Þriðjudagur 09.11.2010 - 22:48 - FB ummæli ()

Vinstri menn eða bankamenn

Ætli það sé ekki hægt að fullyrða það að það sé almenn sátt um það að bankarnir komu okkur í skítinn. Þeir spiluðu djarft en gátu ekki staðið við afborganir á gjalddaga og fóru því á hausinn. Ef bankarnir hefðu fengið frekari lán þá hefðu þeir getað endurfjármagnað sig. Því miður gerðist það ekki og nú stjórna kröfuhafarnir bönkunum.

Sökum þess að bankarnir reiknuðu ekki rétt þá eru heimilin í vanda og allt þjóðfélagið í raun. Reyndar eru nýju bankarnir nú þegar farnir að sýna hagnað og eru sjálfsagt einu fyrirtækin á Íslandi sem gera það. Lausnirnar á bankakreppunni eru;

1.      Mikil skuldsetning ríkisstjóðs.

2.      Auknir skattar og útsvar.

3.      Niðurskurður hjá hinu opinbera,

4.      Og full nýting á greiðslugetu heimilanna og fyrirtækjanna.

Nú vill svo til að almenningur hefur mótmælt fyrrnefndri niðurstöðu og í raun mjög kröftuglega þann 4 október s.l.. Mótmælin urðu þess valdandi að ríkisstjórnin hikaði og ákvað að kanna hvort möguleiki væri á að koma til móts við skuldug heimili.

Hvernig bregst Már Guðmundsson núverandi Seðlabankastjóri við? Hvernig bregst bankastjóri bankanna við? Hvernig bregst Seðlabankastjóri við á fundi í Basel þar sem seðlabanki seðlabankanna er til húsa? Hvernig bregst Seðlabankastjóri, bankastjóri bankanna, í borg seðlabankanna við þegar hann hann er í viðtali við Bloomberg, málgagni peningaaflanna við? Hann segir:

„Trúin [efnahagskerfið] minnkaði þegar þingið kom saman í byrjun október og mótmælin áttu sér stað. Við vitum ekki enn hvort það högg hafi verið til skamms tíma eða hvort traustið er komið aftur. En þetta sýnir hve brothætt endurreisnin er.“

Endurreisn Íslands byggir sem sagt á því að skuldsett heimili Íslendinga borgi uppsett verð. Þeir aðilar sem ákveða „prísana“ eru bankarnir og það styður Már Seðlabankastjóri á Íslandi, fyrrverandi vinstri maður. Jóhanna og Steingrímur styðja það líka, líka fyrrverandi vinstri menn, öll núverandi bankamenn.

Það er sérkennilegt hve mannkynssagan endurtekur sig. Stjórnmálamenn, án tillits til barnatrúar þeirra, verða strengjabrúður fjármálaaflanna. Almenningur fylgir alltaf sama munstrinu, meðan eitthvað er til í matinn er hann sundraður. Eftir tuttugu ára kúgun sameinast almenningur loksins og veltir kúgurunum úr sessi og skapar réttlátt þjóðfélag. Síðan endurtekur sagan sig.

Ætli það sé bara ekki best að fara finna sér útsæði fyrir vorið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur