Föstudagur 25.11.2016 - 15:35 - FB ummæli ()

Trú, Guð og vísindi

Sú skoðun er algeng að trú og vísindi séu andstæður. Litið er svo á að með tilkomu og framþróun vísinda sé trú og trúarlegar skýringar á eðli lífsins og tilverunnar úreltar leifar frá liðnum tíma. Jafnvel er litið svo á að vísindi hafi afsannað tilvist Guðs.

Hitt er annað mál að vísindi geta ekki afsannað tilvist Guðs af þeirri ástæðu að þau fást við hinn náttúrulega og efnislega heim. Guð er handan hans. Guð er orsök alheimsins og ekki eitthvað sem vísindi geta afsannað í valdi eigin aðferða. Vísindamaður sem segist hafa afsannað tilvist Guðs er ekki lengur að fást við vísindi eða hinn náttúrulega heim í vísindalegum skilningi heldur heimspeki eða guðfræði.

Takmarkanir vísinda

Vísindi eru með öðrum orðum takmörkuð. Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar sagði er engin leið betri eða fljótlegri til að koma óorði á vísindi en að segja þau eiga svar við öllum spurningum og að þær spurningar sem vísindi svari ekki séu merkingarlausar. Að mati Medawar eru vísindi augljóslega takmörkuð enda geti þau ekki svarað barnslegum grundvallarspurningum varðandi uppruna tilverunnar, tilgang lífsins og örlög eða hvað sé gott, rétt og fallegt. Vísindi spyrja takmarkaðra spurninga og geta ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga mannsins eða er fólgið í reynslu hans.

Vitnisburður sögunnar

Það viðhorf að trú og vísindi fari ekki saman stenst ekki sögulega skoðun. Brautryðjendur nútíma vísinda voru kristnir menn á borð við Boyle, Galíleó, Newton, Kepler, Mendel, Maxwell o.fl. Þeir sáu enga mótsögn á milli vísinda og guðstrúar. Það sama á við um fjölmarga vísindamenn í nútímanum, þar á meðal Francis Collins, sem stýrði kortlagningunni á erfðamengi mannsins, svo dæmi sé tekið.

Það var heldur ekki tilviljun að vísindi komu til sögunnar í Evrópu 16. aldar sem um langan tíma hafði mótast af hinni kristnu lífsskoðun. Eins og C.S. Lewis komst að orði urðu menn vísindalegir í hugsun vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum; og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á þann sem setti náttúrunni lögmál sín.

Röng guðsmynd

Þeir sem halda því fram að vísindi og trú séu í mótsögn ganga gjarnan út frá mjög bjagaðri guðsmynd. Þá er litið svo á að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins. Með öðrum orðum finnum við Guði stað þar sem vísindaleg útskýring sé ekki fyrir hendi. Eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.

En slíkur skilningur ber ekki Guði kristinnar trúar vitni og á ekkert skylt við hann. Guð kristinnar trúar er sá sem er á bak við tjöldin. Hann er orsakavaldurinn. Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem leiddi fram alheiminn og viðheldur tilvist hans.

Ólíkar útskýringar en ekki mótsagnakenndar

Vísindin rannsaka heiminn. Þau skoða úr hverju hann er gerður, hvers eðlis hann er og hvernig hann virkar. Þegar vísað er til Guðs annars vegar og vísinda hins vegar til að útskýra alheiminnn er um að ræða útskýringar af ólíkum toga – sem þó er gjarnan ruglað saman.

Að stilla fólki upp við vegg og biðja það að velja á milli vísinda og Guðs er líkast því að sýna manni Ford T bíl og biðja hann að velja á milli tveggja mögulegra útskýringa á honum. Önnur útskýringin eru náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, vélfræðinnar, aflfræðinnar o.s.frv. Hin útskýringin er Henry Ford sjálfur. Það sjá allir að slíkir afarkostir eru fráleitir því hér er um tvær jafngildar útskýringar að ræða enda þótt ólíkar séu. Báðar eru nauðsynlegar og réttar. Við þurfum hvort tveggja í senn vísindalega útskýringu á bílnum með tilliti til eðlisfræðilegra lögmála og persónulega útskýringu með tilliti til orsakavalds.

Það sama á við um alheiminn!

Þegar alheimurinn er útskýrður með vísan til Guðs sem orsakavalds er einfaldlega um að ræða úskýringu af öðrum toga en hina vísindalegu útskýringu. Þær eru hins vegar ekki í mótsögn eða rekast hvor á aðra. Henry Ford keppir ekki við lögmál eðlisfræðinnar sem útskýring á Ford T bíl frekar en Guð keppir við vísindi þegar kemur að því að útskýra alheiminn.

Það væri ennfremur fráleitt að halda því fram í ljósi þess að við getum útskýrt með vísindalegum hætti hvernig Ford T bíll virkar að af því megi draga þá ályktun að Henry Ford hafi aldrei verið til.

Í raun er það svo að eftir því sem við skiljum alheiminn betur verður auðveldara að dásama hugvitssemi Guðs sem á bak við hann er.

Þegar Newton uppgötvaði þyngdarlögmálið leit hann ekki svo á að hann þyrfti aldrei framar að leiða hugann að Guði. Þvert á móti. Í meistaraverki sínu Principia Mathematica lýsir hann þeirri von sinni að uppgötvun sín sannfæri hugsandi fólk um tilvist og mikilfengleika Guðs. Með öðrum orðum, eftir því sem hann skildi eðli alheimsins betur þeim mun meir dáðist hann að snilli og mikilfengleika Guðs.

Sá er einnig, og hefur alltaf verið, skilningur Biblíunnar: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ (Sálm. 19.1)

 

Flokkar: Skynsemi · Trú · Vísindi

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur