Föstudagur 22.10.2010 - 23:45 - FB ummæli ()

Að bölva í kirkjunni

Verkalýðsbarátta gengur út á að bæta kjör. Grunnhugmyndin er að kjör einstaklingsins er ekki einkamál viðkomandi. Þess vegna ákváðu menn að deila kostnaðinum á milli sín. Þegar einhver er veikur og óvinnufær eða lendir í slysi þá slá allir saman í púkkið. Grunnhugmyndin er að jafna kostnaðinum. Áður fyrr var það vandamál einstaklingsins að bjarga sér ef eitthvað fór úrskeiðis. Það hafði oft í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og heimilið. Oftar en ekki þurfti að leggja niður fjölskylduna í sinni fyrri mynd og skipta henni upp ef fyrirvinnan slasaðist eða dó. Með mikilli baráttu verkalýðsfélaga tókst að breyta þessu.

Þar sem hluti þessara kjarbóta var sóttur í vasa atvinnurekenda var andstaðan mikil þar. Þeir og ýmsir auðmenn töldu að gæfa einstaklingsins væri mál hvers og eins en ekki annarra sem gætu spjarað sig. Hvers vegna ættu þeir að gefa spón úr aski sínum?  Auðinn höfðu þeir unnið sér inn hörðum höndum og ættu hann því skilið óskiptan. Til allra hamingju komust menn að samkomulagi.

Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

Í dag hefur hluti þjóðarinnar lent í ógöngum. Það getur leitt til þess að grundvellinum að rekstri heimilisins brestur. Fjölskyldur missa allt sitt, eins og áður, og lenda á vergangi. Fyrir 130 árum fóru menn vestur um haf en í dag frekar til Noregs.

Aftur eru til menn sem telja þetta vera eingöngu vandamál viðkomandi einstaklinga og skuli leysast með „einstaklingsmiðuðum lausnum“. Aftur eru menn á móti því að deila kostnaðinum vegna þess að seilst er í vasa annarra og það ætla þeir „ekki að láta gerast á sinni vakt“. Aftur þurfa einstaklingar að berjast fyrir þeirri hugsjón að óhamingja eins sé ekki einkamál viðkomandi.

Þegar forusta ASÍ tekur upp 100 ára gamla orðræðu atvinnurekenda þá finnst mér þeir vera að bölva í kirkjunni.

Þegar söfnuðurinn klappar síðan líka fyrir bölvuninni þá er kominn tími til að fara í trúboð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur