Föstudagur 17.12.2010 - 20:02 - FB ummæli ()

Umræðan um fátækt-til hvers

Það eru ólíkir heimar sem við hrærumst í eða tengjumst. Við mótumst af því umhverfi sem við lifum í. Ég þekki nokkra fátæka einstaklinga og öryrkja sem hafa það ekki gott og kjör þeirra hafa versnað í kjölfar bankakreppunnar. Ég deili ekki kjörum með þeim(ennþá) en dreg ekki í efa aðstæður þeirra. Ég hlustaði á viðtal við konu sem fékk næstum 400 þús. kr. á mánuði í bætur og sótti sér matargjafir hjá neyðarstofnunum. Viðbrögðin við þessari frétt voru mjög sterk. Viðbrögðin eru að hún hafi mun meira en flestir og þurfi því alls ekki matargjafir, einnig að bótaþegar hafi það nú ágætt og neyðarstofnanirnar séu meira að þessu fyrir sig en nokkurn annan.

Einhvern veginn fór það framhjá flestum að konan sagði frá skuldum sínum sem gerðu það að verkum að hún átti ekki fyrir mat.

Mjög vel heppnuð fréttaskýring-en fyrir hvern?

Að sjálfsögðu á að setja fréttir í samhengi og jöfnuður á að vera í fréttaflutningi. Afrakstur slíkra frétta er að neyðin sé ofmetin og styrkir þá í trúnni sem vilja trúa því að aðferðir núverandi ríkisstjórnar út úr kreppunni séu réttlætanlegar. Sá hluti þjóðarinnar sem er þessarar skoðunar á sjálfsagt rétt á slíkum fréttum.

Ef við reynum að setja kreppulyf ríkisstjórnarinnar í samhengi því kreppan og ráðstafanir við henni eru samhengi viðkomandi einstaklinga sem þurfa aðstoð. Í fyrsta lagi orsökuðu viðkomandi einstaklingar ekki kreppuna og þeir þjást vegna hennar. Auk þess greiða þeir kostnaðinn sem kreppan veldur. Í öðru lagi þá eru ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ekki hennar heldur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og slíkum ráðstöfunum hefur verið beytt undanfarið í nokkrum löndum Evrópu. Auk þess er komin nokkurra áratuga reynsla á þessar aðferðir hjá fátækari löndum heimsins.

Afrakstur af slíkri rýni gæfi mjög sterkar vísbendingar um að kreppuráðstafanir AGS auka vandamál almennings en ekki banka sem eru orsök kreppunnar. Afleiðingarnar eru ekki eingöngu minna fé á milli handanna og þörf fyrir matargjafir heldur skert heilsa með aukinni hættu á ótímabærum dauða af völdum kreppuráðstafana. Ráðstafanir AGS hafa oft fjölgað fátækum og skert möguleika þeirra til að fá heilbrigðisþjónustu m.a. með aðkomugjöldum. Auk þess gæti frekari rýni sýnt að til eru aðrar aðferðir, en núverandi, út úr kreppunni, aðferðir sem heimsþekktir hagfræðingar mæla með og jafnvel nokkrir íslenskir þingmenn.

Hvort orsök kreppunnar, afleiðingar kreppunnar, AGS og stjórn hans á fjárlögum Íslands eigi eitthvert erindi í frétt um öryrkja sem á ekki fyrir mat sökum skulda við lánadrottna, lánadrottna sem skópu kreppuna frekar en öryrkinn, er alltaf mat fagaðila, þ.e. blaðamanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur