Fimmtudagur 02.02.2017 - 15:23 - FB ummæli ()

Náttúrulögmál og The Theory of Everything

Fyrir stuttu horfði ég á myndina The Theory of Everything.

Myndin fjallar um eðlisfræðinginn Stephen Hawking og er einkar áhugaverð, enda er Hawking einn þekktasti vísindamaður heims og afar merkilegur maður á margan hátt.

Myndin minnti mig á nokkuð sem Hawking lét frá sér fara í bók sinni The Grand Design, sem kom út fyrir fáeinum árum.

Lengi vel lét Hawking vera að svara spurningunni um tilvist Guðs með beinum hætti, eins og sjá má í lok bókarinnar A Brief History of Time.

Í seinni tíð hefur hann þó talað nokkuð skýrt.

Í The Grand Design staðhæfir Hawking að þar sem til er lögmál á borð við þyngdarlögmálið þá bæði getur og mun alheimurinn skapa sjálfan sig úr engu.

Hvað svo sem þetta felur í sér þýðir það að Guð skapaði ekki heiminn.

Guð er í raun óþarfur.

Nú ristir mín vísindalega þekking heldur grunnt. En þrátt fyrir allar mínar takmarkanir í þeim efnum tel ég mig samt þekkja mótsögn þegar ég sé hana.

Og mótsögn er eftir sem áður mótsögn þótt henni sé haldið fram af miklum hugsuðum og gáfumennum.

Við getum látið það liggja á milli hluta að þyngdaraflið er sannarlega ekki ekkert. Það er í öllum skilningi þess orðs eitthvað.

Hinu er erfiðara að horfa framhjá að Hawking gengur út frá tilvist alheimsins til þess að útskýra hana.

Ef ég segi að x sé orsök y þá geri ég ráð fyrir því að x sé til og geti og hafi þar af leiðandi orsakað y. En ef ég segi að x orsaki x þá geng ég út frá tilvist x til þess að útskýra tilvist x.

Það er í eðli sínu mótsögn og getur ekki verið satt.

Ekki frekar en að piparsveinn geti verið giftur.

Í gegnum aldirnar hafa vísindamenn lagt fram kenningar sem fela í sér stærfræðileg lögmál til þess að útskýra náttúruleg fyrirbæri.

Og það með miklum árangri.

Fyrsta lögmál Newtons, svo dæmi sé tekið, kveður á um að sérhver hlutur heldur áfram að vera í kyrrstöðu, eða á jafnri hreyfingu eftir beinni línu, nema kraftar sem á hann verka þvingi hann til að breyta því ástandi.

En lögmálin sjálf koma engu í kring. Þau hafa ekki mátt til að skapa eitthvað.

Náttúrulögmál eru (stærfræðilegar) lýsingar á því sem gerist undir tilteknum kringumstæðum.

Þyngdarlögmál Newtons skapar ekki þyngdaraflið. Newton vissi sjálfur að það útskýrir ekki einu sinni af hverju þyngdaraflið er til.

Raunin er að lögmál Newtons um hreyfingu hafa aldrei hreyft við nokkrum hlut.

Þau hafa aldrei ýtt billjardkúlu af stað. Til þess þarf billjardspilara með kjuða, vit, vilja og getu.

Lögmálin gera okkur kleyft greina hreyfingu kúlunnar og stefnu (að því gefnu að ekkert annað komi við sögu).

En þau geta ekki með nokkru móti ýtt henni af stað, hvað þá orsakað tilvist hennar.

C.S. Lewis áttaði sig á þessu á sínum tíma í bók sinni Miracles:

„[Náttúrulögmálin] orsaka enga atburði. Þau kveða á um þá reglu sem allir atburðir – að svo miklu leyti sem þeim verður komið í kring – verða að laga sig að. Rétt eins og lögmál stærfræðinnar kveða á um þá reglu sem allar tilfærslur á peningum verða að laga sig að – að því gefnu að þú komist yfir einhverja peninga. Í vissum skilningi ná náttúrulögmálin því yfir gjörvallt tímarúmið. En í öðrum skilningi er það einmitt allur hin raunverulegi alheimur sem þau skilja eftir, það er að segja hinn óstöðvandi straum raunverulegra atburða sem sönn saga samanstendur af. Hún kemur annars staðar frá. Að ganga út frá því að lögmálin skapi hana er eins og halda að hægt sé að skapa raunverulega peninga með samlagningu. Þegar allt kemur til alls segir sérhvert lögmál aðeins eitt: ,Ef þú átt A þá færð þú B.‘ En vertu þér fyrst út um A-ið. Lögmálin gera það ekki fyrir þig.“

Flokkar: C.S. Lewis · Náttúrulögmál · Stephen Hawking

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur