Fimmtudagur 30.12.2010 - 20:31 - FB ummæli ()

Flugeldurinn Jón Gnarr

Þessa dagana keppast ýmsir aðilar við að velja mann ársins. Á meðan þau mál skýrast finnst mér við hæfi að lýsa tilfinningum mínum gagnvart núverandi Borgarstjóra. Hann virkar á mig eins og flugeldur sem skaust upp á stjörnuhimininn og sprakk síðan með hvelli. Fram að þeim tímapunkti var hann stórkostleg sýning og fékk óskipta athygli. Eftir að prikið féll niður í Borgastjórastólinn erum við mörg að bíða eftir því að eitthvað nýtt og frábrugðið gerist.

Ég þekki reyndar eitt dæmi um ný vinnubrögð. Guðjón Arnar fyrrverandi formaður Frjálslyndaflokksins átti bókaðan viðtalstíma hjá Borgarstjóra s.l. haust. Þar átti að ræða hvernig borgin myndi standa í skilum með þá fjármuni sem ráðuneytið var búið að úrskurða að væru flokksins. Jón Gnarr mætti ekki og ekki fékkst nein skýring á fjarveru hans.

Ef stjórnunarstíll Jóns snýst um óvæntar uppákomur sem og fjarverur þá ber það vott um skort á kurteisi eða hreinlega að það sé svo gaman að stjórna, að hann njóti valdanna nú þegar.

Ég hef orðið var við mikil vonbrigði meðal margra sem kusu Jón á sínum tíma. Ég tel að flestir hafi verið að kjósa breytingar til batnaðar og umbætur. Að sitja uppi með kulnað sótugt prik er að vonum svekkelsi. Huggun Jóns er sú að stjórnmálaelítan á Alþingi er nákvæmlega jafn svekkjandi, nema bara fyrir þá staðreynd að Jón ætlaði að vera öðruvísi en þau.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur