Sunnudagur 23.04.2017 - 20:48 - FB ummæli ()

Hver er Guð?

Þeirri spurningu má svara með ýmsum hætti – og veltur svarið vitaskuld á því hver er spurður.

Guðleysingi svarar spurningunni á annan hátt en kristinn maður.

Hvað kristna trú varðar leiðir einföld leit í Biblíunni í ljós afar fjölbreytta og heillandi lýsingu á því hver Guð er:

Guð er andi! Guð er ljós! Guð er kærleikur! Guð er trúr! Guð er miskunnsamur! Guð er einn! Guð er sá sem allt hefur gert! Guð er Drottinn! Guð er voldugur! Guð er mikill! Guð er sá sem dæmir! Guð er réttlátur!

Svo fátt eitt sé nefnt.

Hið kristna svar er margþætt, en í kjarna þess er að finna þann skilning á Guði að hann er þríeinn.

Heilög þrenning!

Þótt hugtakið þrenning sé hvergi notað í Biblíunni tjáir það á skýran hátt vitnisburð Biblíunnar um Guð.

Eingyðistrú er rauður þráður sem gengur í gegnum alla Biblíuna. Guð er aðeins einn!

Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn (5Mós 6.4).

En andspænis Jesú, lífi hans og persónu, boðskap hans, staðhæfingum og verkum, og umfram allt upprisu, sáu fylgjendur hans sig í sífellt vaxandi mæli knúna til að tilbiðja hann sem Guð.

Ennfremur gátu þeir ekki neitað því að nærvera heilags anda, sem þeir upplifðu sín á meðal, miðlaði nærveru Guðs sjálfs.

Með öðrum orðum er Guð einn en engu að síður aðgreinanlegur í þrjá.

* * * *

Þrenningarlærdómurinn heyrir ekki til þess sem kallast náttúruleg guðfræði, heldur opinberaðrar guðfræði. Það er ekki niðurstaða sem við getum dregið í krafti röklegrar íhugunar.

Við vitum að Guð er þrenning vegna þess að Guð hefur sjálfur opinberað sig með þeim hætti.

Það þýðir þó ekki að þrenningarlærdómurinn sé rökleysa, eins og sumir vilja halda fram.

Ekki er um að ræða að þrír guðir séu á einhvernn hátt einn Guð, eða að þrjár persónur séu með einhverju móti ein persóna.

Slík orðanotkun er merkingarleysa.

Þrenningarlærdómurinn felur í sér að sú eina vera sem við köllum Guð samanstendur af þremur persónum.

Til er einn Guð sem hefur að geyma þrjár aðgreindar persónur – föðurinn, soninn og andann.

Það er engu órökréttara en að segja hið eina form eða rúmmynd sem kallast þríhyrningur samanstandi af þremur aðgreinanlegum hornum.

Þrjú horn í einu formi! Þrjár persónur í einum Guði.

Ef til vill má orða þrenningarlærdóminn á betri hátt með því að segja að Guð sé vera sem býr yfir þremur sjálfsvitundum (þremur „ég“), ólíkt okkur sem höfum eina sjálfsvitund (eitt „ég“).

* * * *

Þrenningarlærdómurinn er vissulega mikilfenglegur og leyndardómsfullur, enda lýsir hann innsta eðli sjálfs Guðs.

Hið þríeina eðli Guðs á sér ekki skýra eða greinilega samsvörun í reynslu mannsins. Og þegar kemur að því að tjá innsta eðli Guðs og veru hans verða orð óneitanlega fátækleg.

Það þarf því ekki að koma á óvart að það tók kirkjuna tíma að móta og orða reynslu sína og upplifun, skilning sinn og trú á hinn þríeina Guð á heilsteyptan hátt, sem var trúr vitnisburði ritningarinnar.

Niðurstöðu hinnar kirkjulegu umræðu er að finna í Aþanasíusarjátningunni:

„En þetta er almenn trú, að við heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu og við hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna. Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda. En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf. Svo sem faðirinn er, þannig er sonurinn, þannig er og heilagur andi … Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð og samt ekki þrír guðir, heldur einn Guð.“

* * * *

Þrenningarlærdómurinn er sú kenning sem greinir kristna trú frá öðrum eingyðistrúarbrögðum og ber uppi hinn einstaka skilning kristninnar á því hver og hvers eðlis Guð er.

En af hverju ekki einn og óaðgreinanlegur Guð?

Af hverju þrenningu í stað einingar?

Burtséð frá því að Guð hefur opinberað okkur það og birst okkur með þeim hætti, höfum við einhverja ástæðu til að ætla að Guð sé aðgreinanlegur í fleiri en eina persónu?

Er það líklegra heldur en hitt?

Ég tel svo vera.

Samkvæmt skilgreiningu er Guð hin æðsta mögulega vera.

Með öðrum orðum getur ekkert verið æðra Guði eða honum meira. Ekkert stendur honum ofar. Ef til væri eitthvað sem er æðra Guði þá hlyti það að vera Guð.

Og sem hin æðsta mögulega vera hlýtur Guð að vera fullkomin. Að öðrum kosti gæti hann ekki verið hin æðsta mögulega vera.

Fullkomin Guð hlýtur að vera elskandi Guð.

Því það að elska felur í sér siðferðilega fullkomnun. Það er betra að elska en ekki. Guð hlýtur því eðli sínu samkvæmt að vera fullkomlega elskandi vera.

Hvað segir það okkur um Guð?

Að elska er í eðli sínu fólgið í því að gefa sjálfan sig, bindast öðrum. Elskan teygir sig og leitar út á við, býður sig öðrum, í stað þess að hverfast um sjálfa sig.

Og ef Guð er eðli sínu samkvæmt fullkomlega elskandi þá hlýtur hann að gefa sjálfan sig einhverju öðru, bindast einhverju öðru.

En hver gæti það verið?

Heimurinn hefur ekki alltaf verið til. Mannfólk ekki heldur.

Það heyrir ekki til eðli Guðs að skapa. Að skapa er ekki eitthvað sem Guð varð að gera. Ákvörðun Guðs að skapa var ekki knúin af neinu öðru en hans eigin vilja.

En að elska heyrir til eðli Guðs.

Guð getur ekki verið Guð án þess að elska.

Við getum því ímyndað okkur veruleika þar sem Guð er fullkomlega elskandi en er einn til.

Og þar sem alheimurinn hefur ekki alltaf verið til, eða manneskjur, en Guð er um alla eilífð fullkomin í elsku sinni og elskar á fullkominn hátt, hlýtur það sem elska Guðs beinist að, að vera eitthvað sem fólgið er í honum sjálfum, eitthvað innra með Guði sjálfum.

Með öðrum orðum er Guð ekki ein, einangruð persóna. Guð sem er einn og óskiptur gefur ekki sjálfan sig og binst ekki öðrum í kærleika.

Guð hefur því að geyma fleiri en eina persónu, eins og þrenningarlærdómur kristinnar trúar gengur út frá.

Samkvæmt kristinni guðstrú er Guð eilíft samfélag þriggja persóna sem gefast hverri annarri í gagnkvæmum, fullkomnum kærleika.

Þar sem Guð er í eðli sínu kærleikur hljómar það því sennilegra að Guð hafi að geyma fleiri en eina persónu en að hann sé einn og óskiptur.

* * * *

Og það er vitnisburður kristinnar trúar!

„Guð er kærleikur.“ (1Jóh 4.16)

Kristin trú er fólgin í trú á Guð sem í innsta eðli sínu er kærleikur, Guð sem elskar að fyrra bragði.

„Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ (1Jóh 4.10)

Í fjallræðu sinni segir Jesús Kristur:

„Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“

Slíkur er sá Guð sem birtist okkur í persónu Jesú, í lífi hans, boðskap, orðum og gjörðum. Guð sem elskar skilyrðislaust og án þess að fara í manngreinarálit.

Þetta er það fallegasta við kristna trú, að mínu mati.

Og það sem greinir hana frá öðrum trúarbrögðum.

Á undan öllu öðru er ekki ekkert, ekki myrkur eða tóm, ekki viljaleysi, blindni, tómlæti eða harka, heldur eilífur kærleikur og elska, sem allt annað á uppruna sinn í.

Aðeins kristin trú og lífsskoðun birtir okkur slíkan Guð.

Flokkar: Guð · Heilög þrenning · Trúarbrögð

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur