Mánudagur 27.12.2010 - 05:49 - FB ummæli ()

Fossalögunum snúið á haus í boð Magma Energy

Jólagjöfin í ár, til okkar sem viljum að auðlindir Íslendinga séu í eigu þjóðarinnar, kom í formi fréttatilkynningar frá Magma Energy til fjölmiðla. Þar kom fram að Magma Energy í Kanada væri búið að greiða fyrir hlut sinn í HS Orku. Þar með á Magma Energy 98,53% í HS Orku. Af því leiðir að íslenskir aðilar eiga 1,47%.

Til að flækja málið þá er sænskt dótturfélag Magma í Kanada sem á HS Orku. Magma gat ekki keypt HS nema að vera innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þess vegna er sænska fyrirtækið svokallað skúffufyrirtæki. Því er klárlega um sýndargjörning að ræða til að komast fram hjá lögum og reglum á Íslandi. Illar tungur sögðu að þetta ráð hafi verið gefið innan íslensku stjórnsýslunnar.

Fjölmiðlar hafa þrástagast á því að „nefnd um orku- og auðlindamál“ hafi komist að þeirri niðurstöðu að kaup Magma Energy í Kanada séu lögleg. Það er rangt og er vísbending um að blaðamenn hafi ekki lesið niðurstöðu nefndarinnar.

Við lestur skýrslu nefndarinnar er augljóst að hún telur gjörninginn ekki samræmast meginmarkmiðum íslenskra laga um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Hún átelur stjórnvöld fyrir að hafa ekki ígrundað niðurstöðu sína betur. Hún segir ekki berum orðum að um ranga túlkun á lögum sé að ræða. Aftur á móti er megin niðurstaða nefndarinnar sú að til þess að fá úr þessu skorið verði að skjóta málinu fyrir dómstóla og fá á þann hátt úrskurð um túlkun laganna. Þessa niðurstöðu nefndarinnar er ekki hægt að túlka á annan hátt en að lögmæti sölunnar sé verulega dregin í efa.

Hvernig fjölmiðlamenn komast að þeirrri niðurstöðu að „nefnd um orku- og auðlindamál“ telji söluna á HS Orku til Magma Energy í Kanada löglega er mér hulin ráðgáta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur