Mánudagur 21.11.2016 - 07:44 - FB ummæli ()

Er Guð til?

Til eru margskonar og ólík rök fyrir tilvist Guðs.

Heimsfræðirök eru tiltekin rök þar sem tilvist Guðs er leidd af þeirri einföldu staðreynd að alheimurinn er til.

Heimsfræðirökin má útfæra á ólíkan hátt, meðal annars á grundvelli þess að alheimurinn varð til, þ.e. að hann er ekki eilífur.

Ef alheimurinn er ekki eilífur þá hefur hann ekki alltaf verið til. Og að því gefnu útskýrir hann ekki eigin tilvist. Orsök alheimsins er því ekki að finna innan alheimsins sjálfs. Því hlýtur eitthvað að vera til sem ekki á tilvist sína undir neinu öðru, en er jafnframt orsök alls annars.

Ef fallist er á að ekkert verður til af engu, þ.e.a.s. að allt sem verður til eigi sér orsök, og að alheimurinn sjálfur hafi orðið til, þá er sú ályktun að alheimurinn eigi sér orsök röklega óhjákvæmileg.

Til að komast hjá þeirri niðurstöðu þarf að hafna annarri hvorri forsendunni eða báðum.

Sumir gera það. Aðrir fallast á niðurstöðuna, en lyfta öxlum og spyrja: Hvað hefur þetta með Guð að gera?

Áður en þeirri spurningu er svarað er rétt að staldra aðeins við sjálfa röksemdafærsluna.

Grundvallarforsenda hennar er sú staðhæfing að alheimurinn sé takmarkaður í tíma og eigi sér því upphaf. Sú staðhæfing nýtur bæði heimspekilegs og vísindalegs stuðnings. Látum vísindin liggja á milli hluta að sinni og ímyndum okkur að við séum að lesa bók.

Bókin er rúmar þrjúhundruð blaðsíður að lengd. Við erum stödd á síðu þrjátíu og fimm.

Til að komast á síðu þrjátíu og fimm þurftum við að lesa síðu þrjátíu og fjögur. Til að komast á síðu þrjátíu og fjögur þurftum við að lesa síðu þrjátíu og þrjú, og svo framvegis allt frá upphafssíðunni.

Í ljósi þess að bókin hefur að geyma upphafssíðu, og ennfremur í ljósi þess að við erum bara komin á síðu þrjátíu og fimm, þá er ljóst að við höfum einungis lesið takmarkaðan fjölda blaðsíðna.

En þá blasir við áhugaverð spurning!

Hvaða áhrif hefði það á lesturinn ef takmarkalausum fjölda blaðsíðna, þ.e. óendanlega mörgum blaðsíðum, væri bætt framan við bókina? Ef bókin væri óendalega löng, hvenær kæmust við á síðu þrjátíu og fimm? Eða síðu tuttugu og fimm ef því er að skipta?

Aldrei!

Það er sama hversu lengi eða hratt við læsum. Við kæmumst aldrei svo langt. Við mundum aldrei ná að ljúka við að lesa hinn óendalega fjölda blaðsíðna þar á undan. Sama hversu margar síður við læsum ættum við alltaf fleiri eftir ólesnar.

Það sama gildir um röð þeirra atburða sem saga alheimsins saman stendur af. Við getum valið hvaða atburð sem er. Ef óendanlegur fjöldi atburða fór á undan honum (eins og raunin væri í eilífum alheimi) þá hefði hann aldrei átt sér stað.

Hann hefði aldrei getað átt sér stað!

Dagurinn í dag hefði aldrei komið ef óendanlega margir dagar urðu að líða á undan honum. Þetta segir okkur að alheimurinn á sér upphaf. Að hann kom til sögunnar á tilteknu augnabliki.

Með öðrum orðum: Þegar við rekjum okkur eftir orsakakeðjunni aftur í tíma komum við að upphaflegu orsökinni, frumorsökinni.

Og þá komum við aftur að spurningunni: Hvað hefur þetta með Guð að gera?

Hér er ekki beinlínis um að ræða rök fyrir tilvist Guðs. En myndin tekur að skýrast þegar við leiðum hugann að því hvaða eiginleikum þessi orsök alheimsins hlýtur að búa yfir.

Að þessi orsök sé frum-orsök þýðir að hún á sér ekki sjálf neina orsök. Það sem er fyrst er fyrst! Hún er ekki afleiðing einhvers annars. Hún hefur því alltaf verið til og er þar með eilíf.

Að þessi orsök sé frum-orsök vísar til sambands hennar við allt annað. Hún er orsök alls annars. Allt annað en hún er afleiðing hennar. Án hennar væri ekkert annað til. Tilvist alls annars grundvallast því á þessari orsök.

Sá orsakavaldur sem hér er lýst á margt sameiginlegt með Guði kristinnar trúar:

Í báðum tilfellum er um að ræða skapara alheimsins. Orsakavaldurinn að öllu leyti handan alheimsins. Um er að ræða tímalausa veru sem ekki þiggur tilvist sína annars staðar frá, og er jafnframt ástæða þess að alheimurinn er til.

Þar sem tilvist alheimsins er alls ekki nauðsynleg má ætla að það hafi verið ásetningur á bak við sköpun hans. Í því ljósi hlýtur að vera um persónulega og vitræna veru að ræða.

Þá er þessi orsakavaldur ólýsanlega máttugur þar sem hann skapaði efnislegan alheim úr engu.

Alheimurinn væri alls ekki til ef hann hefði ekki verið skapaður af þessum orsakavaldi. Það er því ekki fráleitt að ætla að mögulega geymi alheimurinn vísbendingar um eðli og tilgang þessa skapara.

Á grundvelli þessarar röksemdafærslu má draga þá ályktun að til sé persónuleg og tímalaus vera, nægilega máttug og vitræn til að skapa alheiminn.

Ennfremur má gera ráð fyrir því að þessi vera hafi skapað alheiminn af ástæðu.

Hvað sem við viljum kalla þennan orsakavald er ljóst að Guð er ekki ýkja óviðeigandi orð.

Flokkar: Heimsfræðirök · Heimspeki · Tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur