Þriðjudagur 31.01.2017 - 13:10 - FB ummæli ()

Æðri máttur eða persónulegur Guð?

Æðri máttur eða persónulegur Guð?

Hver eða hvað er Guð?

Þegar stórt er spurt getur verið fátt um svör.

Og hér er vafalaust um eina stærstu og mikilvægustu spurningu lífsins að ræða, því ef Guð er til þá vill maður vita hver eða hvað hann er.

Kristinn trú býður upp á svar: Guð er lifandi, persónulegur andi.

Þótt ekki sé um tæmandi lýsingu að ræða í kristnum skilningi þá er Guð það.

Sem lifandi vera er Guð virkur og gerir hluti. Guð er ekki ópersónulegt afl eða orka heldur persónulegur Guð sem býr yfir vissum eiginleikum og eðli. Sem andi er Guð til utan og ofan við alheiminn og óháð honum (enda þótt tilvist alheimsins sé algjörlega undir Guði komin).

Slík guðsmynd fellur þó ekki öllum alveg í geð.

Mörgum er í nöp við hugmyndina um persónulegan Guð og kjósa fremur svokallaðan „æðri mátt“ eða „óútskýranlegt eitthvað“.

Virkur Guð, Guð sem býr yfir vilja og hugsun, og hefur jafnvel markmið og tilgang með líf okkar, Guð sem ætlast til einhvers af okkur, fellur ekki auðveldlega að ýmsum þeim viðhorfum eru ráðandi víða í dag, ekki síst innan hins vestræna heims.

Hvort sem það er af þeim ástæðum eða öðrum kjósa margir ópersónulegan Guð, fjarlægan og óvirkan.

Eða engan Guð.

En höfum við ástæðu til að ætla að Guð, ef hann er til á annað borð, sé í eðli sínu persónulegur.

Að hann búi yfir hugsun og vilja og hafi ásetning og fyrirætlanir?

Já!

Samkvæmt heimsfræðirökunum – þar sem leitt er líkum að tilvist Guðs út frá tilkomu alheimsins – á alheimurinn sér orsök. Þá niðurstöðu leiðir óhjákvæmilega af forsetningum röksemdafærslunnar, að (1) allt sem verður til á sér orsök, og að (2) alheimurinn varð til. Án þess að ræða nánar forsendurnar hér tel ég óhætt að segja að við höfum mun betri og ríkari ástæður til að ætla að þær séu sannar en ósannar.

Og það sama gildir þá um niðurstöðuna.

En hvers konar orsök er um að ræða!

Í fyrsta lagi hlýtur orsökin sjálf að vera orsakalaus. Hún getur ekki átt sér orsök vegna þess að óendanlega löng röð orsaka er ómöguleg. Hún hlýtur að vera frumorsökin.

Í öðru lagi hlýtur þessi orsök að vera til óháð og utan við tíma og rúm því hún skapaði tíma og rúm. Auk þess að vera tímalaus og rýmislaus hlýtur hún að vera óbreytanleg í ljósi þess að óendanlegur fjöldi atburða er óhugsandi. Það þýðir að þessi orsök getur ekki verið efnisleg í eðli sínu því að allt sem er til í tíma og rúmi tekur stöðugt breytingu.

Í þriðja lagi hlýtur þessi orsök að vera gríðarlega máttug – ef ekki almáttug – í ljósi þess að hún leiddi fram sjálfan alheiminn, allan þann veruleika sem samanstendur af tíma, rúmi, efni og orku.

Eilíf, tímalaus, rýmislaus, óbreytanleg, óefnisleg og yfirmáta máttug vera sem leiddi fram alheiminn!

Það er það sem flestir eiga við þegar þeir nota orðið Guð.

En er um persónulega veru að ræða?

Má færa rök fyrir því?

Já!

Það er eina leiðin til að útskýra hvernig eilíf orsök (sem alltaf hefur verið til) gat leitt til einhvers sem á sér upphaf (hefur ekki alltaf verið til).

Ef orsökin ein og sér nægir til að koma afleiðingunni í kring þá hlýtur afleiðingin að vera til svo lengi sem orsökin er til, ekki satt. Væri það ekki svo þá er ljóst að orsökin var ekki nóg til að koma afleiðingunni í kring.

Orsök þess að vatn frýs er hitastig undir núll gráðum. Svo framarlega sem hitastigið er undir núll gráðum hlýtur allt vatn að vera frosið. Ef hitastigið er eilíflega undir núll gráðu þá hlýtur allt vatn í grennd að vera frosið um alla eilífð.

Með öðrum orðum er óhugsandi að vatnið hafi tekið upp á því að frjósa fyrir stuttu síðan, eða á eihverjum einum tímapunkti eða öðrum.

Nú er orsök alheimsins eilíf. Hún hefur alltaf verið til. Hún á sér ekki upphaf.

Hvernig stendur þá á því að alheimurinn, afleiðingin, er ekki eilífur og án upphafs?

Hvers vegna varð hann til fyrir tilteknum tíma síðan? Hvers vegna er tilvist hans ekki viðvarandi með sama hætti og tilvist orsakarinnar?

Það er býsna góð spurning.

Og eina leiðin til að svara henni með skynsamlegum hætti er að segja að frumorsökin er persónuleg vera en ekki ópersónuleg og blind skilyrði.

Með öðrum orðum hlýtur að vera um veru að ræða sem býr yfir frjálsum vilja. Sköpun alheimsins var frjáls ákvörðun, óháð og óbundin af öðrum og annars konar áhrifum og skilyrðum. Að skapa alheiminn var því eitthvað nýtt og ekki skilyrt af neinu öðru.

Það er eðli frjáls vilja.

Frjáls vilji getur leitt til þess sem á sér upphaf enda þótt orsökin sjálf er viðvarandi og hefur alltaf verið til.
Með öðrum er Guð ekki óútskýranlegt og ópersónulegt eitthvað. Hann er vera sem býr yfir vilja og hugsun og hefur fyrirætlanir.

Heimsfræðirökin benda því ekki bara til eilífrar og óbreytanlegrar orsakar alheimsins, heldur til persónulegs skapara hans.

Það er óneitanlega mikilfengleg niðurstaða á alla vegu.

Flokkar: Guð · Heimsfræðirök · Tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur