Laugardagur 05.02.2011 - 00:25 - FB ummæli ()

Bankakerfi-fyrir hvern

Landsbankamenn eru komnir af stað í herferð til að bæta ímynd sína. Telja til nýjar siðareglur og ætla sér að ávinna sér traust hjá almenningi. Það verður að viðurkennast að þeir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Reyndar hafa þeir það með sér að almenningur hefur oftast gullfiskaminni og er sennilega byrjaður að gleyma því að bankakerfið lagði íslenskt þjóðfélag í rúst haustið 2008. Bankakerfið hefur það sem yfirlýst markmið að ávaxta pund viðskiptavina sinna sem kemur óneitanlega úr vasa skuldara, svona millifærslustofnun sem græðir á öllu saman. Þess vegna græða þeir meira eftir því sem við töpum meiru.

Margar sögur hefur maður heyrt af fólki í baráttu sinni við bankakerfið. Sjaldan eru þær fallegar eða til eftirbreytni. Það er nokkuð ljóst að hrun bankakerfisins hefur valdið mikilli þjáningu hjá mörgum landsmönnum. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur og tekur við stjórn Íslands haustið 2008 er eitt meginverkefni hans að endurreisa gjaldþrota bankakerfi. Þór Saari nefnir í ræðu á Alþingi að Steingrímur hafi sett 87 milljarða í ýmsar fjármálastofnanir;  26 milljarða í VBS, 12 milljarða í Sjóvá, 20 milljarða í Saga-Capital, 6 milljarða í Askar-Capital, 5 milljarða í Byr, 14 milljarða í Sparisjóð Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða í  Byggðastofnun. Einnig settum við meira en 100 milljarða í stóru bankana þrjá. Skuldir ríkissjóðs eru að mestu til komnar vegna gjaldþrota banka og fjármálastofnana. Þess vegna eru Íslendingar að upplifa niðurskurð, skattahækkanir, gjaldþrot og atvinnuleysi.

Bankar og fjármálastofnanir eru ekki hluti af raunhagkerfinu, þeir framleiða ekki vörur sem skapa verðmæti né gjaldeyri. Þeir eru milliliður sem er kostnaður á raunhagkerfinu og minnkar því framleiðni þess. Þess vegna finnst mér að þeir ættu að vera hógværir og þakklátir fyrir að fá að rækja sitt hlutverk. Því minna sem fer fyrir þeim því meira mun raunhagkerfið skila til þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur