Sunnudagur 23.01.2011 - 00:06 - FB ummæli ()

Er sundruð framtíð valkostur

Þegar Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýsðfélagsins á Akranesi stendur á fætur og gengur frá samfloti verkalýðsfélaganna gerir maður sér grein fyrir því að það hefur orðið hópslys. Fjölmiðlar kalla það klofning en hið rétta er að þeir sem lifa af hverfa af vettvangi.

Þræðir samspillingar verkalýðsforystu, samtaka atvinnulífsins og framkvæmdavaldsins eru augljósir. ASÍ getur eingöngu farið fram á að lægstu laun nái 200 þús króna markinu árið 2014 ef framkvæmdavaldið lætur það eiga sig að ákvarða lágmarksframfærslu.

Áframhaldandi launaskerðingar, niðurskurður á velferðarkerfinu, gjaldþrot og skattahækkanir eru ráðstafanir gerðar til að greiða skuldir einkabanka. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur línurnar og auðsveip valdastétt landsins framkvæmir.

Hluti þjóðarinnar telur að núverandi efnahagsráðstafanir séu réttar og styður því stjórnvöld. Til að samþykkja þau sjónarmið er nauðsynlegt að líta framhjá þeim staðreyndum að fjöldi manns á ekki fyrir mat, margir orðnir eignalausir og mikil kostnaðaraukning orðið við að framfleyta sér.

Almenningur stendur frammi fyrir sameinaðri valdastétt. Sameining hennar varð svo augljós þegar svokallaðir vinstri flokkar komust til valda og ekkert breyttist. Sama spillingin og leyndin. Almenningur situr eftir sem áður uppi með svarta Pétur og valdastéttin ver sig eins og ekkert hafi í skorist.

Almenningur er ráðvilltur og óánægður. Valdhöfum gengur vel að afvegaleiða og sundra almenningi. Auk þess virðist það vera mjög ríkt í þjóðarsálinni að verða sér ekki til skammar. Að tjá skoðanir sínar í opinberum miðlum eða mæta á mótmæli virðist vera hluti af því.

Fjórflokkurinn er ekki að skapa réttlátt samfélag þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða og nægan tíma til að koma því í framkvæmd. Almenningur vill raunverulega fulltrúa fyrir sig á Alþingi. Þeir sem deila þeirri sannfæringu að stefna núverandi valdhafa sé röng gagnvart almenningi og að fjórflokkurinn hafi það megin hlutverk að varðveita hlunnindi sérhagsmunahópa þurfa að sameinast.

Sú andstaða sem er til staðar í þjóðfélaginu er sundruð. Það gagnast fjórflokknum og þá sérstaklega þar sem almenningur sér viðkomandi andstöðu ekki sem valkost sökum sundrungar. Það er mikill ábyrgðarhlutur hjá viðkomandi andstöðu að viðhalda núverandi valdastétt vegna skorts á nægjanlegum vilja til að sameinast. Fólk eins og Vilhjálmur sér spillinguna og bregst við. Þessir einstaklingar sem standa upp í hárinu á elítunni eiga sér bakland víðsvegar í þjóðfélaginu. Það er í raun samfélagsleg skylda allra sem telja sig standa með almenningi að sameinast sem kröftugt afl gegn valdastéttinni sem rígheldur dauðahaldi í forréttindi sín. Sundruð andstaða er ávísun á óbreytt ástand.

Er ekki tímabært að setjast niður og ræða málin?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur