Fimmtudagur 18.11.2010 - 18:52 - FB ummæli ()

Mótmæli, læmingjar og samhengi hlutanna

Frá hruni haustið 2008 hafa mótmæli almennings hafist og hjaðnað svo. Hörður Torfa, Opinn Borgarfundur og fleiri mótmæli tengd búsáhaldarbyltingunni sálugu náðu sér á gott flug en hurfu svo. Valdhafar skiptu um ríkisstjórn og pöpillinn fór sæll heim.

Eftir það komu fram mótmæli gegn Icesave, Alþingi götunnar stóð fyrir fundum, mótmæli voru gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum s.l. sumar, Attac, Björk og fleiri hafa barist fyrir því að auðlindir séu í eigu landsmanna, BÓT hefur haldið fundi um fátækt og „tunnuterrostiar“ hafa núna síðast mótmælt úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar fyrir almenning í landinu. Þessi mótmæli hafa risið og hjaðnað því valdhafar hafa smokrað sér undan og alltaf gefið smá von um betri tíð. Fjölmiðlar hafa beitt sér, eða verið nýttir, á kerfisbundinn hátt, með umfjöllun sem læsir efa í sálir almennings um réttmæti þess að mótmæla kjörum sínum.

Mótmælin hafa borið vissan árangur og að minnsta kosti hafa mótmælendur gætt eldsins af kostgæfni.

Núverandi ríkisstjórn hefur núna afneitað þeirri vinstri pólitík, sem hún var kosin til að fylgja, eins og Pétur postuli meistara sínum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er velkominn en var áður óvættur, að greiða mistök Icesave bankamanna er þjóðhagslega nauðsynlegt, að ganga í ESB er sjálfsagt, aðgangur að auðlindum okkar hafnar í skúffum, kvótinn fjarlægist þjóðina, að fólk missi heimili sín er óheppilegt en er fjármagnsöflunum nauðsyn, fátækir og matarlausir samlandar er sorgleg staðreynd sem er sett í nefnd. Ásamt því að sigla þjóðarskútunni í botnlausar skuldir samfara mikilli skattheimtu og niðurskurði, allt til að greiða fyrir mistök fjármálakerfisins, hefur hingað til flokkast undir eitthvað annað en vinstri pólitík.

Ríkjandi „vinstri menn“ hafa afneitað stefnu sinni. Hlutskipti þeirra er að þjóna fjármagninu. Lánadrottnar landsins og landsmanna gera kröfur um endurgreiðslu lána án tillits til afleiðinganna. Núverandi vinstri stjórn sér ekkert athugavert við það að taka þátt í innheimtunni á forsendum lánadrottnanna. Hver er framtíð slíkra vinstri sinnaðra stjórnmálamanna? Núna vilja þau halda völdum en hvað svo? Er ekki um að ræða hóp læmingja sem mun síðan steypast fyrir björg?

Íslensk verkalýðshreyfing lónar í vari aðgerðaleysis.

Það sem er að gerast á Íslandi er samþjöppun auðs og útbreiðsla fátæktar. Hóparnir verða mjög misstórir, þeir ríku kannski 2% og hinir munu verða þá 98%.  Þetta er að gerast um alla Evrópu og Bandaríki Norður Ameríku. Í litla hópnum eru fyrst og fremst lánadrottnar. Fátækt hefur aukist á Íslandi og millistéttin er jafnt og þétt að flytjast yfir í fátæktarhópinn. Ef haft er í huga að við erum enn sem fyrr að veiða fisk, mjólka kýr og bræða ál er þetta ill skiljanlegt. Ætlum við að sætta okkur við að fjármálastarfsemi, lánastarfsemi, bankastarfsemi setji allt á annann endan og komist frá mistökum sínum með pálmann í höndunum?

Ætlum við að mæta á mótmæli þegar 98% okkar eru við fátækt eða orðin fátæk. Hvenær ætlum við að sjá samhengi hlutanna? Hefur þú lesandi góður kannað hvenær þú sjálfur nærð ekki endum saman í heimilsbókhaldinu?

Þeir sem mæta á mótmæli í dag eru ekki að mótmæla vinstri stefnu eða vinstri ríkisstjórn. Þeir eru að mótmæla aðför lánadrottna að skuldugum einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir eru að mótmæla því að sameiginlegir sjóðir okkar séu notaðir til að greiða fyrir mistök bankanna. Þeir eru að mótmæla lánadrottnum og vinum þeirra. Þessi barátta á sér stað út um allan heim, Obama lofaði öllu fögru eins og Steingrímur en þeir þjóna bara Wall Street eftir kosningar. Lettland, Grikkland og núna Írland fá sömu meðferð lánadrottna í Evrópu með aðstoð Evrópusambandssins og Alþjóðagjaldeyrissjóðssins.

Samhengi hlutanna er ekki lengur mismunandi pólitík heldur afstaða okkar til fjármálakerfisins, er það til að þjóna okkur eða erum við þrælar þess. Hver er röksemdin fyrir því að nær allur heimurinn sé að greiða skuldir til lítils minnihluta heimsins? Allt eru þetta mannanna verk, núna þurfum við bara að setjast niður og hanna réttlátara kerfi, en til þess þurfum við að standa saman.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur