Föstudagur 1.12.2017 - 16:12 - FB ummæli ()

Frekari vangaveltur um siðferði

Þingmaðurinn og píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sendi mér afar áhugavert svar við vangaveltum mínum um siðferði í gegnum facebook-síðu mína. Einnig tóku þar nokkrir aðrir til máls og gerðu grein fyrir skoðunum sínum.

Ég þakka Helga Hrafni fyrir vangaveltur sínar. Svar mitt til hans var á þessa leið:

* * *

Það er rétt skilið hjá þér að ég geri greinarmun á tilvist Guðs annars vegar og trú á Guð hins vegar. Hér er um grundvallarmun að ræða sem nauðsynlegt er að hafa í huga, því eins og áður er nefnt snýst umræðan ekki um það hvort við verðum að trúa á Guð, eða vera yfirleitt trúuð í einum öðrum skilningi, til að geta tileinkað okkur viss siðferðisgildi og lifað siðferðilega góðu lífi. Þess þurfum við ekki.

Umræðan snýst ekki heldur um það hvort hægt sé að smíða kenningu um siðfræði án þess að vísa til Guðs. Ef gengið er út frá því að maðurinn hafi gildi í sjálfum sér býst ég við að ég sem trúaður maður gæti skrifað undir margt í slíkri kenningu.

Nei, grundvallar spurningin er þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Er að finna grundvöll eða útskýringu á því hvers vegna sumt er gott fremur en slæmt, rétt fremur en rangt, og hvers vegna okkur ber að gera eitt fremur en annað?

Spurningin snýst sum sé um nauðsyn Guðs sem grundvöll hlutlægs siðferðis, ekki um nauðsyn þess að trúa á Guð í einni merkingu eða annarri.

(Mikilvægi þess að undirstrika þennan greinarmun kemur skýrt fram þegar maður les athugasemd á borð við þessa frá Járngrími nokkrum Michaelsen:

„Það fer vægast sagt í taugarnar á mér hvað margir láta sem kristni sé nauðsynleg í kærleik eða að það séu einhver tengsl þar á milli sem er vægast sagt fáránlegt. Það er margt gott fólk kristið, en ekki er allt kristið fólk gott fólk … Trú er fallegur hlutur fyrir þann sem trúir og getur fært honum margt. En mér finnst það mjög rangt að halda framm að ein trú sé merkari en önnur eða betri … Það er bæði gott og vont fólk allstaðar, öllum trúarbrögðum og stofnunum. En engin trúarbrögð eða stofnun býr til gott fólk.“

Þótt segja má eitt og annað um um þessa athugasemd ætti að vera ljóst að ég held því hvergi fram að kristni eða kristin trú eða trúarbrögð yfirleitt séu nauðsynleg til að fólk geti tileinkað sér gott siðferði.)

Þú segir í lok svars þíns að þú sjáir „nákvæmlega ekki neitt í trúarbrögðum, eða við tilvist guðs, sem hjálpar mér að ýmist skilja eða kunna að meta [siðferðis]gildi.“

En um það snýst röksemdafærslan heldur ekki.

Hvað sem okkur kann að finnast um trúarbrögð, og hvort eða að hve miklu leyti við skiljum eða kunnum að meta siðferðisgildi sem slík er aukaatriði. Eins og áður sagði er spurningin þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Þú ert mjög skýr í málflutningi þínum og lýsir umbúðalaust þeirri skoðun þinni að siðferði er ekki hlutlægt í neinum skilningi heldur sé það að öllu leyti huglægt og afstætt.

Það er ekki ýkja algengt í heimspekilegu samhengi að heyra slíka játningu. Langflestir heimspekingar og siðfræðingar – og guðleysingjar – , eru ekki tilbúnir að ganga afstæðishyggju og/eða tómhyggju alfarið á hönd og reyna því að finna hlutlægu siðferði stað innan veraldlegrar lífsskoðunnar sinnar með einum eða öðrum hætti. Allflestir, leyfi ég mér að segja, líta svo á að siðferði sé að einhverju leyti algilt, að hægt sé að benda á eitthvað sem segja má að sé rétt eða rangt í hlutlægum skilningi, óháð skoðunum okkar.

Enda verður fljótt vandlifað að öðrum kosti.

En með hliðsjón af guðleysi verður ekki hjá niðurstöðu þinni komist, að mínu mati.

Það sem við köllum siðferðisgildi og siðferðisboð er þá ekkert annað en hegðunarmynstur sem okkur er innrætt í gegnum líffræðilega þróun og samfélagslegar skilyrðingar. Rétt eins og apar hegða sér á vissan hátt sem kemur hópnum vel, höfum við í gegnum þróun tileinkað okkur ákveðið hegðunarmynstur sem kemur okkur og afkomu okkar vel.

Í þeim skilningi er ég sammála þér.

Ef Guð er ekki til þá er siðferði bara aukaafurð líffræðilegrar þróunar og samfélagslegra skilyrðinga, eins og þú bendir á. Siðferði er þá ekkert annað en „hálfnáttúrulegt, hálfmanngert, afstætt fyrirbæri.“

Það sem telst gott og illt og rétt og rangt er háð skilningi okkar og skoðunum okkar á því.

(Ég get því „vel ímyndað [mér] að samkennd og fórnfýsi gæti átt séð lífræðilegar stoðir“, eins og Hákon Helgi Leifsson spyr mig að í athugasemd á facebook-síðu minni.

Að gefnu guðleysi get ég ekki ímyndað mér mikið annað.

En ég get ekki séð í hvað skilningi slíkt heðunarmynstur væri hlutlægt og lýsandi fyrir eitthvað sem er rétt í þeim skilningi og þar með bindandi.)

Í þessu samhengi virðist þú helst gera sameiginlegan skilning samfélagsins að mælikvarða þess sem telst vera innan eða utan siðferðilegra marka.

En hvernig getur eitthvað verið innan eða utan siðferðilegra marka, ef siðferði er afstætt og „ … ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“, eins og þú segir?

Hver dregur línuna?

Samfélagið, segir þú. En það gerir ekki eitt rétt og annað rangt í eiginlegum skilningi.

Og hvað leiðir slíkur skilningur af sér?!

Var þá ekkert rangt við þrælahald fyrri tíma? Hvað með krossferðirnar á miðöldum? Hvað með þau samfélög sem hafa stundað mannsfórnir og mannsát? Var ekkert beinlínis rangt við það? Það er ekki að sjá að við höfum nokkurn grundvöll til að segja að svo hafi verið. Eins og ég skil málflutning þinn var það raunar siðferðilega rétt vegna þess að tiltekin samfélög sammæltust um það. Og það mundi vera rétt í dag ef tiltekin samfélög tækju annað eins upp.

Eða af hverju er skoðun eins samfélags æðri skoðun annars. Nú eða skoðun eins manns æðri skoðun annars? Siðferði er jú „ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“.

Er þá enginn hlutlægur siðferðilegur munur á því að elska náunga sinn eða éta hann, eða að annast um nýfætt barn eða bera það út til að deyja?! Er það eina sem greinir siðferðilegt gildi þessara ólíku gjörða skoðanir svo og svo margra einstaklinga. Svo er að skilja, því hér er einfaldlega um ólíkar samfélagslegar venjur að ræða. Það má segja að ein sé frumstæðari en önnur. En að segja að önnur sé hinni siðferðilega æðri eða óæðri virðist ekki hafa neina merkingu.

Það má vitanlega segja að margt sem samfélög fyrri tíma ástunduðu er álitið siðferðilega rangt í dag. En það þýðir á engan hátt að einhver hafi beinlínis gert eitthvað rangt áður fyrr. Eða að einhver geri beinlínis eitthvað rétt í dag. Breyttar samfélagslegar venjur vitna ekki um neitt annað en breytilegar skoðanir. Og sú breyting hefur enga sérstaka siðferðilega vídd.

Ég fæ ekki séð hvernig unnt er að komast hjá annarri eins siðferðilegri ringulreið (svo vægt sé til orða tekið) á grundvelli þess viðhorfs sem þú lýsir.

En út frá forsendu guðleysis er niðurstaða þín rökrétt.

Í vissum skilningi verður því auðvitað ekki mótmælt að siðferðisgildi „breytast frá einum tíma til annars … eftir tíðaranda, þörfum samfélags og lærdóms fólks“, eins og Helgi Hrafn nefnir.

Þegar horft er yfir söguna hefur manninum sem betur fer farið fram í siðferðilegum efnum. Að sumu leyti hefur honum farið aftur. Þannig mun það sjálfsagt alltaf verða.

En það að siðferðileg framþróun sé möguleg sýnist mér einmitt vera til marks um að til eru algild siðferðisgildi, eða siðferðilegur mælikvarði, sem gefur okkur grundvöll til þess að segja að eitthvað hafi þokast áfram í siðferðilegum efnum, að skilningur okkar á því sem er rétt og rangt endurspegli nú betur þann mælikvarða en áður var.

Segjum sem svo að ég biðji tvo listamenn að mála fyrir mig mynd af Herðubreið. Eina mögulega leiðin til að gera upp á milli myndanna, t.d. meta hvor þeirra svipar meira til Herðubreiðar, er ef fjallið Herðubreið er raunverulega til.

Án algilds siðferðis, eða mælikvarða, grundvallar, hefur það enga þýðingu að tala um siðferðilega framþróun eða afturför.

Að skilningur okkar á siðferði breytist frá einum tíma til annars, m.a. vegna reynslu okkar af lífinu og breytilegum aðstæðum okkar, leiðir nefnilega ekki af sér að siðferði sé ekki að einhverju leyti, eða geti að engu leyti verið, hlutlægt.

Í sama skilningi hefur skilningur okkar á hinum efnislega veruleika breyst í gegnum aldirnar eftir því sem við höfum viðað að okkur betri þekkingu á honum. En það þýðir vitaskuld ekki að veruleikinn sem slíkur og eðli hans hafi tekið breytingum.

Einmitt þvert á móti.

Þú hefur ekki sýnt fram á að svo sé, að mínu mati.

Hvað varðar aðra forsendu röksemdarfærslunnar, að algild siðferðisgildi og siðferðisboð eru til, virðist þú líta svo á hún grundvallist í einhverjum skilningi á fyrirframgefinni skilgreiningu. Þú virðist líta svo á að tilvist Guðs verði naðsynleg vegna þess að ég hafi skilgreint siðferði sem hlutlægan veruleika. Þú segir að í þessu sé fólginn grundvallarrökstuðningurinn fyrir málflutningi þínum.

Ef hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð geta ekki verið til án Guðs, þá leiðir veruleiki þeirra nauðsynlega til þeirrar niðurstöðu að Guð sé til.

Það er jú röksemdafærslan.

En það er miskilningur að ætla að réttlætingin fyrir þeirri forsendu að til eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð sé sú fyrirframgefna skilgreining að siðferði sé hlutlægt. Það fæli í sér augljósa rökleysu.

Nei, réttlætingin fyrir tilvist algildra siðferðisgilda og siðferðisboða er siðferðileg upplifun okkar og reynsla.

Í gegnum skynjun mína (skilningarvit) veit ég að hinn efnislegi veruleiki í kringum mig er raunverulegur. Á meðan ekki er hægt að sýna fram á annað eða leggja fram rök sem tekur skynjun minni á og reynslu minni af hinum efnislega veruleika fram þá hef ég enga ástæðu til að vantreysta skynjun minni og reynslu.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á meðan ekki er hægt að leggja fram rök sem tekur henni fram hef ég enga ástæðu til að vantreysta því sem siðferðileg skynjun mín, upplifun og reynsla segir mér, nefnilega að sumt er siferðilega rétt og rangt, gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Til dæmis að það sé siðferðilega hlutlægur munur á því að annast um ungabarn eða bera það út.

En þýðir það að siðferðileg skynjun okkar og reynsla sé eða hljóti að vera óskeikul? Að hið siðferðilega rétta og ranga, góða og illa, liggi alltaf í augum uppi? Að ekki séu til siðferðileg álitamál sem vandasamt er að útkljá? Að ekki séu til siðferðilega grá svæði?

Þú virðist líta svo á.

En það er engin ástæða að ætla það eftir því sem ég best fæ séð. Tilvist algilds siðferðis krefst ekki óskeikullar siðferðilegrar skynjunar eða fullkomins siðvits.

Skynjun okkar á hinum efnislega veruleika í kringum okkur er ekki óskeikul. Skynjun okkar getur avegaleitt okkur. En það gefur okkur ekki tilefni til þess að vantreysta henni að öllu leyti eða líta svo á að hún sé óáreiðanleg. Slíkt væri fráleitt. Til þess þyrftu að liggja fyrir afar, afar sterk rök. Svo sterk að þau vega þyngra en samanlögð skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á sama hátt og skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur réttlætir trú okkar á tilvist hlutlægs efnislegs veruleika réttlætir siðferðileg skynjun okkar og reynsla þá trú okkar að til séu siðferðisgildi og siðferðisboð sem birtast okkur sem hlutlægur veruleiki.

Og rétt er að nefna líka að spurningin um uppruna siðferðis, eða hvernig við tileinkum okkur siðferðisgildi, grefur ekki undan siðferðilegri skynjun okkar og reynslu.

Jafnvel þótt maðurinn tileinki sér siðferðisgildi fyrir tilstilli hægfara þróunar og félagslegra skilyrðinga gefur það augljóslega ekki tilefni til að vantreysta gildi siðferðilegrar reynslu okkar, enda hefur uppruni trúar eða viðhorfs ekkert með réttmæti eða sannleika þeirrar trúar eða þess viðhorfs að gera.

Það kann vel að vera að siðferðileg þekking eigi sér margar og ólíkar uppsprettur: Skynsemi, röklegt innsæi, íhugun á gildi mannsins, uppeldi, jafnvel guðlega opinberun. En spurningin hvernig við komumst til þekkingar á eða tileinkum okkur siðferðisgildi er ekki hluti af röksemdafærslunni og hefur ekkert með hana að gera.

Til að ljúka máli mínu:

Ef Guð er ekki til þá höfum við góða ástæðu til að ætla að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu ekki til, og að gjörðum okkar fylgi engin ábyrgð í siðferðilegum skilningi. Tilhugsunin um slíkan veruleika er sannarlega hryllilegur. Ef við lítum svo á að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu til, sem virðist fullkomlega skynsamlegt að gera í ljosi siðferðilegrar reynslu okkar og upplifunar af lífinu, þá höfum við tilefni til að trúa því að Guð sé til, og að náttúruhyggja gefi okkur ekki rétta mynd af eðli lífsins og mannsins.

Virðingarfyllst og með kærri kveðju.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Rök fyrir guðleysi · Rök fyrir tilvist Guðs · Siðferði

Laugardagur 25.11.2017 - 22:37 - FB ummæli ()

Vangaveltur um siðferði

Nýleg stöðufærsla á facebook-síðu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns og pírata, vakti athygli mína.

Þar segir Helgi:

„Kærleikur og umburðarlyndi eru gildi sem standa á eigin fótum. Það á ekki að þurfa yfirnáttúruleg fyrirbæri, loforð um himnaríki eða hótun um vítisvist til þess að fólk tileinki sér þau.“

Þetta er umhugsunarvert.

Nú veit ég ekki að öllu leyti hvað hér er átt við, en ekki þykir mér ósennilegt að það sé í grundvallaratriðum það að öll getum við verið góð án þess að trúa á Guð.

Með öðrum orðum að við getum öll tileinkað okkur þau gildi sem siðferðilega gott líf byggist á óháð því hverju við trúum um Guð eða yfirnáttúrulegan veruleika.

Því er ég hjartanlega sammála!

Við þurfum alls ekki á trú að halda til þess að vera góðar manneskjur eða til að skilja muninn á góðu og illu, og réttu og röngu. Gildi á borð við kærleika og umburðarlyndi, réttlæti og jafnrétti er ekki einkaeign sumra heldur sammannlegur sjóður okkar allra.

Og það er afskaplega dapurlegt þegar trúað fólk lætur annað í veðri vaka.

Raunar er ég ekki í vafa um að margir guðleysingjar hafa lifað siðferðilegra betra lífi en ég hef gert eða mun gera.

En í hvaða skilningi standa siðferðisgildi á borð við kærleika og umburðarlyndi á „eigin fótum“?

Að mínu mati er eitt að segja að við getum verið góð án þess að trúa á Guð. Annað er að segja að við getum verið góð án Guðs.

Á því tvennu er mikill munur.

Spurningin hvort við getum verið góð án Guðs hefur ekkert með trúarviðhorf að gera, hvorki trú né vantrú, heldur eðli siðferðisgilda og grundvöll þeirra.

Hvað þýðir það að segja að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt, gott eða illt? Í hvaða skilningi eða merkingu getum við sagt að svo sé?

Það er afar áhugaverð heimspekileg spurning sem vert er að velta vöngum yfir. Og sú spurning hefur leitað á hugsandi fólk allt frá dögum forngrísku heimspekinganna.

Eru siðferðisgildi á borð við réttlæti, góðmennsku, umburðarlyndi o.s.frv. ekkert annað en félagslegar venjur sem breytast frá einum tíma til annars? Grundvallast þau á persónulegri skoðun og smekk hvers og eins? Eru þau fólgin í meirihlutavilja samfélagsins á hverjum tíma? Eða geðþótta valdhafanna?

Eða eru siðferðisgildi í einhverjum skilningi hlutlæg, algild, og bindandi fyrir alla, hafin yfir persónulegar og ólíkar skoðanir og félagslegar venjur?

Hver er grundvöllurinn sem siðferðisgildi og siðferðisboð hvíla á?

Richard Dawkins, sá þekkti og áhrifamikli guðleysingi, svarar þeirri spurningu umbúðalaust í lýsingu sinni á guðlausum veruleika:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Að gefnu guðleysi sýnist mér erfitt að mæla gegn því sem Dawkins segir. Hér virðist um rökrétta niðurstöðu að ræða út frá gefnum forsendum.

Ef alheimurinn, hinn náttúrulegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku, raunverulega er tæmandi lýsing á því sem til er, ef lífið og við sjálf erum í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt efni sem lýtur, og er skilyrt af, blindum lögmálum náttúrunnar, í hvaða skilningi getum við sagt að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt?

Það er áleitin spurning.

Margir sem rekja guðleysi til sinna röklegu lykta taka undir með Dawkins. Að út frá forsendum náttúruhyggjunnar blasi við að allt tal um hlutlægt, algilt og bindandi siðferði sé innihaldslaus sjálfsblekking.

Vísindaheimspekingurinn Michael Ruse bendir á þetta:

„Siðferði, rétt eins og hendur okkar, fætur og tennur, er líffræðileg aðlögun. Sem skynsamlegar og merkingabærar staðhæfingar um eitthvað hlutlægt er siðferði blekking. Ég ber virðingu fyrir því að sá sem segir: Þú skalt elska náunga þinn eins sjálfan þig, trúi því að hann vísi til einhvers handan sjálfs sín. Slík tilvísun er þó fullkomlega innistæðulaus. Siðferði er ekkert annað en stuðningur við afkomu okkar og fjölgun … hverskonar dýpri merking er tálsýn.“

Og með þetta í huga hljótum við að velta vöngum hvort maðurinn hafi þá eitthvað sérstakt eða hlutlægt gildi í sjálfum sér í siðferðilegum skilningi – eða hvaða skilningi sem er.

Af hverju ber honum siðferðileg skylda til að gera eitt umfram annað?

Í guðlausu ljósi náttúruhyggjunnar erum við ekkert annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis á valdi blindra náttúrulögmála og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.

Það eina sem bíður okkar allra er hið sama og bíður alls alheimsins.

Að verða að engu.

Og rétt eins og önnur dýr „dönsum við í takt“ við erfðaefnið okkar.

Það sem Dawkins, Ruse og aðrir benda á, er að ef guðleysi lýsir veruleikanum eins og hann er þá eru siðferðisgildi og siðferðisboð í hlutlægri merkingu ekki til. Guðleysi rúmar það einfaldlega ekki.

Nietzsche, sem á sínum tíma boðaði dauða Guðs, benti á hið sama. Án Guðs eru siðferðisgildi og siðferðisboð tilviljunarkennd aukaafurð þróunar og félagslegrar skilyrðingar og benda ekki til neins sem okkur er skylt að taka tillit til.

Að mínu viti er afar erfitt að komast undan slíkri niðurstöðu ef guðleysi er grunnforsendan.

Eins og efahyggjumaðurinn David Hume lagði áherslu á er náttúran einfaldlega það sem er. Það hefur hins vegar ekkert að gera með það sem okkur finnst að ætti að vera. Við komumst ekki frá því sem er til þess sem ætti að vera. Guðleysi getur ekki brúað fjarlægðina þar á milli.

Að mati líffræðingsins og guðleysingjans William Provine er því einfaldlega „ekki til neitt innbyggt siðferðislögmál. Alheimurinn lætur sig okkur engu varða og líf okkar hefur enga merkingu eða tilgang þegar öllu er á botninn hvolft“.

Erum við þá ekki ofurseld afstæðishyggjunni, þar sem allt (eða ekkert) er rétt og rangt og siðferðilegar staðhæfingar ekki fólgnar í öðru en félagslegum skilyrðingu og persónulegum skoðunum og smekk.

Heimspekingurinn og guðleysinginn Alex Rosenborg gengst við því. Í bók sinni The atheist guide to reality svarar hann nokkrum af stærstu spurningum lífsins á skýran og hnitmiðaðan hátt:

„Er Guð til? Nei

Hvert er eðli lífsins? Það sem eðlisfræðin segir að það sé.

Hver er tilgangur alheimsins? Enginn.

Hvers vegna er ég hér? Fyrir hreina heppni.

Er til sál? Ertu að grínast?

Er til frjáls vilji? Ekki möguleiki.

Hver er munurinn á réttu og röngu, góðu og illu? Það er enginn siðferðilegur munur.“

Niðurstaða Rosenborg er eftirfarandi: „Ef maður vill vera guðleysingi verður maður að sætta sig við níhílisma upp að vissu marki … en sem betur fer er alltaf til prósak.“

Slíkt viðhorf til lífsins hljómar afar ófullnægjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og fullkomlega óraunhæft í praktískum skilningi.

Dostojevskí dró þetta allt saman á áleitinn hátt í bók sinni Karamazov bræðurnir:

„Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.“

Þannig er veruleikinn þegar öllu er á botninn hvolft. Samkvæmt náttúruhyggjunni!

En er þetta öll sagan?

Svarar þetta til upplifunar okkar og reynslu af lífinu?

Nei!

Djúpt innra með okkur vitum við, sjáum við og finnum, að lífið hefur óneitanlega siðferðilega vídd sem verður ekki hafnað eða útskýrð á einfaldan hátt í krafti smættunarhyggju.

Á sama hátt og við sjáum og finnum fyrir veruleikanum í kringum okkur finnum við og sjáum við að sumt í lífinu er raunverulega rétt eða rangt, í hlutlægum og algildum skilningi.

Er það upplifun sem okkur ber að horfa framhjá sem ranghugmynd.

Nei!

Siðferðilegt innsæi okkar virðist ekki aðeins minna á hvað er rétt og gott að gera (eða láta vera að gera) heldur að til sé siðferðilegur mælikvarði, óháður skoðunum okkar, breytni og menningar- og samfélagsbundnum aðstæðum, sem við m.a. notum til að leggja mat og dóm á skoðanir og gjörðir annarra , ekki síst þeirra sem eru okkur ósammála. Á þeim grunni ýmist lofum við fólk og gjörðir þeirra, eða gagnrýnum, og jafnvel fordæmum.

En ef öll siðferðisgildi eru afstæð í eðli sínu þá hefur slíkt ekkert upp á sig og er með öllu þýðingarlaust og í raun án innihalds.

En við gerum það engu að síður!

Hvers vegna?

Vegna þess að við vitum að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Sú vissa er okkur eins eðlislæg og vera má.

Þegar ég segi að helförin var siðferðilega röng lýsi ég ekki bara persónulegri skoðun minni eða huglægu mati, sem kann eða kann ekki að ganga gegn skoðunum annarra. Að kerfisbundin útrýming 6 milljóna manna var siðferðileg ómennska í sinni verstu mynd veltur ekki á því hverjir eða hversu margir eru mér sammála. Helförin var, er og mun alltaf vera, siðferðilega röng – jafnvel þótt nasistarnir sem hrintu henni í framkvæmd töldu hana rétta, jafnvel þótt hún var þýsku valdhöfunum þóknanleg og féll að mörgu leyti að tíðarandanum.

Að misnota manneskju, að beita hana ofbeldi, unga eða gamla, er ekki siðferðilega hlutlaus verknaður. Það er ekki bara eitthvað sem ekki þjónar hag samfélagsins og er þess vegna litið hornauga.

Eins og einn heimspekingurinn sagði: Sá sem telur það ásættanlegt að pynta barn hefur jafn rangt fyrir sér og sá sem segir að tveir plús tveir eru fimm.

Hvernig getum við tekið undir það að hryðjuverkamaðurinn sem myrðir saklausar manneskjur, eða foreldrið sem misnotar barnið sitt, einræðisherrann sem skeytir engu um líf og heilsu landa sinna, dansi bara í takt við erfðaefnið sitt?!

Væri það til marks um siðferði sem stendur á eigin fótum?

Nei, það væri til marks um siðferðilega uppgjöf, endalok siðferðisins, að mínu mati.

En er það veruleikinn sem við lifum í?

Er ekki annað og meira á bak við lífið en svo?

Hvað með hryllinginn sem viðgekkst í Sovjétríkjunum undir ógnarstjórn Stalíns? Hvað með fjöldamorðin í Kambódíu. Hvað með Rúanda? Sebrenika? Hvað með Sýrland? Hvað með ríki íslams?

Er þetta bara dæmi um fólk sem viljalaust og án ábyrgðar dansaði í takt við erfðaefnið sitt?

Er það skynsamlegasta skoðunin þegar öllu er á botninn hvolft?

Er það skilningur okkar á lífinu og upplifun okkar af því, af okkur sjálfum og öðrum? Rúmar lífið ekki siðferðilega vídd yfirleitt? Er siðferðiskennd okkar og vitund hrein blekking? Er eðli lífsins slíkt að það er með öllu merkingarlaust?

Er ekki annað á bak við lífið en „blint miskunnarlaust tómlæti“? svo gripið sé til orða Dawkins.

Svari því hver fyrir sig.

Ég held þó að við höfum öll tilhneygingu til að svara þeirri spurningu neitandi.

Einmitt vegna þess að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Við upplifum það dag hvern og staðfestum í gegnum orð okkar og breytni.

Og þá hljótum við að spyrja hvað útskýrir það?!

Hver er grundvöllur þess?!

Hvort felur í sér skynsamlegri útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar og upplifun, Guð eða tilviljunarkennt efni á valdi blindra náttúrulögmála?

En burtséð frá því hvernig við svörum þeirri spurningu þá liggja forsendurnar fyrir.

Ef Guð er ekki til þá eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð ekki til!

Hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til!

Þessar forsendur hljóma einkar sennilegar, að mínu mati, að minnsta kosti sennilegri en andstæða þeirra.

Og niðurstaðan sem leiðir af þessum tveimur forsendum er röklega séð óhjákvæmileg.

Ef alheimurinn var skapaður af Guði sem í eðli sínu er góður, kærleiksríkur og réttlátur, þá höfum við í senn traustan grundvöll fyrir og skynsamlega útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar sem minnir okkur á að sumt er raunverulega rétt og rangt og gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Við þurfum vissulega ekki að trúa á Guð til þess að vita það.

Og þá þekkingu getur fólk tileinkað sér á ólíkan hátt og eftir ólíkum leiðum.

En við getum engu að síður vitað það vegna þess að þegar allt kemur til alls er uppruna okkar og alheimsins að finna í einum og sama veruleikanum, Guði.

Ef tiltekin forsenda (að Guð er ekki til) leiðir til niðurstöðu sem maður veit að er ekki rétt (að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru ekki til) hvers vegna ætti maður þá ekki að endurskoða þá forsendu?

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsmynd · Heimspeki · Náttúruhyggja · Siðferði

Miðvikudagur 22.11.2017 - 10:22 - FB ummæli ()

Sartre, Leibniz og tilvist Guðs

Ef við leggjum tilvist Guðs og líf eftir dauðann til hliðar vegna efasemda eða vantrúar þá verður við að gera upp við okkur hvert gildi lífsins er.

Ef dauðinn felur í sér endalokin, ef við eigum ekkert annað í vændum, þá hljótum við líka að spyrja okkur um eðli tilvistarinnar.

Hvers vegna erum við hér?

Hvernig eigum við að bera okkur að undir slíkum kringumstæðum?

Svar guðleysisins virðist mér vera jafn augljóst og það er nöturlegt:

Það er alls engin merking eða tilgangur á bak við lífið. Lífið hefur ekkert gildi þegar allt kemur til alls.

Tilvistarheimspekingurinn Jean Paul Sartre lýsti guðlausum veruleika undanbragðalaust í riti sinni Nausea:

Það var satt.

Ég hafði alltaf vitað það!

– Ég átti alls engan rétt á því að vera til.

Ég birtist fyrir tilviljun. Ég var til eins og steinn, eða planta, eða örvera.

Gagnvart sjálfum mér fann ég ekki fyrir neinu öðru en þýðingarlausu suði.

Ég hugsaði með mér … hér erum við, borðandi og drekkandi til þess að viðhalda okkar dýrmætu tilvist, og það er ekkert, ekkert, alls engin ástæða fyrir tilvistinni.

Að mati Sartre var grundvallarspurning heimspekinnar hvers vegna við ættum yfirleitt að hafa fyrir því að vera til. Hvers vegna ættum við að teygja þessa tilgangslausu tilvist á langinn?

Sú mynd af tilverunni sem guðstrú felur í sér er allt önnur.

Lífið er ekki tilviljunarkennd og tilgangslaus vegleysa.

Þvert á móti.

Þar sem Guð er til, Guð sem skapaði alheiminn og allt sem lifir, gjörvallan veruleikann utan sjálfs sín, er ástæða og tilgangur á bak við lífið, merking og gildi, sem á sér uppsprettu í vilja þess sem skapaði það.

Munurinn gæti ekki verið skarpari.

Það er því ekki að ósekju að spurningin um tilvist Guðs hefur verið kölluð þýðingarmesta og mikilvægasta spurningin sem nokkur getur spurt sig að og leitað svara við.

Öll önnur svör og viðhorf byggja með einum eða öðrum hætti á því hvernig við svörum þeirri einu spurningu.

Skilningur okkar á lífinu og upplifun okkar af því mótast fyrst og fremst af afstöðu okkar til Guðs, eða því sem við teljum vera hinsta eðli tilverunnar.

Er Guð til?

Eða hefur Sartre rétt fyrir sér?

Enginn fer í gegnum lífið án þess að spyrja sig að því.

Enginn kemst hjá því að svara þeirri spurningu, hvort sem það er gert á hugsandi og meðvitaðan hátt eða ekki.

Í dag gera margir kröfu um skothelda sönnun fyrir tilvist Guðs. Sönnun sem sýni í eitt skipti fyrir öll og með óyggjandi hætti að Guð sé til.

Að öðrum kosti geta þeir ekki eða vilja ekki trúa.

Það á ekki síst við um þá guðleysingja sem hæst láta.

En slík sönnun er vitaskuld ekki í boði.

Hún hefur aldrei verið í boði.

Við gerum heldur ekki jafn óraunhæfa kröfu, eða setjum okkur jafn fráleitan mælikvarða, þegar kemur að flestöllu sem við trúum og teljum okkur vita.

Ef svo væri hefði guðleysinginn vitaskuld enga ástæðu til að vera guðleysingi.

Það er jú ekki til nein óyggjandi sönnun fyrir guðleysi.

Þegar öllu er á botnin hvolft er guleysi trúarlegt viðhorf og sannfæring.

Burtséð frá því höfum við enga góða ástæðu til að trúa því að við ættum ekki að trúa öðru en því sem er unnt að sanna með óyggjandi hætti.

Það verður jú ekki sannað með óyggjandi hætti og fellur því um sig sjálft.

En þótt sönnum í jafn ströngum skilningi er ekki í boði þá eru vissulega til rök fyrir tilvist Guðs.

Þau eru af margvíslegum toga.

Rök fyrir tilvist Guðs eru í eðli sínu vísbendingar, misjafnlega sterkar, sem læða að okkur þeim grun að ekki er allt sem sýnist, að tilveran, veruleikinn, sé ekki allur þar sem hann er séður, heldur sé eitthvað annað og meira á bak við það sem við skynjum og upplifum.

Slíkar vísbendingar er víða að finna.

Sú augljósasta er tilvistin sjálf.

Staðreyndin að eitthvað er til.

Rétt eins og málverkið bendir til listamannsins bendir tilvistin sem slík til einhverrar orsakar, einhvers veruleika, handan sjálfrar tilvistarinnar.

Vegna þess að ekkert getur orsakað sig sjálft!

Allt sem til er hlýtur að koma frá einhverju öðru sem er til og býr þegar yfir verund.

Af engu kemur nefnilega ekkert.

Það bendir til þess að til sé einstök vera sem sker sig frá öllu öðru sem er til að því leyti að hún á sér ekki sjálf orsök en er orsök og uppspretta alls annars sem til er.

Í ljósi þess að öll náttúruleg fyrirbæri eiga sér orsök hlýtur að vera til yfirnáttúrulegt fyrirbæri sem ekki er orsakað af neinu öðru en er orsök alls annars.

Röksemdarfærsla af þessum toga er til í margvíslegum útgáfum sem kallast einu nafni heimsfræðileg (kosmólógísk) rök fyrir tilvist Guðs.

Ein af þekktari röksemdarfærslum af þeim toga er að finna í svari fjölfræðingsins, heimspekingsins og stærfræðingsins G. W. Leibniz (1646-1716) við hinni aldagömlu og áleitnu spurningu Hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert.

Hvaðan kemur tilvistin?

Spurningarnar verða vart stærri eða dýpri en svo.

Hvers vegna hefur alheimurinn fyrir því að vera til? eins og einn heimspekingurinn orðaði það.

Þetta er sú spurning sem við ættum að spyrja fyrst af öllu, sagði Leibniz.

Að mati Leibniz er svarið þó ekki að finna á sviði hins efnislega, heldur í Guði.

Er eitthvað vit í því?

Hvort okkur finnst það fer sjálfsagt eftir þeim sjónarhóli sem horfum á lífið og tilveruna út frá.

Röksemdarfærslan á bak við svar Leibniz er eftirfarandi:

1. Sérhvað það sem til er á sér útskýringu.

2. Ef tilvist alheimsins á sér útskýringu þá er sú útskýring Guð.

3. Alheimurinn er til.

Af þessum forsendum leiðir óhjákvæmilega og röklega að

4. Tilvist alheimsins á sér útskýringu (sbr. 1 og 3)

og þar af leiðandi að

5. Útskýringin fyrir tilvist alheimsins er Guð (sbr. 4 og 2).

Ef við höfum góðar og gildar ástæður til að gangast við forsendunum þá hljótum við einnig að gangast við niðurstöðunni sem röklega og óhjákvæmilega leiðir af þeim.

Nú er óvíst að vinur minn guðleysinginn láti segja sér það og hafni einni eða fleiri af forsendum röksemdarfærslunnar.

Ég geng samt út frá því að flestir leyfi þriðju forsendunni að standa óáreitt.

En hvað með fyrstu forsenduna?

Þarf allt að eiga sér orsök?

Getum við ekki sagt eins og hinn þekkti heimspekingur og guðleysingi Bertrand Russel að alheimurinn bara er?

Að hann einfaldlega sé til án nokkurrrar útskýringar eða orsakar.

Við nánari tilhugsun held að flestum renni í grun, eða fái það á tilfinninguna, að málið sé ekki svo klippt og skorið.

Ef ég dytti nú um bolta á morgungöngunni minni gæti ég velt vöngum yfir því af hverju boltinn var einmitt þarna og hvaðan hann kom.

Ef göngufélagi minn segði mér að það væri alls enga útskýringu að finna á tilvist boltans mundi ég sennilega brosa út í annað af vantrú.

Og það gildir einu hvort þessi bolti væri á stærð við epli, plánetu, eða gjörvallan alheiminn. Stærð boltans mundi ekki breyta því að tilvist hans kallar á útskýringu.

Hið sama á við ef ég skyndilega yrði var við háværan hvell í fjarska.

Ef göngufélagi minn reyndi að telja mér trú um að það væri alls engin útskýring eða orsök á bak við hvellinn myndi ég ekki trúa því.

Það er einmitt þessi eðlislæga forvitni mannsins um útskýringar og orsakir og samhengið á milli þeirra sem gerði hann að vísindamanni.

Fyrsta forsendan virðist því einkar sennileg. Að minnsta kosti sennilegri en andstæða hennar.

Og að því gefnu ættum við að gangast við henni.

Vinur minn guðleysinginn gæti vitaskuld velt vöngum yfir því hvers vegna Guð kalli ekki á útskyringu líkt og alheimurinn.

Ef allt þarfnast útskýringar þá hljótum við að fella Guð undir sama hatt og allt annað, ekki satt?

Jú, mikil ósköp.

Og ef Guð á sér orsök getur hann varla talist ýkja merkilegur Guð.

Já, það er vit í því.

En Leibniz gerði grundvallandi greinarmun á því sem til.

Samkvæmt Leibniz á það sem er til sér aðra af tveimur útskýringum.

Það er ýmist til af hreinni nauðsyn, og verður þar af leiðandi ekki útskýrt, eða það er orðið til vegna ytri orsakar.

Hið fyrrnefnda er einfaldlega þess eðlis að það getur ekki ekki verið til. Það er engin orsök á bak við tilvist þess. Tilvist þess er nauðsynleg.

Slíkt kann að hljóma undarlega, en í sögu heimspekinnar hefur ekki verið skortur á tilgátum um slík fyrirbæri.

Stærðfræðingar hafa t.d. margir hverjir litið á tölur og önnur stærðfræðileg fyrirbæri í slíku ljósi.

Hið síðarnefnda eru hversdagsleg fyrirbæri á borð við hús, stóla, fjöll, fólk, stjörnur o.s.frv.

Þar er um að ræða hluti sem ekki eru nauðsynlega heldur eiga sér ytri útskýringar og orsakir og gætu allt eins ekki hafa orðið til til.

Eina ástæðan fyrir tilvist þeirra er tilvist einhvers annars sem orsakaði þá.

Þegar Lebniz segir að sérhvað það sem til er á sér útskýringu á hann við að þá útskýringu sé annað hvort að finna í nauðsyn þess sjálfs eða í einhverri ytri orsök.

Hvað tilvist sína varðar eru hlutir eða fyrirbæri því ýmist nauðsynlegir eða ónauðsynlegir.

Hvað Guð snertir er eðli hans slíkt að hann er til af hreinni nauðsyn.

Hann á sér ekki orsök.

Hins vegar er ástæða til að ætla að eðli hins efnislega veruleika sem við erum hluti af sé ekki þess eðlis.

Raunar bendir allt til hins gagnstæða.

Og ef vísindin benda til einhvers þá benda þau til þess að eitt sinn var alheimurinn alls ekki til.

Og því spyrjum við með réttu hvers vegna er hann til yfirhöfuð?

Hvað orsakaði hann?

Skynsamlegasta svarið við því hvers vegna ónauðsynlegur alheimur er til er að tilvist hans grundvallast á tilvist einhverrar nauðsynlegrar veru.

Einhvers sem eðli síns vegna getur ekki ekki verið til.

Vera kann að guðleysinginn fallist á þessa forsendu og játi því að allt sem til er eigi sér útskýringu eða se til af einhverri ástæðu.

En hvað með aðra forsenduna?

Er hún sanngjörn og skynsamleg?

Vera kann að guðleysingjanum sýnist svo ekki vera og hafni henni.

Ef tilvist alheimsins á sér útskýringu, hvers vegna í ósköpunum ættum við að ganga út frá því að sú útskýring sé Guð?

Já, á yfirborðinu hljómar það nokkuð handahófskennt og dutlungafullt.

Svo er þó ekki.

Ein algengasta mótbára guðleysingjans við röksemdarfærslu Leibniz er jafnan sú að ef guðleysi er rétt (þ.e. ef Guð er ekki til) þá sé engin útskýring á bak við tilvist alheiminn.

Alheimurinn bara er.

Hvað felur sú mótbára í sér?

Jú, röklega séð jafngildir hun því að segja að ef tilvist alheimsins eigi sér útskýringu þá sé guðleysi ekki rétt.

Sem er jú að efninu til önnur forsenda röksemdafærslunnar.

Með því að halda hinu fyrrnefnda fram gengst maður (í röklegum skilningi að minnsta kosti) við hinu síðarnefnda – hvort sem það er ætlunin eða ekki.

Burtséð frá þessu virðist önnur forsendan, eins og hin fyrsta, býsna sennileg í eigin valdi.

Alheimurinn er jú gjörvallur veruleiki tíma og rúms ásamt öllu sem hann inniheldur, þar á meðal öllu efni og allri orku.

Ef sá veruleiki á sér orsök þá getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum.

Nei, hún hlýtur í einum eða öðrum skilingi að vera óefnisleg og handan tíma og rúms, og nógu máttug til að skapa allan alheiminn.

Það er ekki ýkja margt sem gæti fallið undir þá lýsingu.

Raunar bara tvennt!

Annars vegar óhlutstæð fyrirbæri á borð við tölur, eiginleika o.s.frv.

Hins vegar hugur eða hugsun sem ekki er háð eða bundin af efni.

Í ljósi þess að óhlutstæð fyrirbæri skapa ekkert og koma engu til leiðar þá stendur sú niðurstaða eftir að orsök alheimsins er óefnislegur hugur.

Sem er hinn hefðbundni skilningur á því hvað Guð er.

Að forsendunum gefnum er niðurstaða röksemdarfærslunnar augljós og óhjákvæmileg:

Guð er útskýring þess að alheimurinn er til!

Nú kann einhverjum að þykja að Guð sé ekki hjálplegt orð eða hugtak í þessu samhengi, jafnvel óþarft.

En það gildir einu hvað orsök alheimsins er kölluð, svo framarlega sem því er til haga haldið að um er að ræða ótrúlega máttugan, óskapaðan, óefnislegan og eilífan skapara alls alheimsins, sem er nauðsynlegur og eðli sínu samkvæmt getur ekki ekki verið til.

Hér erum við komin ansi langt frá guðleysinu og náttúruhyggjunni.

Er hér um að ræða skothelda sönnun fyrir tilvist Guðs sem allir ættu að beygja sig fyrir?

Nei, vitaskuld ekki.

Er hér um að ræða rökrétta niðurstöðu á grundvelli skynsamlegra og sennilegra forsenda.

Að mínu mati, já.

Og sú niðurstaða bendir eindregið til þess að alheimurinn er sannarlega ekki allur þar sem hann er séður.

Og þegar þessi röksemdafærsla er lögð saman við aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs, aðrar úgáfur af heimsfræðrökunum, siðferðisrökin, hugrænu rökin, hönnunarrökin og verufræðökin, þá verður sameiginlegur þungi þeirra sannarlega mikill og áhrifaríkur.

En vissulega lætur enginn sannfærast gegn vilja sínum.

Hvorki guðstrúarmaðurinn né guðleysinginn.

Og þótt hér sé ekki um sönnun í ströngum skilningi að ræða sýnir þessi röksemdarfærsla, ásamt öðrum röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs, að það er fyllilega skynsamlegt að trúa á tilvist Guðs.

Það eru engin svik við skynsamlega og rökræna hugsun eða á skjön við það sem við vitum og upplifum.

Þvert á móti.

Og ýmsir myndu segja að guðstrú krefjist í raun minni „trúar“ en guðleysið sjálft.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsfræðirök · Leibniz · Rök fyrir tilvist Guðs

Laugardagur 12.8.2017 - 20:50 - FB ummæli ()

Að gera hreint fyrir guðleysisdyrum sínum

Í áhugaverðri færslu á fasbókarsíðu sinni frá 8. ágúst sl. gerir frændi minn Gísli Gunnarsson, fv. prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, “hreint fyrir guðleysisdyrum [sínum]”. Ástæða þess mun vera uppnám einhverra innan Siðmenntar (þar sem Gísli er meðlimur) yfir umræðu sem Gísli efndi til á fasbókarsíðu sinni með því að vísa þar til afar áhugaverðra en gagnrýninna greina um hið sk. ný-guðleysi.

Gísli áréttar að hann sé “mikill mónisti” og afneiti sem slíkur tilvist hins yfirnáttúrulega; ólíkt dúalistum sem skipti tilverunni í náttúrulegt og yfirnáttúrulegt. Gísli segir einnig í færslu sinni að “ekki eigi að blanda saman umræðu um trú og vísindi. Þeir sem eru dúalistar þurfa engin vísindi til að sanna trú sína. Þeir bara trúa.” Þá staðhæfir Gísli að því öflugri sem vísindin verða, þeim mun færri verða trúaðir.

Vafalaust er ýmsir sammála Gísla og hans málflutningi. Burtséð frá því er hér ýmislegt áhugavert sagt sem vert er að hugleiða.

Til eru fleiri tegundir af einhyggju (mónisma = það viðhorf að veruleikinn sé einn og óskiptur) en guðleysi. Algyðistrú (panþeismi) er í eðli sínu viss einhyggja. Í guðlausu samhengi er náttúruhyggja algengasta (og að mínu mati lífvænlegasta) tegundin af einhyggju sem í boði er. Náttúruhyggja er það viðhorf að hinn náttúrulegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku sé tæmandi lýsing á því sem er til.

En hvað er átt við með því að ekki eigi að blanda saman umræðu um trú og vísindi? Hvers vegna má ekki ræða trú og vísindi í sömu andrá? Að hvaða leyti á ekki að gera það?

Þeir sem tala á þessum nótum aðhyllast gjarnan vísindahyggju í einni eða annarri mynd þar sem litið er svo á að engu beri að trúa öðru en því sem unnt er að sannreyna í krafti vísinda. Fáir fræðimenn aðhyllast þó slíkt viðhorf í dag, enda löngu búið að sýna fram á brotalamir þess og mótsögnina sem í því er fólgin. (Sú staðhæfing að ekki beri að trúa öðru en því sem er vísindalega sannreynanlegt er ekki staðhæfing sem hægt að sannreyna í krafti vísinda!) Ekki ætla ég hugvísindamanninum frænda mínum slíkt viðhorf, sem vitanlega mundi gjaldfella með öllu hans eigið fræðasvið. En hvað hann á nákvæmlega við er ekki gott að segja.

Ef ekki má ræða um trú og vísindi í sömu andrá, eða blanda þessu tvennu saman (hvað sem það merkir), þá er eins gott að guðleysinginn leggi af allt tal um guðleysi í vísindalegu samhengi og fari ekki að blanda því saman. Nú efast ég um að allir guðleysingjar mundu fallast á það, hvað þá heldur að guðleysi sé í eðli sínu trú. Það er í góðu lagi. Þeim er það fullkomlega heimilt. En aðrir eru vitaskuld ekki bundnir af viðhorfi þeirra.

En hverju svo sem guðleysinginn annars trúir er víst að hann “trúir” því að Guð (hið yfirnáttúrulega) er ekki til. Guðleysi er lífsskoðun sem hefur þá staðhæfingu að frumforsendu. En sú sannfæring verður hvorki sönnuð né afsönnuð í krafti vísinda vegna þess að um er að ræða frumspekilega staðhæfingu, ekki vísindalega. Eins og margir íhugulir og heiðarlegir vísindamenn hafa bent á hafa vísindi einfaldlega ekkert að segja um tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Vísindi eru takmörkuð af hinum efnislega veruleika. En ef Guð er til þá er hann skapari alls hins efnislega veruleika og allra þeirra lögmála sem hann lýtur og er þar með handan þess sem vísindi geta náð til eða sagt nokkuð um.

Hitt ber þó að sjálfsögðu að ræða hvort styðja megi guðleysi sem slíkt skynsamlegum rökum og jafnvel betri rökum en guðstrú. Það er annar angi af umræðunni og afar mikilvægur.

Þó hér skipti máli hvað átt er við með orðinu sönnun (Gísli segir ekkert um það) er ég sammála því að “dúalistar [þeir sem trúa á Guð] þurfa engin vísindi til að sanna trú sína”. Ég velti því fyrir mér hvort hið sama eigi við um mónistann eða guðleysingjann að mati frænda míns.
En þó ég þurfi ekki að réttlæta trú mína í krafti vísinda til að geta trúað innan skynsamlegra marka þýðir það ekki að ég “bara trúi”. Slíkt viðhorf til guðstrúar er afar einfalt og ristir heldur grunnt. Að mínu mati má færa margvísleg og góð rök fyrir tilvist Guðs. Það sama á ekki við um guðleysi. Sannfæring mín um tilvist Guðs er í engum skilningi blind eða vanhugsuð eða úr tengslum við skynsamlega hugsun eða almenna þekkingu og reynslu af lífinu. Trú í réttum skilningi er fólgin í trausti til þess sem við teljum okkur hafa ástæðu til að ætla að sé satt. Og slík trú er ekki einskorðuð við guðstrú.

En þýðir þetta að engan snertiflöt sé að finna á milli vísinda og guðstrúar? Nei, alls ekki. Finna má ýmsa snertifleti. Einn slíkur er fólginn í því þegar vísindaleg þekking réttlætir eða styður forsendu í heimspekilegri röksemdafærslu sem leiðir til niðurstöðu sem hefur trúarlega þýðingu.

Dæmi um slíka röksemdafærslu væri eftirfarandi:

(1) Allt sem verður til á sér orsök.
(2) Alheimurin varð til.
(3) Þar af leiðandi á alheimurinn sér orsök.

Fyrir fáeinum árum flutti hinn virti eðlisfræðingur og heimsfræðingur Alexander Vilenkin erindi á ráðstefnu í tilefni af 70 ára afmæli Stephen Hawking. Í erindinu, sem ber titilinn “Hvers vegna eðlisfræðingar geta ekki vikið sér undan sköpunaratburði”, fór Vilenkin yfir stöðu mála innan heimsfræðinnar og gerði grein fyrir ólíkum kenningum um uppruna alheimsins. Í lokin kvað hann upp sinn dóm og sagði undanbragðalaust og skýrt að “öll gögn og athuganir segi að alheimurinn eigi sér upphaf”. Með öðrum orðum sé einfaldlega engu til að dreifa sem bendi til annars. Það er því einróma vitnisburður vísinda, að mati Vilenkin, að alheimurinn hafi ekki alltaf verið til heldur eigi sér skýrt upphaf.

Um aldir var það aðeins kristið fólk, og gyðingar á undan því, sem hélt því fram að alheimurinn ætti sér upphaf (sbr. 1Mós 1.1). Í gegnum aldirnar þróuðu ýmsir heimspekingar afar sannfærandi rök fyrir þeirri ályktun. Það var hins vegar fyrst í upphafi 20. aldarinnar með tilkomu afstæðiskenningarinnar að vísindi, sem fram að því höfðu verið undir áhrifum aristótelískrar hugsunar um eilífa alheim, staðfesti þessa frumforsendu biblílegrar trúar.

Vísindaleg þekking er því ekki sérlega hliðholl guðleysingjanum eða mónistanum. Upphaf alheimsins bendir eindregið til þess að einhyggja (náttúruhyggja/guðleysi) sé ósönn og gefi þar af leiðindi ekki rétta mynd af veruleikanum. Þvert á móti er til annarskonar veruleiki, handan tíma, rúms, efnis og orku, yfirnáttúrulegur veruleiki, skapari, sem er orsök þess að alheimurinn varð til. Enda verður ekkert til af engu.

Niðurstöðuna, að alheimurinn eigi sér orsök, leiðir óhjákvæmilega af forsendunum tveimur. Guðleysinginn getur vitaskuld vikið sér undan niðurstöðunni með því að hafna annarri eða báðum forsendunum. Spurningin er með hvaða hætti hann réttlætir það skref. Stephen Hawking hafnar niðurstöðunni á þeirri forsendu að alheimurinn hafi skapað sjálfan sig. Það er merkileg niðurstaða sem minnir á að bull er eftir sem áður bull enda þótt það komi frá einum merkasta vísindamanni sögunnar.

Vísindi eru sannarlega öflug á sinn hátt þrátt fyrir augljósar takmarkanir. Þau hafa leitt okkur fyrir sjónir stórfenglegan alheim. Ekki treysti ég mér til að alhæfa um áhrif aukinnar vísindalegrar þekkingar á trú fólks eða vantrú. Það eru ekki aðeins vísindi sem hreyfa við fólki og hafa áhrif á trúarleg viðhorf þess. Þar koma ýmsir aðrir þættir til sögunnar sem ekki má vanmeta. En hitt veit ég fyrir víst að nútíma vísindaþekking á uppruna og eðli alheimsins hefur sannfært marga, ekki síst vísindamenn, um tilvist skapara. Burtséð frá því er ljóst að það að kunna skil á því hvernig alheimurinn er samansettur og hvernig hann virkar útilokar á engan hátt tilvist orsakavalds sem skapaði alheiminn. Þvert á móti reynist það mörgu auðveldara að dást að snilli og hugvitsemi Guðs með aukinni þekkingu á eðli og innviðum alheimsins sem hann skapaði.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.6.2017 - 16:07 - FB ummæli ()

Ekkert um ekkert frá engu til einskis

Ég trúi á Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar!

Þannig hefst hin kristna trúarjátning.

Guð talar og allt verður til!

Að alheimurinn og allt sem í honum er fólgið sé skapað af Guði er grundvallandi hluti kristinnar trúar og játningar.

Kristin trú er í eðli sínu þakkargjörð frammi fyrir Skaparanum og sköpun hans.

Þakklæti, virðing og auðmýkt frammi fyrir lífinu og helgi þess, umhyggja fyrir öllu sem lifir, andar, vex og dafnar, er eðlileg afleiðing af þeirri sannfæringu og trú að til er góður Guð sem allt hefur skapað og viðheldur öllu á hverri stundu.

Spámaðurinn Nehemía dregur sköpunartrú Biblíunnar saman í eftirfarandi orðum:

Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
himin himinsins og allan hans her,
jörðina og allt sem á henni er,
höfin og allt sem í þeim er. Þú fyllir þau öll lífi
og himinsins her sýnir þér lotningu. (Neh 6.9)

Að Guð orsakaði, eða skapaði, alheiminn – tíma, rúm, efni og orku – úr engu, er strangt til tekið ofar skilningi okkar. En það þýðir ekki að við getum ekki komið orðum að því með skynsamlegum hætti.

Allt í tíma og rúmi á sér upphaf!

Ég á mér upphaf. Þú átt þér upphaf. Eitt sinn vorum við ekki til.

Húsið sem ég bý í á sér upphaf. Það sama á við um trén í garðinum mínum. Eitt sinn voru þau ekki til.

Jörðin sem við búum á hefur ekki alltaf verið til.

Hvað gæti verið augljósara en það?

Við erum umkringd af hlutum og fólki sem á sér upphaf og hefur ekki alltaf verið til.

En þýðir það ekki að allt sem er til hljóti að eiga sér upphaf?

Það hljómar óneitanlega skynsamlega.

En sú niðurstaða væri í hæsta lagi óskynsamleg. Hún mundi gera út um trúna, vísindin líka og sjálfa skynsemina.

Hvers vegna?

Vegna þess að það er röklega og vísindalega óhugsandi að allt sem er til eigi sér upphaf.

Ha?!

Jú, því ef allt sem er til átti sér upphaf, þá hlýtur svo að vera að eitt sinn hafi ekkert verið til.

Veltu því fyrir þér.

Reyndu að ímynda þér að ekkert sé til. Bókstaflega ekki neitt.

Það er eiginlega vonlaust.

En ef það var raunverulega einhvern tíma svo að ekkert var til, hvað ætti þá að vera til í dag?

Já, að sjálfsögðu. Ekkert!

Enginn skapaður hlutur! Bókstaflega ekki neitt!

Ef það var einhvern tíma svo að ekkert var til þá væri það einfaldlega alltaf svo. Sú ályktun er röklega óhjákvæmileg. Það væri ekki einu sinni til alltaf þegar hið svokallaða ekkert var til.

Hvernig getum við verið svona viss um að það?

Að ef ekkert var einhvern tíma til þá væri ekkert til núna?

Þótt ýmsu afar vel gefnu fólki geti sést yfir það er svarið einstaklega einfalt.

Af engu kemur ekkert!

Það sem ekkert er getur ekki leitt til nokkurs. Það getur ekkert gert því það einfaldlega er ekki neitt. Það hefur enga eiginleika og enga getu til nokkurs.

Það er ekki til!

Að segja að eitthvað geti orðið til af engu er það sama og að segja að það geti skapað sig sjálft. En það er jú fráleitt því þá þyrfti það að hafa verið til áður en það varð til. Það þarf samtímis að hafa verið til og ekki verið til.

Og það er röklega óhugsandi.

Þú gætir rétt eins reynt að búa til ferhyrndan hring.

Ef við vitum eitthvað þá vitum við að ef eitthvað er til núna þá er til eitthvað sem alltaf hefur verið til.

Eitthvað sem á sér ekki upphaf.

En hvað?!

Já, það er nú það!

Sú spurning skilur á milli ólíkra lífsskoðanna.

Burtséð frá því hlýtur það að vera eitthvað sem aldrei varð til, eitthvað sem á sér ekki upphaf.

Eitthvað sem er til utan og ofan við alheiminn, eitthvað sem á ekki tilvist sína öðru að þakka, og er jafnframt ástæða þess að allt annað er til.

Eitthvað sem er ekki skapað en hefur skapað allt annað.

Mörgum þykir G-orðið ekki hjálplegt í þessu samhengi. En því verður vart neitað að það er hugtak sem á einstaklega vel við þegar um þetta er að ræða.

Fyrsta staðhæfing Biblíunnar: Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð, er grundvallandi fyrir alla kristna hugsun og skilning á lífinu og tilverunni.

Þar er ekki einungis um trúarlega staðhæfingu að ræða heldur mjög svo skynsamlega ályktun sem fellur að þekkingu okkar á og upplifun okkar af lífinu.

Flokkar: Guð · Heimsfræðirök · Heimspeki · Sköpun · Skynsemi · Tilvist Guðs

Sunnudagur 14.5.2017 - 12:32 - FB ummæli ()

Mannréttindi og siðferði: Tvær spurningar og svör

Fyrir skemmstu skrifaði ég á fasbókarsíðu mína að það „að sérhver manneskja njóti ákveðinna réttinda sem ekki verður af henni tekin er staðhæfing sem engin veraldleg og guðlaus lífsskoðun getur risið undir þegar allt kemur til alls.“

Ég var spurður hvað þetta þýðir – og svaraði á þessa leið:

Ég geri mér grein fyrir því að slík staðhæfing er ekki óumdeild og að spurningunni þyrfti sjálfsagt að svara í löngu máli.

En í stuttu máli liggur hér að baki hinn óyfirstíganlegi munur á þeirri lífsskoðun sem byggir á, eða hefur sem grunnforsendu, tilvist Guðs (þá ekki síst hinni kristnu trú og lífsskoðun) og þeirrar lífsskoðunar sem byggir á guðleysi (veraldlegri lífsskoðun), og þær afleiðingar sem af honum leiða, m.a. þegar kemur að mannskilningi okkar.

Einn áhrifamesti guðleysingi samtímans, Richard Dawkins, dregur upp nokkuð lýsandi og sanngjarna mynd af innihaldi og afleiðingum hinnar guðlausu lífsskoðunar:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Ekki ýkja spennandi sýn á lífið eða manninn það.

Og út frá guðlausu sjónarhorni er afar erfitt að svara því í hvaða skilningi við getum talað um manngildi og ófrávíkjanleg réttindi á hlutbundinn (algildan) hátt ef sýn okkar á eðli lífsins krefst slíks skilnings á okkur sjálfum.

Hér verður hver og einn að svara fyrir sig. En spurningin er mikilvæg og áleitin.

Hinn vestræni hefðbundni skilningur á mannréttindum hefur grundvallast á hinni kristnu lífssýn og þeim mannskilningi sem í henni er fólginn, þar sem litið er á manninn sem skapaðan í mynd Guðs. Á þeim forsendum eru margir þeirrar skoðunar að hin kristna lífssyn, ólíkt guðleysinu, hafi að geyma grundvöll sem tryggir hlutlægni manngildis og mannréttinda.

Við þessu svari fékk ég eftirfarandi athugasemd:

Svar þitt er að mínu mati mjög áhugavert. Engu að síður á ég í nokkrum vanda með hugmyndina um trúarbrögð sem forsendu siðferðis. Til eru dæmi um veraldlegar lífsskoðanir sem einnig fela í sér djúpstæða hluttekningu. Gríski heimspekingurinn Epikúrus, svo dæmi sé tekið, boðaði að leiðin til hamingjunnar er að láta sig aðra varða og rækta vináttu og samskipti. Þrátt fyrir það sá hann ekki fyrir sér önnur örlög manninum til handa en að verða að mold. Einnig má finna óteljandi dæmi um guðleysingja sem í sinna mannúðarstörfum og mundi ég giska á að ýmsa slíka má finna í samtökum á borð við Læknar án landamæra. En ég skil hvað þú átt hér við.

Við þessu sagði ég:

Ég er sammála því sem þú segir um siðferði og vil undirstrika að ég er ekki þeirrar skoðunar að trú sé á einhvern hátt nauðsynleg forsenda siðferðis eða góðs lífernis. Ég mundi aldrei halda öðru fram og það gerði ég heldur ekki í fyrra svari mínu. Raunar sagði ég ekkert um siðferði.

Guðleysingi getur vitanlega lifað siðferðilega góðu og aðdáunarverðu lífi, rétt eins og hver annar sem það vill – og stundum er það augljóslega guðleysinginn sem fer fram með góðu og réttu fordæmi í siðferðilegum efnum, ekki sá sem trúir.

Um þetta ættu allir að geta sammælst, að mínu mati, og þarfnast það í raun engrar umræðu við.

En ef gengið er út frá guðleysinu (náttúruhyggju) – ef lífið og við sjálf erum ekkert annað en tilviljanakennd afleiðing efnis sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar án nokkurs tilgangs og merkingar – í hvaða skilningi við getum þá talað um gott og illt eða rétt og rangt í hlutlægri merkingu?

Það er allt annað mál og önnur umræða sem hefur ekkert með trú til eða frá að gera.

Hvað er siðferði, guðlaust séð, þá annað en líffræðileg og félagsleg- og menningarbundin skilyrðing!

Allt verður umsvifalaust afstætt og bundið persónulegum skoðunum og smekk hvers og eins.

Raunar er vandi guðleysisins verri en svo!

Eins og Richard Dawkins staðhæfir þá er einfaldlega ekki til neitt sem heitir illska eða góðvild, séð frá sjónarhóli guðleysisins, bara blint og miskunarlaust tómlæti.

Það er hin rökræna niðurstaða sem guðleysið knýr okkur til.

Og við því gengst Dawkins.

Hér hefði ég viljað doka við og spyrja minn ágæta vin guðleysingjann nokkurra spurninga.

Hvað verður þá um siðferðilega ábyrgð? Hvað merkingu hefur hún? Hvers vegna skyldum við yfirleitt lofa eða lasta fólk fyrir gjörðir sínar, ef eðli lífsins er svo að við dönsum bara vélrænt í takt við DNA-ið okkar, eins og Dawkins staðhæfir. Og ef allt er á endanum afstætt og huglægt getur þá ekki hver og einn einfaldlega gert það sem honum dettur í hug? Er ekki þá allt leyfilegt (hvort sem það er gagnlegt eða félagslega ásættanlegt), eins og Dostojevskí spurði á sínum tíma? Af hverju ekki?

Já, af hverju ekki?!

Ég skil vel gremju margra guðleysingja sem eru spurðir á þessa lund. Og ég skil vel ákafa þeirra í að finna algildu siðferði stað innan sinnar guðlausu lífsskoðunar.

En framhjá því verður ekki horft að guðleysið stendur frammi fyrir miklum vanda þegar kemur að því að finna grundvöll undir þá augljósu siðferðilegu vídd sem við upplifum í lífi okkar, nefnilega að sumt er raunverulega rétt og rangt, gott og illt, í hlutlægri merkingu.

Guðleysi rúmar ekki siðferði í þeirri merkingu. Og getur ekki orðið siðrænt í þeim skilningi.

Eða hver treystir sér til að segja að Stalín, Hitler eða Pol Pot gerðu ekkert annað en að dansa í takt við sitt eigið DNA?

Hver lítur svo á að slíkur skilningur dragi upp rétta mynd af eðli okkar og upplifun okkar af okkur sjálfum og lífinu.

Þess vegna eru margir þeirrar skoðunar – og þar á meðal eru margir guðleysingjar – að hin krista lífsskoðun á mun auðveldara með að gera skynsamlega og skiljanlega grein fyrir hinni siðferðilegu vídd lífsins og upplifun okkar af henni.

Nefnilega að í Guði finnum við þann grundvöll sem við getum reist algilt siferði á.

Það sem raunverulega skiptir máli þegar rætt er um Guð og siðferði er því ekki trú eða vantrú á Guð heldur tilvist Guðs eða tilvistarleysi.

Þetta má draga saman í afar áleitna röksemdarfærslu:

1. Ef Guð er ekki til þá eru algild (hlutlæg) siðferðisgildi og boð ekki til.
2. Algild siðferðisgildi og boð eru til.
3. Þar af leiðir að Guð er til.

Það sem gerir þessa röksemdafærslu jafn áhrifaríka og raun ber vitni er að flestir hafa tilhneigingu til að fallast á báðar forsendurnar.

Og þá fylgir niðurstaðan óhjákvæmilega.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsmynd · Náttúruhyggja · Rök fyrir tilvist Guðs

Föstudagur 12.5.2017 - 05:34 - FB ummæli ()

Mér segir svo hugur að …

„Þú getur ekki verið ástfangin af stúlku nema í hinum lægsta dýrslega skilningi ef þú veist (og ert meðvitaður um) að öll hennar fegurð, bæði persónuleiki hennar og eðli, er ekkert annað en tímabundin og tilviljanakend afleiðing af árekstri atóma; og að hrifningin sem þú upplifir er í raun lítið annað en sálfræðileg viðbrögð sem eru skilyrt af því hvernig genin þín haga sér.

Þú getur ekki haft raunverulega gleði af tónlist ef þú veist og hefur í huga að gildi hennar er hrein ranghugmynd, og að þú hrífst af henni eingöngu vegna þess að taugakerfi þitt er á órökréttan hátt skilyrt til þess.“

C.S. Lewis er ævinlega viðeigandi og íhugunarverður.

Margir hafa tilhneygingu til að útskýra allt sem snertir Guð og trú með tilvísun til þróunar, og þar með til blinds efnislegs ferlis þegar allt kemur til alls.

Þannig staðhæfir hinn þekkti guðleysingi Daniel Dennet að ástæðan fyrir því að við hrífumst af og metum það sem við gerum – allt frá sykri til fólks, peninga og tónlistar, kærleika og trúarbragða, – er einfaldlega þróun.

Þar á bak við, og algerlega óháð því sem hrifning okkar beinist að, eru ástæður þróunar, sjálfstæðar og engu bundnar, og ákvarðaðar af náttúruvali.

Það þykir mér heldur fátækleg og ömurleg sýn á manninn og eðli hans.

Með öðrum orðum er trú, eða sá eiginleiki sem gerir okkur kleift að trúa á Guð, byggður inn í okkur.

Hugsun, vilji eða ásetningur hefur ekkert þar að segja.

Ástæðan, segja fræðingarnir, er að trú tengdist með beinum eða óbeinum hætti eiginleikum sem gerðu forfeðrum okkar lífsbaráttuna léttari og líklegri til árangurs.

Og þess vegna finnst mörgum rök fyrir tilvist Guðs áhugaverð og heillandi enn þann dag í dag. En þau eru bara það – rök! Þau benda ekki til neins sem er raunverulegt.

Trú (eins og allt annað) er bara taugaboð í heilanum á okkur, og algjörlega handan okkar stjórn.

Hér er rétt að staldra við og spyrja hvort eitthvað sé ekki bogið við þetta? Er ekki mótsögn hér á ferð?

Það sýnist mér.

Guðleysinginn og þróunarlíffræðingurinn Richard Dawkins viðurkennir að sem afleiðing náttúruvals getum við ekki verið viss um að skynjum okkar og skilningur séu að öllu leyti áreiðanleg. Að standa vörð um sannar skoðanir sé jú alls ekki það sem þróun „lætur sig varða“, heldur hegðun sem er aðlagandi og til þess fallin að auka líkurnar á afkomu okkar.

Undir það taka margir.

Eins og náttúrúhyggjusinninn P. Churchland útskýrir „er meginverkefni heilans að koma hverjum líkamshluta svo fyrir að lífveran lifi af … Sannleikurinn, hvað sem hann annars er, hefur engu hlutverki að gegna“.

Það má velta vöngum yfir því hvort Dawkins, Curchland, og skoðanasystkin þeirra geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefur – þ.e.a.s. að þróun sjái okkur eingöngu fyrir vitsmunum sem gera okkur hæfari í að komast af, en ekki vitsmunum sem gefa okkur sanna og áreiðanlega mynd af heiminum í kringum okkur.

Í því samhengi eru ummæli Thomas Nagel, sem er þekktur guðleysingi og heimspekingur, afar lýsandi og áhugaverð.

Nagel bendir á að til þess að vera viss um það sem heilinn segir okkur að sé raunverulegt verðum við að fylgja röklegum reglum – og ekki bara vegna þess að við séum líffræðilega skilyrt til þess, heldur vegna þess að þær séu sannar og áreiðanlegar. En af því að rökleg lögmál hafa ekkert með afkomu okkar að gera séu þau vita merkingarlaus ef við göngum út frá þeirri útskýringu á lífinu og tilverunni sem þróunarsaga guðleysisins og náttúruhyggjunnar bjóði uppá. Þess vegna höfum við enga ástæðu til að treysta á skynsemi okkar sem uppsprettu þekkingar.

Í stuttu máli segja fræðingarnir að ef okkur þykir vit í að trúa á Guð sé það ekki vegna þess að hann er raunverulega til heldur vegna þess að sú sannfæring eða trú hefur frá því í fyrndinni hjálpað manninum að komast af.

Þess vegna sé hún byggð inn í okkur!

En hljótum við ekki þá að spyrja okkur spurningar sem ætti að blasa við öllum:

En ef við getum ekki treyst á að vit okkar og skilningur, sem sjá okkur fyrir skoðunum okkar og trú, segi okkur sannleikann um Guð, hvers vegna skyldum við treysta því að þau segi okkur sannleikann um eitthvað yfirleitt, þar á meðal um guðleysi, nátturuhyggju og blinda þróun?

Af hverju í ósköpunum ættu ein taugaboð að vera réttari eða sannari en önnur!?

Ef vitsmunir okkar miðla einungis því sem þurfum að vita til að komast af, en ekki því sem raunverulega er satt, hvers vegna skyldum við treysta þeim?

Í þessu er vandi guðleysisins og náttúruhyggjunnar meðal annars fólginn. – Og það er ekki litill vandi.

Sjálfur Charles Darwin áttaði sig að því:

„Sá efi sækir stöðugt á mig hvort sú sannfæring sem býr í huga mannsins – sem þróast hefur frá huga lægri dýra – er einhvers virði eða yfirleitt áreiðanleg. Mundi nokkur maður treysta á sannfæringu apans, ef einhverja sannfæringu er yfirleitt að finna í huga hans.“

Það er góð og gild spurning.

Það virðist ekki ýkja skynsamlegt að gangast við þeirri kenningu að allt sé afleiðing náttúruvals og blinds efnislegs ferlis án merkingar og tilgangs.

Ef það væri satt gætum við með engu móti treyst því sem sem hugur okkar og skilningur segja okkur að sé satt – og þar á meðal er jú það sem hugur okkar segir um sjálft guðleysið og náttúruhyggjuna.

Og hugsaðu þér hvaða þýðingu það hefði ef það væri satt.

Hvað þá með siðferði, kærleika, fegurð, réttlæti, og raunar hvað sem er.

Allt sem „hugur okkar og hjarta“ segja okkur í þeim efnum (ef svo má að orði komast) er þá ekkert annað en afleiðing af efnafræðilegu ferli í heilanum á okkur til þess gert að viðhalda erfðaefni okkar.

Þegar við tjáum einhverjum ást okkar, eða reiðumst yfir óréttlæti og ofbeldi, finnum til sektarkenndar, þá liggja ekki neinar raunverulegar tilfinningar þar að baki sem endurspegla „mig“.

Það er ekki raunverulegt þegar allt kemur til alls.

En ef það er satt, ef það er það eina sem er raunverulegt, þá gildir það vitanlega líka um það sem heili guðleysingjans og náttúrhyggjumannins miðlar honum um eðli veruleikans.

Ekki satt!

Ef röksemdarfærsla náttúruhyggjumannsins sannar eitthvað, þá sannar hún eiginlega allt of mikið.

Ef við getum ekki treyst á vitsmuni okkar varðandi eitt hvers vegna skyldum við treysta á þá þegar kemur að öðru?

Og ef Guð er ekki til – ef náttúruhyggjan er sönn – hvers vegna ættum að treysta á þá yfirleitt?

En við gerum það, ekki satt!? Við treystum á þá.

Og það gefur okkar góða ástæðu til að ætla að Guð sé til.

Og af hverju ættum við þá ekki að taka röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs alvarlega? Af hverju ættum við ekki að líta á þær sem mikilvægar vísbendingar um eðli tilverunnar og það sem liggur handan hennar?

Alheimurinn sem blasir við okkur, og við erum hluti af, er nefnilega ekki þess eðlis sem vænta má ef Guð er ekki til.

Nei, þvert á móti.

Við blasir alheimur sem hefur ekki alltaf verið til og á sér því upphaf og orsök handan hins efnislega og tímanlega, og býr þar að auki yfir öllum þeim mörgu og ótrúlega ströngu skilyrðum og óskiljanlega þröngu (og ólíklegu) lögmálsgildum sem verða að vera fyrir hendi til að líf geti komið fram og þrifist.

Við mannfólkið búum ennfremur yfir meðvitund og skynsemi sem gerir okkur kleift að ígrunda eðli tilverunnar og stað okkar í henni.

Við þráum og sækjumst eftir kærleika, fegurð og réttlæti sem ekkert í þessum heimi eða þessu lífi virðist geta uppfyllt.

Við getum greint á milli góðs og ills, rétt og rangs. Við upplifum með áþreifanlegum og óneitanlegum hætti að lífið hefur siðferðilega vídd, að sumt er gott og rétt og annað illt og rangt í hlutlægum skilningi.

Við höfum djúpstæða tilfinningu fyrir því að við og heimurinn erum á margan hátt ófullkomin og þörfnumst betrunar.

Við höfum einnig djúpstæða þörf fyrir að upplifa að á bak við líf okkar sé að finna merkingu og tilgang.

Það er ekki alheimurinn eða veruleikinn sem guðleysið og náttúruhyggjan lýsir! Slíkur veruleiki hljómar ekki eins og tilviljanakennd afleiðing efnis sem lýtur blindum nátturlögmálum án markmiðs og tilgangs.

Þvert á móti hljómar það eins og eitthvað „utan“ alheimsins sé að láta vita af sér.

Hvers vegna ekki að taka það alvarlega?!

Hvað segir hugur þinn?

Flokkar: Guð · Guðleysi · Heimsmynd · Náttúruhyggja · Sannleikur · Skynsemi · Tilvist Guðs · Trú · Þekking

Þriðjudagur 2.5.2017 - 08:42 - FB ummæli ()

Hversu skynsamleg er skynsemin?

Hversu áreiðanleg er hugsun okkar? Er hún traustsins verð? Hvað með skynsemina? Er hún jafn skynsamleg og af er látið?

Slíkar spurningar hljóma ef til vill kjánalega.

Ýmsir af mínum ágætu guðlausu vinum – þó alls ekki allir – líta svo á að það að vera kristinnar trúar í dag er í besta falli aum afsökun fyrir þá sem ekki nenna að hugsa og nota sína heilbrigðu skynsemi.

Raunin er sú, segja þessir ágætu guðleysingjar, að trú er í mótsögn við vísindalega og skynsamlega hugsun.

Ólíkt guðleysinu sjáðu!

Guðleysi og vísindaleg og skynsamleg hugsun falla nefnilega saman eins og hanski og hönd. Raunar er um eitt og hið sama að ræða. Svo þar sem vísindaleg og heilbrigð hugsun ræður ferð hlýtur niðurstaðan óhjákvæmilega að vera á guðlausum nótum.

Ef þú sumsé fellst ekki á guðleysið þá hefur þú gefið alla hugsun og skynsemi upp á bátinn.

Eða svo er sagt.

Hér er rétt að staldra við og spyrja okkar ágæta guðlausa vin áhugaverðrar spurningar.

Hvað er hugsun? Hvað er skynsemi?

Það er að segja ef við göngum út frá forsendum guðleysisins.

Guðleysi er jú í eðli sínu smættandi. Samkvæmt því verður að útskýra allt neðan frá, út frá hinu smáa. Á forsendum efnislegs og náttúrulegs ferlis af einum toga eða öðrum. Önnur útskýring er ekki í boði.

Allt á sér, og getur ekki annað en átt sér, náttúrulegar orsakir.

Það er jú skilgreiningin á náttúruhyggju.

Veruleikinn er ekki annað en efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar.

Og það á auðvitað líka við um hugsun okkar. Hún er ekki undanskilin smættarhyggjunni.

Hugsun er ekki fólgin í öðru en taugaboðun í heilanum okkar. Í rafboðum sem skjótast frá einum stað til annars. Í raun er enginn munur á huga okkar og heila. Um er að ræða eitt og það sama.

Það minnir á vísindamanninn – sem jafnframt var sannfærður guðleysingi – sem spurður var hvað hann notaði þegar hann stundaði vísindi.

– Hugann, sagði hann.

– Og hvað er hann, var hann spurður tilbaka.

Vísindamaðurinn velktist ekki í vafa um þá röklegu niðurstöðu sem leiddi af hans guðlausu lífsskoðun.

– Tja, sagði hann, hugur minn er það sama og heilinn í mér.

– Og hvað er heilinn?

– Tja, hann er tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar.

– Jæja, sagði hinn. Af hverju treystirðu þá á hugsun þína? Hvers vegna trúir þú nokkru sem hún segir þér?

Já, það er góð spurning.

Ef tölvan þín (eða farsíminn þinn) væri ekkert annað en tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar, mundir þú nota hana eða treysta á það sem hún segði þér?

Þegar allt kemur til alls er þetta spurningin!

Hver er áreiðanleiki hugsunar okkar og skynsemi?

Hafa vitsmunalegir eiginleikar okkar sannleikann yfirleitt að leiðarljósi?

Nei!

Ekki samkvæmt okkar ágæta vini guðleysingjanum.

Og út frá guðlausu sjónarhorni hefur hann fyllilega rétt fyrir sér.

Það sem rekur þróunina áfram, samkvæmt guðleysinu, og hefur framleitt meðal annars vit okkar og hugsun, hefur ekkert með sannleika að gera heldur fyrst og síðast aðlögun og afkomu.

Hvaða þýðingu hefur það?

Jú, eins og efnafræðingurinn J. Haldane minnti á fyrir all löngu síðan, ef hugsun mín er ekki fólgin í öðru en atómum á hreyfingu í heilanum á mér – kerfi sem er afleiðing blinds náttúrulegs ferlis – af hverju ætti ég að trúa eða treysta nokkru sem hún segir mér, þar á meðal því að heilinn í mér samanstandi af atómum?

Já, hvers vegna?

Og hvaða ástæðu hef ég þá til að trúa því og treysta að guðleysi eða náttúruhyggja sé sönn?

Mér sýnist svarið nokkuð augljóst, þótt ég þykist vita að okkar ágæti vinur guðleysinginn sé mér ekki sammála.

En burtséð frá því get ég ekki annað en velt vöngum yfir því hvers vegna honum finnst skynsamlegt að gangast við því sem grefur undan og gerir að engu þá skynsemi sem hann þó gerir tilkall til í krafti guðleysis síns.

Það er eins og saga undan sér greinina sem maður situr á.

Ef það er rétt, eins og Richard Dawkins og allir hinir náttúruhyggjusinnarnir halda fram, að við erum ekkert annað en afleiðing blinds og hugsunarlauss náttúrlegs ferlis, þá hafa þeir gefið okkur góða ástæðu til að efast um áreiðanleika vitsmuna okkar og hugsunar.

Og þá höfum við góða ástæðu til að efast um allt sem hugsun okkar og vit vilja telja okkur trú um – og þar á meðal er trúarjátning náttúruhyggjunnar, guðleysið sjálft!

Það er því ekki að sjá að Guð eða guðstrú sé í mótsögn við skynsamlega hugsun heldur þvert á móti guðleysið.

Það þykir mér merkilegt!

Það er ekki bara að höndin virðist alltof lítil fyrir hanskann, heldur virðist vanta sjálfan hanskann.

Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert með getu okkar til að hugsa að gera. Minn ágæti vinur guðleysinginn getur vitaskuld hugsað og beitt sinni heilbrigðu skynsemi á sama hátt og ég.

Og það gerir hann oft og iðullega á mun dýpri og afkastameiri hátt en ég.

Nei, málið snýst um að án Guðs er ekki að finna neinn grundvöll fyrir hugsun okkar og skynsemi (burtséð frá því hvað við annars hugsun og hvernig við notum skynsemina).

En ef horft er út frá sjónarhóli kristinnar trúar lítur myndin allt öðruvísi út.

Kristin trú minnir okkur á að á undan öllu öðru var ekki ekkert, ekki dautt og skilningsvana efni, eða viljalaust blint afl.

Nei, í upphafi var Orðið!

Ἐν ἀρχῇ ἦν ὁ λόγος … eins og segir í upphafi Jóhannesarguðspjalli

Logos.

Hugsun, skynsemi, vit og vilji.

Þegar kemur að því að útskýra hvers vegna alheimurinn er skiljanlegur og hvers vegna við höfum aðgengi að honum á áreiðanlegan hátt í gegnum hugsun okkar og vit (að minnsta kosti að hluta til), þá á kristin guðstrú mun skynsamlegra svar en guðleysið.

Ástæðan er að hvort tveggja, alheimurinn og hugsun okkar, er af sömu rót runnið þegar allt kemur til alls.

Hvort tveggja er afleiðing hugsunar og vits, skapandi orðs Guðs.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Skynsemi

Sunnudagur 23.4.2017 - 20:48 - FB ummæli ()

Hver er Guð?

Þeirri spurningu má svara með ýmsum hætti – og veltur svarið vitaskuld á því hver er spurður.

Guðleysingi svarar spurningunni á annan hátt en kristinn maður.

Hvað kristna trú varðar leiðir einföld leit í Biblíunni í ljós afar fjölbreytta og heillandi lýsingu á því hver Guð er:

Guð er andi! Guð er ljós! Guð er kærleikur! Guð er trúr! Guð er miskunnsamur! Guð er einn! Guð er sá sem allt hefur gert! Guð er Drottinn! Guð er voldugur! Guð er mikill! Guð er sá sem dæmir! Guð er réttlátur!

Svo fátt eitt sé nefnt.

Hið kristna svar er margþætt, en í kjarna þess er að finna þann skilning á Guði að hann er þríeinn.

Heilög þrenning!

Þótt hugtakið þrenning sé hvergi notað í Biblíunni tjáir það á skýran hátt vitnisburð Biblíunnar um Guð.

Eingyðistrú er rauður þráður sem gengur í gegnum alla Biblíuna. Guð er aðeins einn!

Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn (5Mós 6.4).

En andspænis Jesú, lífi hans og persónu, boðskap hans, staðhæfingum og verkum, og umfram allt upprisu, sáu fylgjendur hans sig í sífellt vaxandi mæli knúna til að tilbiðja hann sem Guð.

Ennfremur gátu þeir ekki neitað því að nærvera heilags anda, sem þeir upplifðu sín á meðal, miðlaði nærveru Guðs sjálfs.

Með öðrum orðum er Guð einn en engu að síður aðgreinanlegur í þrjá.

* * * *

Þrenningarlærdómurinn heyrir ekki til þess sem kallast náttúruleg guðfræði, heldur opinberaðrar guðfræði. Það er ekki niðurstaða sem við getum dregið í krafti röklegrar íhugunar.

Við vitum að Guð er þrenning vegna þess að Guð hefur sjálfur opinberað sig með þeim hætti.

Það þýðir þó ekki að þrenningarlærdómurinn sé rökleysa, eins og sumir vilja halda fram.

Ekki er um að ræða að þrír guðir séu á einhvernn hátt einn Guð, eða að þrjár persónur séu með einhverju móti ein persóna.

Slík orðanotkun er merkingarleysa.

Þrenningarlærdómurinn felur í sér að sú eina vera sem við köllum Guð samanstendur af þremur persónum.

Til er einn Guð sem hefur að geyma þrjár aðgreindar persónur – föðurinn, soninn og andann.

Það er engu órökréttara en að segja hið eina form eða rúmmynd sem kallast þríhyrningur samanstandi af þremur aðgreinanlegum hornum.

Þrjú horn í einu formi! Þrjár persónur í einum Guði.

Ef til vill má orða þrenningarlærdóminn á betri hátt með því að segja að Guð sé vera sem býr yfir þremur sjálfsvitundum (þremur „ég“), ólíkt okkur sem höfum eina sjálfsvitund (eitt „ég“).

* * * *

Þrenningarlærdómurinn er vissulega mikilfenglegur og leyndardómsfullur, enda lýsir hann innsta eðli sjálfs Guðs.

Hið þríeina eðli Guðs á sér ekki skýra eða greinilega samsvörun í reynslu mannsins. Og þegar kemur að því að tjá innsta eðli Guðs og veru hans verða orð óneitanlega fátækleg.

Það þarf því ekki að koma á óvart að það tók kirkjuna tíma að móta og orða reynslu sína og upplifun, skilning sinn og trú á hinn þríeina Guð á heilsteyptan hátt, sem var trúr vitnisburði ritningarinnar.

Niðurstöðu hinnar kirkjulegu umræðu er að finna í Aþanasíusarjátningunni:

„En þetta er almenn trú, að við heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu og við hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna. Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda. En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf. Svo sem faðirinn er, þannig er sonurinn, þannig er og heilagur andi … Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð og samt ekki þrír guðir, heldur einn Guð.“

* * * *

Þrenningarlærdómurinn er sú kenning sem greinir kristna trú frá öðrum eingyðistrúarbrögðum og ber uppi hinn einstaka skilning kristninnar á því hver og hvers eðlis Guð er.

En af hverju ekki einn og óaðgreinanlegur Guð?

Af hverju þrenningu í stað einingar?

Burtséð frá því að Guð hefur opinberað okkur það og birst okkur með þeim hætti, höfum við einhverja ástæðu til að ætla að Guð sé aðgreinanlegur í fleiri en eina persónu?

Er það líklegra heldur en hitt?

Ég tel svo vera.

Samkvæmt skilgreiningu er Guð hin æðsta mögulega vera.

Með öðrum orðum getur ekkert verið æðra Guði eða honum meira. Ekkert stendur honum ofar. Ef til væri eitthvað sem er æðra Guði þá hlyti það að vera Guð.

Og sem hin æðsta mögulega vera hlýtur Guð að vera fullkomin. Að öðrum kosti gæti hann ekki verið hin æðsta mögulega vera.

Fullkomin Guð hlýtur að vera elskandi Guð.

Því það að elska felur í sér siðferðilega fullkomnun. Það er betra að elska en ekki. Guð hlýtur því eðli sínu samkvæmt að vera fullkomlega elskandi vera.

Hvað segir það okkur um Guð?

Að elska er í eðli sínu fólgið í því að gefa sjálfan sig, bindast öðrum. Elskan teygir sig og leitar út á við, býður sig öðrum, í stað þess að hverfast um sjálfa sig.

Og ef Guð er eðli sínu samkvæmt fullkomlega elskandi þá hlýtur hann að gefa sjálfan sig einhverju öðru, bindast einhverju öðru.

En hver gæti það verið?

Heimurinn hefur ekki alltaf verið til. Mannfólk ekki heldur.

Það heyrir ekki til eðli Guðs að skapa. Að skapa er ekki eitthvað sem Guð varð að gera. Ákvörðun Guðs að skapa var ekki knúin af neinu öðru en hans eigin vilja.

En að elska heyrir til eðli Guðs.

Guð getur ekki verið Guð án þess að elska.

Við getum því ímyndað okkur veruleika þar sem Guð er fullkomlega elskandi en er einn til.

Og þar sem alheimurinn hefur ekki alltaf verið til, eða manneskjur, en Guð er um alla eilífð fullkomin í elsku sinni og elskar á fullkominn hátt, hlýtur það sem elska Guðs beinist að, að vera eitthvað sem fólgið er í honum sjálfum, eitthvað innra með Guði sjálfum.

Með öðrum orðum er Guð ekki ein, einangruð persóna. Guð sem er einn og óskiptur gefur ekki sjálfan sig og binst ekki öðrum í kærleika.

Guð hefur því að geyma fleiri en eina persónu, eins og þrenningarlærdómur kristinnar trúar gengur út frá.

Samkvæmt kristinni guðstrú er Guð eilíft samfélag þriggja persóna sem gefast hverri annarri í gagnkvæmum, fullkomnum kærleika.

Þar sem Guð er í eðli sínu kærleikur hljómar það því sennilegra að Guð hafi að geyma fleiri en eina persónu en að hann sé einn og óskiptur.

* * * *

Og það er vitnisburður kristinnar trúar!

„Guð er kærleikur.“ (1Jóh 4.16)

Kristin trú er fólgin í trú á Guð sem í innsta eðli sínu er kærleikur, Guð sem elskar að fyrra bragði.

„Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ (1Jóh 4.10)

Í fjallræðu sinni segir Jesús Kristur:

„Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“

Slíkur er sá Guð sem birtist okkur í persónu Jesú, í lífi hans, boðskap, orðum og gjörðum. Guð sem elskar skilyrðislaust og án þess að fara í manngreinarálit.

Þetta er það fallegasta við kristna trú, að mínu mati.

Og það sem greinir hana frá öðrum trúarbrögðum.

Á undan öllu öðru er ekki ekkert, ekki myrkur eða tóm, ekki viljaleysi, blindni, tómlæti eða harka, heldur eilífur kærleikur og elska, sem allt annað á uppruna sinn í.

Aðeins kristin trú og lífsskoðun birtir okkur slíkan Guð.

Flokkar: Guð · Heilög þrenning · Trúarbrögð

Fimmtudagur 6.4.2017 - 12:05 - FB ummæli ()

Var Jesús til?

Af og til heyrir maður látið að því liggja að Jesús frá Nasaret hafi aldrei verið til sem söguleg persóna.

Hér er um einstaklega undarlega staðhæfingu að ræða sem enginn ábyrgur sagnfræðingur tekur undir.

En það á ekki við um einstaka guðleysingja, sem eiga til að tala í hálfgerðum æsifréttastíl þar sem upphrópanir fá meira pláss en ígrunduð og fræðileg umfjöllun.

Til dæmis Richard Dawkins, sem ýjar að því í bók sinni The God Delusion (2006) að Jesús var ekki til.

Þá staðhæfingu hefur hann nú dregið tilbaka.

En á bak við slíka staðhæfingu liggja gjarnan frekari staðhæfingar um meintan skort á sögulegum heimildum um persónu og líf Jesú.

Engar heimildir séu til um Jesú frá hendi þeirra sem þekktu hann!

Ennfremur séu samtímaheimildir utan Nýja testamentisins undarlega hljóðar um Jesú!

Og þá hafi þær litlu heimildir sem þó eru til misst gildi sitt í meðförum kirkjunnar sem einkum vildi varðveita sína eigin útgáfu af lífi og dauða Jesú og því haldið sumu til haga en hent öðru!

Í þessu sambandi má minna á nokkur atriði sem rétt er að hafa í huga – enda þótt ýmsu öðru mætti bæta við.

Tíu heiðnir höfundar minnast á Jesú innan 150 ára frá dauða hans! Það er ekki lítið, og í raun ríkulegri vitnisburður en aðrar þekktar persónur sögunnar státa af.

Engir þessara höfunda voru sérstaklega hliðhollir kristinni trú og ýmsir hverjir beinlínis fjandsamlegir í hennar garð. Þar á meðal eru sagnaritaranir Jósefus, Tacítus og Seutóníus, sem uppi voru á fyrstu öld.

Hvað sem segja má um þessar heimildir leiða þær í ljós sögu sem samsvarar vel þeirri sem er að finna í Nýja testamentinu:

Á dögum Tíberíusar keisara var uppi gyðingur að nafni Jesús. Hann var kennari sem þótti gera undraverða hluti. Hann var krossfestur á tímum Pontíusar Pílatusar og átti sér fylgjendur eftir dauða sinn.

Um þetta er ekki deilt.

Eingöngu á grundvelli þessara heimilda vitum við meira um Jesú en flesta aðra frá fornöld.

Þá ber að hafa hugfast að þegar Nýja testamentið var ritað var kirkjan ekki komin til sögunnar sem skipulögð stofnun. Þvert á móti var hún fámennur, ólöglegur, valdalaus og ofsóttur hópur fólks.

Og það sem við þekkjum sem Nýja testamentið er í raun safn sjálfstæðra heimilda frá fyrstu áratugunum eftir dauða Jesú. Sem ritsafn verður Nýja testamentið endanlega til á 4. öldinni.

Og þessi rit eru einstök að mörgu leyti.

Engin rit fornaldar eru til í jafnmörgum handritum (mörgum þúsundum) eða jafngömlum.

Af því vitum við að ritin hafa varðveist svo að segja óbreytt fram á okkar daga.

Þá eru rit Nýja testamentisins einstök með tilliti til þess hversu nálægt þau liggja í tíma þeim atburðum sem þau greina frá.

Í því samhengi má minna á að ævisögur Arríans og Plútarks um Alexander mikla eru ritaðar 400 árum eftir dauða Alexanders. Þrátt fyrir það eru þær álitnar góðar heimildir.

Ólíkt þessu eru elstu varðveittu bréf Páls postula rituð aðeins 15-20 árum eftir dauða Jesú. Og hafa ber í huga að Páll byggir á enn eldri heimildum.

Það sama á við um guðspjöllin.

Þau eru rituð á fyrstu áratugunum eftir dauða Jesú og byggja á heimildum sem liggja mjög nærri atburðunum sjálfum, aðeins örfáum árum að sumra mati.

Af því má sjá að staðhæfingar um goðsöguleg áhrif í frásögunum eru fræðilega óábyrgar. Eins og klassískir sagnfræðingar hafa sýnt fram á var ekki nægur tími til að goðsöguleg áhrif skyggðu á kjarna þeirra sögulegu atburða sem guðspjöllin greina frá.

Þetta má líka merkja á þeirri staðreynd að rit Nýja testamentisins greina frá persónum og stöðum sem eiga sér raunverulega sögulega stoð, eins og sjá má af heimildum utan Nýja testamentisins og fornleifarannsóknum.

Lúkasarguðspjall er gott dæmi.

Sú frásögn er afrakstur beinnar sögulegrar rannsóknar guðspjallamannsins á lífi og starfi Jesú, sem fól m.a. í sér samtöl við sjónarvotta og þá sem þekktu til ævi og sögu Jesú (sbr. Lúk 1.1-4).

Frásögn Lúkasarguðspjalls skarast jafnframt mjög við veraldlega sögu síns tíma. Þegar svo ber undir hafa rannsóknir sýnt að Lúkasarguðspjall er mjög áreiðanlegt í sögulegu tilliti.

Raunin er sú að ef sögulegt gildi guðspjallanna og annarra rita Nýja testamentisins er véfengt verðum við jafnframt að véfengja þekkingu okkar á sögu hins grísk-rómverska heims.

En þá minna ýmsir á að Nýja testamentið var ritað af kristnu fólki sem vart hafi verið hlutlaust.

Gildi þess sé því lítið.

Jú, vissulega voru ritin skrifuð af kristnu fólki. Mikilvægari spurning er þó hvers vegna þetta fólk snérist til kristinnar trúar.

Burtséð frá því þarf að hafa í huga að öll rit eru skrifuð af ástæðu. Rit Nýja testamentisins eru ekki undantekning frekar en aðrar sögulegar heimildir.

En það gerir þau ekki sjálfkrafa að staðleysum.

Vitanlega voru höfundar Nýja testamentisins ekki hlutlausir, ekkert frekar en þeir guðleysingjar sem gagnrýna þá allt fram á þennan dag.

En fólk getur haldið staðreyndum til haga þótt það sé ekki hlutlaust með tilliti til þeirra.

Vitnisburður þeirra sem upplifðu helförina er sannarlega ekki hlutlaus. Þeir sem reyndu hana á eigin skinni voru ekki hlutlausir áhorfendur. En það rýrir ekki vitnisburð þeirra. Þvert á móti.

Í raun má segja að kristið fólk átti öðru fremur mikið undir því að staðreyndum um líf og starf Jesú væri haldið réttilega til haga.

Og hvers vegna hefðu höfundarnir átt að ljúga?

Engin ábyrgur sagnfræðingur telur að frásögn Nýja testamentisins sé helber lygasaga eða samsæriskenning frá a til ö.

Af hverju hefði þetta alþýðufólk spunnið upp lygasögu frammi fyrir fjandsamlegum valdhöfum gyðinga og rómverja? Af hverju hefðu fylgjendur Jesú yfirgefið öryggi eigin trúar og hefðar?

Fyrir upphefð, áhrif og völd? Nei, þeir uppskáru hið gagnstæða – misskilning, höfnun, ofsóknir, harðræði og dauða.

Eitthvað alveg sérstakt hefur þurft til.

Því neita þó margir og benda á kraftaverkin. Þau geta ekki hafa átt sér stað.

En slík staðhæfing er ekki söguleg í eðli sínu heldur heimspekileg.

Jafnvel efafyllstu sagnfræðingar og fræðimenn hafna því ekki að hinn sögulegi Jesús hafi gert kraftaverk, þ.e. hafi gert það sem í hans augum og annarra var af yfirnáttúrulegum toga.

Öðru verður aðeins haldið fram á grundvelli náttúruhyggju, þ.e. guðlausrar heimsskoðunar.

En slíkt viðhorf þarf að rökstyðja.

Kraftverk verða ekki útilokuð nema með því að útiloka tilvist Guðs.

Og í ljósi þeirra skynsamlegu raka sem liggja tilvist Guðs til grundvallar er ekki réttlætanlegt að útiloka kraftaverk, og því fyllsta ástæða til að hafa opinn huga gagnvart þeim.

En sögulega séð er ekki deilt um að Jesús frá Nasaret dó á krossi og var í kjölfarið lagður í gröf sem litlu síðar reyndist tóm.

Ennfremur heyrir það til atburða sögunnar að fjöldi manns upplifði Jesús lifandi eftir dauða hans á krossinum.

Og um það er ekki heldur deilt að fylgjendur Jesú, sem eftir dauða hans voru niðurbrotnir og hræddir, stigu fram og sögðu hann risinn frá dauðum, og borguðu fyrir það með lífi sínu.

Hvað þetta felur í sér hafa sjálfsagt flestir skoðun á.

En orð hins virta fræðimanns N.T. Wright koma óhjákvæmilega í hugann:

Tilkoma frumkristinsdómsins verður ekki útskýrð á öðrum forsendum en þeim að Jesús frá Nasaret reis upp frá dauðum, rétt eins og fyrstu fylgjendur hans staðhæfðu.

Flokkar: Jesús · Nýja testamentið

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur