Laugardagur 08.01.2011 - 22:08 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæði um ESB er í raun bull

Alþingi Íslendinga ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það var gert þrátt fyrir að aðeins einn flokkur af fimm hefði það á stefnuskrá sinni. Því má segja að aðeins 30% þjóðarinnar hafi kosið umsókn að ESB. Ef það á að draga umsóknina til baka þá á Alþingi að gera það því þjóðin hefur þegar kosið um það. Þjóðaratkvæðagreiðsla er eingöngu nauðsynleg til að koma vitinu fyrir Alþingi þjóðarinnar-neyðarráðstöfun.

ESB er hagsmunasamtök stórfyrirtækja og fjármalaaflanna. Fiskiskipafloti stórfyrirtækja ESB veiðir út um allan heim, stundar rányrkju og brottkast og ógnar þar með framtíð fiskistofna. Að fyrirtæki vilji græða er nánast eðlilegt en það sem er óeðlilegt er að allt regluverk ESB hefur ekki getað haft áhrif á þessa hegðun. Í raun er regluverkið hannað með götum þannig að það sé ekki að þvælast fyrir stórkapitalinu. Afgangurinn af regluverkinu er hafður þarna fyrir sócílademókratíska blýantsnagara.

Sömu sögu má segja um viðskipti á milli ESB og annarra landa. Hegðun ESB miðast að því að gömlu nýlendurnar flytji hráefni til ESB sem síðan eru fullunnin í ESB. Hegðun ESB er að ná völdum yfir hráefnum í viðkomandi löndum. Tilslakanir á flutningi á vörum, fyrir fátæk ríki, inn á ESB svæðið tengjast kröfum ESB. Kröfur ESB snúast um að auðlindir viðkomandi landa fari á frjálsan markað í stað þess að vera undir ríkisforsjá, það sem er dulbúið undir nafninu „frjáls viðskipti á vörum“. Lokaniðurstaðan er sú að viðkomandi land verður hrávöruútflytjandi. Það er mjög sérkennilegt að fjöldi frjálsra félagasamtaka berst gegn ESB um víða veröld á sama tíma og hámenntaðir Íslendingar vilja endilega inn í klúbb ríka fólksins í Brussel.

EES samningurinn minnkaði varnir íslenskra laga gagnvart aðkomu erlendra aðila að auðlindum okkar og núna erum við að berjast fyrir því að safna undirskriftum til að bjarga auðlindunum okkar.

Það er augljóst að Evrópski Seðlabankinn gengur erinda fjármálavaldsins í Evrópu og í nánu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn innhemtir skuldir einkabanka út um alla álfuna. Þar er ekkert til sparað, velferðakerfið rústað og skattar hækkaðair allt fyrir fjármálaelítuna.

Við höfum nú þegar fundið fyrir nálægð elítunnar í ESB. Við eigum að borga skuldir einkabanka, þ.e. Icesave og kanadískt fyrirtæki nýtir sér gloppur í löggjöfinni til að komast yfir auðlindir okkar. Ekki megum við veiða makrílinn né flytja hann til ESB og sjálfsagt munum við þurfa að heyja nokkur þorskastríð til að endurheimta fiskinn okkar ef við göngum inn í ESB.

Ef hér væri hópur ultra nýfrjálshyggjunýlendusinna(neo-colonialst) sem vildi ólmur ganga inn í ESB hefði ég skilning á því. Fólk sem kallar sig vinstri með hnattræna hugsun á ekki neitt með það að púkka undir samband sem er verkfæri risafyrirtækja og annarra ofurríkra afla.

Flokkar: ESB · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur