Fimmtudagur 09.02.2017 - 09:58 - FB ummæli ()

„Krónólógískt snobb“

Sem kunnugt er var C.S. Lewis guðleysingi fram að þrítugu.

Eftir að hafa vegið og metið kristna trú gaumgæfilega, ekki síst í ljósi skynemi og röklegrar hugunar, gerðist hann kristinn að nýju – og varð að lokum einn áhrifamesti boðandi hennar og talsmaður.

Ein af þeim fyrirstöðum sem C.S. Lewis rak sig á í sambandi við kristna trú var það sem hann síðar kallaði „krónólógískt snobb“.

Með því átti hann við gagnrýnilaust samsinni á stefnum og straumum samtíðarinnar og þá ályktun að allt sem komið er til ára sinna hljóti að vera ógilt og úrelt.

Í því ljósi spurði Lewis sig hvað kristin trú hefði að segja í dag.

Er hún eitthvað annað en arfur liðinnar tíða, úr sér genginn, gamaldags og úreltur?

Margir hugsa sem svo og ganga að því sem gefnu að þau viðhorf sem fyrirferðamest eru á hverjum tíma hljóti þar af leiðandi að vera sönn og rétt.

Lewis átti mörg samtöl við góðvin sinn Owen Barfield um trúarglímu sína.

Barfield opnaði augu Lewis fyrir því að spurningar hans vöktu upp aðrar spurningar sem yrði að svara áður dregin væri ályktun um kristna trú eða hvaða „forna“ hugsun sem var.

Nauðsynlegt væri að spyrja sig:

Hvers vegna leið viðkomandi hugsun undir lok?

Var hún einhvern tíma hrakin?

Ef svo er, af hverjum, og á hversu sannfærandi hátt?

Gæti verið að samtími okkar sjái hlutina í röngu ljósi?

Erum við alvitur?

Sumir telja til lítils að leita í speki og visku fyrri alda. Slíkt komi í veg fyrir framþróun og sé líkast því að snúa klukkunni við.

Í því sambandi segir Lewis:

„Varðandi það að snúa klukkunni við!

Mundir þú halda að ég væri að grínast ef ég segði að þú getur snúið klukku við; og líka, gangi hún vitlaust, að þá sé oft skynsamlegt að gera einmitt það?

En ég vil frekar sleppa þessari hugmynd um klukku.

Við viljum öll framþróun!

Og framþróun þýðir að þokast nær þeim stað sem þú stefnir á.

Ef þú tókst ranga beygju á leiðinni hjálpar ekki að fara áfram. Þú þokast ekkert nær fyrir vikið.

Ef þú ert á vitlausum vegi er framþróun fólgin í því að snúa við og koma þér aftur hinn á rétta veg.

Í öllu falli er sá maður sem fyrstur snýr við sá sem mest er í mun að komast áfram.

Við sjáum þetta þegar við reiknum.

Því fyrr sem ég viðurkenni að ég byrjaði vitlaust á reiknisdæmi og byrja að reikna upp á nýtt því fljótari er ég að ljúka við dæmið.

Það er engin framþróun fólgin í því að vera þrjóskur og neita að viðurkenna eigin mistök.

Og ég held að þegar þú horfir á heiminn eins og hann er verður nokkuð augljóst að mannkynið hefur gert býsna stór mistök.

Við erum á vitlausum vegi.

Og ef það er svo verðum við að snúa við.

Að snúa við er fljótfarnasta leiðin áfram.“

Svo skrifaði Lewis í bók sinni Mere Christianity.

Við gleymum því allt of auðveldlega að fátt nýtt er undir sólinni.

Sérhverri kynslóð er kennt af fyrri kynslóðum.

Viðhorf dagsins í dag, þau sem þykja nútímalegust, eru í raun arfur fyrri tíðar. Viðhorf og skoðanir ganga frá einni kynslóð til annarrar.

„Krónólógískt snobb“ hefur haft mikil áhrif á vestræna hugsun og menntun þar sem litið er niður á gildi fyrri tíma og allt sem hefðbundið getur talist.

En það út af fyrir sig gerir ekki eitt rétt og annað rangt.

Sannleiksgildi trúar, hugsunar, viðhorfa, hugmynda, veltur ekki á því hvenær hún kom fyrst fram.

Ef þú hefur sannleikann undir höndum þá skiptir engu máli hve gamall hann er.

Hvort sem sannindi eru tvöþúsund ára gömul eða tveggja ára gömul eru þau eftir sem áður sannindi.

Flokkar: C.S. Lewis · Þekking

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur