Sunnudagur 14.05.2017 - 12:32 - FB ummæli ()

Mannréttindi og siðferði: Tvær spurningar og svör

Fyrir skemmstu skrifaði ég á fasbókarsíðu mína að það „að sérhver manneskja njóti ákveðinna réttinda sem ekki verður af henni tekin er staðhæfing sem engin veraldleg og guðlaus lífsskoðun getur risið undir þegar allt kemur til alls.“

Ég var spurður hvað þetta þýðir – og svaraði á þessa leið:

Ég geri mér grein fyrir því að slík staðhæfing er ekki óumdeild og að spurningunni þyrfti sjálfsagt að svara í löngu máli.

En í stuttu máli liggur hér að baki hinn óyfirstíganlegi munur á þeirri lífsskoðun sem byggir á, eða hefur sem grunnforsendu, tilvist Guðs (þá ekki síst hinni kristnu trú og lífsskoðun) og þeirrar lífsskoðunar sem byggir á guðleysi (veraldlegri lífsskoðun), og þær afleiðingar sem af honum leiða, m.a. þegar kemur að mannskilningi okkar.

Einn áhrifamesti guðleysingi samtímans, Richard Dawkins, dregur upp nokkuð lýsandi og sanngjarna mynd af innihaldi og afleiðingum hinnar guðlausu lífsskoðunar:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Ekki ýkja spennandi sýn á lífið eða manninn það.

Og út frá guðlausu sjónarhorni er afar erfitt að svara því í hvaða skilningi við getum talað um manngildi og ófrávíkjanleg réttindi á hlutbundinn (algildan) hátt ef sýn okkar á eðli lífsins krefst slíks skilnings á okkur sjálfum.

Hér verður hver og einn að svara fyrir sig. En spurningin er mikilvæg og áleitin.

Hinn vestræni hefðbundni skilningur á mannréttindum hefur grundvallast á hinni kristnu lífssýn og þeim mannskilningi sem í henni er fólginn, þar sem litið er á manninn sem skapaðan í mynd Guðs. Á þeim forsendum eru margir þeirrar skoðunar að hin kristna lífssyn, ólíkt guðleysinu, hafi að geyma grundvöll sem tryggir hlutlægni manngildis og mannréttinda.

Við þessu svari fékk ég eftirfarandi athugasemd:

Svar þitt er að mínu mati mjög áhugavert. Engu að síður á ég í nokkrum vanda með hugmyndina um trúarbrögð sem forsendu siðferðis. Til eru dæmi um veraldlegar lífsskoðanir sem einnig fela í sér djúpstæða hluttekningu. Gríski heimspekingurinn Epikúrus, svo dæmi sé tekið, boðaði að leiðin til hamingjunnar er að láta sig aðra varða og rækta vináttu og samskipti. Þrátt fyrir það sá hann ekki fyrir sér önnur örlög manninum til handa en að verða að mold. Einnig má finna óteljandi dæmi um guðleysingja sem í sinna mannúðarstörfum og mundi ég giska á að ýmsa slíka má finna í samtökum á borð við Læknar án landamæra. En ég skil hvað þú átt hér við.

Við þessu sagði ég:

Ég er sammála því sem þú segir um siðferði og vil undirstrika að ég er ekki þeirrar skoðunar að trú sé á einhvern hátt nauðsynleg forsenda siðferðis eða góðs lífernis. Ég mundi aldrei halda öðru fram og það gerði ég heldur ekki í fyrra svari mínu. Raunar sagði ég ekkert um siðferði.

Guðleysingi getur vitanlega lifað siðferðilega góðu og aðdáunarverðu lífi, rétt eins og hver annar sem það vill – og stundum er það augljóslega guðleysinginn sem fer fram með góðu og réttu fordæmi í siðferðilegum efnum, ekki sá sem trúir.

Um þetta ættu allir að geta sammælst, að mínu mati, og þarfnast það í raun engrar umræðu við.

En ef gengið er út frá guðleysinu (náttúruhyggju) – ef lífið og við sjálf erum ekkert annað en tilviljanakennd afleiðing efnis sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar án nokkurs tilgangs og merkingar – í hvaða skilningi við getum þá talað um gott og illt eða rétt og rangt í hlutlægri merkingu?

Það er allt annað mál og önnur umræða sem hefur ekkert með trú til eða frá að gera.

Hvað er siðferði, guðlaust séð, þá annað en líffræðileg og félagsleg- og menningarbundin skilyrðing!

Allt verður umsvifalaust afstætt og bundið persónulegum skoðunum og smekk hvers og eins.

Raunar er vandi guðleysisins verri en svo!

Eins og Richard Dawkins staðhæfir þá er einfaldlega ekki til neitt sem heitir illska eða góðvild, séð frá sjónarhóli guðleysisins, bara blint og miskunarlaust tómlæti.

Það er hin rökræna niðurstaða sem guðleysið knýr okkur til.

Og við því gengst Dawkins.

Hér hefði ég viljað doka við og spyrja minn ágæta vin guðleysingjann nokkurra spurninga.

Hvað verður þá um siðferðilega ábyrgð? Hvað merkingu hefur hún? Hvers vegna skyldum við yfirleitt lofa eða lasta fólk fyrir gjörðir sínar, ef eðli lífsins er svo að við dönsum bara vélrænt í takt við DNA-ið okkar, eins og Dawkins staðhæfir. Og ef allt er á endanum afstætt og huglægt getur þá ekki hver og einn einfaldlega gert það sem honum dettur í hug? Er ekki þá allt leyfilegt (hvort sem það er gagnlegt eða félagslega ásættanlegt), eins og Dostojevskí spurði á sínum tíma? Af hverju ekki?

Já, af hverju ekki?!

Ég skil vel gremju margra guðleysingja sem eru spurðir á þessa lund. Og ég skil vel ákafa þeirra í að finna algildu siðferði stað innan sinnar guðlausu lífsskoðunar.

En framhjá því verður ekki horft að guðleysið stendur frammi fyrir miklum vanda þegar kemur að því að finna grundvöll undir þá augljósu siðferðilegu vídd sem við upplifum í lífi okkar, nefnilega að sumt er raunverulega rétt og rangt, gott og illt, í hlutlægri merkingu.

Guðleysi rúmar ekki siðferði í þeirri merkingu. Og getur ekki orðið siðrænt í þeim skilningi.

Eða hver treystir sér til að segja að Stalín, Hitler eða Pol Pot gerðu ekkert annað en að dansa í takt við sitt eigið DNA?

Hver lítur svo á að slíkur skilningur dragi upp rétta mynd af eðli okkar og upplifun okkar af okkur sjálfum og lífinu.

Þess vegna eru margir þeirrar skoðunar – og þar á meðal eru margir guðleysingjar – að hin krista lífsskoðun á mun auðveldara með að gera skynsamlega og skiljanlega grein fyrir hinni siðferðilegu vídd lífsins og upplifun okkar af henni.

Nefnilega að í Guði finnum við þann grundvöll sem við getum reist algilt siferði á.

Það sem raunverulega skiptir máli þegar rætt er um Guð og siðferði er því ekki trú eða vantrú á Guð heldur tilvist Guðs eða tilvistarleysi.

Þetta má draga saman í afar áleitna röksemdarfærslu:

1. Ef Guð er ekki til þá eru algild (hlutlæg) siðferðisgildi og boð ekki til.
2. Algild siðferðisgildi og boð eru til.
3. Þar af leiðir að Guð er til.

Það sem gerir þessa röksemdafærslu jafn áhrifaríka og raun ber vitni er að flestir hafa tilhneigingu til að fallast á báðar forsendurnar.

Og þá fylgir niðurstaðan óhjákvæmilega.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsmynd · Náttúruhyggja · Rök fyrir tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur