Mánudagur 20.12.2010 - 21:49 - FB ummæli ()

Guð blessi Írland… og okkur hin líka

Ég hef verið að lesa Letter of intent(Loi) milli írsku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandins og Alþjóðagjadeyrissjóðsins.  Ég mun kannski síðar fjalla nánar um einstaka þætti í því en núna læt ég mér nægja að tjá heildarmyndina sem teiknast upp í huga mínum við þennan lestur.

Það sem er merkilegt er að alþjóðastofnanir eins og Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu,   Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn koma núna með miklum krafti inn í Írland til að taka til hendinni. Aðgerðir þeirra snúast fyrst og fremst um að bjarga bönkum eða fjármálakerfinu. Við lestur á Loi fyrir Írland er augljóst að bankakerfið er sett í gjörgæslu. Írsk stjórnvöld, þessi sem þjóðin kaus síðast, eru greinilega í aukahlutverki. Lýðræðiskjörin stjórn Írlands á að framkvæma það sem fyrir þau er sett af hálfu þessara stofnana. Ég velti því fyrir mér, hvar voru þessar stofnanir á meðan bankarnir steyptu sér í botnlausar skuldir sem settu allt á hliðina á Írlandi?

Þvingunarúrræðin sem alþjóðastofnanirnar setja á fjármál írska ríkisins eru mjög ströng. Þar eru margvíslegar reglur um eftirlit á notkun fjármagns hins opinbera ásamt nákvæmari áætlunargerð. Allt í þeim tilgangi að írska ríkið sé rekið eins og fyrirmyndarfyrirtæki og einnig til að írska ríkið geti fjármagnað tap bankakerfisins. Með tilliti til þess að það voru bankarnir sem fóru offari hefði ég haldið að þessi vinna hefði átt að beinast að bönkunum fyrir hrun.

Ef þú lesandi góður ert sammála því að allar skuldir skulu greiddar án tillits til afleiðinga og að bankakerfið njóti forgangs fram yfir almenning ert þú sennilega sammála aðgerðum alþjóðastofnana. Eftir því sem ég kynni mér meira hvernig galin bankakerfi eru endurreist á kostnað almennings í allt fleiri löndum Evrópu finnst mér sem ESB sé að sýna á sér nýtt andlit sem verkfæri lánadrottna í Evrópu. Stuðningsmenn ESB ættu því til framtíðar að vera ultra hægri menn og áhangendur nýfrjálshyggjunnar, þ.e. þeir sem græða á daginn og grilla á kvöldin. Það sem við ekki vissum var að það er almenningur sem er grillaður.

Eftir að hafa lesið Loi fyrir Írland og kynnt mér slík skjöl fyrir all nokkur önnur ríki, bæði í Evrópu og annar staðar, þá er að koma mynd á þann lyfseðil sem er kjarninn í öllum slíkum skjölum.

Grunnreglur lánadrottna/ESB/AGS/SBE

1.      Enginn banki má tapa krónu nema það sé algjörlega óumflýjanlegt.

2.      Ríkið tekur á sig skellinn að svo miklu leyti sem gerlegt er.

3.      Ef einhverjir bankar þurfa að fara á hausinn, þá skulu það vera litlu bankarnir en stóru hákarlanir skulu lifa.

4.      Til að ríkið geti tekið eins mikið á sig þá eru skattar hækkaðir á almenning með þeirri undantekningu þó að þeir betur settu sleppi við slíkt. Velferðarkerfi almennings skorið niður. Ríkisfyrirtæki einkavædd til að losa fé til að borga sukkið hjá bönkunum.

5.      Síðan tekur ríkið lán hjá stóru bönkunum, í gegnum ESB/AGS, eins mikið og það getur tekið á sig til að endurfjármagna bankana.

6.      ESB/AGS taka síðan við stjórn ríkisins í raun og segir ríkisstjórnum fyrir verkum til að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig. ESB/AGS segir til um hvað lög eigi að semja, hverjum eigi að breyta o. sv .fr.. Rökræður á þingi viðkomandi þjóða um réttmæti fyrrnefndra aðgerða er allt of tímafrek aðferð að mati bankanna og gæti auk þess verið hafnað af kjörnum fulltrúum almennings.

7.      Að loknum þessum aðgerðum er bankakerfið endurreist á kosnað almennings. Kostnaður atvinnulífsins af eftirlaunum, barnabótum, atvinnuleysisbótum og launum er skorinn niður. Grunnþjónusta einkavædd og afgangurinn af launum almennings tekinn með hækkandi álögum á grunnþjónustu. Niðurstaðan er mjög samkeppnishæft vinnuafl sem verður að vinna mikið og alla æfi án neins sérstaks kostnaðar fyrir framleiðsluna. Góðu fréttirnar eru þær, að minnsta kosti býr almenningur við gott og endurnært bankakerfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur