Laugardagur 02.12.2017 - 16:25 - FB ummæli ()

Að efast um efa sinn

Ég þekki marga mæta guðleysingja sem gaman og gefandi er að skiptast á skoðunum við. Slík samtöl geta tekið á sig ýmsar og ólíkar myndir en eru samt undantekningarlaust auðgandi og kenna mér alltaf eitthvað nýtt – um sjálfan mig og aðra, og lífið og tilveruna.

Það kemur vitanlega fyrir að slík samskipti og skoðanaskipti verði krefjandi og ekki eins uppbyggileg og til stóð. Að sumu leyti er það skiljanlegt því þegar við ræðum um trú okkar (hvort sem er guðstrú eða guðleysi) ræðum við um leið um grundvöll lífsskoðunar okkar og þá forsendu sem mótar viðhorf okkar að öðru leyti.

Og hana gefum við ekki auðveldlega upp á bátinn.

Gott og gefandi samtal um trú og lífsskoðanir er ekki síst fólgið í því að við leyfum okkur að horfast í augu við spurningar okkar og efa.

Óháð því hverju við trúum (eða ekki trúum) er engin ónæmur fyrir efa.

Og þar er ég ekki undanskilinn.

Trúað fólk sem afrækir efa sinn, kæfir hann, eða neitar að horfast í augu við hann, getur staðið berskjaldað frammi fyrir erfiðleikum og áskorunum lífsins – hvort sem þær birtast í persónulegum áföllum eða áleitnum spurningum frá hugsandi og vel gefnum efahyggjumanni eða guðleysingja.

Aðeins með því að viðurkenna og glíma við spurningar okkar og efasemdir, og þær móbárur við kristinni trú sem verða á vegi okkar, getum við styrkt trú okkar og grundvallað hana á öðru en uppeldi, hefð eða venju. Það mun einnig gera okkur skilningsríkari og mýkri gagnvart öðrum sem glíma við efasemdir eða aðhyllast önnur viðhorf en við sjálf.

En á sama hátt og trúað fólk ætti að leita að ástæðum og rökum fyrir trú sinni ættu guðleysingjar að opna betur augun fyrir þeirri tilteknu trú sem er að finna á bak við vantrú þeirra og efasemdir. Því í öllum efa, hversu sjálfgefinn sem hann kann að virðast, er fólgin tiltekin trú.

Við getum ekki efast um trú A nema á grundvelli trúar B. Ef einhver efast um kristna trú á þeim forsendum að engin ein trú getur verið sú eina rétta, svo dæmi sé tekið, verður maður að átta sig á því að slík staðhæfing er í eðli sínu trúarlegs eða heimspekilegs eðlis. Og af hverju ætti maður að trúa henni? Hún er alls ekki sjálfgefin.

Sá sem vill vera heiðarlegur í efa sínum gagnvart kristinni trú gengst við þeirri trú sem efi hans hvílir á og spyr sig hvaða ástæður liggja henni til grundvallar, hvers vegna hann gengst við henni og hvernig hann veit að sú trú er rétt og sönn.

Sá sem krefst ríkari réttlætingar fyrir kristinni trú en sinni eigin trú er ekki samkvæmur sjálfum sér. Engu að síður er það oftar en ekki tilfellið hjá mörgum guðleysingjum.

En ef guðleysingjar gangast við þeirri trú sem þeir grundvalla efasemdir sínar um kristna trú á, og gera jafn ríka kröfu um sönnun fyrir þeirri trú og þeir ætlast til af kristnu fólki varðandi þeirra trú, þá er óvíst að þeir telji efa sinn standa á jafn traustum grunni og áður.

Það ætti í öllu falli að vera áleitið umhugsunarefni.

Flokkar: Efi · Guðleysi · Guðstrú · Trú

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur