Laugardagur 25.11.2017 - 22:37 - FB ummæli ()

Vangaveltur um siðferði

Nýleg stöðufærsla á facebook-síðu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns og pírata, vakti athygli mína.

Þar segir Helgi:

„Kærleikur og umburðarlyndi eru gildi sem standa á eigin fótum. Það á ekki að þurfa yfirnáttúruleg fyrirbæri, loforð um himnaríki eða hótun um vítisvist til þess að fólk tileinki sér þau.“

Þetta er umhugsunarvert.

Nú veit ég ekki að öllu leyti hvað hér er átt við, en ekki þykir mér ósennilegt að það sé í grundvallaratriðum það að öll getum við verið góð án þess að trúa á Guð.

Með öðrum orðum að við getum öll tileinkað okkur þau gildi sem siðferðilega gott líf byggist á óháð því hverju við trúum um Guð eða yfirnáttúrulegan veruleika.

Því er ég hjartanlega sammála!

Við þurfum alls ekki á trú að halda til þess að vera góðar manneskjur eða til að skilja muninn á góðu og illu, og réttu og röngu. Gildi á borð við kærleika og umburðarlyndi, réttlæti og jafnrétti er ekki einkaeign sumra heldur sammannlegur sjóður okkar allra.

Og það er afskaplega dapurlegt þegar trúað fólk lætur annað í veðri vaka.

Raunar er ég ekki í vafa um að margir guðleysingjar hafa lifað siðferðilegra betra lífi en ég hef gert eða mun gera.

En í hvaða skilningi standa siðferðisgildi á borð við kærleika og umburðarlyndi á „eigin fótum“?

Að mínu mati er eitt að segja að við getum verið góð án þess að trúa á Guð. Annað er að segja að við getum verið góð án Guðs.

Á því tvennu er mikill munur.

Spurningin hvort við getum verið góð án Guðs hefur ekkert með trúarviðhorf að gera, hvorki trú né vantrú, heldur eðli siðferðisgilda og grundvöll þeirra.

Hvað þýðir það að segja að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt, gott eða illt? Í hvaða skilningi eða merkingu getum við sagt að svo sé?

Það er afar áhugaverð heimspekileg spurning sem vert er að velta vöngum yfir. Og sú spurning hefur leitað á hugsandi fólk allt frá dögum forngrísku heimspekinganna.

Eru siðferðisgildi á borð við réttlæti, góðmennsku, umburðarlyndi o.s.frv. ekkert annað en félagslegar venjur sem breytast frá einum tíma til annars? Grundvallast þau á persónulegri skoðun og smekk hvers og eins? Eru þau fólgin í meirihlutavilja samfélagsins á hverjum tíma? Eða geðþótta valdhafanna?

Eða eru siðferðisgildi í einhverjum skilningi hlutlæg, algild, og bindandi fyrir alla, hafin yfir persónulegar og ólíkar skoðanir og félagslegar venjur?

Hver er grundvöllurinn sem siðferðisgildi og siðferðisboð hvíla á?

Richard Dawkins, sá þekkti og áhrifamikli guðleysingi, svarar þeirri spurningu umbúðalaust í lýsingu sinni á guðlausum veruleika:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Að gefnu guðleysi sýnist mér erfitt að mæla gegn því sem Dawkins segir. Hér virðist um rökrétta niðurstöðu að ræða út frá gefnum forsendum.

Ef alheimurinn, hinn náttúrulegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku, raunverulega er tæmandi lýsing á því sem til er, ef lífið og við sjálf erum í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt efni sem lýtur, og er skilyrt af, blindum lögmálum náttúrunnar, í hvaða skilningi getum við sagt að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt?

Það er áleitin spurning.

Margir sem rekja guðleysi til sinna röklegu lykta taka undir með Dawkins. Að út frá forsendum náttúruhyggjunnar blasi við að allt tal um hlutlægt, algilt og bindandi siðferði sé innihaldslaus sjálfsblekking.

Vísindaheimspekingurinn Michael Ruse bendir á þetta:

„Siðferði, rétt eins og hendur okkar, fætur og tennur, er líffræðileg aðlögun. Sem skynsamlegar og merkingabærar staðhæfingar um eitthvað hlutlægt er siðferði blekking. Ég ber virðingu fyrir því að sá sem segir: Þú skalt elska náunga þinn eins sjálfan þig, trúi því að hann vísi til einhvers handan sjálfs sín. Slík tilvísun er þó fullkomlega innistæðulaus. Siðferði er ekkert annað en stuðningur við afkomu okkar og fjölgun … hverskonar dýpri merking er tálsýn.“

Og með þetta í huga hljótum við að velta vöngum hvort maðurinn hafi þá eitthvað sérstakt eða hlutlægt gildi í sjálfum sér í siðferðilegum skilningi – eða hvaða skilningi sem er.

Af hverju ber honum siðferðileg skylda til að gera eitt umfram annað?

Í guðlausu ljósi náttúruhyggjunnar erum við ekkert annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis á valdi blindra náttúrulögmála og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.

Það eina sem bíður okkar allra er hið sama og bíður alls alheimsins.

Að verða að engu.

Og rétt eins og önnur dýr „dönsum við í takt“ við erfðaefnið okkar.

Það sem Dawkins, Ruse og aðrir benda á, er að ef guðleysi lýsir veruleikanum eins og hann er þá eru siðferðisgildi og siðferðisboð í hlutlægri merkingu ekki til. Guðleysi rúmar það einfaldlega ekki.

Nietzsche, sem á sínum tíma boðaði dauða Guðs, benti á hið sama. Án Guðs eru siðferðisgildi og siðferðisboð tilviljunarkennd aukaafurð þróunar og félagslegrar skilyrðingar og benda ekki til neins sem okkur er skylt að taka tillit til.

Að mínu viti er afar erfitt að komast undan slíkri niðurstöðu ef guðleysi er grunnforsendan.

Eins og efahyggjumaðurinn David Hume lagði áherslu á er náttúran einfaldlega það sem er. Það hefur hins vegar ekkert að gera með það sem okkur finnst að ætti að vera. Við komumst ekki frá því sem er til þess sem ætti að vera. Guðleysi getur ekki brúað fjarlægðina þar á milli.

Að mati líffræðingsins og guðleysingjans William Provine er því einfaldlega „ekki til neitt innbyggt siðferðislögmál. Alheimurinn lætur sig okkur engu varða og líf okkar hefur enga merkingu eða tilgang þegar öllu er á botninn hvolft“.

Erum við þá ekki ofurseld afstæðishyggjunni, þar sem allt (eða ekkert) er rétt og rangt og siðferðilegar staðhæfingar ekki fólgnar í öðru en félagslegum skilyrðingu og persónulegum skoðunum og smekk.

Heimspekingurinn og guðleysinginn Alex Rosenborg gengst við því. Í bók sinni The atheist guide to reality svarar hann nokkrum af stærstu spurningum lífsins á skýran og hnitmiðaðan hátt:

„Er Guð til? Nei

Hvert er eðli lífsins? Það sem eðlisfræðin segir að það sé.

Hver er tilgangur alheimsins? Enginn.

Hvers vegna er ég hér? Fyrir hreina heppni.

Er til sál? Ertu að grínast?

Er til frjáls vilji? Ekki möguleiki.

Hver er munurinn á réttu og röngu, góðu og illu? Það er enginn siðferðilegur munur.“

Niðurstaða Rosenborg er eftirfarandi: „Ef maður vill vera guðleysingi verður maður að sætta sig við níhílisma upp að vissu marki … en sem betur fer er alltaf til prósak.“

Slíkt viðhorf til lífsins hljómar afar ófullnægjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og fullkomlega óraunhæft í praktískum skilningi.

Dostojevskí dró þetta allt saman á áleitinn hátt í bók sinni Karamazov bræðurnir:

„Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.“

Þannig er veruleikinn þegar öllu er á botninn hvolft. Samkvæmt náttúruhyggjunni!

En er þetta öll sagan?

Svarar þetta til upplifunar okkar og reynslu af lífinu?

Nei!

Djúpt innra með okkur vitum við, sjáum við og finnum, að lífið hefur óneitanlega siðferðilega vídd sem verður ekki hafnað eða útskýrð á einfaldan hátt í krafti smættunarhyggju.

Á sama hátt og við sjáum og finnum fyrir veruleikanum í kringum okkur finnum við og sjáum við að sumt í lífinu er raunverulega rétt eða rangt, í hlutlægum og algildum skilningi.

Er það upplifun sem okkur ber að horfa framhjá sem ranghugmynd.

Nei!

Siðferðilegt innsæi okkar virðist ekki aðeins minna á hvað er rétt og gott að gera (eða láta vera að gera) heldur að til sé siðferðilegur mælikvarði, óháður skoðunum okkar, breytni og menningar- og samfélagsbundnum aðstæðum, sem við m.a. notum til að leggja mat og dóm á skoðanir og gjörðir annarra , ekki síst þeirra sem eru okkur ósammála. Á þeim grunni ýmist lofum við fólk og gjörðir þeirra, eða gagnrýnum, og jafnvel fordæmum.

En ef öll siðferðisgildi eru afstæð í eðli sínu þá hefur slíkt ekkert upp á sig og er með öllu þýðingarlaust og í raun án innihalds.

En við gerum það engu að síður!

Hvers vegna?

Vegna þess að við vitum að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Sú vissa er okkur eins eðlislæg og vera má.

Þegar ég segi að helförin var siðferðilega röng lýsi ég ekki bara persónulegri skoðun minni eða huglægu mati, sem kann eða kann ekki að ganga gegn skoðunum annarra. Að kerfisbundin útrýming 6 milljóna manna var siðferðileg ómennska í sinni verstu mynd veltur ekki á því hverjir eða hversu margir eru mér sammála. Helförin var, er og mun alltaf vera, siðferðilega röng – jafnvel þótt nasistarnir sem hrintu henni í framkvæmd töldu hana rétta, jafnvel þótt hún var þýsku valdhöfunum þóknanleg og féll að mörgu leyti að tíðarandanum.

Að misnota manneskju, að beita hana ofbeldi, unga eða gamla, er ekki siðferðilega hlutlaus verknaður. Það er ekki bara eitthvað sem ekki þjónar hag samfélagsins og er þess vegna litið hornauga.

Eins og einn heimspekingurinn sagði: Sá sem telur það ásættanlegt að pynta barn hefur jafn rangt fyrir sér og sá sem segir að tveir plús tveir eru fimm.

Hvernig getum við tekið undir það að hryðjuverkamaðurinn sem myrðir saklausar manneskjur, eða foreldrið sem misnotar barnið sitt, einræðisherrann sem skeytir engu um líf og heilsu landa sinna, dansi bara í takt við erfðaefnið sitt?!

Væri það til marks um siðferði sem stendur á eigin fótum?

Nei, það væri til marks um siðferðilega uppgjöf, endalok siðferðisins, að mínu mati.

En er það veruleikinn sem við lifum í?

Er ekki annað og meira á bak við lífið en svo?

Hvað með hryllinginn sem viðgekkst í Sovjétríkjunum undir ógnarstjórn Stalíns? Hvað með fjöldamorðin í Kambódíu. Hvað með Rúanda? Sebrenika? Hvað með Sýrland? Hvað með ríki íslams?

Er þetta bara dæmi um fólk sem viljalaust og án ábyrgðar dansaði í takt við erfðaefnið sitt?

Er það skynsamlegasta skoðunin þegar öllu er á botninn hvolft?

Er það skilningur okkar á lífinu og upplifun okkar af því, af okkur sjálfum og öðrum? Rúmar lífið ekki siðferðilega vídd yfirleitt? Er siðferðiskennd okkar og vitund hrein blekking? Er eðli lífsins slíkt að það er með öllu merkingarlaust?

Er ekki annað á bak við lífið en „blint miskunnarlaust tómlæti“? svo gripið sé til orða Dawkins.

Svari því hver fyrir sig.

Ég held þó að við höfum öll tilhneygingu til að svara þeirri spurningu neitandi.

Einmitt vegna þess að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Við upplifum það dag hvern og staðfestum í gegnum orð okkar og breytni.

Og þá hljótum við að spyrja hvað útskýrir það?!

Hver er grundvöllur þess?!

Hvort felur í sér skynsamlegri útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar og upplifun, Guð eða tilviljunarkennt efni á valdi blindra náttúrulögmála?

En burtséð frá því hvernig við svörum þeirri spurningu þá liggja forsendurnar fyrir.

Ef Guð er ekki til þá eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð ekki til!

Hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til!

Þessar forsendur hljóma einkar sennilegar, að mínu mati, að minnsta kosti sennilegri en andstæða þeirra.

Og niðurstaðan sem leiðir af þessum tveimur forsendum er röklega séð óhjákvæmileg.

Ef alheimurinn var skapaður af Guði sem í eðli sínu er góður, kærleiksríkur og réttlátur, þá höfum við í senn traustan grundvöll fyrir og skynsamlega útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar sem minnir okkur á að sumt er raunverulega rétt og rangt og gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Við þurfum vissulega ekki að trúa á Guð til þess að vita það.

Og þá þekkingu getur fólk tileinkað sér á ólíkan hátt og eftir ólíkum leiðum.

En við getum engu að síður vitað það vegna þess að þegar allt kemur til alls er uppruna okkar og alheimsins að finna í einum og sama veruleikanum, Guði.

Ef tiltekin forsenda (að Guð er ekki til) leiðir til niðurstöðu sem maður veit að er ekki rétt (að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru ekki til) hvers vegna ætti maður þá ekki að endurskoða þá forsendu?

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsmynd · Heimspeki · Náttúruhyggja · Siðferði

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur