Þriðjudagur 05.12.2017 - 08:16 - FB ummæli ()

Meyfæðingin

Gamalt og gott frá C.S. Lewis.

„Kraftaverk,“ sagði vinur minn. „Æi, láttu ekki svona. Vísindin hafa útilokað allt slíkt. Við vitum að náttúrunni er stjórnað af ákvðnum og fastsettum lögmálum.“

„Hefur fólk ekki alltaf vitað það?“ sagði ég.

„Hamingjan sanna, nei!“ sagði hann. „Taktu sögu eins og meyfæðinguna sem dæmi. Við vitum að slíkt gæti ekki gerst. Við vitum að sæði karlmanns verður að koma við sögu.“

„En sjáðu nú til,“ sagði ég. „Jósef …“

„Jósef! Hver er það?“ spurði vinur minn.

„Hann var eiginmaður Maríu. Ef þú lest frásöguna í Biblíunni þá sérðu að þegar hann komst að því að unnusta hans var þunguð ákvað hann að hætta við giftinguna. Hvers vegna gerði hann það?“

„Mundu ekki flestir gera það?“

„Jú, flestir mundu gera það,“ sagði ég, „að því gefnu að þeir þekktu til lögmála náttúrunnar. Það er að segja, að því tilskildu að þeir vissu að kona eignast venjulega ekki börn nema hún hafi verið með manni. En samkvæmt þinni kenningu þá vissi fólk í gamla daga ekki að náttúran fylgir ákveðnum lögmálum. Það sem ég er að benda á er að frásagan sýnir að Jósef þekkti þetta lögmál rétt eins og ég og þú.“

„En hann trúði jú síðar á meyfæðinguna, ekki satt?“

„Jú, vissulega. En en hann gerði það ekki vegna einhvers misskilnings í sambandi við það hvernig börn verða til samkvæmt hefðbundnu ferli náttúrunnar. Hann trúði á meyfæðinguna sem eitthvað yfir-náttúrulegt. Hann vissi að náttúran fylgir ákveðnum reglubundnum lögmálum. En hann trúði því líka að til væri eitthvað handan náttúrunnar sem getur haft áhrif á gang hennar – utan frá, svo að segja.“

„En nútímavísindi hafa sýnt að ekkert slíkt er til.“

„Er það,“ sagði ég. „Hvaða vísindi?“

„Tja, það er nú spurning um smáatriði,“ sagði vinur minn. „Ég man það nú ekki svona í svipinn.“

„En gerir þú þér ekki grein fyrir því,“ sagði ég, „að vísindin geta aldrei sýnt fram á annað eins?“

„Hvers vegna í ósköpunum ekki?“

„Vegna þess að vísindin rannsaka náttúruna. Spurningin er hins vegar  hvort til sé eitthvað handan náttúrunnar – eitthvað fyrir utan hana. Hvernig gætir þú komist að því með því að skoða náttúruna?“

„En er ekki ljóst að gangverk náttúrunnar verður að að fylgja ákveðnum lögmálum? Ég meina, lögmál náttúrunnar segja okkur ekki aðeins hvernig hlutir gerast, heldur hvernig þeir hljóta að gerast. Enginn máttur gæti mögulega breytt því.“

„Hvað áttu við?“

„Sjáðu til,“ sagði hann. „Gæti þetta eitthvað fyrir utan sem þú talar um gert tvo og tvo að fimm?“

„Ja, nei,“ sagði ég.

„Allt í lagi,“ sagði hann. „Ég held að lögmál náttúrunnar séu í raun eins og tveir plús tveir eru fjórir. Hugmyndin um ad breyta því er fráleit, rétt eins og hugmyndin um að breyta lögmálum stærfræðinnar.“

„Bíddu nú augnablik,“ sagði ég. „Segjum að þú látir krónu í skúffu í dag og aðra krónu í sömu skúffu á morgun. Segja lögmál stærfræðinnar að þú finnir tvær krónur í skúffunni næsta dag?

„Að sjálfsögðu,“ sagði hann, „svo lengi sem enginn hafi átt við skúfuna þína.“

„Ah, það er einmitt málið,“ sagði ég. „Lögmál stærfræðinnar geta með algjörri nákvæmni sagt þér hvað þú finnur, að því gefnu að ekkert annað hafi þar áhrif á. Hafi þjófur komist í skúffuna þá verður niðurstaðan auðvitað önnur. En þjófurinn braut ekki lögmál stærfræðinnar – aðeins hegningarlögin í landinu. Nú, er því ekki eins farið með lögmál náttúrunnar? Segja þau ekki hvað muni gerast svo lengi sem þau fái að hafa sinn gang?“

„Hvað meinar þú?“

„Ja, ef ýtt er við billjardkúlu með tilteknum hætti sem liggur á sléttum fleti þá segja lögmál náttúrunnar fyrir um hreyfingu hennar – en aðeins að því gefnu að enginn grípi inní. Ef einhver tekur upp kjuða og ýtir kúlunni í aðra átt, eftir að hún var komin á hreyfingu, tja, þá kemstu ekki að þeirri niðurstöðu sem vísindamaðurinn spáði fyrir um.“

„Nei, auðvitað ekki. Hann getur ekki tekið þannig brögð með í reikninginn.“

„Einmitt. Og með sama hætti, skyldi nú eitthvað vera til handan náttúrunnar sem gripi inn í, þá mundi sá atburður sem vísindamaðurinn sá fyrir ekki fylgja. Það er það sem við köllum kraftaverk. Í vissum skilningi væri ekki um brot á lögmálum náttúrunnar náttúrunnar að ræða. Lögmálin segja þér hvað gerist ef ekkert skiptir sér af þeim. Þau geta ekki sagt þér hvort eitthvað muni grípa inní. Ég meina, stærfræðingurinn getur ekki sagt þér hversu líklegt það er að einhver skipti sér af krónunum í skúfunni minni. Rannsóknarlögregla kæmi að betri notum. Eðlisfræðingurinn getur ekki sagt þér hversu líklegt það er að ég taki upp kjuða og skemmi tilraunina hans með billjardkúluna. Þú ættir frekar að spyrja sálfræðing. Og ekki er það vísindamaðurinn sem getur sagt þér hversu líklegt það er að náttúran verði fyrir áhrifum að utan. Þú verður að fara til heimspekingsins.“

„Þetta er nú allt frekar smásmugulegt,“ sagði vinur minn. „Sjáðu nú til. Mótbáran ristir í raun miklu dýpra. Öll sú mynd sem vísindin draga upp af alheiminum sýnir hverskonar þvæla það er að trúa því að sá Máttur sem er á bak við hann gæti haft minnsta áhuga á okkur, örsmáum verum sem sniglast um á einhverri plánetu sem engu máli skiptir. Hitt var svo augljóslega fundið upp af fólki sem trúði á flata jörð þar sem stjörnurnar voru aðeins í kílómetra fjarlægð eða svo.“

„Hvenær trúði fólk því?“

„Hva, þeir gerðu það, allir þessir fornu kristnu menn sem þú ert alltaf að tala um. Bóeþíus og Ágústínus, Tómas Akvínas, Dante og hvað þeir heita nú allir.“

Því miður,“ sagði ég. „Þetta er eitt af fáum viðfangsefnum sem ég veit eitthvað um.“

Ég teygði mig upp í hillu. „Sjáðu þessa bók,“ sagði ég. „Almagest eftir Ptólemæos. Þú þekkir hana?“

„Já,“ sagði hann. „Þetta var grundvallarrit um stjörnufræði sem var notað allar miðaldir.“

„Jæja, lestu þetta,“ sagði ég, og benti á fimmta kafla í fyrstu bók.

„Í afstöðu sinni,“ las vinur minn nokkuð hikandi er hann klóraði sig fram úr latínunni, „til fjarlægða að fastastjörnum hefur jörðin enga merkjanlega stærð og verður því að skoðast sem stærfræðilegur punktur.“

Á eftir fylgdi stutt þögn.

„Vissu þeir þetta í alvöru þá?“ sagði vinur minn. „En … engin bók um sögu vísinda … ekkert nútíma alfræðirit minnist á það.“

„Einmitt,“ sagði ég. „Ég læt þig um að velta vöngum yfir ástæðunni fyrir því. Það er engu líkara en að einhverjum hafi verið í mun að þagga það niður – ekki satt?! Hvers vegna skyldi það vera?“

Enn og aftur fylgdi stutt þögn.

„En burtséð frá því,“ sagði ég, „þá getum við núna orðað vandamálið á réttan hátt. Venjulega heldur fólk að vandamálið sé hvernig koma megi heim og saman því sem við vitum um stærð alheimsins í dag og okkar hefðbundnu trúarviðhorfum. En í raun er það alls ekki vandamálið. Í raun er vandamálið þetta: Hin gríðarmikla stærð alheimsins og lítilvægi jarðarinnar hafa verið þekkt um aldir. Enginn lét sig dreyma um að það hefði eitthvað með trúarbrögð að gera. En allt í einu, fyrir minna en hundrað árum, er því telft fram sem rökum gegn kristinni trú. Og þeir sem gera það passa vel upp á að segja sem minnst um þá staðreynd að menn vissu þetta löngu áður. Eruð þið guðleysingjar ekki undarlega grandalaust fólk?“

C.S. Lewis.

* * * *

Grein Lewis heitir upprunalega „Faith and Science“ og birtist fyrst í The Coventry Evening Telegraph 3. janúar 1945.

Flokkar: C.S. Lewis · Jól · Kraftaverk · Meyfæðingin · Trú · Vísindi

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur