Mánudagur 07.02.2011 - 00:23 - FB ummæli ()

Spéhræðsla og aumingjaskapur

Fulltrúar almennings á Íslandi hafa í hyggju að samþykkja Icesave. Ástæðan virðist vera spéhræðsla við að mæta nýlenduþjóðunum fyrir framan dómara og tala máli þjóðarinnar. Það virðist öllu til fórnandi til að koma í veg fyrir það, jafnvel að skuldsetja íslenskan almenning fyrir mistök einkabanka. Þar að auki eru vöflur á fulltrúm þjóðarinnar við að spyrja hana álits á þeim byrðum sem á að leggja á þjóðina.

Það sem gerir allt málið sérlega lúsugt er að eitthvert kjötbein hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið fyrir sína fyrirgreiðslu. Sjálfsagt er það kvótamálið. Þar sem Jóhanna hefur í þrígang á sínum ferli lagt atkvæði sitt á þingi á altari kvótagreifanna verður það henni ekki erfitt í fjórða sinn. Hvað verður um Vg er vandi að spá.

Það virðist sem EB sinnar úr öllum flokkum séu að sameinast á þingi og því mun í raun ekki vera þörf á stjórnarskiptum. ESB sinnar í öllum flokkum munu sameinast um að samþykkja hvaðeina sem kemur okkur sem fyrst inn í ESB. Þess vegna má ekki spyrja þjóðina um Icesave né fara með Icesave fyrir dómstóla. Brussel skiptir meira máli en Ísland, svo einfalt er það. Ef örlög Lettlands, Ungverjalands, Írlands og Grikklands innan ESB vekur ekki upp neinar efasemdir í brjósti ESB sinna er úr vöndu að ráða. Þá hlýtur að vera um trúarsetningu að ræða frekar en rökhugsun.

Bankar Evrópu blóðmjólka almenning, alveg eins og verið er að gera á Íslandi í dag. Öll fyrrnefnd lönd eru að greiða fyrir sitt „Icesave“ með skattahækkunum og niðurskurði í velferðarmálum. Að vera í ESB hjálpar þeim akkúrat ekki neitt, það er verra ef eitthvað er. Núverandi valdhafar á Íslandi, þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, eru að stilla sér upp með bönkunum gegn almenningi. Það má klæða hollustu þeirra við fjármálaöflin með ýmsum málskrúða en þau eru fyrst og fremst að ráðast á almenning, almenning sem treysti þeim til að vernda sig gegn viðkomandi öflum. Þeir þingmenn sem samþykkja kröfur banka og fjármálaafla sætta sig við að almenningur líði skort, launalækkanir, gjaldþrot, upplausn heimila, atvinnumissi og landflótta.

Að tengja saman þá hugsun að standa ekki fyrir máli þjóðar sinnar í þeim tilgangi að komast frekar inn í ESB þar sem öllum á að líða svo vel í framtíðinni, eftir að bankarnir hafa fengið allt sitt strax, eftir að þjóðin hefur þurft að leggjast á hnén til að eiga ofnaí sig og á, er ekkert annað en svik við almenning en um leið ástarjátning til bankaelítunnar sem öllu ræður.

Að krefjast þess að almenningur samþykki mél bankanna með eða án þjóðaratkvæðagreiðslu er í raun á jaðri skynseminnar. Einhver tíman verðum við að sjá samhengi hlutanna og segja hingað og ekki lengra en án samstöðu tekst okkur ekki að forða okkur frá því að vera múlbundnir þrælar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur