Laugardagur 19.11.2016 - 07:46 - FB ummæli ()

Svör við tveimur athugasemdum

Guðmundur nokkur Guðmundsson, sem kennir sig við Háskóla Íslands, skrifaði tvær athugasemdir á visi.is við pistil minn „Tvær ólíkar myndir“ sem birtist í fréttablaðinu í gær. Þær eru þess eðlis að rétt er að bregðast við þeim.

Fyrri athugasemd Guðmundar hljóðar svo:

„Eins og allir prestar er sr. Gunnar óheiðarlegur þegar kemur að því að verja eigin hindurvitni og hjátrú með því að benda á hve ógurlega vondir trúleysingjarnir eru. Til að berja á þeim notar klerkur tilvitnun í Dawkins til að styðja mál sitt. Hann vitnar ekki til heimildar né sér hann ástæðu til að halda í samhengi textans, sem hann vitnar til, heldur slítur úr samhengi til að þjóna pervertískri ást sinni á guðdóminum. Öll tilvitnunin fer hér á eftir og þeir sem eru sæmilega læsir og ekki vangefnir af guðstrú skilja hvað Dawkins er að fara.

The total amount of suffering per year in the natural world is beyond all decent contemplation. During the minute that it takes me to compose this sentence, thousands of animals are being eaten alive, many others are running for their lives, whimpering with fear, others are slowly being devoured from within by rasping parasites, thousands of all kinds are dying of starvation, thirst, and disease. It must be so. If there ever is a time of plenty, this very fact will automatically lead to an increase in the population until the natural state of starvation and misery is restored. In a universe of electrons and selfish genes, blind physical forces and genetic replication, some people are going to get hurt, other people are going to get lucky, and you won’t find any rhyme or reason in it, nor any justice. The universe that we observe has precisely the properties we should expect if there is, at bottom, no design, no purpose, no evil, no good, nothing but pitiless indifference. [Richard Dawkins, River Out of Eden: A Darwinian View of Life]“

Við þessu er fyrst það að segja að það er enginn óheiðarleiki á ferð af minni hálfu, því með engum hætti er ég að „benda á hve ógurlega vondir trúleysingjarnir eru“ eða „berja á þeim“. Slíkt væri sannarlega óheiðarlegt, ómálefnalegt og órökrétt. En eins og lesa má vík ég ekki einu orði að guðleysingjum sem slíkum. Að lesa annað eins inn í orð mín, eins og Guðmundur gerir, er einfaldlega fráleitt og fullkomin rökleysa. Hér reynir hann að hrekja mál mitt eða gera lítið úr því með því að gera mér upp annarlegar hvatir og skoðanir. Slík rökfærsla fengi falleinkun í öllum byrjendaáföngum í rökfræði.

Enda þótt umrædd tilvísun í Dawkins er þekkt öllum sem eru sæmilega kunnungir málflutningi hans, og þótt ekki var um að ræða fræðilegan texta hjá mér, er það vissulega rétt og gagnlegt að vísa til heimilda. En hverju sem því líður sleit ég ekki orð Dawkins úr samhengi, og hvorki dró úr þeim né jók við þau.

Skoðun Dawkins í umræddri tilvísun er afskaplega skýr. Eins og Guðmundur segir, á miður málefnalegum nótum, þurfa „þeir sem eru sæmilega læsir og ekki vangefnir af guðstrú“ ekki að velkjast í vafa um hvað Dawkins á þar við.

Raunar orðar Dawkins lýsingu sína á guðlausri heimssýn á einkar glæsilegan hátt, þar sem kjarni málsins er að ef engin hönnun er á bak við heiminn – það er að segja ef Guð er ekki til – þá er eðli veruleikans með þeim hætti sem Dawkins lýsir.

Og ég er sammála því! – Ég geri ekki minna úr Dawkins eða öðrum guðleysingjum en það. Ég tek heilshugar undir með honum! Ef Guð er ekki til þá er veruleikinn eins og Dawkins lýsir honum. Um það eru líka allflestir guðleysingjar sammála, að minnsta kosti þeir sem draga rökréttar ályktanir af sinni guðlausu heimsmynd.

Nú var náttúruleg illska ekki umræðuefni pistils míns – þó það sé vissulega mikilvægt umræðuefni út af fyrir sig, ekki síst með hliðsjóna af spurningunni um tilvist Guðs. En sú staðreynd hefur lítið að segja hér að Dawkins dragi guðlausa ályktun sína af þeirri náttúrulegu illsku sem blasir við í heiminum. Því hvort sem guðleysi er rökstutt með tilvísun til hennar eða einhvers annars þá stendur engu að síður eftir sú heimsmynd sem Dawkins lýsir. Og það er samhengi málsins.

En ef Guð er til þá gjörbreytist vitanlega sú heimsmynd, og það var það sem ég vildi m.a. benda á.

Í annarri athugasemd sinni vitnar Guðmundur sjálfur til Dawkins – og það jafnvel án þess að geta heimildar sinnar!! Það gerir þó ekki mikið til enda um að ræða nokkuð þekkt ummæli sem lýsa viðhorfum Dawkins til trúar og trúarbragða:

„Eitt af því sem er athugavert við trúarbrögðin er að þau kenna að fólk skuli vera ánægt með svör, sem eru alls engin svör.“ [R. Dawkins]

Við þessu þyrfti margt að segja, meira en rúm er fyrir hér. Hér liggur að baki það viðhorf að trú og skynsemi geti ekki farið saman. Dawkins hefur margoft sagt annað eins, jafnt í ræðu sem riti. Hann hefur ítrekað látið í ljós að hann sé á móti trúarbrögðum meðal annars vegna þess að þau ali á fáfræði. Í bók sinni The God Delusion segir Dawkins meðal annars að „á meðal verulegra vondra afleiðinga trúarbragða er að þau kenna okkur að það sé ásættanlegt að skilja ekki heiminn“.

Ef þessi lýsing á eðli trúar og trúarbragða væri rétt þá væri gremja Dawkins skiljanleg.

En hún er ekki rétt!

Hér er einfaldlega um einhliða skilgreiningu að ræða sem er fyrst og fremst til þess gerð að fegra guðlausa heimssýn á kostnað þeirrar sem grundvallast á guðstrú, fyrst og fremst kristinnar guðstrúar.

Ef við einskorðum okkur við kristna trú – ég vil ekki svara fyrir önnur trúarbrögð -, þá er alveg ljóst í mínum huga að kristin trú kennir ekki neitt í þessa veru.

Trú – hvort sem hún beinist að Guði eða einhverju öðru – er í eðli sínu traust. Trú er fólgin í því að treysta því sem við höfum ástæðu til að ætla að sé satt og rétt. Trú er ekki fólgin í því að gleypa allt formálalaust. Það áréttar Páll postuli í bréfi sínu til safnaðarins í Þessalóniku með þessum hvatningarorðum: „Prófið allt, haldið því, sem gott er.“ (1Þess 5:21) Slíkt viðhorf tóku kristnir guðfræðingar og heimspekingar í arf, menn á borð Ágústínus, Anselm og Tómas Akvínas. Þeir lögðu áherslu á trú í leit að skilningi, skynsamlega trú. Og það var á þeim grunni sem kristin fræðslu- og lærdómssetur spruttu snemma á miðöldum, sem nútíma háskólar og þekkingarsetur eiga rætur sínar að rekja til. Og það viðhorf sem Páll postuli talar fyrir í áðurnefndu béfi sínu skilaði sér síðar inn í vísindalega hugsun. Í því samhengi hafa margir bent á þýðingu kristinnar heimsmyndar í þróunarsögu vísinda og vísindalegrar hugsunar, og á þá staðreynd að vísindi komu einmitt til sögunnar í Evrópu 16. aldar sem um langan tíma hafði mótast af hinni kristnu heimssýn. Þetta orðaði C.S. Lewis þannig að menn urðu vísindalegir í hugsun vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum; og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á þann sem setti náttúrunni lögmál sín.

Það er í öllu falli ljóst að kristin trú – hin pervertíska ást á guðdóminum, svo gripið sé til orða Guðmundar – þvældist ekki fyrir hinum kristna Newton þegar hann lagði fram kenningar sínar um þyngdarlögmálið. Það sama má segja um marga aðra kristna vísindamenn á borð við Boyle, Kepler, Pascal, Mendel og Maxwell. Þá var kristin trú hinum belgíska presti, stjörnufræðingi og prófessor í eðlisfræði Georges Lemaître, enginn fjötur um fót þegar hann lagði fram Miklahvellskenninguna á grundvelli afstæðiskenningar Albert Einsteins; eða hinum kristna Francis Collins, sem fór fyrir kortlagningu erfamengis mannsins undir lok 20. aldarinnar – svo fátt eitt sé nefnt.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú · Heimssýn · Vísindi

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur