Föstudagur 01.12.2017 - 16:12 - FB ummæli ()

Frekari vangaveltur um siðferði

Þingmaðurinn og píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sendi mér afar áhugavert svar við vangaveltum mínum um siðferði í gegnum facebook-síðu mína. Einnig tóku þar nokkrir aðrir til máls og gerðu grein fyrir skoðunum sínum.

Ég þakka Helga Hrafni fyrir vangaveltur sínar. Svar mitt til hans var á þessa leið:

* * *

Það er rétt skilið hjá þér að ég geri greinarmun á tilvist Guðs annars vegar og trú á Guð hins vegar. Hér er um grundvallarmun að ræða sem nauðsynlegt er að hafa í huga, því eins og áður er nefnt snýst umræðan ekki um það hvort við verðum að trúa á Guð, eða vera yfirleitt trúuð í einum öðrum skilningi, til að geta tileinkað okkur viss siðferðisgildi og lifað siðferðilega góðu lífi. Þess þurfum við ekki.

Umræðan snýst ekki heldur um það hvort hægt sé að smíða kenningu um siðfræði án þess að vísa til Guðs. Ef gengið er út frá því að maðurinn hafi gildi í sjálfum sér býst ég við að ég sem trúaður maður gæti skrifað undir margt í slíkri kenningu.

Nei, grundvallar spurningin er þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Er að finna grundvöll eða útskýringu á því hvers vegna sumt er gott fremur en slæmt, rétt fremur en rangt, og hvers vegna okkur ber að gera eitt fremur en annað?

Spurningin snýst sum sé um nauðsyn Guðs sem grundvöll hlutlægs siðferðis, ekki um nauðsyn þess að trúa á Guð í einni merkingu eða annarri.

(Mikilvægi þess að undirstrika þennan greinarmun kemur skýrt fram þegar maður les athugasemd á borð við þessa frá Járngrími nokkrum Michaelsen:

„Það fer vægast sagt í taugarnar á mér hvað margir láta sem kristni sé nauðsynleg í kærleik eða að það séu einhver tengsl þar á milli sem er vægast sagt fáránlegt. Það er margt gott fólk kristið, en ekki er allt kristið fólk gott fólk … Trú er fallegur hlutur fyrir þann sem trúir og getur fært honum margt. En mér finnst það mjög rangt að halda framm að ein trú sé merkari en önnur eða betri … Það er bæði gott og vont fólk allstaðar, öllum trúarbrögðum og stofnunum. En engin trúarbrögð eða stofnun býr til gott fólk.“

Þótt segja má eitt og annað um um þessa athugasemd ætti að vera ljóst að ég held því hvergi fram að kristni eða kristin trú eða trúarbrögð yfirleitt séu nauðsynleg til að fólk geti tileinkað sér gott siðferði.)

Þú segir í lok svars þíns að þú sjáir „nákvæmlega ekki neitt í trúarbrögðum, eða við tilvist guðs, sem hjálpar mér að ýmist skilja eða kunna að meta [siðferðis]gildi.“

En um það snýst röksemdafærslan heldur ekki.

Hvað sem okkur kann að finnast um trúarbrögð, og hvort eða að hve miklu leyti við skiljum eða kunnum að meta siðferðisgildi sem slík er aukaatriði. Eins og áður sagði er spurningin þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Þú ert mjög skýr í málflutningi þínum og lýsir umbúðalaust þeirri skoðun þinni að siðferði er ekki hlutlægt í neinum skilningi heldur sé það að öllu leyti huglægt og afstætt.

Það er ekki ýkja algengt í heimspekilegu samhengi að heyra slíka játningu. Langflestir heimspekingar og siðfræðingar – og guðleysingjar – , eru ekki tilbúnir að ganga afstæðishyggju og/eða tómhyggju alfarið á hönd og reyna því að finna hlutlægu siðferði stað innan veraldlegrar lífsskoðunnar sinnar með einum eða öðrum hætti. Allflestir, leyfi ég mér að segja, líta svo á að siðferði sé að einhverju leyti algilt, að hægt sé að benda á eitthvað sem segja má að sé rétt eða rangt í hlutlægum skilningi, óháð skoðunum okkar.

Enda verður fljótt vandlifað að öðrum kosti.

En með hliðsjón af guðleysi verður ekki hjá niðurstöðu þinni komist, að mínu mati.

Það sem við köllum siðferðisgildi og siðferðisboð er þá ekkert annað en hegðunarmynstur sem okkur er innrætt í gegnum líffræðilega þróun og samfélagslegar skilyrðingar. Rétt eins og apar hegða sér á vissan hátt sem kemur hópnum vel, höfum við í gegnum þróun tileinkað okkur ákveðið hegðunarmynstur sem kemur okkur og afkomu okkar vel.

Í þeim skilningi er ég sammála þér.

Ef Guð er ekki til þá er siðferði bara aukaafurð líffræðilegrar þróunar og samfélagslegra skilyrðinga, eins og þú bendir á. Siðferði er þá ekkert annað en „hálfnáttúrulegt, hálfmanngert, afstætt fyrirbæri.“

Það sem telst gott og illt og rétt og rangt er háð skilningi okkar og skoðunum okkar á því.

(Ég get því „vel ímyndað [mér] að samkennd og fórnfýsi gæti átt séð lífræðilegar stoðir“, eins og Hákon Helgi Leifsson spyr mig að í athugasemd á facebook-síðu minni.

Að gefnu guðleysi get ég ekki ímyndað mér mikið annað.

En ég get ekki séð í hvað skilningi slíkt heðunarmynstur væri hlutlægt og lýsandi fyrir eitthvað sem er rétt í þeim skilningi og þar með bindandi.)

Í þessu samhengi virðist þú helst gera sameiginlegan skilning samfélagsins að mælikvarða þess sem telst vera innan eða utan siðferðilegra marka.

En hvernig getur eitthvað verið innan eða utan siðferðilegra marka, ef siðferði er afstætt og „ … ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“, eins og þú segir?

Hver dregur línuna?

Samfélagið, segir þú. En það gerir ekki eitt rétt og annað rangt í eiginlegum skilningi.

Og hvað leiðir slíkur skilningur af sér?!

Var þá ekkert rangt við þrælahald fyrri tíma? Hvað með krossferðirnar á miðöldum? Hvað með þau samfélög sem hafa stundað mannsfórnir og mannsát? Var ekkert beinlínis rangt við það? Það er ekki að sjá að við höfum nokkurn grundvöll til að segja að svo hafi verið. Eins og ég skil málflutning þinn var það raunar siðferðilega rétt vegna þess að tiltekin samfélög sammæltust um það. Og það mundi vera rétt í dag ef tiltekin samfélög tækju annað eins upp.

Eða af hverju er skoðun eins samfélags æðri skoðun annars. Nú eða skoðun eins manns æðri skoðun annars? Siðferði er jú „ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“.

Er þá enginn hlutlægur siðferðilegur munur á því að elska náunga sinn eða éta hann, eða að annast um nýfætt barn eða bera það út til að deyja?! Er það eina sem greinir siðferðilegt gildi þessara ólíku gjörða skoðanir svo og svo margra einstaklinga. Svo er að skilja, því hér er einfaldlega um ólíkar samfélagslegar venjur að ræða. Það má segja að ein sé frumstæðari en önnur. En að segja að önnur sé hinni siðferðilega æðri eða óæðri virðist ekki hafa neina merkingu.

Það má vitanlega segja að margt sem samfélög fyrri tíma ástunduðu er álitið siðferðilega rangt í dag. En það þýðir á engan hátt að einhver hafi beinlínis gert eitthvað rangt áður fyrr. Eða að einhver geri beinlínis eitthvað rétt í dag. Breyttar samfélagslegar venjur vitna ekki um neitt annað en breytilegar skoðanir. Og sú breyting hefur enga sérstaka siðferðilega vídd.

Ég fæ ekki séð hvernig unnt er að komast hjá annarri eins siðferðilegri ringulreið (svo vægt sé til orða tekið) á grundvelli þess viðhorfs sem þú lýsir.

En út frá forsendu guðleysis er niðurstaða þín rökrétt.

Í vissum skilningi verður því auðvitað ekki mótmælt að siðferðisgildi „breytast frá einum tíma til annars … eftir tíðaranda, þörfum samfélags og lærdóms fólks“, eins og Helgi Hrafn nefnir.

Þegar horft er yfir söguna hefur manninum sem betur fer farið fram í siðferðilegum efnum. Að sumu leyti hefur honum farið aftur. Þannig mun það sjálfsagt alltaf verða.

En það að siðferðileg framþróun sé möguleg sýnist mér einmitt vera til marks um að til eru algild siðferðisgildi, eða siðferðilegur mælikvarði, sem gefur okkur grundvöll til þess að segja að eitthvað hafi þokast áfram í siðferðilegum efnum, að skilningur okkar á því sem er rétt og rangt endurspegli nú betur þann mælikvarða en áður var.

Segjum sem svo að ég biðji tvo listamenn að mála fyrir mig mynd af Herðubreið. Eina mögulega leiðin til að gera upp á milli myndanna, t.d. meta hvor þeirra svipar meira til Herðubreiðar, er ef fjallið Herðubreið er raunverulega til.

Án algilds siðferðis, eða mælikvarða, grundvallar, hefur það enga þýðingu að tala um siðferðilega framþróun eða afturför.

Að skilningur okkar á siðferði breytist frá einum tíma til annars, m.a. vegna reynslu okkar af lífinu og breytilegum aðstæðum okkar, leiðir nefnilega ekki af sér að siðferði sé ekki að einhverju leyti, eða geti að engu leyti verið, hlutlægt.

Í sama skilningi hefur skilningur okkar á hinum efnislega veruleika breyst í gegnum aldirnar eftir því sem við höfum viðað að okkur betri þekkingu á honum. En það þýðir vitaskuld ekki að veruleikinn sem slíkur og eðli hans hafi tekið breytingum.

Einmitt þvert á móti.

Þú hefur ekki sýnt fram á að svo sé, að mínu mati.

Hvað varðar aðra forsendu röksemdarfærslunnar, að algild siðferðisgildi og siðferðisboð eru til, virðist þú líta svo á hún grundvallist í einhverjum skilningi á fyrirframgefinni skilgreiningu. Þú virðist líta svo á að tilvist Guðs verði naðsynleg vegna þess að ég hafi skilgreint siðferði sem hlutlægan veruleika. Þú segir að í þessu sé fólginn grundvallarrökstuðningurinn fyrir málflutningi þínum.

Ef hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð geta ekki verið til án Guðs, þá leiðir veruleiki þeirra nauðsynlega til þeirrar niðurstöðu að Guð sé til.

Það er jú röksemdafærslan.

En það er miskilningur að ætla að réttlætingin fyrir þeirri forsendu að til eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð sé sú fyrirframgefna skilgreining að siðferði sé hlutlægt. Það fæli í sér augljósa rökleysu.

Nei, réttlætingin fyrir tilvist algildra siðferðisgilda og siðferðisboða er siðferðileg upplifun okkar og reynsla.

Í gegnum skynjun mína (skilningarvit) veit ég að hinn efnislegi veruleiki í kringum mig er raunverulegur. Á meðan ekki er hægt að sýna fram á annað eða leggja fram rök sem tekur skynjun minni á og reynslu minni af hinum efnislega veruleika fram þá hef ég enga ástæðu til að vantreysta skynjun minni og reynslu.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á meðan ekki er hægt að leggja fram rök sem tekur henni fram hef ég enga ástæðu til að vantreysta því sem siðferðileg skynjun mín, upplifun og reynsla segir mér, nefnilega að sumt er siferðilega rétt og rangt, gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Til dæmis að það sé siðferðilega hlutlægur munur á því að annast um ungabarn eða bera það út.

En þýðir það að siðferðileg skynjun okkar og reynsla sé eða hljóti að vera óskeikul? Að hið siðferðilega rétta og ranga, góða og illa, liggi alltaf í augum uppi? Að ekki séu til siðferðileg álitamál sem vandasamt er að útkljá? Að ekki séu til siðferðilega grá svæði?

Þú virðist líta svo á.

En það er engin ástæða að ætla það eftir því sem ég best fæ séð. Tilvist algilds siðferðis krefst ekki óskeikullar siðferðilegrar skynjunar eða fullkomins siðvits.

Skynjun okkar á hinum efnislega veruleika í kringum okkur er ekki óskeikul. Skynjun okkar getur avegaleitt okkur. En það gefur okkur ekki tilefni til þess að vantreysta henni að öllu leyti eða líta svo á að hún sé óáreiðanleg. Slíkt væri fráleitt. Til þess þyrftu að liggja fyrir afar, afar sterk rök. Svo sterk að þau vega þyngra en samanlögð skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á sama hátt og skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur réttlætir trú okkar á tilvist hlutlægs efnislegs veruleika réttlætir siðferðileg skynjun okkar og reynsla þá trú okkar að til séu siðferðisgildi og siðferðisboð sem birtast okkur sem hlutlægur veruleiki.

Og rétt er að nefna líka að spurningin um uppruna siðferðis, eða hvernig við tileinkum okkur siðferðisgildi, grefur ekki undan siðferðilegri skynjun okkar og reynslu.

Jafnvel þótt maðurinn tileinki sér siðferðisgildi fyrir tilstilli hægfara þróunar og félagslegra skilyrðinga gefur það augljóslega ekki tilefni til að vantreysta gildi siðferðilegrar reynslu okkar, enda hefur uppruni trúar eða viðhorfs ekkert með réttmæti eða sannleika þeirrar trúar eða þess viðhorfs að gera.

Það kann vel að vera að siðferðileg þekking eigi sér margar og ólíkar uppsprettur: Skynsemi, röklegt innsæi, íhugun á gildi mannsins, uppeldi, jafnvel guðlega opinberun. En spurningin hvernig við komumst til þekkingar á eða tileinkum okkur siðferðisgildi er ekki hluti af röksemdafærslunni og hefur ekkert með hana að gera.

Til að ljúka máli mínu:

Ef Guð er ekki til þá höfum við góða ástæðu til að ætla að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu ekki til, og að gjörðum okkar fylgi engin ábyrgð í siðferðilegum skilningi. Tilhugsunin um slíkan veruleika er sannarlega hryllilegur. Ef við lítum svo á að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu til, sem virðist fullkomlega skynsamlegt að gera í ljosi siðferðilegrar reynslu okkar og upplifunar af lífinu, þá höfum við tilefni til að trúa því að Guð sé til, og að náttúruhyggja gefi okkur ekki rétta mynd af eðli lífsins og mannsins.

Virðingarfyllst og með kærri kveðju.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Rök fyrir guðleysi · Rök fyrir tilvist Guðs · Siðferði

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur