Sunnudagur 16.01.2011 - 20:34 - FB ummæli ()

Mótmæli eða nöldur á morgun…

Á morgun, þ.e. mánudaginn 17 janúar, er boðað til mótmæla fyrir framan Alþingishúsið og hefjast þau kl 16:30 en einhverjir munu mæta strax kl 15:00.

Tímasetningin er vegna þess að Alþingi Íslendinga kemur aftur saman eftir jólafrí.

Okkur finnst við eiga ýmislegt óuppgert við stjórnvöld og Alþingi er táknmynd þeirra þrátt fyrir að hinir raunverulegu valdhafar sitji innan múra fjármálavaldsins. Við erum mjög ósátt við öll sviknu kosningaloforðin, við ætluðumst til að sá samningur sem við gerðum við stjórnmálaflokkana í síðustu kosningum stæði. Við framseldum ekki valdið til þeirra til þess að þeir myndu hygla fáum en skilja okkur eftir í skítnum. Þess vegna ætlum við að mæta á morgun og rifja upp kosningaloforðin.

Daglega er almenningi drekt í lygi valdhafanna. Fréttaflutningurinn er afvegaleiðandi og hlutirnir ekki nefndir réttum nöfnum. Afleiðingar bankahrunsins eru atvinnumissir, tekjumissir og eignamissir. Alveg sama hversu mikið er kallað eftir leiðréttingu á þessari gríðalega miklu eignatilfærslu sem á sér stað gerist ekkert. Bankar eru hiklaust endurreistir á kostnað almennings eins og sú starfsemi sé upphaf og endir alls í tilverunni. Fjölmiðlaumræðan gerir ekkert til að véfengja þessa forgangsröðun, þess í stað dynur á okkur stöðug lygi um mikilvægi þess að bjarga fjármálastofnunum samtímis og það er óvinnandi vegur fyrir sömu stjórnvöld að ákvarða lágmarksframfærslu venjulegs Íslendings.

Hvers vegna ætti venjulegur Íslendingar að samsama sig með valdastétt sem ætlar sér ekki að breyta neinu, valdastétt sem tilheyrir mun frekar sérhagsmunaklíkum landsins en almenningi.

Kvótinn, Magma, gjaldþrota heimili og fyrirtæki, niðurskurðurinn í heilbrigðismálum, hjá öryrkjum, hjá öldruðum, spilling við endurúthlutun fyrirtækja, reykfylltu bakherbergin sem vinstri stjórnin ætlaði að opna fyrir almenningi, skattahækkanir og einkavæðing Íbúðarlánasjóðs Íslands í boði AGS og vegatollar. Öll þessi þjáning til að endurreisa spillt fjármálakerfi sem mun halda áfram að stjórna þeim sem við kusum til að stjórna fyrir okkur.

Mjög margir virðast vera ósáttir og nöldra en…

á morgun ræðst það hvort það er raunverulegur vilji hjá almenningi til að krefjast umbóta eða ekki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur