 2009 voru þeir orðnir 213, árið 2012 voru þeir 366 og árið 2014 var fjöldi aðila á boðunarlista kominn í 437 eða um um 300% fleiri en árið 2007. Fjöldi fanga sem er í afplánun á hverju ári eru um 150. Fjöldi fanga á afplánunarlista fangelsismála hefur hin síðari ár aukist og þrátt fyrir tilkomu hins nýja fangelsi mun það ekki leysa vandann. Margt hefur verið gert til að mæta fjölgun fanga á afplánunarlistanum, m.a. hefur föngum verið gefinn kostur á afplánun með samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti auk hins gamla úrræðis reynslulausn.

Þrátt fyrir hið nýja fangelsi á Hólmsheiði, þá þarf að fjölga rýmum og bæta þjónustu við fanga, eins og sálfræðiþjónustu og aðgengi að námi og léttri vinnu. Árið 2010 gerði i Ríkisendurskoðun skýrslu um stöðu fangelsismála á Íslandi. Skýrslan var gerð á þeim tíma þegar ekki var búið að ákveða byggingu fangelsisins á Hólmsheiði og einnig voru miklu færri á boðunarlista til afplánunar. Að auki hafa fleiri þungir dómar fallið síðan þá, m.a. vegna fíkniefnainnflutnings, kynferðisbrota og vegna löggjafar alþingis um hertar refsingar. Ríkisendurskoðun lagði til í skýrslu sinni nokkra möguleika um hvernig eigi að takast á við aðsteðjandi vanda, m.a. byggingu nýs fangelsis og tvo kosti varðandi stækkun á fangelsinu á Litla Hrauni. Annar kosturinn kallaði á stækkun sem næmi 22 rýmum og kostaði um 450 milljónir (um 550 milljónir á núvirði) eða meiri stækkun sem næmi 44 rýmum og kostaði um einn milljarð (um 1.250 milljónir á núvirði). Með því að ráðast í stækkun á Litla Hrauni er hægt að lækka rekstrarkostnað. Með því að fjölga rýmum í fangelsum er hægt að stytta boðunarlista til afplánunar, kalla aðila fyrr í afplánun og draga úr óvissu meðal fanga og aðstandenda sem er í samræmi við Mannréttindasaáttmála Evrópu. Það er ábyrgð samfélagsins að gæta fanga, gera þeim kleift að takast á við afplánun af reisn og auðvelda þeim að koma aftur í samfélagið sem betri menn. Opnun fangelsisins á Hólmsheiði er stórt skref í þessa átt en betur má ef duga skal.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 24. júní 2016)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.6.2016 - 16:51 - FB ummæli ()

Nýr búvörusamningur – Óbreytt ástand  

 

Fyrir alþingi liggur frumvarp um nýjan búvörusamning milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Markmið samningsins er að auka verðmætasköpun og nýta betur tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls og treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun, nýsköpun og byggðafestu.

Eftir lestur á samningnum eru nokkur atriði sem eru gagnrýnisverð. Markmið samningsins eru þau sömu og fyrri samninga, en reynslan af þeim er óhagkvæm búvöruframleiðsla, dýrar landbúnaðarvörur, mikill opinber stuðningur, fækkun bænda, minni tekjur til bænda og mikil  tollavernd á erlendum landbúnaðarvörum.

Við lestur á nýja búvörusamningnum kemur í ljós að samningurinn er um óbreytt skipulag búvöruframleiðslu í landinu. Tækifæri sem gerð samnings bauð uppá um að endurskoða landbúnaðarstefnuna frá grunni með það að markmiði að auka samkeppni og svigrúm bænda til hagræðingar og lægri framleiðslukostnaðar var að engu haft.
Það skýtur skökku við að árið 2016 skuli gerðir svo íþyngjandi samningar sem eru í andstöðu við hagsmuni neytenda og skattgreiðenda um leið og þess er gætt að samkeppnislög gildi ekki um mjólkurframleiðslu. Í samningnum eru ákvæði sem eru framleiðsluhvetjandi sem þjónar ekki hagsmunum bænda, neytenda né skattgreiðenda í stað þess að láta framleiðslu mæta innanlandsþörf.

Opinber fjárstuðningur vegna búvöruframleiðslu eykst á samningstímanum og eru greiðslur til bænda verðtryggðar. Greiðslur á ári vegna búvörusamnings verða um 13 milljarðar eða 130 milljarðar á samningstímanum. Að auki er innlendri búvöruframleiðslu tryggð tollvernd sem er metin á 8-10 milljarða króna á ári. Því má segja að bændum sé tryggð með samningnum árlegar tekjur uppá 21-23 milljarða króna eða um 210-230 milljarða á samningstímanum. Þessi kostnaður lendir á neytendum og skattgreiðendum (sem eru sami aðili).

Í samningnum er kveðið á um nýsköpun í landbúnaði sem snýr að lífrænni framleiðslu en stuðningur til þess er alltof lítill.

Gullið tækifæri hafi klúðraðist við gerð á nýjum búvörusamningi til að treysta samskipti bænda og neytenda, að styrkja samkeppni í landbúnaði, að styrkja fleiri búgreinar, að leyfa innflutning á erlendum landbúnaðarvörum og að endingu að draga úr beingreiðslum til bænda.

Það er von mín að atvinnumálanefnd alþingis geri breytingar á samningnum þannig að frelsi framleiðenda í mjólkur og sauðfjárrækt verði aukið og samkeppni í landbúnaði eykst um leið. Greiðslur opinberra aðila vegna búvöruframleiðslu verði í lok samningstíma 2/3 þeirra fjárhæðar sem fer til framleiðenda í ár, að samningstími verði styttur í sjö ár, að opnað verði á meiri innflutning landbúnaðarvara erlendis frá, nýsköpun meðal bænda verði meiri og að samningurinn innifeli í sér hagsmuni fleiri aðila en bænda, t.d. neytenda.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2016 - 16:24 - FB ummæli ()

Félagsleg einkavæðing – Kletturinn horfinn

Í vikunni bárust fréttir af því að íbúðalánasjóður hafi selt leigufélagið Klett til fjárfesta. Með sölunni lauk áhugaverðu félagslegu leiguskipulagi sem Guðbjartur Hannesson þáverandi velferðarráðherra kom á til að bjóða fólki (óháð tekjum) aðgang að öruggu leiguhúsnæði til langs tíma. Þetta leiguform finnst ekki á almennum leigumarkaði í dag.

Um tilgang Íbúðalánasjóðs segir á heimasíðu sjóðsins: “Að stuðla að því … að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og … að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Í könnun um hagi leigjenda sem félagsmálaráðherra lét gera og birti í vikunni kom fram að um 60% leigjenda hafa búið í sama húsnæði skemur en tvö ár sem sýnir hve mikið óöryggi og óvissu leigjendur búa við á almennum markaði. Sama könnun sýndi að á tímabilinu 2003-2015 var 50% aukning hjá leigjendum sem leigja af nauðsyn og árið 2015 var miklu erfiðara að fá leiguhúsnæði en árið 2003. Í stuttu máli sýndi könnunin að óöryggi og óvissa meðal leigjenda hefur aukist. Könnunin er í samræmi við þá þróun að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004.

Með sölu Klettsins mun staða þeirra leigjenda sem leigja af leigufélaginu verða óviss, ótrygg og skapa kvíða meðal fjölskyldna. Að búa ekki við örugg húsnæðisskilyrði getur valdið kvíða þar sem fjölskyldur þurfa að skipta oft um húsnæði og börn að skipta um hverfi, skóla og vini. Við söluna á leigufélaginu Kletti skuldbundu nýjir eigendur sig til að halda óbreyttu leiguverði næstu 12 mánuði. Eftir að því tímabili lýkur má búast við að leiguverð hækki, því kaupendur þurfa fá fjárfestingu sína til baka. Það mun leiða til styttri leigutíma, hærri leigu og óöryggi og óvissa meðað leigjenda eykst.

Í stað þess að auka þjónustu fyrirtækisins og gefa fleiri leigjendum kost á að njóta öryggis á leigumarkaði hafa yfirvöld félagsmála þvert á móti ákveðið að auka óöryggi þessa hóps.

Það undrun að félagamálaráðherra hafi á nánast sama degi og hún kynnti könnun um alvarlega stöðu leigjenda á Íslandi leyft sölu á leigufélaginu Kletti sem bauð uppá einstakt félagslegt úrræði og öryggi fyrir þúsundir á leigumarkaði.

Með sölunni er verið að einkavæða þetta félagslega úrræði  sem gengur þvert gegn þeim markmiðum húsnæðisstefnu opinberra aðila að tryggja fólki öruggt húsnæði. Það er leitt að þessi ákvörðun um sölu á leigufélaginu Kletti gekk eftir, því tilvist fyrirtækisins sýndi að hægt var að mæta óskum fólks um öruggt húsnæði með einföldum og góðum hætti.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.5.2016 - 22:02 - FB ummæli ()

Eyðum óvissu og óöryggi meðal leigjenda

Í nýjasta tölublaði Fréttatímans (tbl. 29.04.2016) er að finna áhugaverða og átakalega lýsingu á stöðu leigjenda á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Rætt var við nokkra viðmælendur sem voru sammála um að staða leigjenda á höfuðborgarsvæðinu væri erfið í ljósi óöryggis og óvissu sem ríkti á markaðinum. Í raun ríkir ekkert öryggi hjá leigutaka nema 3ja mánaðar uppsögn. Þetta hefði slæm áhrif á líf fjölskyldna og barna þar sem óöryggið skapaði tíða flutninga, jafnvel milli hverfa og bæjarfélaga. Það hafi slæm áhrif á börn og valdi óþarfa kvíða meðal þeirra sem og meðal leigjandanna sjálfra. Athyglisvert var að lesa að einn leigjandi kallaði sig annarrar kynslóða leigjanda, þ.e. hún væri í sömu stöðu og móðir sín sem hafði lifað við sama óöryggi og óvissu einni kynslóð áður.

Þessi óvissa og óöryggi fer vaxandi í ljósi þess að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að hlutfall leigjenda hefur aukist. Ein er sú að það er mjög dýrt að kaupa húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna verðhækkana og aukinnar kröfu um eigið fé. Þetta hefur bitnað á fólki með góðar tekjur sem hefur ekki náð að safna fyrir útborgun. Í öðru lagi eru margir sem vilja ekki kaupa og binda mikið eigið fé í fasteign í ljósi afleiðinga hrunsins á fasteignamarkaðinn. Í þriðja lagi hrýs fólki hugur við þeim lánakjörum sem því stendur til boða við húsnæðiskaup þar sem vextir eru alltof, alltof háir m.v. vexti á húsnæðislánum t.d. í Noregi.

Stjórnvöld hafa brugðist og valdið vonbrigðum í málefnum leigjenda. Það er einna helst Reykjavíkurborg sem hefur reynt að sporna við ástandinu með því að fjölga lóðum til leigufélaga sem eru rekin án hagnaðarsjónamiða (Félagsstofnun Stúdenta) auk þess að fjölga íbúðum á vegum Félagsbústaða. Aftur á móti hefur ríkisvaldið algerlega brugðist, þó að fyrir liggi á alþingi frumvarp til að styrkja starfsemi leigufélaga. Það frumvarp er sérstaklega miðað fyrir fólk með lágar tekjur en mætir ekki kröfum fólks með meðaltekjur. Það er vel að setja fram frumvarp sem mætir þörfum ákveðins hluta fólks um leigu en frumvarpið verður að vera víðtækara og almennara.

Að mínu mati set ég stórt spurningamerki um vilja stjórnvalda til að bæta kjör leigjenda á almennum markaði í ljósi þess hve illa hefur gengið að gera húsnæðisfrumvarp félagsmálaráðherra að lögum og er þá ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í því máli. Til viðbótar skýtur það skökku við að á sama tíma þegar verið er að búa til frumvarp til að styrkja leigjendur á leigumarkaði þá seldi ríkisvaldið eina opinbera leigufélagið sem leigði út íbúðir til langs tíma til fjárfesta!

Verkalýðshreyfingin með ASÍ í broddi fylkingar hefur gert málið að stefnumáli sínu og ætlar að berjast fyrir því að húsnæðisþörfum fólks verði mætt með heilstæðari hætti. Ber að fagna afstöðu Verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ.

Að mínu mati þarf að gera betur og hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög eiga að stofna opinber leigufélög sem leigja út íbúðir til langs tíma óháð tekjum til að bjóða uppá raunverulegan leigu húsnæðis sem möguleika fólks til að mæta húsæðisþörf, til að auka öryggi leigjenda og eyða óvissu sem þeir búa við á leigumarkaði. Þetta form þekkist vel á hinum Norðurlöndunum þar sem sveitarfélög eru annað hvort beinir leigusalar eða eigendur að leigufélögum sem leigja út íbúðir óháð tekjum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2016 - 20:28 - FB ummæli ()

Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu – Alltof há mörk

Heilbrigðisráðherra hefur boðað breytingu á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónstu með það að markmiði að takmarka kostnað við ákveðið hámarksþak á 12 mánaða tímabili. Eitt af fáum atriðum sem er gott við við tillögur ráðherra er að greiðslukerfin í heilbrigðisþjónustu verða færri, þau  einfölduð og fyrirsjáanleiki og gegnsæi eykst. Aftur á móti verða áfram í gildi nokkur greiðsluþátttökukerfi, eitt kerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir þjálfun, fjórða kerfið fyrir tannlækningar og fleiri kerfi fyrir flóknari þætti heilbrigðiþjónustu (eins og tæknifrjóvganir og lýtalækningar). Það má alveg taka undir með ráðherra að nýja greiðsluþátttökukerfið er sanngjarnara og réttlátara en þau kerfi sem fyrir voru en aftur á móti  verður að gagnrýna hið nýja kerfi fyrir það hversu há mörkin á hámarkskostnaði verða. Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að hámarkskostnaður einstaklinga á 12 mánaða tímabili verði á bilinu 44.000-95.000 og munu nær allir á aldrinum 18-66 ára greiða allt að 95.000 krónur fyrir umrædda heilbrigðisþjónustu á 12 mánaða tímabili. Ástæðan fyrir því að ég tel að mörkin séu of há er sú að annað greiðslukerfi í heilbrigðiskerfinu, greiðslukerfi lyfja er fyrir utan þetta nýja kerfi og þar er hámarkskostnaður einstaklinga 62 þúsund á ári. Langflestir sem munu greiða hámarkostnað vegna umræddrar heilbrigðisþjónustu greiða einnig hámarkskostnað vegna lyfja og er því hámarksþakið 157 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili en ekki 95 þúsund krónur. Það er 65% hærra en ráðherra leggur fram með nýja kerfinu sínu.

Í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. um heilbrigðismál: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“ Ég staldra við það sem snýr að aðbúnaði sjúklinga. Með þessu kerfi er kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Í Svíþjóð er heilbrigðisþjónustan nánast gjaldfrjáls öllum sem eru yngri en 20 ára. Kostnaðarþak á kostnaði fyrir 12 mánaða tímabil vegna heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð er almennt um 1.100 SEK (um 16.800 ISK) og fólk greiðir að hámarki 2.200 SEK (um 33.600 ISK) á ári fyrir lyf fyrir 12 mánaða tímabil. Alls greiða Svíar almennt að hámarki um 3.300 SEK (um 50.000 ISK) á 12 mánaða tímabili fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf sem gera um 50 þúsund íslenskar krónur á 12 mánaðatímabili eða 1/3 af því sem ráðherra boðar.

Í Noregi er hægt að velja um tvö greiðslukerfi, eiginkostnaðarkerfi 1 (NOK 2.185 eða um 32.700 ISK)  og eiginkostnaðarkerfi 2 (NOK 2.670 eða um 40.000 ISK). Í báðum kerfum er þak á kostnaði (mishátt) en eiginkostnaðarkerfi 2 tekur til fleiri þátta í heilbrigðisþjónustu en kerfi 1. Bæði kerfin taka til komugjalda, lækniskostnaðar, röntgen, rannsókna auk lyfja.

Í Danmörku velur einstaklingur hvort hann kaupir heilsutryggingakort eða ekki. Sá sem hefur heilsutryggingarkort fær allan heilbrigðiskostnað greiddan af sínu fylki (Region). Þeir sem velja ekki að fá sér ekki heilsutryggingakort geta valið til hvaða læknis, sérfræðings, sjúkraþjálfara, tannlæknis þarf að leita til og fær viðkomandi fasta fjárhæð frá Fylkinu fyrir greiðsluna en ef þjónustan er dýrari, greiðir notandinn sjálfur mismuninn. Langflestir Danir tilheyra tryggingahóp. Í Danmörku greiða allir fyrir lyf en aldrei meir en DKK 3.880 (um 73.000 ISK) yfir 12 mánaða tímabil.

Ljóst er að boðaðar breytingar á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er skref í rétta átt. Aftur á móti eru boðað hámark fyrir greiðslu á 12 mánaða tímabili alltof hátt og þarf það  að lækka til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar að sjúklingar búa við svipaðar aðstæður og í nágrannalöndum okkar. Til að ná því markmiði þarf meira fé í heilbrigðismál og hafa tæp 90 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun þess efnis. Þegar hámarskgreiðslur eru orðnar þetta háar er  ósanngjarnt að deila kostnaðnum  á sjúklinga í stað þess að stærri hluti heilbrigðiskostnaðar sé  dreift á alla skattgreiðendur eins og gert er á hinum Norðurlöndunum.

Því vil ég hvetja heilbrigðisráðherra að standa í lappirnar og berjast fyrir lægri hámarksþökum á greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu og að hið opinbera greiði stærri hlut gegnum skattkerfið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur