Miðvikudagur 10.11.2010 - 23:21 - FB ummæli ()

Kemur vatn úr sturtuhausnum..

Þjóðfélagasumræðan er sérkennileg þessa dagana. Orðræðan er hversu mikinn kostnað þjófurinn getur sloppið við að endurgreiða af þýfinu. Samtímis er vandamálinu stillt upp á þann veg að vissir einstaklingar geti ekki staðið í skilum og síðan er spurt hvort virkilega allir ætli að taka á sig aukna skatta til að bjarga þeim. Spurningin fór reyndar fram yfir síðasta söludag fyrir löngu.

Ég minni á að bankarnir settu okkur á hausinn en við vorum öll að sinna okkar, veiða fisk, bræða ál, mjólka beljur og þjónusta, við klikkuðum ekki, heldur bankarnir.

Verðbólguskotið og gengisfallið er verk bankanna. Aftur á móti eigum við að borga kostnaðinn.

Samráðsnefndin hefur skilað af sér í dag skýrslu. Spurningin er hvort sáttin í þjóðfélaginu haldi. Hversu miklu er fórnandi fyrir sáttina? Á að fylgja lánadrottnum að málum og fórna hluta þjóðarinnar? Hvernig mun sá hópur bregðast við?

Sá hópur hefur frá 4. október verið hljóður að mestu. Beðið hefur verið í ofvæni eftir fyrrnefndri skýrslu og miklar vonir bundnar við hana. Margir trúa því að ríkisstjórnin muni í þetta sinn leiðrétta forsendubrestinn og skapa réttlæti.

Mannskepnan vill seint trúa illum ætlunum upp á náungann og vonar ætíð það besta. Eins er skuldugum Íslendingum farið í dag. Ætlar ríkisstjórnin að segja af eða á með hverjum hún stendur í þessu máli? Mun hún halda áfram að draga skulduga á asnaeyrunum?

Áður en að öll sund lokast og of seint verður að snúa af núverandi braut verða þeir sem telja sig órétti beittir að sameinast sem hópur og krefjast leiðréttingar. Ein aðferð og í raun lágmarks framkvæmd er að mæta á mótmæli og tjá óánægju sína. Að öðrum kosti heldur ríkisstjórnin að allir séu sáttir. Að minnsta kosti hjálpar það ekki neitt að góna sífellt á sturtuhausinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur