Föstudagur 21.01.2011 - 22:08 - FB ummæli ()

Að þjófstarta byltingu

Við lestur á sögu annarra þjóða sem lent hafa í svipuðum raunum og við má læra margt. Þrátt fyrir það erum við að endurtaka söguna. Bæði reynsla og rannsóknir sýna fram á að þau úrræði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir auka á vanda almennings. Þar að auki viðgangast sérkennileg viðskipti í skjóli leyndar sem enda með því að fámenn elíta situr að mest öllum auðnum. Mikil misskipting kemur fram og óánægður almenningur er kúgaður til hlýðni. Kjörnir lygarar halda völdum. Sagan segir okkur einnig að þegar almenningur á ekki neitt, má ekki neitt og skuldar allt, þá verður bylting eins og í Túnis um daginn.

Níu Íslendingar voru komnir nokkuð lengra í lestrinum en aðrir Íslendingar og skildu samhengi hlutanna. Þau höfðu skynjað við lestur sögunnar að samruni Alþingis og elítunnar var nánast fullkomnaður. Alþingi hafði breyst í verkfæri elítusérhagsmunahópanna í þjóðfélaginu og auk þess stillt sér upp á milli þeirra og okkar, þeim í hag. Hugmyndin var að fara inn í grenið og minna á tilvist almennings og að núverandi fyrirkomulag væri komið fram yfir síðasta söludag.

Sagan kennir okkur einnig að valdhafar refsa mjög grimmilega minnstu uppþotum til að senda rétt skilaboð til almennings. Það má ekki undir neinum kringumstæðum senda þau skilaboð út í samfélagið að stjórnkerfið sé veikt. Réttarhöldin í vikunni sýna okkur að samruni Alþingis og elítunnar hefur ekki gliðnað frá hruni og er enn eitt dæmið um að ekkert hefur breyst.

Níumenningarnir þjófstörtuðu og það er víst alltaf glæpur. Reyndar vildi þjóðin á þeim tíma breytingu eða byltingu. Það voru mörg þúsund Íslendingar sem vildu róttækar breytingar og þar liggur hin raunverulega hætta að mati valdsins. Það er nöturlegt að fylgjast með kjölturökkunum gangast upp í hlutverki sínu í þágu valdhafanna. Níumenningarnir eru bara víti til varnar fyrir okkur hin.

Hugmyndin með þrískiptingu valds er að vald spillir og það sé betra að valdið sé ekki á einni og sömu hendi. Nú kemur til kasta dómstólanna í þessu máli og mun þar tilfinnigagreind skipta meira máli en utanbókarlærdómur á bókstaf laganna. Það má ætla að hugmyndasmiðir hins þrískipta valds hafi gert ráð fyrir þeim eiginleikum dómsvaldsins.

Almenningur hefur kynnt sér sögu annarra þjóða af kappi síðan níumenningarnir heimsóttu Alþingi. Þar af leiðandi er hætta á því að enn fleiri skilji samhengi hlutanna. Ef allir þættir hins þrískipta valds eru komnir í eina sæng er hætt við að þjóðin upplifi sem hún eigi ekki neitt, megi ekki neitt og skuldi allt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur